Fyrir rússneska aðalinn var árið 1917 þrúgandi martröð sem ómögulegt var að flýja. Bylting Bolsévika þurrkaði út aldalanga forréttindastöðu hans og lúxuslíf aðalsins breyttist í líf í stöðugum ótta.
„Það er ógeðslegt að búa í landinu núna. Karlarnir í þorpinu eru eins og viðbjóðsleg börn. Hér ríkir hreint stjórnleysi“, skrifar rithöfundurinn Ivan Bunin frá óðalssetri norður af Moskvu.
Á annarri rússneskri landareign segir eðalborin ekkja: „Við lifum í stöðugum ótta við árásir frá villtum hjörðum að utan“.
Uppreisnargjarnir hermenn, verkamenn og bændur ógna lífi aðalsmanna og þegar Bolsévikar hafa tekið völdin í höfuðborginni Petrograd (í dag Sankti Pétursborg) hefja þeir miskunnarlausa leit að valdastéttinni.
Þúsundir eru barðar eða teknar af lífi, aðrir þurfa að flýja til að bjarga lífi sínu.
Þegar gjöreyðingu byltingarinnar er loksins lokið árið 1923 hefur rússneska aðalsveldið – einhver mesta forréttindastétt heimssögunnar– verið þurrkuð út.
Nikulás II keisari stjórnaði Rússlandi með harðri hendi í samvinnu við ríka aðalsstétt landsins. Árið 1917 hrundi keisaraveldið hins vegar algjörlega.
Aðallinn lifði í vellystingum
Á árunum fyrir byltinguna árið 1917 var Rússland – þrátt fyrir nokkrar umbætur – mjög stéttskipt samfélag.
Hið volduga ríki var byggt á lénsskipulagi, þar sem meira en 80 prósent íbúanna strituðu sem bændur eða verkamenn og kunnu hvorki að lesa né skrifa.
Aðallinn samanstóð af tæplega 1,9 milljónum manna – sem svarar til u.þ.b. 1,5 prósent íbúanna – sem lifði lúxuslífi fjármögnuðu af vinnuafli lægri stéttanna.
Á toppi þjóðfélagspíramídans sat háaðallinn sem var u.þ.b. 100 ættir sem hafði safnað ólýsanlegum auði í gegnum aldirnar.
Aðalsmennirnir gegndu valdamiklum stöðum hjá keisaranum og áttu einnig risastór landsvæði auk óteljandi kastala og stórkostlegra íbúða.
Sheremetev fjölskyldan sem tilheyrði þeim allra ríkustu, átti árið 1871 landeign um fjórum sinnum stærri en Reykjanesskaginn. Fjölskyldan átti einnig meira en 25 hallir og stórhýsi.
Sheremetev fjölskyldan átti meira en 25 hallir. Hér er kirkjan við sumardvalarstaðinn Ostankino.
Aðalsmenn báru titlana prins, greifi, eða barón og giftust aldrei út fyrir sinn þjóðfélagshóp. Þeir höfðu sjaldan mikið að gera þótt þeir legðu metnað sinn í að vera vel menntaðir og menningarlegir og tala fágað mál.
Sem dæmi má nefna að höfuð Sheremetev fjölskyldunnar, hinn 74 ára gamli Sergej Sheremetev, sást sjaldan fyrir kvöldmat, þegar þrír þjónar hans höfðu þvegið honum og klætt hann.
Aðalsmennirnir hittust í veislum þar sem þjónar báru þeim kampavín áður en hátíðarklæddu aðalsmennirnir dönsuðu fram á morgun umkringdir ferskum blómum – oft fluttum inn frá Frakklandi.
„Þetta var einstaklega íburðarmikið,“ rifjaði aðalskonan Marie Gagarina upp.
En hinn glamúrríki lífsstíll var ekki ódýr. Rekstur heimilis Sheremetev fjölskyldunnar kostaði 75.000 rúblur á mánuði – upphæð sem var í hróplegu ósamræmi við kjör bænda landsins sem þénuðu aðeins u.þ.b. 15 rúblur á mánuði.
Hin mikla misskipting milli efsta og neðsta hluta samfélagsins olli því að Rússland var á suðupunkti, skynjaði Sergei Sheremetev árið 1905, þegar verkamenn og bændur í byltingunni 1905 létu gremju sína í ljós.
„Eitthvað er að fara að gerast og það liggur þungt á mér,“ skrifaði hann.
Árið 1917 hafði óróinn vaxið í stöðuga, innibyrgða reiði. Aðallinn varð að lækka í sér rostann.
Um allt Rússland strituðu hinir fátæku eins og þrælar. Myndin sýnir þrjá bændur sem dráttardýr.
Bændur vildu hefnd fyrir þrældóminn
Í 400 ár hafði rússneski aðallinn notað milljónir bænda í landinu sem þræla á ökrunum. Árið 1917 hafði bændastéttin fengið nóg.
Þjóðskipulagið í Rússlandi varð til á 16. öld. Kerfið gerði bændur meira og minna að þrælum aðalsins án persónulegs frelsis.
Bændum bar skylda til að búa á jörðinni sem þeir fæddust á og vinna þau verk sem þeim var skipað. Landeigandi gat jafnvel selt öðrum bónda og flutt hann á jörð annars aðalsmanns.
Árið 1860 átti Sheremetev fjölskyldan ein u.þ.b. 300.000 bændur. Þrátt fyrir að þetta fyrirkomulag hefði verið afnumið í umbótaátaki í landbúnaði árið 1861 voru bændur enn ófrjálsir efnahagslega vegna þess að þeir þurftu að borga leigu fyrir jörðina sem þeir fengu nú að rækta sjálfir.
Árið 1917 höfðu bændurnir engan veginn gleymt aldalöngu arðráni og kúgun aðalsins. Einstaka aðalsmenn höfðu jafnvel skilning á reiði bændastéttarinnar.
„Við, aðalsfólkið, höfum um aldir verið sekari en allar aðrar stéttir. Hatur í okkar garð er bara eðlilegt,“ viðurkenndi Karolina von Sayn-Wittgenstein prinsessa.
Bændur stjórnlausir í blóðþorsta
Í ársbyrjun 1917 var umburðarlyndið gagnvart stjórn Nikulásar II keisara þrotið. Rússneskir hermenn flúðu í hópum frá vígstöðvunum í fyrri heimsstyrjöldinni og matarskortur var mikill.
Fólk streymdi út á göturnar í Petrograd og hrópaði kröfur eins og „brauð“, „niður með keisarann“ og „endið stríðið“.
Þó Nikulás II hafi afsalað sér völdum og einveldið félli í febrúarbyltingunni svokölluðu, héldu öskureiðir íbúarnir áfram að ráðast á aðalsmennina sem hönd í hönd með keisaranum höfðu arðrænt almúgann öldum saman.
Sérstaklega var heitt í kolunum í sveitunum sumarið 1917, þegar bændur réðust inn í kastala og herragarða aðalsins.
Í Kotovka við ána Don í austurhluta Úkraínu náði Vera Urusova prinsessa að yfirgefa heimili sitt rétt áður en hópur af bændum og liðhlaupum úr hernum ruddist inn.
Mannfjöldinn reif bygginguna í tætlur og kveikti loks í henni.Meðan enn lifði í glóðunum vann mannfjöldinn skemmdarverk á gröf föður prinsessunnar.
„Þeir sugu úr okkur blóðið“.
Rússneskir bændur eftir að hafa brennt herragarð aðalsfjölskyldu
Tveir þjónar reyndu að stöðva eyðilegginguna en bændurnir hálshjuggu þá báða. Þegar árásarmennirnir þurftu síðar að útskýra dýrslega hegðun sína, kenndu þeir fórnarlömbunum um:
„Þeir sugu úr okkur blóðið“
Barnabarn Sergei Sheremetev, Lili og maki hennar, Boris Vyazemsky prins, urðu einnig fyrir barðinu á heift heimamanna við Tambov, 420 km suðaustur af Moskvu.
Undir forystu Bolsévika úr sama héraði umkringdu u.þ.b. 100 bændur býli þeirra hjóna. Bændurnir lýstu því yfir að öll landareignin væri nú þeirra eign og að Boris yrði aðeins hlíft ef hann færi með lestinni á vígstöðvarnar til að berjast.
Vyazemsky átti ekki annarra kosta völ en að samþykkja kröfuna en stemningin breyttist skyndilega á lestarstöðinni þegar hópur liðhlaupa komst að því hver hann var.
Þeir börðu prinsinn til bana með málmstöngum. Lili slapp sjálf frá heimili þeirra hjóna dulbúin sem bóndastúlka áður en heimamenn jöfnuðu heimili þeirra við jörðu.
„Við vildum eyða öllu svo að gömlu eigendurnir gætu aldrei komið aftur,“ útskýrðu bændurnir.
Bolsévikar rændu öllu verðmætu
Sjálfsprottnar uppreisnir í dreifbýlinu voru fullkomnar fyrir Vladimir Lenin og Bolsévika hans.
Byltingarleiðtoginn naut þegar mikils stuðnings meðal verkamanna í borgunum og hermanna. Og ræður hans um að fátækir ættu að njóta auðsins sem aðallinn hafði safnað að sér vöktu einnig eldmóð meðal bænda.
„Við munum stela hinu stolna“, var slagorð Bolsévika sem hræddi aðalinn.
„Ef þeir fá völd, verður það síðasta skrefið í átt að hyldýpinu,“ skrifaði Sergej Sheremetev í byrjun október 1917.
Þremur vikum síðar tóku Bolsévikar völdin í októberbyltingunni svokölluðu og lýstu alla aðalsmenn glæpamenn. Þeir voru flokkaðir sem „fyrrum fólk“ og nú stóðu þeir sem „stéttaróvinir“ í raun án borgaralegra réttinda og án verndar dómstóla.
Leynilögregla Leníns, Cheka, knúði dyra á fínu stórhýsunum í Petrograd og Moskvu og þegar þjónarnir opnuðu, þustu vopnaðir menn inn og rændu.
„Þetta er bara byrjunin – bíðið og sjáið hvað fljótlega hendir okkur öll. ÞÁ getum við grátið“.
Kona þegar bankahólf ríkra Rússa voru tæmd
Aðalsmennirnir byrjuðu því að forða verðmætustu eigum sínum. Yusupov fjölskyldan sem var meðal ríkustu fjölskyldna Rússlands, notaði leynilegt, eldtraust herbergi á heimili sínu í Petrograd til að fela hundruð málverka sem og sjaldgæfa Stradivarius fiðlu.
Aðrir saumuðu gimsteina sína inn í kjóla, hatta og púða. Dóttir greifa, Olga Schilovskaya, faldi meira að segja dýrmætan demant sem var gjöf frá keisaraynjunni, inni í bangsanum sínum.
Dóttir rithöfundarins Leó Tolstojs, Alexandra, valdi að fela gimsteina sína neðst í blómapotti.
Á kvöldin læddust aðalsmennirnir út í garða sína til að grafa verðmæti í blómabeðunum. Aðalsættin von Meck gróf til dæmis dýrustu vínin sín.
Þeirra sem héldu að verðmæti þeirra væru örugg í bankanum beið grimmilegt áfall. Í desember 1917 tóku Bolsévikar yfirráð yfir bankastofnunum og innistæðueigendur í Petrograd fengu þrjá daga til að koma og opna bankahólf sín.
Eigendurnir töldu sig geta tekið innihaldið með sér en þess í stað gerðu hermenn allt upptækt – peninga, skartgripi, skjöl og jafnvel afklippt barnahár.
Irina Skariatina greifynja varð vitni að því hvernig viðstaddir brotnuðu grátandi saman í bankanum á meðan ein yfirveguð aðalskona sagði:
„Hvað tjóir að gráta? Þetta er bara byrjunin – bíðið og sjáið hvernig brátt fer fyrir okkur öllum. ÞÁ getum við grátið!”
Konan hafði rétt fyrir sér.
Keisarinn og hans nánustu voru öll skotin í kjallara í borginni Yekaterinburg 17. júlí 1918.
Ættingjar keisarans voru myrtir í röðum
Þann 17. júlí 1918 voru Nikulás II keisari, kona hans Aleksandra og fimm börn þeirra tekin af lífi með köldu blóði en Bolsévikar eltu einnig uppi fleiri úr Romanov fjölskyldunni. Á einu og hálfu ári voru alls 18 drepnir.
13. júní 1918: Skotinn niður í skógi
Fyrsti Romanovinn sem var drepinn af Bolsévikum var stórhertoginn Mikhail Alexandrovich. Hann var sonur Alexanders III keisara og hinnar dönsku keisaraynju Dagmar. Mikhail sat í fangelsi í Perm þegar hann var fluttur út í skóg. Þar voru hann og breskur ritari hans skotnir.
18. júlí 1918 Kastað í námustokk og drepin
Daginn eftir morðin á keisaranum og hans nánustu var komið að systur keisaraynjunnar, Elisabetu Fyodorovna (mynd) og fimm öðrum úr Romanov fjölskyldunni. Þeim var varpað í námustokk í Síberíu og handsprengjum kastað niður á eftir þeim.
13. júní 1918: Skotinn niður í skógi
Stórhertoginn Nikolai Mikhailovich Romanov (mynd), barnabarn Nikulásar keisara I, auk þriggja annarra stórhertoga af Romanovættinni voru drepnir í Sankti Pétursborg. Mennirnir fjórir voru skotnir í Peter-Paul höllinni og grafnir í hallargarðinum.
Prinsessur mokuðu snjó
Það leið ekki á löngu þar til Bolsévikar tóku skipulega að slá eign sinni á hús- og jarðeignir aðalsmanna. Oft fengu fjölskyldurnar aðeins sólarhring til að yfirgefa heimili sín og fengu einungis að taka með sér það sem komst fyrir í einum vagni.
Þess í stað fluttu embættismenn, hermenn og aðrir inn í glæsihýsin. Í febrúar 1918 voru 75 prósent af öllum eignum aðalsins í 19 héruðum gerð upptæk.
Aðalsmenn flúðu í hópum suður til Krímskaga og Kákasus, héraða sem Bolsévikar réðu enn ekki yfir. En nokkrir aðalsmenn dvöldu í stórborgunum vegna þess að þeir áttu ekki hús utan yfirráðasvæðis Bolsévika.
Á einni nóttu þurftu þeir að flytja úr stórhýsum og lúxusíbúðum í leiguhjalla og óhrjáleg herbergi.
Þúsundir aðalsmanna flúðu Rússland með aðeins brot af eigum sínum.
Bolsévikar vildu hins vegar sýna siðspillingu elítunnar opinberlega. Í Petrograd var aðalsmönnum því skipað árið 1918 að grafa lík fórnarlamba taugaveiki.
Þrif á almenningsklósettum og snjóhreinsun varð líka fast verkefni „fyrra fólksins“.
Prinsessa af Wolkonsky-fjölskyldunni rifjaði upp hvernig hún og aðrir aðalsmenn voru látin moka snjó á bak við járnbrautarstöð – ekki vegna þess að það væri nauðsynlegt, heldur til þess eins að niðurlægja þau.
Og þetta átti enn eftir að versna. Árið 1918 hafði matarskorturinn versnað enn frekar vegna borgarastríðsins sem valdarán Leníns hafði steypt landinu í.
„Þeir fengu aðeins nóg brauð til að þeir gleymdu ekki lyktinni af því,“
Bolsévikinn Grigorij Zinovjev um matarskammta aðalsmannanna
Hungursneyð hafði sérstaklega áhrif á aðalsmenn vegna þess að Bolsévikar ákváðu að matarskammtar fylgdu stéttastöðu. Verkamennirnir fengu mest, þeir sem voru vel stæðir minna og aðallinn minnst.
„Þeir fengu aðeins nóg brauð til að þeir gleymdu ekki lyktinni af því,“ gortaði Bolsévikaleiðtoginn Grigory Zinoviev.
Aðalsmenn urðu að selja allt til að lifa af. Lilya Meiendorf – dóttir Sergei Sheremetev sem var í Moskvu – seldi til dæmis demantskórónu sem hún hafði áður borið í veislum keisarans, fyrir hveitipoka.
„Okkur var kalt og við sultum. Við notuðum allt sem við gátum fundið – allt sem við komumst yfir – til að hita upp litla járnofninn okkar,“ sagði Jelena Sheremeteva, dóttir Meiendorfs síðar og minntist þess að kvöldmáltíðin samanstóð venjulega af skál af þunnri kartöflusúpu – sem fjölskyldan deildi.
Lúxuslífi aðalsins er lokið, sagði Pravda, dagblað Bolsévika.„Hvar eru allar ríku, glæsilegu dömurnar, dýru veitingastaðirnir og einkahallirnar? Öllu hefur verið sópað burt,“ sagði blaðið með ánægju árið 1919.
Aftökur urðu daglegt brauð
Þegar reynt var að myrða Lenín 30. ágúst 1918, herti flokkurinn ofsóknirnar.
Með bændur og verkamenn á bak við sig hugðust Bolsévikar losa sig við aðalinn, borgarastéttirnar og vini keisarans.
„Við verðum að hafa 90 milljónir af 100 milljónum Rússar með okkur. Hvað restina varðar, þá höfum við ekkert við þá að segja. Það verður að útrýma þeim,“ sagði Grigory Zinoviev.
Allir sem tengdust keisarastjórninni voru stimplaðir sem gagnbyltingarsinnar sem mátti taka af lífi.
„Undanfarna daga hefur ekkert verið annað en aftökur og aftur aftökur,“ skrifaði Olga Sheremeteva 12. september.
Rússneskir byltingarmenn höfðu snör handtök gegn hverjum þeim sem var talinn óvinur byltingarinnar.
Sem ættingi Sergej Sheremetev bjó Olga í höfðingjasetri sínu í Moskvu, þar sem fjölskyldan hafði, öfugt við flestar aðrar fengið að búa áfram.
Þess vegna var Olga einnig viðstödd þegar menn Cheka réðust inn á heimili fjölskyldunnar í nóvember 1918. Tveir karlkyns fjölskyldumeðlimir voru handteknir en hinn 74 ára gamli Sergej slapp – hann lá fyrir dauðanum í íbúð sinni.
Fjölskyldumeðlimirnir tveir voru sendir í einar af mörgum þrælkunarbúðum sem Lenín hafði komið á fót. Þar fengu fangarnir að vinna sér til dauða.
„Við fáum nánast engan mat. Smá súpu á daginn og kartöflustöppu á kvöldin“, var lýsing aðalsmanns sem þar dvaldi.
Fangarnir tveir úr Sheremetev fjölskyldunni dóu árið 1919 – innan við ári eftir handtöku þeirra.
Fólk flúði í hópum
Árið 1918 urðu blóðugar veiðar Bolsévika á aðalsmönnum til þess að margir aðalsmenn flúðu. Sumir höfðu sloppið snemma yfir landamærin til Finnlands en flestir höfðu ferðast til syðstu hluta Rússlands.
Þeir vonuðust til að Bolsévikar myndu að lokum tapa borgarastríðinu og verða steypt af stóli.
En haustið 1918 náði Rauði her Leníns yfirráðum í suðri og í október tók Cheka 55 aðalsmenn sem höfðu sest að í heilsulindarbæjum Kákasus.
Fangarnir voru aðeins klæddir nærfötum og voru neyddir til að ganga í kirkjugarð og standa fyrir framan stóra, nýtekna gröf. Eftir þetta voru þeir teknir af lífi með sverðum.
Blóðrauða byltingin var komin til Suður-Rússlands og aðalsmenn urðu örvæntingarfullir. Frá Kákasus flúðu þeir í örvæntingu yfir fjöllin og áfram til Tyrklands.
Aðalsmennirnir flúðu Rússland í hópum
Hinir aðalbornu rússnesku útlagar settust flestir að í stórborgum Evrópu vegna þess að þar þekktu þeir aðalsfjölskyldur. Sumir héldu lífsstíl sínum með því að selja verðmæti sem þeir höfðu með sér, aðrir þurftu að finna sér vinnu.
Mekka flóttamanna í austri
Á 3. áratugnum fylltist borgin Harbin í Mansjúríu af u.þ.b. 200.000 rússneskum flóttamönnum sem höfðu flúið um Síberíu til Kína. Meðal aðalsmannanna settust einkum yfirmenn hersins og menntamenn að í Harbin en flestir héldu áfram til annarra landa.
Istanbúl varð viðkomustaður
Á flóttanum frá Krím komu Rússarnir útlægu til Konstantínópel (í dag Istanbúl) við Bosporussund þar sem sumir settust að – þar á meðal aðalsmenn. Árið 1922 bjuggu 35.000 rússneskir flóttamenn í borginni. Árið 1930 voru 3.000 eftir.
Flestir fóru til Berlínar
Berlín varð ný höfuðborg útlægra Rússa með u.þ.b. 100.000 flóttamenn árið 1921. Margir héldu aðalsmannsstöðu sinni vegna náinna tengsla rússneska og þýska aðalsins. Bústaðir flóttamannanna voru margir byggðir í flýti.
Menningarelítan valdi París
„París er full af Rússum“, skrifaði Ernest Hemingway árið 1922. Rithöfundurinn hafði rétt fyrir sér. U.þ.b. 50.000 Rússar í útlegð settust að í borginni. Flestir voru aðalsmenn sem fannst menningin í París eftirsóknarverð. Meðal þeirra var Maria Grigorievna, dóttir hins alræmda munks Rasputins. Í París framfleytti Maria sér sem dansari (mynd).
Herforingjar í Kaupmannahöfn
U.þ.b. 1.000 Rússar í útlegð enduðu í Danmörku, þar á meðal nokkrir aðalsmenn og fyrrverandi herforingjar. Tenging þeirra var Dagmar keisaraynja Rússlands sem settist að í höll í Hvidøre í Gentofte. Rússneska kirkjan var einnig staðsett í Kaupmannahöfn.
Á flótta sínum frá Kákasus þurfti Vladimir Golitsyn prins að fela sig undir gólfborðum húss áður en hann fór yfir fjöllin aftan á hestvagni og með falskt vegabréf.
Hefndarþorsti fólksins kom meirihluta aðalsins gjörsamlega í opna skjöldu. Þeir skildu einfaldlega ekki hversu mikið hatrið gegn þeim var.
Golitsyn prins áttaði sig hins vegar á því að ábyrgðin væri aðalsins sjálfs.
„Hverjum er það að kenna að rússneska þjóðin – bændur og verkalýður – reyndist vera villimenn? Hverjum, ef ekki okkur öllum?“ skrifaði hann í dagbók sína árið 1918.
Sem betur fer fyrir aðalinn var Rauði herinn stöðvaður tímabundið árið 1919. Meirihluti aðalsmanna slapp þannig frá Rússlandi á ítölskum, frönskum og breskum skipum sem sigldu frá Krímskaga til Tyrklands og Grikklands. En þeir yfirgáfu föðurlandið með eftirsjá.
„Það er ómögulegt fyrir okkur öll að gráta ekki yfir okkar kæru fortíð sem við munum aldrei upplifa aftur,“ skrifaði Zinaida Yusupova prinsessa þegar hún sá strendur Rússlands í síðasta sinn í apríl 1919, þar sem tveir synir Sergej Sheremetev fóru einnig í útlegð.
Engar nákvæmar tölur eru til um hversu margir aðalsmenn fóru frá Rússlandi en samkvæmt einni heimild voru aðeins 12 prósent aðalsmanna frá því fyrir byltinguna eftir í föðurlandinu árið 1921. Þá var um 1,5 milljón rússneskra aðalsmanna í útlegð.
„Á bak við okkur liggja hryllingur og vonleysi. Ég get ekki annað en haft áhyggjur af þeim sem eru eftir,“ skrifaði aðalsmaðurinn Ivan Bunin þegar hann yfirgaf föðurlandið í febrúar 1920.
Ofsóknirnar héldu áfram í áratugi
Jósef Stalín hélt áfram leitinni að aðalsmönnum sem eftir voru þegar hann tók við forystu Sovétríkjanna.
Þrátt fyrir að Lenín hafi dáið árið 1924 þýddi það ekki að eltingarleikurinn við aðalsmenn væri á enda.
Frá lokum þriðja áratugarins setti Stalín fjölda ættarnafna aðalsins á svartan lista þannig að ungt fólk af aðalsættum var rekið úr háskólum og meinað að fá vinnu. Á sama tíma fengu hinir útskúfuðu enga skömmtunarseðla.
Á fjórða áratugnum lét Sovétleiðtoginn leynilögregluna Cheka herða ofsóknirnar. Innleiðing innanlandsvegabréfa átti að tryggja að yfirvöld gætu fundið aðalsmenn sem voru í felum.
Eftir handtökur og yfirheyrslur voru karlkyns aðalsmenn sendir í þrælkunarbúðir undir því yfirskini að þeir væru að leggja á ráðin gegn stjórninni.
„Í hvert skipti sem einhver í lögreglubúningi gengur fram hjá okkur finnum við magasýrurnar þyrlast um,“ skrifaði Vladimir Golitsyn sem var handtekinn fjórum sinnum áður en hann lést í þrælkunarbúðum.
Árið 1935 var fyrrverandi aðalsmönnum bannað að búa í Leníngrad og Moskvu. Í hinni sérstöku herferð árið 1935 voru 11.072 manns flutt frá Leníngrad einni.
Þeir sem ekki fóru urðu að hafa hægt um sig
Í janúar 1922 lýsti flokksblaðið Krasnaya Gazeta því yfir að rússneska aðalsstéttin hefði „yfirgefið landið með dauðanum“ og að aðalsmenn hefðu hlotið „hægan, hörmulegan, átakanlegan og grimman dauðdaga“.
Hið rauða dagblað hafði í raun rétt fyrir sér, því þótt ekki væru allir aðalsmenn látnir, tórðu þeir sem eftir voru við bág kjör í sínu nýja lífi í nýja Sovétlýðveldinu.
„Heimurinn sem við þekkjum er dauður,“ skrifaði yfirstéttarstúlkan Galina von Meck og vísaði þar til hinnar nýju tilveru sem „tvöfalds lífs þar sem við bárum grímu utan heimilisins sem við gátum aðeins tekið af okkur þegar við voru viss um að það væri öruggt“.
Enginn þorði að segja frá því að þeir væru af aðalsættum af ótta við að verða handteknir. Titlar eins og prinsessa og greifi voru lagðir til hliðar og fyrrverandi aðalsmenn kynntu sig eingöngu út frá stöðu sinni. Fortíðinni varð að gleyma.
„Því minna sem þú veist, því betra“ var svarið sem Jelena Sjuvalova greifadóttir fékk þegar hún sem barn á fjórða áratugnum spurði móður sína um bakgrunn fjölskyldunnar.
Árið 1931 hafði Walter Duranty, bandarískur fréttaritari í Sovétríkjunum aðeins eitt að segja um þá aðalsmenn sem eftir voru í Sovétríkjunum:
„Þau eru lifandi dauð“.
Rússar í útlegð vonuðu í mörg ár að vesturveldin myndu brjóta niður Bolsévikaveldi Rússlands. Árið 1932 fékk hinn útlægi Rússi, læknirinn Paul Gorguloff (í miðjunni) nóg af að bíða og skaut forseta Frakklands.
Það var ekki fyrr en með umbótastefnu Míkhaíls Gorbatsjovs á níunda áratugnum sem fyrrum aðalsfjölskyldur sem enn bjuggu í Rússlandi þorðu að tala opinskátt um hryllinginn.
Enginn veit hversu margir aðalsmenn týndu lífi í byltingunni og næstu áratugi þar á eftir en sumar aðalsfjölskyldur voru að mestu þurrkaðar út.
Þar á meðal Sheremetev fjölskyldan. Þegar Pavel sonur Sergei var drepinn í seinni heimsstyrjöldinni var ekki einn einasti karlmaður af Sheremetev fjölskyldunni eftir í Sovétríkjunum.
LESTU MEIRA UM HINN RÚSSNESKA AÐAL
Douglas Smith: Former people, Pan, 2013
Helen Rappaport: After the Romanovs, Scribe Publication, 2023