Öflugasta bit heims
Eitt er að hræðast það að verða fyrir hundsbiti.
Allt annar handleggur er svo að vera rifinn í tætlur af dýri sem býr yfir öflugasta bitstyrk jarðar eða að verða fyrir því að slíkt dýr mylji í okkur hvert bein.
Dýrin sem hafa yfir að ráða öflugasta bitstyrknum eru:
- Deltakrókódíll
- Nílarkrókódíll
- Hvíthákarl
- Alligator-krókódíll
- Flóðhestur
Komið og lítið upp í skoltinn á nokkrum af hættulegustu dýrum heims og fræðist um gífurlega sterklegan skolt þeirra hér í greininni.
Deltakrókódíllinn er með öflugasta bit sem vitað er um
Í fyrsta sæti yfir dýr með kröftugt bit trónir deltakrókódíllinn sem einnig kallast saltvatnskrókódíllinn.
Bitstyrkurinn er ótrúlega mikill en hann nemur allt að 3510 kg. Til samanburðar er bitstyrkur mannsins í kringum 80 kg, á meðan séfferhundur bítur með 108 kg afli.
Deltakrókódíllinn getur orðið allt að sjö metrar á lengd og ræðst iðulega á fólk, ef færi gefst.
Þessi risavaxni krókódíll lifir í Suðaustur-Asíu og Norður-Ástralíu, þar sem hann gerir alla dvöl í sjó og vatni mjög ótrygga. Fæðan samanstendur af fiski, vatnaskjaldbökum, vísundum og villisvínum.
Veiðiaðferðin er afar einföld: Deltakrókódíllinn dregur landdýr með sér á kaf þar til bráðin drukknar.
Nílarkrókódíllinn mölvar beinin
Konungur Nílar kremur beinin í bráð sinni.
Nílarkrókódíllinn lifir í Afríku þar sem hann ver stórum hluta dags í sólböð á árbökkum og við stöðuvötn.
Þegar dimma tekur rennir hann sér hljóðlega niður í vatnið til að stunda veiðar og einungis augun standa upp úr.
Nílarkrókódíllinn er einkar árásargjarnt rándýr sem drepur og étur nánast allt.
Þegar sebrahestar nálgast vatnið til að fá sér vatnssopa skellir Nílarkrókódíllinn skoltinum utan um bráðina með afli sem nemur 2.268 kg. Bitið er svo öflugt að það getur mölvað skjaldbökuskjöld.
Hvítháfurinn tætir kjötið af beinunum
Í þriðja sæti er svo að finna hinn fræga og alræmda og hvíthákarl. Hann ræðst til atlögu við bráð sína; fiska, seli og höfrunga, rétt undir sjávarborðinu.
Hákarl þessi er útbúinn sagtenntum tönnum og öflugum skolti sem hann notar til að rífa bráðina í sig.
Bitið er með 1.875 kg krafti og nægir til að deyða smádýr samstundis. Stærri dýr eru drepin með því að bíta úr þeim kjötstykki þar til þeim blæðir út.
Skoltur alligators er sneisafullur af bakteríum
Sá sem vermir fjórða sætið er óttalega ófrýnilegur.
Ameríski alligatorinn lifir á ferskvatnssvæðum þar sem hann lifir á fiski, froskum, nagdýrum, hjartardýrum, villisvínum, slöngum og húsdýrum.
Alligator-krókódíllinn er ekki einungis með eitt öflugasta bit sem um getur, heldur er hann jafnframt eitraður.
Bitstyrkurinn nemur 964 kg sem út af fyrir sig getur reynst banvænt.
Skoltur alligatorsins er sneisafullur af bakteríum, svo ef dýrinu tekst að komast lifandi undan er mikil hætta á að það drepist af völdum alvarlegrar sýkingar.
Flóðhesturinn er árásargjarnasta jurtaæta heims
Í fimmta sæti er svo að finna einu jurtaætu listans. Þetta er heldur ekki hvaða jurtaæta sem er, heldur er um að ræða árásargjörnustu jurtaætu í heimi!
Flóðhesturinn er með einstaklega stórt gin og í því er m.a. að finna augntennur sem náð geta allt að 60 cm lengd.
Flóðhestar nota kröftuga kjálkana mestmegnis til að bíta gras en ef þeir eru æstir upp eða þurfa að setja ofan í við keppinauta sína geta þeir beitt allt að 826 kg bitstyrk sínum.
Bitið er einstaklega öflugt því flóðhestar geta opnað ginið upp í 150 gráður.
Öflugasta bit í gjörvöllum heimi nokkru sinni
Deltakrókódíllinn hefur yfir að ráða öflugasta biti sem einkennir nokkurt núlifandi dýr en bitstyrkurinn fölnar í samanburði við risa fortíðarinnar.
Ef marka má vísindamenn bjó fullvaxin grameðla nefnilega yfir bitstyrk sem nam 6.118 kg en það er þó engan veginn metið, því við það má bæta að risahákarlinn Megalodons, með gríðarstóran skolt sinn, er talinn hafa verið með allt að 18.100 kg bitstyrk.