Myndbönd: Karldýrin tefla á tæpasta vað í makaleit

Nautnafull dansspor, bragðað á pissi og eistu hangandi út um munninn. Hugmyndaflugið á sér engin mörk þegar lostafullir elskhugar sýna á sér réttu hliðina á vorin.

BIRT: 16/03/2023

LESTÍMI:

5 mínútur

SKÖPUNARGÁFA

 

Fugl byggir litríkan kofa fyrir sína heittelskuðu

Laufskálafuglar kippa fótunum undan kvenfuglunum með stórfenglegum, litríkum mannvirkjum sínum.

Karlfuglar með litríkan fjaðraham eru þekktir fyrir að veðja á fegurð og skraut þegar kemur að því að hrífa kvenfuglana. Laufskálafuglinn er alls ekki sérlega áberandi fugl í samanburði við aðrar fuglategundir en hann leggur hins vegar allt kapp á að reisa ástarskála sem ætlaður er fyrir ástarleiki.

 

Karlfuglinn skreytir skálann með alls kyns litríkum hlutum sem honum áskotnast en hann safnar miklu af berjum, blómum, skordýraleifum, sniglahúsum, fjöðrum, glerbrotum, klinki, bjórtöppum, plastlokum og öðrum litríkum hlutum.

 

Tilteknar tegundir mála meira að segja innanveggina með blöndu af krömdum berjum og munnvatni. Karlfuglinn getur varið mörgum mánuðum í að byggja og viðhalda ástarhreiðrinu og þarf svo jafnframt að gæta þess vandlega að halda öðrum karldýrum í burtu.

 

Samkeppnin er afar hörð og karldýrunum lendir oft saman þegar þeir reyna að skemma ástarhreiður hvers annars og stela skreytingum úr þeim. Þegar svo kvendýr sýnir áhuga dansar karlinn og syngur og býður henni síðan inn í skálann þar sem æxlunin á sér stað.

 

Silkigjafir tryggja heimilisfriðinn

Fagurlega innpakkaðar gjafir koma í veg fyrir að karldýrið sé étið.

Leiðin að hjarta konu liggur í gegnum magann en hvergi í náttúrunni á þetta þó betur við en meðal ránköngulóa. Þar tíðkast að karldýrin hafi meðferðis kringlótta gjöf, innpakkaða í silki, handa kvendýrinu.

 

Gjöfin felst að öllu jöfnu í skordýri sem karlinn hefur veitt en latir karlar eiga það þó til að spinna silki utan um vita gagnslausa hluti á borð við fræ, litlar greinar ellegar tóma stoðgrind.

 

Kvendýrið beinir allri athygli sinni að gjöfinni og á meðan hún opnar hana leyfir hún karlinum að eðla sig. Ef gjöfin er innihaldslaus þarf mökunin að ganga einkar hratt fyrir sig því margar ránköngulær iðka það að éta dýr sömu tegundar.

 

Samhverfur höfða til kvendýranna

Kúlufiskurinn ver sjö til níu dögum í að útbúa samhverfan sandhringinn. Sjáðu meistaraverkið hér í myndbandinu.

Vísindamennirnir urðu eilítið undrandi þegar þeir uppgötvuðu árið 2011 hver stæði að baki rúmfræðimyndum sem fundist höfðu á hafsbotni.

 

Japanski kúlufiskurinn er aðeins 12 cm á lengd en skilur engu að síður eftir sig fagurlega mótaða hringi, hvern allt að tveimur metrum í þvermál sem ætlað er að fullvissa kvendýr sem eiga leið um að hann sé hinn eini rétti.

 

Ef hún fellur í stafi yfir mynstrinu, verpir hún eggjum sínum í miðjan hringinn og karldýrið frjóvgar þau. Lögun hringsins ver eggin gegn sjávarstraumum og hægir á hraða sjávarins um fjórðung.

ÚTATAÐUR LOSTI

Gíraffatarfur bragðar á þvagi kýrinnar

Gíraffatarfar bragða á þvagi kúnna í því skyni að kanna kynhormónamagnið.

Jafnvel þótt gíraffar geti eðlað sig allan ársins hring eru kýrnar einungis frjósamar í mjög takmarkaðan tíma sem nemur aðeins fjórum dögum á tveggja vikna tíðahring. Fyrir vikið bragðar tarfurinn á þvagi kúnna til að ganga úr skugga um hvort þær séu eðlunarfúsar.

 

Þegar tarfarnir leita uppi eðlunarfúsar kýr ganga þeir um í hjörðinni og stinga höfðinu að afturhluta kvendýranna og fá þær þannig til að glenna út lappirnar og míga. Þegar þvagbunan fer af stað beygja þeir langan hálsinn niður og bæði bragða á og þefa af þvaginu.

 

Þegar tarfurinn bragðar á þvagi kýrinnar brettir hann upp á efri vörina, þenur út nasavængina og þefar allt hvað hann getur. Með því móti beitir hann bæði þef- og bragðskynfærunum til að ganga úr skugga um hvort þvagið felur í sér kynhormóna og hvort kýrin þar með sé frjósöm.

 

Sé hún eðlunarfús fer hann upp á hana andartaki síðar og fær nær samstundis sáðlos. Gíraffamök vara yfirleitt skemur en tvær sekúndur.

 

Gervieistu lafa út úr skoltinum á kameldýrinu

Sjáðu kamelkarldýrið blása upp góminn þannig að hann minnir á eistu sem hanga út út kjafti dýrsins.

Ástleitin karldýr meðal kameldýra og drómedara hafa yfir að ráða mýmörgum skynáhrifum sem ætlað er að hafa vænleg áhrif á kvendýrin. Þeir stinga halanum milli fótleggjanna og bleyta hann í þvagi sem þeir þeyta út í loftið, jafnframt því sem tveir kirtlar á aftanverðu höfðinu og milli eyrnanna gefa frá sér ferómón sem laða að kvendýrin.

 

Það sem mesta furðu vekur er þó það sem gerist í kjafti karldýrsins. Karldýrið fyllir aftasta hluta gómsins af lofti og lætur blöðruna sem þannig myndast, hanga út úr kjaftinum.

 

Blaðra þessi líkist eistum dýrsins og er stærð hennar til marks um testósterónmagn dýrsins.

Uppsafnað loft blæs upp góminn

1. 

Tungan er dregin til baka og þannig verður holrými í blöðrunni sem myndast úr gómnum. Vöðvar gómsins eru spenntir og þannig lokast fyrir kokið.

2.

Með þessari lokun þrýstist loftið sem dýrið andar frá sér niður í vélindað þar sem gífurlegur loftþrýstingur myndast.

3


Þaðan færist loftið svo yfir í holrými gómblöðrunnar sem blæs út og þrýstist út úr kjaftinum.

FORBOÐNU SPORIN

Michael Jackson-fugl beitir dansi til að maka sig

Auk þess að stunda danssýningar notar hettudansarinn áberandi gul læri sín til að vinna hylli kvenfuglanna.

Karlfuglar í hópi hettudansara eru heimsins bestu dansarar. Allt að fimm karlfuglar safnast saman í litlum hópum og hver fugl fyrir sig byrjar að dansa. Þó svo að karlfuglarnir berjist um hylli kvenfuglanna hafa þessir hópdansar þann ótvíræða kost að fuglahópurinn laðar að sér mörg kvendýr.

 

Þar að auki eru meiri líkur á eðlun þegar aðrir karlfuglar sem njóta velgengni í þeim efnum eru innan seilingar. Hver fugl hefur yfir að ráða sínum eigin pinna sem búið er að hreinsa lauf og greinar af og hann notar sem sitt eigið dansgólf. Þar sýnir hann kvenfuglunum flókin danssporin.

 

Sá dans sem mesta hrifningu vekur er leifturhraður ,,moonwalk” þar sem fuglinn nánast rennur yfir greinina á ógnarhraða, án þess nokkru sinni að lyfta fótunum.

 

Ef tungldansinn vekur ekki hrifningu kvenfuglanna vaggar karlfuglinn sér fram og til baka á staðnum til að sýna fallegu, gulu lærin sín.

 

Reyndir flamingódansarar kunna 136 dansspor

Horfðu á stórkostlega dansýningu flamingóanna.

Þegar eðlunartímabilið hefst leggja flamingófuglar stund á alls kyns tilhugalífsathafnir. Mesta athygli vekur hópdans karldýranna þar sem allur hópurinn safnast í einni allsherjar sýningu.

 

Reyndustu dansararnir ráða við alls 136 dansspor sem þeir setja á svið fyrir kvenfuglana í því skyni að ganga í augun á þeim. Karlfuglarnir verða kynþroska í kringum sex ára aldurinn og smám saman bætast fleiri dansspor á efnisskrána hjá þeim.

 

Því eldri sem fuglarnir verða þeim mun flóknari verða sporin og þeim reynist að sama skapi auðveldara að ná að næla sér í maka. Allt tekur þó enda en þegar fuglarnir verða tvítugir neyðast þeir til að víkja fyrir yngri og liprari dönsurum.

 

Breikdans með lífið að veði

Páfuglsköngulær dansa við dauðann þegar næsta kynslóð er undirbúin. (Höskuldarviðvörun: Myndbandið endar ekki vel).

Karldýr páfuglsköngulóarinnar eru skreytt með litríku mynstri og gerviaugum. Útlitið gengur í augun á kvendýrunum en nægir þó ekki til að vinna hjarta þeirra alveg. Þegar hins vegar töfrandi dansinn bætist við allt prjálið verða karldýrin ómótstæðileg í augum kvendýranna.

 

Fyrst í stað vaknar áhugi kvendýrsins af völdum titringsins og því næst fara af stað seiðandi ástaratlotin. Litríkum afturendanum er lyft upp og honum sveiflað til beggja hliða. Spunakirtlarnir hreyfast fram og til baka á ógnarhraða á meðan herrann stígur reglubundin dansspor sín.

 

Danssýning þessi er alveg nauðsynleg, því kvendýrin eru einkar vandfýsin og eðla sig einungis einu sinni.

 

Danssýning sem engan áhuga vekur getur fyrir vikið leitt af sér höfnun eða í versta falli dauðann, ef kvendýrið skynjar vonbiðilinn sem fæðu umfram maka.

BIRT: 16/03/2023

HÖFUNDUR: Jonas Grosen Meldal

HÖFUNDARÉTTUR MYNDA: Alamy,

vinsælustu greinarnar

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is