Dauðarefsing skapaði meira pláss
Í upphafi 18. aldar voru ekki til nein opinber fangelsi í Bretlandi og þar voru menn annað hvort sendir til fjarlægra fanganýlendna eða í einkarekin fangelsi sem öll voru yfirfull.
Plássleysið leiddi af sér að sett voru ný lög, nefnd „Bloody Code“ árið 1723 og dauðarefsing lögð við meira en 200 lögbrotum. Sá sem stal úri, felldi tré án leyfis eða sverti sig í framan gat endað í snörunni.
Í lok aldarinnar var svo hörð refsing talin ómannúðleg og á skjön við anda upplýsingastefnunnar. Með nýjum lögun 1779 var lagður grunnur að þeim fangelsum sem við þekkjum í dag.
Ríkið reisti sín eigin fangelsi sem áttu að koma í stað dauðarefsingar eða útlegðar í fanganýlendu.
Fangelsin störfuðu á kristnum grunni og fanganum gafst tækifæri til að iðrast synda sinna.
Það var nýjung að fangavistin taldist ekki einvörðungu refsing heldur einnig tilraun til betrunar þannig að eftir afplánun kæmu fangarnir út í samfélagið sem sannir fyrirmyndarborgarar.
Til slíkrar umbreytingar þurfti harkaleg meðul en svo lengi sem dánartíðnin var ekki of há skiptu stjórnmálamenn sér ekki af því.
Endurbæturnar leiddu af sér nýjar gerðir fangelsa á 19. öld og fangelsisstjórar kepptust um að finna ódýrustu og áhrifaríkustu leiðirnar til að brjóta niður glæpahugarfar fanganna.
FANGELSISKERFI
Í Auburn fangelsinu voru fangarnir látnir ganga þétt saman til að koma í veg fyrir að þeir næðu augnsambandi sín á milli.
Fanga átti að brjóta niður
Ein vinsælasta refsingaraðferðin í BNA var svokölluð þagnarskylda sem þróuð var í Auburn-fangelsinu í New York.
Ætlunin var að brjóta fangana niður andlega og síðan áttu þeir að koma út í samfélagið sem „óskrifað blað“.
Þetta var gert með erfiðisvinnu, heraga og refsingum.
Allir fangar fengu númer í stað nafns, voru klæddir röndóttum búningum og var bannað að segja aukatekið orð. Fyrir minnstu yfisjón var refsað með hýðingu.
Þagnarkerfið var mjög árangursríkt í þeirri merkingu að fangarnir brotnuðu niður andlega.
Í Auburn urðu þess vegna aldrei neinar fangauppreisnir að heitið gæti og aðferðin var tekin upp í mörgum öðrum bandarískum fangelsum.
Margir héldu þetta þó ekki út og á fyrstu tveimur árunum sviptu 5 fangar sig lífi af alls 83.
Eitt þekktasta skuldafangelsið var Newgate í London, starfrækt frá 1188 til 1904.
Fangarnir greiddu fangavörðum laun
Á 18. öld voru öll ensk fangelsi einkarekin.
Laun fangavarða voru nánast einvörðungu greidd af gjöldum sem lögð voru á fangana.
Fangarnir þurftu sem sagt að eiga peninga eða fá þá hjá sínum nákomnu, t.d. ef þeir vildu fá klefa með þolanlegu rúmi og glugga.
Í sumum tilvikum var jafnvel innheimt gjald fyrir að láta fanga lausa.
Fátækir fangar gátu auðveldlega lent í skuldafeni og þurft að eyða mörgum árum í fangelsinu eftir að hafa afplánað sinn upphaflega dóm.
En fyrir fanga sem áttu eitthvað í handraðanum gat dvölin hins vegar verið næsta þægileg.
Þeir gátu m.a. keypt sér aðgang að bar á kvöldin og fengið að fara út undir bert loft á daginn – gegn gjaldi.
Ekki fyrr en 1823 samþykkti breska þingið lagabreytingu sem tryggði að eigandinn greiddi laun fangavarða en ekki fangarnir.
Verð í Lincolnshire Galo, Englandi, 1784
Inntökugjald í fangelsið:
6 shillingar og 8 pens – um 5.700 kr. nú.
Fyrir eigið rúm (vikugreiðsla):
2 shillingar og 6 pens – um 2.200 kr. nú.
Útskriftargjald eftir afplánaða refsingu:
6 shillingar og 8 pens – um 5.700 kr. nú.
Þrjár máltíðir á dag (vikugreiðsla)
6 shillingar – um 5.100 kr. nú.
Pottawattamie County Jail í Iowa var þekkt sem íkornabúrið. Tromlan var 45 tonn og í henni klefar á þremur hæðum.
Hringekjufangelsi kostuðu líf og limi
Snúningsfangelsi voru fyrst notuð í BNA í lok 19. aldar.
Kringum klefana var hringlaga rimlagirðing og á henni aðeins einar dyr.
Til að hleypa fanga út úr klefa var klefunum snúið með eins konar handfangi þar til klefi hans var við dyrnar.
Kerfið var þó bæði óstöðugt og hættulegt.
Ef fangi sofnaði með handlegginn út á milli rimla gat hann stórslasast þegar tromlunni var snúið.
Síðasta snúningsfangelsinu var lokað í Iowa árið 1960 eftir að fangi lést. Ekki var hægt að ná líkinu út í tvo daga vegna þess að snúningsbúnaðurinn stóð á sér.
Fangarnir í breska Pentonville-fangelsinu voru látnir ganga með hettur til að sjá ekki hver annan utan klefans.
Fangar sáu ekki aðra árum saman
Fangelsið „Eastern State Penitentiary“ var fullbyggt 1829, þá rétt utan við Philadelphia.
Byggingin var 40.000 fermetrar og stærsta bygging í Bandaríkjunum. Þetta var líka meðal fyrstu fangelsa í heiminum þar sem fangarnir voru vistaðir í einangrunarklefum og einangrunin gilti líka við vinnu.
Þessi mikla einangrun fékk heitið aðskilnaðarkerfið.
Kerfið varð svo vinsælt að á 19. öld voru byggð meira en 300 fangelsi af þessari gerð, þeirra á meðal stóra, breska ríkisfangelsið Pentonville sem hóf starfsemi 1842.
Hugmyndin að baki þessu nýja kerfi kom frá trúarhreyfingum í Bandaríkjunum og byggðist á því að ströng einangrun ásamt miklum biblíulestri og harðri vinnu myndi leiða af sér aukna trúarvitund og iðrun syndarans.
Tveir franskir stjórnmálamenn lýstu þessu viðhorfi í bréfi til ríkisstjórnarinnar eftir fangelsisheimsókn 1831:
„Einmanaleikinn kemur fanganum til að hugsa og þegar hann hefur aðeins félagsskap af illvirki sínu vaknar honum hatur á því.“
Árangur margra ára einangrunarvistar varð þó oft allt annar: Margir fangar þróuðu með sér þunglyndi og sumir misstu vitið, þegar þeir voru svo lengi sviptir öllu samneyti við aðra, jafnt snertingu sem tali.
Gagnrýni á þessa mannfjandsamlegu refsingu fór svo hratt vaxandi í aldarlok og árið 1913 var aðferðinni endanlega hætt í Eastern State Penitentiary-fangelsinu.
Eastern State Penitentiary-fangelsinu var lokað 1971 en er opið ferðamönnum. Sögur segja að þar sé reimt.
Kastalaformið átti að vekja ótta
Utan frá séð minnti Eastern State Penitentiary á kastala í gotneskum stíl.
Framhliðinni var ætlað að „vekja ótta í hjarta hvers manns sem hafði í hyggju að fremja afbrot,“ sagði arkitektinn John Haviland.
Líkamsþjálfun iðkuð í þögn
Utan við hvern klefa var lítið útivistarsvæði. Þar var fanginn látinn hreyfa sig í 30 mínútur eftir ströngu tímaplani.
Þar með var tryggt að fangarnir væru ekki utandyra samtímis og gætu átt samskipti sín á milli.
Miðlæg vöktun
Eastern State Penitentiary var byggt þannig að verðir í miðturninum gátu fylgst með öllum sjö álmunum samtímis.
Þess vegna þurfti tiltölulega fáa fangaverði og fangelsið var ódýrt í rekstri.
Guðdómleg form til að snúa föngum
Margir þakgluggar ollu því að byggingin gat minnt á kirkju og þessi arkitektúr átti að ýta undir trúarhrifningu fanganna.
„Nauðungarklaustur, trúarvakningarvél,“ eins og arkitektinn John Haviland lýsti sköpunarverki sínu.
Eastern State Penitentiary-fangelsinu var lokað 1971 en er opið ferðamönnum. Sögur segja að þar sé reimt.
Kastalaformið átti að vekja ótta
Utan frá séð minnti Eastern State Penitentiary á kastala í gotneskum stíl.
Framhliðinni var ætlað að „vekja ótta í hjarta hvers manns sem hafði í hyggju að fremja afbrot,“ sagði arkitektinn John Haviland.
Líkamsþjálfun iðkuð í þögn
Utan við hvern klefa var lítið útivistarsvæði. Þar var fanginn látinn hreyfa sig í 30 mínútur eftir ströngu tímaplani.
Þar með var tryggt að fangarnir væru ekki utandyra samtímis og gætu átt samskipti sín á milli.
Miðlæg vöktun
Eastern State Penitentiary var byggt þannig að verðir í miðturninum gátu fylgst með öllum sjö álmunum samtímis.
Þess vegna þurfti tiltölulega fáa fangaverði og fangelsið var ódýrt í rekstri.
Guðdómleg form til að snúa föngum
Margir þakgluggar ollu því að byggingin gat minnt á kirkju og þessi arkitektúr átti að ýta undir trúarhrifningu fanganna.
„Nauðungarklaustur, trúarvakningarvél,“ eins og arkitektinn John Haviland lýsti sköpunarverki sínu.
Sex aðferðir til að halda föngum í algerri einangrun:
- Þykkir veggir milli smárra klefa útilokuðu að fangar gætu haft samband með því að banka í vegg.
- Við komu var hverjum fanga úthlutað númer sem notað var þegar talað var til hans. Notkun nafna var stranglega bönnuð. Þannig voru fangarnir sviptir mennskunni, bæði í eigin augum og samfanganna.
- Hetta var sett yfir höfuð fanga um leið og þeir komu út úr klefum til að þeir sæju ekki hver annan. Þeir voru líka í flókaskóm til að skóhljóð heyrðist ekki.
- Matinn fengu fangarnir inn um gat á veggnum. Þannig náðu þeir ekki augnsambandi við fangavörðinn.
- Fangar máttu hvorki snertast né tala dagsdaglega. Aðeins í vikulegri guðsþjónustu fengu þeir að syngja.
- Vinnudagurinn var 8-10 tímar og í klefanum. Verkfæri sín fékk fanginn gegnum gatið í veggnum.
Í grautfúnum fangaskipum var 16 föngum iðulega troðið saman í klefa.
Í hreinsunareldinum á Thames
„Helvíti á hafinu“ eða „Fljótandi hreinsunareldur“ – hin alræmdu fangaskip Englendinga komu til sögunnar eftir frelsisstríð Bandaríkjamanna 1776 og fengu fljótlega ýmis viðurnefni.
Nýlendurnar í Ameríku voru nú glataðar og því ekki lengur hægt að senda breska refsifanga þangað.
Í staðinn var gömlum herskipum breytt í fljótandi fangelsi sem nefnd voru „prison hulks“.
Þessi neyðarráðstöfun var upphaflega hugsuð til tveggja ára en yfirvöld héldu sig þó áfram við skipsfangelsin eftir að farið var að senda fanga til Ástralíu 1778.
Árið 1843 voru meira en 70% allra dæmdra brotamanna í fangaskipum þar sem aðstæður voru enn hroðalegri en á þurru landi. Sjúkdómar á borð við kóleru, blóðkreppusótt og taugaveiki fóru um þessi skip eins og logi yfir akur og drápu meira en þriðjung allra fanga.
Þeir sem lifðu af voru látnir starfa við það í fótjárnum að fjarlægja stórgrýti og botnleðju úr Thames og fleiri ám og voru til viðbótar hæddir og spottaðir af þeim almenningi sem til sá.
FANGARNIR
Þegar fangi var vistaður í einu af nýju fangelsunum varð líf hans kerfisbundið helvíti. Fyrir jafnvel minnstu brot var fólk dæmt til margra ára erfiðisvinnu, sem eyðilagði bæði líkama þeirra og sál.
Grautur eða vellingur var algeng fæða í flestum fangelsum.
Dagurinn leið við erfiðisvinnu og afleitan mat
Um miðja 19. öld vöknuðu fangar í flestum enskum og bandarískum fangelsum klukkan 5.30 við klukknahringingu.
Hringingin kunngjörði föngunum að þeir skyldu koma sér á fætur og undirbúa klefa sinn fyrir eftirlit.
Dýnuna skyldi vefja upp og brjóta saman rúmfötin, koppinn þurfti að tæma og hreinsa diskinn og drykkjarkönnuna.
Síðan var morgunmatur, morgunandakt og svo erfiðisvinna í allt að 10 tíma fyrir alla þá sem orðnir voru 16 ára.
Í bandarískum fangelsum, svo sem Sing Sing og Auburn, voru fangarnir m.a. látnir framleiða föt, tunnur og nagla.
Í Englandi voru sumir látnir erfiða í stigmyllu en aðrir snúa sundur reipi hver í sínum einangrunarklefa.
Flestri fangavinnu var það sameiginlegt að vera slítandi og hún olli mörgum varanlegum skaða, t.d. í baki eða fingrum.
Það bætti ekki úr skák að maturinn var yfirleitt næringarsnauður.
Oft var ekki annað að borða en vatn, brauð og súpa eða kannski útþynntur hafragrautur. Ónóg næring ásamt erfiðri vinnu tærði líkamann og eftir langa fangavist voru margir lítið annað en skinn og bein.
Sulturinn svarf að mörgum og mörg dæmi voru um að hungraðir fangar leggðu sér vaxkerti eða leðurolíu til munns í örvæntingu sinni. Michael Davitt sat inni í Dartmoor-fangelsinu í 15 ár og lýsti ástandinu þannig í æviminningum sínum 1882:
„Hungrið vekur mönnum dýrslega græðgi og hvaðeina sem hundi gæti dottið í hug að leggja sér til munns þykir mönnum ekki lengur fráhrindandi.“
Dagskráin í Pentonville-fangelsinu
Kl. 5.30:
Fangarnir vakna við klukknahringingu varðanna og undirbúa klefann fyrir eftirlit.
Kl. 6.00:
Hópur fanga settur í vinnu í stigmyllu sem knýr vatnsdælu. Annar hópur þrífur ganga fangelsisins.
Kl. 7.00:
Allir fangar fara inn á klefa þar sem þeir þvo sér og snyrta til.
Kl. 7.30:
Fangaverðir borða morgunmat og færa föngunum síðan mat.
Kl. 8.00:
Nýr hópur fanga sendur í stigmylluna. Hinir hlýða á morgunandakt í kapellunni.
Kl. 11.00:
Skipt um hóp í stigmyllunni. Þeir sem ekki eru að vinna fara annað hvort í trúarkennslu í kapellunni eða hreyfingu á útisvæðum.
Kl. 13.00:
Allir fangar fara inn í klefa og fá hádegismat, brauð og súpu. Til kl. 20 er svo haldið áfram í stigmyllunni, við trúfræðslu eða útivist. Stigmyllan gengur 8-10 tíma á dag.
Kl. 20.00:
Fangaverðir hringja klukkum til marks um að vinnu sé lokið. Fangarnir fara inn á klefa sína.
Kl. 22.00 til 5.30:
Fangaverðir slökkva ljós í klefum og ganga úr skugga um að dyr séu læstar. Þeir ganga svo vaktir á göngunum til klukkan hálfsex þegar klukkum er hringt á ný og enn einn lýjandi vinnudagur hefst.
Hinir dæmdu börðust um á hæl og hnakka og oft þurfti marga lögreglumenn til að halda þeim meðan mynd var tekin.
Fangar reyndu að dylja útlitið
Nú þarf aðeins fingrafar til að bera kennsl á sakamann en það var ekki jafn auðvelt á 19. öld.
Fangar voru nákvæmlega mældir og síðar ljósmyndaðir við inntöku í fangelsi.
Myndir og aðrar upplýsingar voru varðveittar í spjaldskrá til að auðveldara yrði að finna sakamanninn ef honum tækist að flýja.
Farið var að taka myndir af sakamönnum um miðja öldina en þær voru fágætar þar til franski lögreglumaðurinn Alphonse Bertillon útbjó staðlað kerfi 1882. Þá breiddist aðferðin út bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Þetta var þó dýr tækni og myndefnið þurfti að vera alveg kyrrt.
Margir dæmdir menn hristu sig ákaft í von um að myndin yrði sem óskýrust.
Sumum þurfti að halda en þeir brutust þá um. Aðrir létu nægja að gretta sig og skekkja í andliti þannig að þeir urðu illþekkjanlegir og við því var lítið hægt að gera.
Geðsjúkdómar grasseruðu í einangrunarfangelsum
„Geðsýki verður óhjákvæmileg afleiðing af Pentonville-fangelsiskerfinu,“ sagði í grein í blaðinu London Times 1841.
Þetta reyndist rétt.
Fyrirmyndin að enska stórfangelsinu Pentonville var bandaríska einangrunarfangelsið Eastern State Penitentiary en þar skapaði geðheilsa fanganna alvarleg vandamál.
Hin fullkomna einangrun reyndist föngunum ekki hjálpleg. Þvert á móti urðu kvíði, ofskynjanir og sjálfsvígshugsanir daglegt brauð.
Það var niðurstaða geðlæknisins dr. Forbes Winslow að geðsjúkdómar væru sexfalt algengari í Pentonville en meðal almennings.
Geðsjúkir fangar fengu þó enga sérhæfða læknisþjónustu. Þess í stað reyndu fangelsisprestarnir að koma þeim til heilsu.
Einangrunarhyggjan var byggð á trúarlegum grunni. Biblíulestur og bænagjörð voru álitin rétta meðalið gegn geðrænum kvillum.
Stolinn laukpoki kostaði sjö ár
Fangelsi í Bretlandi og Bandaríkjunum voru troðfull. Fangarnir voru þó ekki harðsoðnir glæpamenn, heldur fátæklingar eða skuldugir.
Þann 8. apríl 1874 var landbúnaðarverkamaðurinn John Walker dæmdur í sjö ára fangelsi og skyldi svo sæta lögreglueftirliti í önnur sjö ár fyrir að stela laukpoka.
Við réttarhöldin var honum borið á brýn að hafa verið dæmdur fyrir 13 afbrot undir nafninu Mulls.
Engar sannanir voru færðar fyrir þessu en afraksturinn varð engu að síður þessi harða refsing sem þó var alls ekki einstök.
Íbúum London fjölgaði úr einni milljón í sex á 19. öld.
Fjölmargir fátæklingar fluttust til borgarinnar á öldinni og þeir komu mestanpart úr dreifbýlinu og ætluðu að finna sér atvinnu.
Eins og í mörgum öðrum stórborgum mynduðust stór fátækrahverfi þar sem afbrotin dreifðus eins og illgresi.
Fjöldi afbrota í London fjórfaldaðist frá 1800 til 1840. Um 75% töldust „minni háttar“ en það þýddi ekki milda refsidóma.
Þótt sjaldnast væri refsað fyrir þjófnaði með lífláti var almenna afstaðan í breska réttarkerfinu sú, að refsingar skyldu vera harðar, einkum ef menn höfðu verið dæmdir áður.
Fólk í neðsta þrepi samfélagsins þurfti oft að stela til að lifa af og gat fengið á sig margra ára fangelsisdóm og þar með orðið fórnarlömb nýrra, tilraunakenndra fangelsiskerfa.
Áður en John Walker var dæmdur sat hann sex mánuði í varðhaldi.
Hörð refsing fyrir lítil brot
Nafn: Henry Catlin, 14 ára.
Ár: 1842.
Afbrot: Þjófnaður (17,5 pens).
Dómur: 14 ára nauðungarvinna á Tasmaníu. Hann kom aldrei til baka.
Nafn: Mary Eagan, aldur óþekktur.
Ár: 1853.
Afbrot: Hún skildi 6 mánaða barn sitt eftir án gæslu á götu í Dundee.
Dómur: 10 mánuðir, þar af 2 mánaða nauðungarvinna.
Nafn: Dorcas Mary Snell.
Ár: 1882.
Afbrot: Þjófnaður (ein beikonsneið).
Dómur: Fimm ára fangelsi. Henni var sleppt eftir tvö ár.
Nafn: Pricilla Penfold, yngri en 18 ára.
Ár: 1874.
Afbrot: Þjófnaður (kápa).
Dómur: Fimm ára fangelsi.
VINNA OG REFSING
Vinnan í fangelsinu átti að vera eins erfið og hægt var til að buga bæði líkama og glæpsamlegt eðli fanganna. Og ef þeir voru eitthvað að mótmæla, var refsingin hörð og skjót.
Stigmyllan olli varanlegu heilsutjóni
Nú til dags stíga milljónir manna á hlaupabretti eða þrekhjól til að koma sér í líkamlegt form en þessi líkamsræktartæki eiga sér rætur í uppfinningu grimmúðlegrar refsivélar á 19. öld.
Það var enski verkfræðingurinn William Cubitt sem smíðaði fyrstu stigmylluna árið 1818 og hugsaði hana sem heppilega aðferð til að halda mörgum föngum að verki samtímis.
Stigmyllan var gerð úr 24 þrepum með 20 cm millibili.
Þegar fangarnir stigu upp á næsta þrep sneru þeir mylluhjólinu og um leið voru þeir tilneyddir að stíga upp á næsta þrep til að falla ekki niður.
Stundum var stigmyllan tengd við kvarnarsteina sem möluðu mjöl en hitt var líka algengt að hún tengdist ekki neinu og þá var þessi erfiðisvinna með öllu tilgangslaus.
Þetta ofvaxna hamsturhjól var ódýrt í rekstri og náði mikilli útbreiðslu í fangelsum í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Tilbreytingarlaust stritið reyndist áhrifaríkt tæki til að brjóta fangana niður andlega en það hafði líka varanleg áhrif á líkamann.
Meðal þeirra sem unnu í stigmyllu var rithöfundurinn Osckar Wilde sem var dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir samkynhneigð 1895.
Hann vann sex tíma á dag í stigmyllunni og varð fyrir varanlegu heilsutjóni. Hann lést aðeins þremur árum eftir að hann var látinn laus.
Stigmyllan var vinsæl vegna þess að þar mátti láta marga menn vinna samtímis.
Menn skiptust á
Hver fangi var látinn stíga mylluna í 15 mínútur en var svo leystur af og fékk að hvíla sig. Þannig var unnið í marga klukkutíma á degi hverjum.
Loft skapaði mótstöðu
Sumar stigmyllur knúðu stóra viftu og hægt var að stilla blöðin til að skapa hæfilega mótstöðu. Þannig var hraðanum haldið niðri og um leið dregið úr hættu á alvarlegum slysum.
Stigmyllan var vinsæl vegna þess að þar mátti láta marga menn vinna samtímis.
Menn skiptust á
Hver fangi var látinn stíga mylluna í 15 mínútur en var svo leystur af og fékk að hvíla sig. Þannig var unnið í marga klukkutíma á degi hverjum.
Loft skapaði mótstöðu
Sumar stigmyllur knúðu stóra viftu og hægt var að stilla blöðin til að skapa hæfilega mótstöðu. Þannig var hraðanum haldið niðri og um leið dregið úr hættu á alvarlegum slysum.
Fangarnir plokkuðu sundur gömul reipi í svokallaðan hamphroða sem notaður var til að þétta byrðinginn í tréskipum.
Varanlegt líkamstjón
Vinnan í fangelsum 19. aldar var erfið en þegar hörkutólið Edmund Du Cane hershöfðingi varð yfirmaður bresku ríkisfangelsanna 1863 versnaði ástandið enn.
Du Cane gerði endurbætur undir kjörorðinu „Vinnuharka, matarharka og hart rúm“.
Matarskammtar urðu minni og hengirúmum var skipt út fyrir hörð fleti.
Vinnunni var breytt og fangar t.d. látnir vinna í grjótnámum þar sem þeir voru látnir bera þunga steina og mola þá með hamri.
Eftir tvö ár í grjótnámu voru fangar yfirleitt alltaf með varanlega sköddun í baki og liðum.
Um öryggi var ekkert hugsað og fjölmargir fangar biðu bana í grjóthruni.
Algengast var þó að fangar væru látnir plokka sundur gömul reipi í fína þræði og skapa þannig efni til viðgerða í tréskipum.
Sú vinna var ekki hættuleg en afköstin áttu að vera 1,5 til 2 kg á dag og það gat tekið allt að 12 tíma.
Þessi tilbreytingarlausa vinna reyndi mikið á fingurna og tjaran sem notuð var til að fúaverja reipin skildi eftir sig varanlega svertu á fingrunum.
Sveifin var versta refsingin
Vinna og refsing voru nátengd í fangelsum á 19. öld en sem refsing virkaði vinnan best ef hún var tilgangslaus.
Agi skipti öllu máli í fangelsi og ef fangavörðum þótti fangi ekki nógu duglegur við vinnuna, virtist latur eða setti sig á annan hátt upp á móti reglunum, var svipunni óspart beitt.
Oft voru baldnir fangar dæmdir til að vinna meira en hina hefðbundnu 8-10 tíma.
Markmiðið með vinnunni var að brjóta niður sjálfselsku fanganna og breyta glæpasinnuðu hugarfari hans.
Rannsóknir sýndu að þetta gerðist helst ef vinnan hafði augljóslega engan tilgang.
Árið 1895 var sveifin notuð í 29 breskum fangelsum en sex árum síðar voru þau aðeins fimm.
Þannig var fanginn sviptur þeim möguleika að geta fundið til ánægju með vel unnið starf.
Eitt besta dæmið um fullkomlega tilgangslaust erfiði var hin alræmda „sveif“, kassi með sveif sem fanginn var látinn snúa allt að 10.000 sinnum.
Þetta starf var unnið í einangrunarklefanum og í kassanum var innbyggður teljari sem skráði hve marga hringi sveifinni hafði verið snúið. Fanginn fékk engan mat fyrr en hann var kominn upp í sinn ákveðna fjölda.
Það gat tekið allan daginn og verkið var líkamlega erfitt, auk þess sem það tók á andlega.
En í lok 19. aldar var sveifin harðlega gagnrýnd og aðferðin talin ómannúðleg.
Í Andersonville-fangabúðunum voru 45.000 stríðsfangar vistaðir á síðasta ári borgarastyrjaldarinnar. Af þeim létust 13.000.
Stríðsfangar í borgarastyrjöld geymdir í helvíti
Á 19. öld reyndu Bandaríkjamenn að snúa frá grimmúðlegum aðstæðum fyrri tíma en öll góð áform ruku út í veður og vind þegar borgarastyrjöldin braust út 1861.
Í fangabúðum í norðri og suðri má segja að menn hafi verið í samkeppni um versta og ómannúðlegasta aðbúnaðinn.
Alls voru 409.000 hermenn teknir til fanga og 59.000 þeirra voru látnir þegar stríðinu lauk 1865.
Hvergi voru dánartölurnar hærri en í suðurríkjabúðunum í Andersonville í Georgíu.
Fangarnir fengu lítið sem ekkert að borða og eina drykkjarvatnið var lítill lækur sem rann gegnum búðirnar.
Í norðurríkjunum var meiri aðgangur bæði að mat og lyfjum en víða voru aðstæður meðvitað gerðar verri en nauðsyn krafði til þess að suðurríkjahermenn fengju jafn illa meðferð og norðurríkjahermenn í suðrinu.
Churchill öðlaðist skilning á aðstæðum fanga þegar hann var sjálfur stríðsfangi í Búastríðinu 1899.
Churchill tók nýja stefnu
Grunnhugmyndin að baki fangelsakerfa 19. aldar var að betra fangana með því að skapa þeim svo harða vist að þeir gætu ekki hugsað sér að lenda aftur í fangelsi.
Margra beið þó sár fátækt þegar út var komið og þeir voru svo niðurbrotnir andlega og líkamlega að þeir fengu hvergi vinnu.
Í Bretlandi gerðust þrír af hverjum fjórum brotlegir á ný.
Það var Winston Churchill sem ákvað að láta til sín taka í þessum efnum. Hann varð innanríkisráðherra 1910 og stóð fyrir margvíslegum endurbótum sem bæði áttu að fækka fangelsum og gera vistina þar bærilegri.
Hann kom því m.a. í gegn að ungt fólk fengi vægari refsidóma og fjórum sinnum á ári skyldu haldnir fyrirlestrar og hljómleikar í fangelsum landsins.
Churchill áleit ómannúðleg fangelsi til marks um ómannúðleg stjórnvöld:
„Sýndu mér fangelsin og ég skal segja þér hvernig samfélagið er,“ sagði þessi síðar forsætisráðherra.
Endurbætur Churchills höfðu líka áhrif í Bandaríkjunum. Árið 1913 voru röndóttu fangabúningarnir aflagðir í Sing Sing-fangelsinu og þar var komið upp bíósal.