Lifandi Saga

Keisaradrottning Rússlands í klóm Raspútíns

Alexandra keisaradrottning var fögur, staðföst og viljasterk. Eiginmaður hennar stjórnaði Rússlandi – en laut engu að síður stjórn hennar. Trú hennar á að sér gæti ekki skjátlast og samband hennar við hinn kynóða Raspútín urðu keisarafjölskyldunni að falli.

BIRT: 04/10/2023

Skömmu eftir miðnætti 17. júlí 1918 vaknaði hin 46 ára gamla keisaraynja Rússlands skyndilega upp frá værum blundi. Hún opnaði augun óttaslegin og horfði framan í líflækninn Botkin. Hann bar henni skilaboð frá bolsévískum fangavörðum keisarafjölskyldunnar: Allir áttu að undirbúa sig undir flótta.

 

Næstu 78 dagana á undan hafði fjölskyldan: keisarinn Nikulás 2., sem steypt hafði verið af stóli, Alexandra keisaradrottning og fimm börn þeirra hjóna, auk nokkurra þjóna, lifað í stofufangelsi í yfirgefinni höll í Jekaterínbúrg austur af Úralfjöllum.

 

Úti fyrir geisaði borgarastyrjöldin milli bolsévika og hvíta hersins en sá síðarnefndi barðist fyrir því að koma keisaranum aftur til valda.

 

Nýr yfirmaður fangavarðanna, Júróvskí, leyfði engum að tala við fangana og fyrir bragðið vissi fjölskyldan í raun og veru ekki hvað var að gerast.

 

Alexandra sem var ákaflega trúuð, hafði varið mánuðunum á undan í algerri einangrun frá umheiminum og lagt stund á bænir sínar í von um hjálp frá almættinu. En allt kom fyrir ekki.

 

Skilaboð líflæknisins um brottflutning vakti daufa von með konunni. Þó svo að skipunin hafi hljóðað á þann veg að fjölskyldan þyrfti ekkert að hafa með sér, fóru þau þó engu að síður öll að pakka saman föggum sínum.

 

Á síðustu stundu tók 17 ára dóttir keisarans, að nafni Anastasía, einnig með sér smáhund sinn, Jimmy.

Árið 1913 sat keisarafjölskyldan fyrir á mynd. Zarina Aleksandra og eiginmaður Nicholas II Rússlands sitja í miðjunni umkringd fimm börnum sínum.

Þegar út úr byggingunni kom, skipaði yfirmaðurinn, Júróvskí, öllum að halda niður í kjallara hússins. Efri hæðina, þar sem svefnherbergin var að finna, kvað hann vera hættulega vegna bardaganna inni í bænum.

 

Þegar komið var niður í hálftóman kjallarann hrópaði Alexandra umkvörtunartóni: „Hér eru ekki einu sinni stólar!“

 

Fyrirskipunartónninn gerði það að verkum að Júróvskí lét sækja nokkra stóla. Alexandra og sonur hennar, krúnuerfinginn Alexei sem sífellt var veikur, fengu að setjast.

 

Hin níu urðu að standa. Augu allra mændu á Júróvskí sem dró skyndilega upp skammbyssu. Hljóðið af þungum stígvélum fyllti litla kjallaraherbergið þegar tíu vopnaðir verðir bættust í hópinn.

 

„Framkvæmdavald Úralhéraðs sem samanstendur af fulltrúum verkamanna, bænda og hermanna, hefur ákvarðað að þið skulið líflátin“, las Júróvskí upp hátt og snjallt.

 

Skothvellur ómaði um bygginguna. Síðasta keisarafrúin horfði í skelfingu á mann sinn falla til jarðar.

Aleksandra keisaraynja var skírð Alix. Þessi mynd var tekin árið 1888, sex árum áður en hún giftist keisara Rússlands.

Þetta örlagaríka sumar, árið 1918, hafði Alexandra Fjodoróvna verið ein valdamesta persóna hins volduga Rússlands í alls 24 ár, án þess að renna í grun um að hörmungarnar sem dundu á keisaradæminu væru mestmegnis af völdum hennar sjálfrar.

 

Í tvo áratugi hafði hún hunsað þjáningar þjóðar sinnar og stjórnað veikgeðja eiginmanni sínum líkt og strengjabrúðu og fengið hann til að taka hverja skelfilegu ákvörðunina á fætur annarri.

 

En verst var þó samband hennar við kynóðan dulspeking sem ýtti ekki einvörðungu fjölskyldu hennar, heldur gjörvöllu rússneska ríkinu, fram á barm örvæntingar.

 

Krýning endaði í blóðbaði

Það sem endaði með byssuskoti árið 1918 hófst 34 árum áður, þ.e. hinn 13. júní 1884 við fallegan undirleik, þegar Alexandra sem þá kallaðist Alix, var viðstödd brúðkaup systur sinnar í Vetrarhöllinni í Pétursborg.

 

Ævintýraleg umgjörð brúðkaupsins kom hinni 12 ára gömlu Alix ekki á óvart. Hún bjó með föður sínum, stórhertoganum Loðvíki 4. og systkinum í þýska borgríkinu Hessen.

 

Þó svo að hertogadæmi föðurins væri hvorki sérlega stórt né voldugt, nutu þau þess að vera af göfugum ættum. Móðir stúlkunnar, Alice, var dóttir Viktoríu, Englandsdrottningar, valdamesta þjóðhöfðingja Evrópu.

 

Eins og gefur að skilja var Alix vön íburðarmiklu lífi. Hún hafði þó jafnframt fengið að kynnast sorginni því móðir hennar og tvö systkini höfðu látið lífið þegar stúlkan var mjög ung að árum.

 

Fyrstu kynni stúlkunnar af ástinni voru sumarið 1884 en meðan á brúðkaupsveislunni í Pétursborg stóð það sumar varð hún ástfangin af krúnuerfingja Rússlands, hinum 16 ára gamla Nikulás Rómanov, syni Alexanders 3. keisara og danskrar eiginkonu hans, keisaraynjunnar Dagmarar.

Alix neitaði að ganga að eiga Albert Viktor, son væntanlegs Englandskonungs, Játvarðar 7. og eiginkonu hans Alexöndru.

Alix neitaði að verða bresk drottning

Viktoría Englandsdrottning kærði sit ekki um samband barnabarnsins Alix og rússneska krúnuerfingjans. Þess í stað reyndi gamla drottningin að fá hana til að gifta sig inn í bresku konungsfjölskylduna. Alix neitaði því alfarið.

 

Viktoría drottning áleit Rússland vera ósiðmenntað og hræðilegt land. Þegar svo uppáhaldsbarnabarn hennar, Alix af Hessen, varð ástfangin af rússneska krúnuerfingjanum, Nikulási og fór að vera í tygjum við hann, gerði Viktoría allt hvað hún gat til að koma í veg fyrir að þau fengju að eigast.

 

Drottningin áformaði þess í stað að Alix gengi í hjónaband með frænda sínum, prinsinum Albert Viktor. Sá var elsti sonur væntanlegs Englandskonungs, Játvarðar 7. og danskættaðrar eiginkonu hans, Alexöndru. Það átti sem sé fyrir prinsinum að liggja að verða ríkisarfi hins volduga breska heimsveldis.

 

Prinsinn og Alexandra hrifust hins vegar aldrei hvort af öðru og að lokum varð Viktoría sjálf að viðurkenna að Alix og Nikulás virtust vera sköpuð hvort fyrir annað.

 

„Ég hef aldrei séð tvær manneskjur vera hrifnari hvort af öðru. Þetta er það eina sem ég get hughreyst mig við, því hættan og ábyrgðin sem fylgir slíku hjónabandi skelfir mig mikið“, ritaði hún í dagbók sína, án þess þó að vita að hún hefði fullkomlega rétt fyrir sér.

 

Albert Viktor lést af völdum lungnabólgu árið 1892. Hann varð því aldrei konungur Englands.

Ást stúlkunnar var endurgoldin og 10 árum síðar, hinn 26. nóvember árið 1894, gekk parið unga í hjónaband að viðstöddu kóngafólki frá gjörvallri Evrópu.

 

Brúðkaupið átti sér raunar stað á einstaklega sorglegum tíma, því Rússakeisari, faðir Nikulásar, hafði andast nokkrum vikum áður og hinn ungi Nikulás kveið því að eiga að taka við af föður sínum sem leiðtogi Rússlands.

 

„Ég er ekki undir það búinn að vera keisari. Ég hef ekki hugmynd um hvernig stjórna á landi“, trúði hann mági sínum fyrir.

 

Alexandra sem kunni ekki mikið fyrir sér í mannlegum samskiptum, hlakkaði heldur ekki til að verða keisaraynja.„Ég er ekki sköpuð með það fyrir augum að eiga að vekja athygli frammi fyrir hópi fólks. Ég á ekki auðvelt með að spjalla við aðra. Mér hugnast best mitt innra líf“, ritaði hún í bréfi til vinkonu sinnar.

 

Til þess að bæta gráu ofan á svart upphófst valdatíð nýja keisarans með sorgarviðburði. Í tilefni krýningarinnar hinn 30. maí 1896 safnaðist hálf milljón manna saman á útihátíð rétt fyrir utan Moskvu.

 

Keisarafjölskyldan hafði boðið til hátíðarinnar og stóð straum af öllum kostnaði. Þegar kvisaðist út að ekki væri nægilegur matur fyrir alla, fór fólk að þyrpast að matarborðunum með þeim afleiðingum að alls 1.389 manns tróðust undir í mannfjöldanum.

 

Íbúarnir skelltu skuldinni á keisarann unga og fóru að kalla hann „Nikulás blóðuga“ en hjátrúarfullir Rússar túlkuðu slysið sem forboða um þær hörmungar sem framtíðin bæri í skauti sér.

Keisarinn ungi, Nikulás, gekk að eiga Alexöndru árið 1894, skömmu eftir andlát föður síns.

„Þýska kerlingin“ fórnarlamb haturs

Alexandra hlaut titilinn keisaradrottning við giftingu á varasömu tímaskeiði í tæplega 300 ára sögu keisaraættarinnar, því örfáum árum fyrir brúðkaupið árið 1894 hafði rússneska þjóðin upplifað skelfilega hungursneyð.

 

Uppskeran skemmdist áður en hægt væri að hirða hana og þúsundir létust úr hungri. Í kjölfarið á fæðuskortinum geisaði svo kólera sem dró um fjórðung úr milljón Rússa til dauða.

 

Á meðan þjóðin barðist við sjúkdóma og stöðuga fátækt baðaði keisarafjölskyldan og aðallinn sig í peningum. Misræmið milli efnafólksins í yfirstéttinni og hinna almennu fátæku Rússa skapaði jarðveg fyrir mýmargar verkamannauppreisnir í upphafi 20. aldar.

Rússarnir þoldu ekki kuldalegu keisaradrottninguna Alexöndru

Alexandra öðlaðist aldrei vinsældir í Rússlandi. Margir álitu keisaraynjuna hrokafulla, valdasjúka og yfirlætislega en vitað er að hún átti í mesta basli með mannleg samskipti og konan varð ákaflega óvinsæl meðal almennings, aðalsins, svo og sinnar eigin tengdafjölskyldu.

Jarðarfararbrúði þyrsti í völd

Brúðkaup Alexöndru og Nikulásar var haldið örfáum vikum eftir greftrun fyrrum keisara, Alexanders 3. Dagblöðin kölluðu brúðina ungu fyrir bragðið „jarðarfararbrúðina“ og marga grunaði að hún gengi aðeins að eiga veikgeðja krúnuerfingjann til að komast sjálf til valda.

Feimni var túlkuð sem hroki

Alexandra sem hafði misst móður sína og tvö systkini í barnæsku, var einfari og haldin mikilli depurð. Í augum hins almenna Rússa líktust skapgerðareinkenni hennar hroka og þeir fóru brátt að uppnefna hana „þýsku kerlinguna“.

Skopmyndir vöktu reiði

Alexandra vakti óheppilega athygli á sjálfri sér á fyrstu árum hjónabandsins þegar hún teiknaði skopmyndir af rússnesku keisarafjölskyldunni. Ein teikninganna sýndi eiginmanninn Nikulás sem ungabarn, vera mataðan af ráðríkri móður sinni. Teikningarnar komu fyrir augu almennings og fólki fannst skammarlegt að keisarinn skyldi hæddur af eiginkonu sinni.

Keisaradrottningin stöðvaði vinsæla hirðdansleiki

Áður en Alexandra gekk að eiga keisarann hélt keisarafjölskyldan ótalmargar veislur fyrir rússneska aðalinn. Alexandra sem var heittrúuð, var skelfingu lostin yfir öllum ástarsamböndunum og illkvittnu kjaftasögunum sem einkenndu veislur þessar. Hún hætti þess vegna brátt að bjóða til dansleikja og þar með einangraðist keisarinn frá öðru aðalsfólki í Rússlandi.

Drottningunni fannst hún yfir almenning hafin

Alexandra var sannfærð um að Rússar tilbæðu keisarafjölskylduna. Hún sá þess vegna enga ástæðu til að eyða tíma í almenning. Þegar mörg hundruð spariklæddir bændur vonuðust til að fá að berja hjónin augum, þar sem þau ferðuðust í lest til Krímskaga, neitaði hún að draga gardínurnar frá gluggunum.

Ásökuð um að vera þýskur njósnari

Þegar her Rússa beið marga og mikla ósigra í fyrri heimsstyrjöld var Alexandra brátt gerð að blóraböggli. Margir Rússar töldu hana vera hliðholla Þjóðverjum þar sem hún væri af þýskum uppruna og sumir veltu því meira að segja fyrir sér hvort hún væri leynilegur njósnari Þýskalandskeisara.

Eiginmaður Alexöndru þótti vera veiklundaður leiðtogi og var sagður eiga erfitt með ákvarðanatökur. Rússarnir göntuðust með að í raun réttri réðu tveir ríkjum í landinu: keisarinn og síðasti viðmælandi hans. Hatrið í garð erlendrar eiginkonu hans, frá litlu og með öllu óþekktu stórhertogadæmi, var þó ívið meira.

 

Keisaradrottningin þótti vera fáskiptin og kuldaleg í framkomu og almenningur kallaði hana „þýsku kerlinguna“. Óvinsældir Alexöndru bárust ömmu hennar, Viktoríu Englandsdrottningu, meira að segja til eyrna.

„Rússland er ekki England. Hér höfum við ekki þörf fyrir að ávinna okkur átrúnað fólksins“.
Skrifaði Alexandra í bréfi til Viktoríu Englandsdrottningar

„Skylda þín er fyrst og fremst að ávinna þér kærleika og virðingar þegnanna“, mælti hin gamalreynda drottning við barnabarn sitt Alexöndru.

 

Alexandra þóttist hins vegar vita betur: „Þar hefur þú rangt fyrir þér, amma mín. Rússland er ekki England. Hér höfum við enga þörf fyrir að öðlast velvilja almennings. Rússneska þjóðin heiðrar keisara sína líkt og guðlegar verur“.

 

Í janúar 1905 gat meira að segja Alexandra ekki lengur lokað augunum fyrir reiði almennings þegar 140.000 verkamenn þyrptust saman fyrir framan Vetrarhöllina til að mótmæla hækkuðu verði á matvælum sem voru afleiðingar misheppnaðs stríðsreksturs Rússa gegn Japönum (1904-1905).

 

Keisarafjölskyldan var raunar á ferðalagi en lögreglunni var skipað að ráðast á múginn og alls þúsund mótmælendur létust í átökunum sem brutust út.

 

Blóðbaðið hafði í för með sér verkföll víðs vegar í landinu og mótmælin héldu áfram svo mánuðum skipti. Hinn 17. október 1905 lét Nikulás keisari undan og innleiddi umbætur.

 

Dregið var úr völdum keisarans, borgararéttindi innleidd og löggjafarsamkundan, Dúman, var sett á stofn.

 

Umbæturnar reittu Alexöndru til reiði. Hún trúði statt og stöðugt á hið ótakmarkaða vald sem eiginmaður hennar hafði hlotið hjá guði almáttugum og þrýsti á mann sinn um að berjast fyrir þeim rétti sem hann áður hafði haft.

 

Einungis tveimur árum síðar afnam keisarinn svo fyrirvaralaust öll þessi réttindi. Byltingunni var slegið á frest, um stundarsakir þó.

Árið 1908 var reynt að ráða Nicholas keisara af dögum þar sem hann var í vagni sínum. Aðeins hestarnir voru drápust.

Krúnuerfinginn þjáðist af skæðum sjúkdómi

Innan múra keisarahallarinnar lifði Alexandra í sjálfvalinni einangrun og vanþekkingu, ásamt manni sínum, börnum þeirra fimm og heilum herskara þjónustufólks. Eftir að hafa fætt fjögur meybörn í röð, ríkti mikil hamingja þegar keisaraynjan fæddi manni sínum loks son 25. ágúst 1904. Þar með voru þau búin að tryggja sér krúnuerfingja.

 

Sonurinn Alexei var augasteinn fjölskyldunnar en þó einkum móður sinnar. Hamingjan varði hins vegar ekki lengi, því í ljós kom að drengurinn þjáðist af dreyrasýki á alvarlegu stigi.

 

Drengurinn erfði sjúkdóminn „síblæði“ frá móður sinni sem hafði ekki hugmynd um að hún væri með þennan sjúkdóm. Sjúkdómur þessi veldur skyndilegum blæðingum í liðamótum og vöðvum og getur orsakað lífshættulegan þrýsting á líffæri líkamans.

 

Þar sem læknarnir stóðu algerlega ráðþrota gagnvart veikindum drengsins leitaði móðirin í trúna.

 

Keisaradrottningin hafði orðið að snúast til rússnesks rétttrúnaðar þegar hún gekk að eiga keisarann og þrátt fyrir vissar efasemdir í byrjun, má segja að hún hafi tekið trúna til sín af fullu afli, svo jaðraði við ofstæki.

 

Í von um að eignast son hafði hún jafnframt leitað til margra trúarlegra dulspekinga sem margir Rússar töldu búa yfir heilandi krafti. Þegar hún fæddi Alexei var hún sannfærð um að hann væri dulspekingunum að þakka.

Keisaraynjan sá ekki sólina fyrir syni sínum

Alexöndru þótti vænt um öll börnin sín en þó einkum og sér í lagi einkason sinn, krúnuerfingjann Alexei. Eftir að hún komst að raun um að hann þjáðist af alvarlegum sjúkdómi varði hún nánast öllum stundum með honum.

Stórfurstynjan Olga

Olga var elst systkina sinna og fyrir bragðið kom uppeldi yngri systkinanna að miklu leyti í hennar hlut. Alexandra var ákaflega ströng við þessa elstu dóttur sína ef yngri börnin hegðuðu sér ekki vel. Hún minnti hana stöðugt á að henni bæri að „vera systkinum sínum góð fyrirmynd og að hafa jákvæð áhrif á þau“.

Stórfurstynjan Tatíana

Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar Tatíana kom í heiminn árið 1897. „Almáttugur minn, dóttir í annað sinn! Hvað ætli þjóðin segi?“ þykir líklegt að Alexandra hafi hrópað að afstaðinni fæðingunni. Hin fagra og tignarlega Tatíana átti raunar eftir að verða uppáhaldsdóttir móður sinnar þegar fram liðu stundir.

Stórfurstynjan María

Dóttirin María var einstaklega hjartahlý og fegurð hennar rómuð. Hún þjáðist því miður af sama öryggisleysi og einkenndi móður hennar og geðslag þeirra var svipað. Sem miðjubarn fannst henni hún oft vera utanveltu meðal eldri systra sinna og það sama átti stundum við um samskiptin við móðurina.

Stórfurstynjan Anastasía

Anastasía var grallarinn í systkinahópnum. Hún var alltaf að gera eitthvað af sér og þurfti oft að þola skammir. Nafnið Anastasía þýðir „hin endurrisna“ og árum saman voru á sveimi sögusagnir um að hún hefði lifað af aftöku keisarafjölskyldunnar árið 1918. Nýlegar DNA-rannsóknir hafa þó leitt í ljós að hún komst ekki undan.

Zarevich Alexei

Fimmta barn keisarafjölskyldunnar, sonurinn Alexei, var augasteinn móður sinnar. Alexandra lýsti krúnuerfingjanum sem „beinum svörum við öllum mínum bænum, guðdómlegum yfirburðum almættisins og djásninu í hjónabandi mínu“. Sjúkdómur hans megnaði því sem næst að brjóta á bak aftur stolta móðurina.

Keisaraynjan sá ekki sólina fyrir syni sínum

Alexöndru þótti vænt um öll börnin sín en þó einkum og sér í lagi einkason sinn, krúnuerfingjann Alexei. Eftir að hún komst að raun um að hann þjáðist af alvarlegum sjúkdómi varði hún nánast öllum stundum með honum.

Stórfurstynjan Olga

Olga var elst systkina sinna og fyrir bragðið kom uppeldi yngri systkinanna að miklu leyti í hennar hlut. Alexandra var ákaflega ströng við þessa elstu dóttur sína ef yngri börnin hegðuðu sér ekki vel. Hún minnti hana stöðugt á að henni bæri að „vera systkinum sínum góð fyrirmynd og að hafa jákvæð áhrif á þau“.

Stórfurstynjan Tatíana

Vonbrigðin leyndu sér ekki þegar Tatíana kom í heiminn árið 1897. „Almáttugur minn, dóttir í annað sinn! Hvað ætli þjóðin segi?“ þykir líklegt að Alexandra hafi hrópað að afstaðinni fæðingunni. Hin fagra og tignarlega Tatíana átti raunar eftir að verða uppáhaldsdóttir móður sinnar þegar fram liðu stundir.

Stórfurstynjan María

Dóttirin María var einstaklega hjartahlý og fegurð hennar rómuð. Hún þjáðist því miður af sama öryggisleysi og einkenndi móður hennar og geðslag þeirra var svipað. Sem miðjubarn fannst henni hún oft vera utanveltu meðal eldri systra sinna og það sama átti stundum við um samskiptin við móðurina.

Stórfurstynjan Anastasía

Anastasía var grallarinn í systkinahópnum. Hún var alltaf að gera eitthvað af sér og þurfti oft að þola skammir. Nafnið Anastasía þýðir „hin endurrisna“ og árum saman voru á sveimi sögusagnir um að hún hefði lifað af aftöku keisarafjölskyldunnar árið 1918. Nýlegar DNA-rannsóknir hafa þó leitt í ljós að hún komst ekki undan.

Zarevich Alexei

Fimmta barn keisarafjölskyldunnar, sonurinn Alexei, var augasteinn móður sinnar. Alexandra lýsti krúnuerfingjanum sem „beinum svörum við öllum mínum bænum, guðdómlegum yfirburðum almættisins og djásninu í hjónabandi mínu“. Sjúkdómur hans megnaði því sem næst að brjóta á bak aftur stolta móðurina.

Sjúkdómur Alexeis gerði það að verkum að Alexandra leitaði aftur á náðir trúaðra manna, að þessu sinni varð fyrir valinu alræmdur dulspekingur að nafni Gregorí Raspútín – fátækur bóndi sem enga formlega menntun hafði hlotið en sem hafði orð á sér fyrir að vera kraftaverkalæknir.

 

Raspútín kom til Pétursborgar árið 1904 og fékk á sig orð fyrir að geta læknað fólk, þó aðallega konur, í íbúð sinni. Þessi kvensami og hömlulausi maður var þó einnig sakaður um kynferðislegt ofbeldi gegn konum.

 

Dulspekingurinn hitti keisarahjónin skömmu eftir fæðingu Alexeis og varð fljótt innsti koppur í búri keisarafjölskyldunnar. Í hvert sinn sem veikindi komu upp hjá drengnum bað Raspútín fyrir honum og stuttu seinna fór piltinum ávallt að líða betur.

 

Ekki leið á löngu áður en Alexandra var farin að ráðfæra sig við manninn um alla mögulega hluti. Raspútín hélt því fram að hann þekkti vilja guðs og fyrir vikið túlkaði Alexandra allt sem hann sagði sem skilaboð frá æðri máttarvöldum.

„Keisarinn er því miður veiklunda. Það er ég aftur á móti ekki og ég hef í hyggju að sýna hörku“.
Sagði Alexandra við sendiherra Breta í Rússlandi

Alexandra fór smám saman einnig að taka allar ákvarðanir er lutu að stjórnmálum. Eiginmaður hennar hafði ekki getu til að stjórna landinu og Alexandra áleit það vera skyldu sína að grípa í taumana til þess að ekki yrði úti um keisaradæmið.

 

„Keisarinn er því miður veiklunda. Það er ég aftur á móti ekki og ég hef í hyggju að sýna hörku“, sagði hún í trúnaði við breska sendiherrann í Rússlandi.

 

Raspútín orsök orðróms

Samband Alexöndru við Raspútín aflaði henni enn frekari óvinsælda meðal íbúa landsins. Rússar lögðu fæð á Raspútín sem hvíslaði ógeðfelldum hugsunum sínum í eyra keisaradrottningarinnar og umgekkst rússneska aðalinn með trúarofstæki sínu, ósiðlegu athæfi og síaukinni áfengisneyslu.

 

Í dagblaði einu var dulspekingnum lýst á þann veg að hann „eyðilegði líkama og sálir“ og brátt úði og grúði af fréttum um leynilegt ástarsamband Alexöndru og Raspútíns. Keisaradrottningin neitaði öllum sögusögnunum og kvað þær vera „eitraðan rógburð“.

 

Jafnframt því sem gagnrýnin gegn henni færðist í aukana utan hallarinnar, svo og innan hennar, þá fækkaði í hópnum sem hún umgekkst.

 

Keisarafrúin var haldin ofsóknarkennd og treysti ekki öðrum en nánustu ættmennum sínum. Líkt og frænka keisarans orðaði það, hafði keisaradrottningin „glatað andlegu jafnvægi sínu“.

Þrátt fyrir erfiða tíma nutu dætur keisarans lífsins. Hér sjást Tatjana (til vinstri) og Olga (í miðjunni) í sumarfríi í Finnlandi u.þ.b. 1908.

Líkamlegt ástand hennar var ekki hótinu betra. Raunar hafði hún þjáðst af mígreni og slæmum verkjum í baki og útlimum áður en hún fluttist til Rússlands.

 

Verkirnir versnuðu með árunum og langtímum saman var hún rúmliggjandi eða bundin við hjólastól.

 

Þegar fyrri heimsstyrjöld braust út árið 1914 voru milljónir vinnufærra karlmanna sendir frá kornökrunum og verksmiðjunum til þess að berjast gegn þýska keisararíkinu. Fyrir bragðið dróst matvælaframleiðsla verulega saman og hungursneyð jókst til muna.

 

Á meðan sulturinn lék almenna Rússa grátt en þess má geta að þeir þurftu að standa í röð til að fá að kaupa svo mikið sem eina brauðsneið, lifði keisarafjölskyldan áfram í óhóflegum vellystingum. Gjáin á milli almennings og keisarans hafði aldrei verið dýpri.

„Þetta verður upphafið að glæstu stjórnarfari þínu“. 
Alexandra við eiginmann sinn.

Haustið 1915 tók Alexandra síðan ákvörðun sem átti eftir að ráða örlögum hennar og keisaradæmisins.

 

Keisarinn tók við stjórn hersins

Rússneski herinn hafði beðið hvern ósigurinn á fætur öðrum á vígstöðvunum. Samkvæmt ráðleggingum Raspútíns sannfærði Alexandra því eiginmann sinn sem hafði í raun afar takmarkaða reynslu af hernaði, um að taka við yfirstjórn hersveita landsins.

 

„Þetta verður upphafið að glæstu stjórnarfari þínu. Þetta er skoðun Raspútíns og ég trúi fullkomlega því sem hann segir“, sagði hún við eiginmann sinn.

 

Daginn eftir að Nikulás tók við yfirstjórn hersins sögðu alls átta af þrettán ráðherrum í ríkisstjórn hans upp í mótmælaskyni. Á meðan keisarinn var í stríðsrekstri fjarri Pétursborg sat Alexandra í raun við stjórnvölinn sem æðsti leiðtogi landsins, með Raspútín sér við hlið.

 

Í lok janúar árið 1916 skipaði Alexandra fyrrum siðameistara hirðarinnar, Boris Stürmer, sem nýjan forsætisráðherra Rússlands. Stürmer þessi var góðvinur Raspútíns sem hafði mælt með honum í embættið.

 

Stuttu síðan rak Alexandra einnig hinn reynda stríðsmálaráðherra, Polivanóv, svo og utanríkisráðherrann Sazonóv og lét Stürmer eftir verkefni beggja. Enn og aftur samkvæmt meðmælum Raspútíns.

Grigorij Rasputin hafði enga menntun, en Aleksandra treysti samt ráðum hans í blindni.

Skipun hins óhæfa Boris Stürmers reyndist hafa skelfilegar afleiðingar og eftir mikinn þrýsting úr ýmsum áttum neyddist Alexandra í nóvember 1916 til að taka frá honum öll þau verkefni sem honum hafði verið ætlað að sinna.

 

Tjónið sem þessar ráðstafanir ollu reyndist óbætanlegt.

 

Íbúarnir voru sannfærðir um að öll þeirra ógæfa stafaði af því að Raspútín og hin þýskættaða keisaradrottning upplýstu óvininn um öll ríkisleyndarmál landsins.

 

Hinn 23. febrúar 1917 fóru rösklega 90.000 verkakonur í verkfall í Pétursborg og mótmæltu með skiltum sem m.a. sögðu „Niður með keisarann“ og „Mótmælum stríði“.

 

Ekki leið á löngu áður en hermenn landsins fóru að taka undir mótmælin gegn Nikulási 2. sem neyddist til að afsala sér völdum 15. mars 1917. Bráðabirgðaríkisstjórn tók við af keisarastjórninni. Óslitinni 300 ára valdatíð keisaranna var lokið og eintómar ófarir blöstu við keisarafjölskyldunni.

Eitrað var fyrir Raspútín og hann skotinn. Að því loknu vöfðu morðingjar hans gólfteppi utan um líkið og köstuðu því í ána.

Fjölskylda keisarans leiddi Raspútín í gildru

Hollvinir keisarafjölskyldunnar óttuðust að Raspútín tækist að leysa upp keisaradæmið. Þeir lögðu þess vegna gildru fyrir manninn.

 

Hinn 19. nóvember 1916 hélt herragarðseigandinn Vladimir Purisjkevitj þrumandi ræðu í rússneska þinginu, Dúmunni, þar sem hann hélt því fram að ósigurinn gegn Þjóðverjum í heimsstyrjöldinni væri engum að kenna öðrum en dulspekingnum Raspútín.

 

Raspútín stjórnaði ráðherrum keisarans líkt og strengjabrúðum og upplýsti óvini landsins um ríkisleyndarmál, sögðu gagnrýnisraddirnar.

 

Þegar ungur prins að nafni Felix Júsúpov hafði hlýtt á ræðuna tók hann ákvörðun um að myrða hinn illa þokkaða Raspútín. Júsúpov var kvæntur náfrænku keisarans og fyrir bragðið voru honum hæg heimatökin.

 

Hann sendi einfaldlega boðskort til Raspútíns þar sem honum var boðið að líta við hjá eiginkonu prinsins, Írínu.

 

Þegar hinn drykkfeldi Raspútín mætti á boðaðan stað hinn 16. desember reyndi Felix fyrst í stað að myrða hann með eitruðu madeira-víni við kvöldverðarborðið.

 

Eitrið hafði engin áhrif á Raspútín, eins undarlega og það kann að hljóma og Felix og samsærismenn hans urðu að skjóta Raspútín alls fjórum sinnum áður en hann lét lífið.

 

Morðið á Raspútín olli mikilli gleði meðal íbúa Rússlands. „Djöfullinn heilagi er dauður!“ hrópaði fólk í gleðivímu á götum úti og hyllti um leið Felix og vini hans sem lausnara Rússlands.

Stofufangelsi endaði með blóðblaði

Vorið 1917 var keisarafjölskyldan fyrst í stað látin sæta stofufangelsi í höll einni fyrir utan Pétursborg. Þegar of tvísýnt þótti um öryggismálin í höfuðborginni var svo tekin ákvörðun um að flytja fjölskylduna í öruggt skjól, þar sem enginn næði til hennar, í borginni Tobolsk í Síberíu.

 

Þegar svo bolsévikar veltu ríkisstjórninni úr sessi í októberbyltingunni í lok árs 1917 tóku kommúnistar við gæslu keisarafjölskyldunnar. Landið klofnaði í byltingunni og brátt kom til blóðugrar borgarastyrjaldar milli rauða hers kommúnistanna og hvíta hersins sem m.a. naut stuðnings áhangenda keisaradæmisins og Úkraínumanna en þeir síðarnefndu bundu þá vonir við að öðlast sjálfstæði.

 

Hættan á því að keisarinn yrði frelsaður úr varðhaldi var yfirvofandi en slíkt hefði haft í för með sér táknrænan sigur fyrir óvininn, svo þegar hvíti herinn nálgaðist Tobolsk í apríl 1918 ákváðu bolsévikar að flytja keisarafjölskylduna í yfirgefna höll í Jekaterínbúrg.

 

Örfáum mánuðum síðar tóku bolsévikar þá ákvörðun að leysa vandamálið í eitt skipti fyrir öll og taka alla fjölskylduna af lífi. Alexandra trúði því fram á síðustu stundu að guðsótti hennar myndi forða fjölskyldunni frá hörmungum.

 

„Þú skalt engar áhyggjur hafa. Guð er almáttugur og hann mun gera kraftaverk,“ skrifaði hún í bréfi til vinkonu sinnar örfáum vikum áður en úti varð um keisarafjölskylduna.

Nikulás keisari var skotinn fyrst. Því næst var öll fjölskylda hans myrt, svo og þjónar þeirra.

Kraftaverkið lét á sér standa. Hinn 17. júlí fyrirskipaði herforingi bolsévikanna mönnum sínum að taka fjölskylduna af lífi, svo og þjóna hennar og líflækni. Samkvæmt heimildum Júróvskís skaut hann keisarann fyrst og síðan hófu menn hans skothríð á alla aðra í litla kjallaraherberginu.

 

Þegar skothríðin hætti, kom svo í ljós að dæturnar, Alexei og keisaradrottningin voru öll enn á lífi.

 

„Ég held að þau hafi hnigið niður sökum hræðslu eða jafnvel viljandi, því lifandi voru þau. Við héldum því skothríðinni áfram. Alexei sat kyrr viti sínu fjær af hræðslu. Ég myrti hann“, upplýsti Júróvskí mörgum árum síðar.

 

Ekki einu sinni Jimmy, kjölturakki Anastasíu, slapp lifandi úr kjallaranum.

 

Bolsévikarnir helltu sýru yfir líkin ellefu og brenndu þau að hluta til, því þeir óttuðust að liðsmenn hvíta hersins fyndu þau. Líkunum var síðan komið fyrir í gryfju sem grafin var af sama tilefni undir fáförnum stíg í skóginum.

Þó svo að Nikulás væri náfrændi Georg 5. neitaði enska konungsfjölskyldan að koma honum og fjölskyldu hans til bjargar.

Bretakonungur þorði ekki að koma keisaranum til hjálpar

Bretar hefðu hæglega getað bjargað keisarafjölskyldunni en Georg 5., konungur, óttaðist að breska konungdæmið yrði útskúfað ef hann rétti keisarafjölskyldunni hjálparhönd.

 

Þegar Nikulás 2., kona hans og börn voru sett í stofufangelsi árið 1917, vonaðist fjölskyldan fram á síðustu stundu til þess að náin tengsl hennar við bresku konungsfjölskylduna myndu verða þeim til bjargar. Georg 5., Englandskonungur og Nikulás voru systkinasynir og um tíma var allt útlit fyrir að breski þjóðhöfðinginn hygðist senda skip til Rússlands og flytja keisarafjölskylduna til Bretlandseyja.

 

Samningaumleitanir rússneska utanríkisráðherrans og breska sendiherrans í Rússlandi báru hins vegar ekki árangur.

 

„Breska ríkisstjórnin krefst þess ekki lengur að fá keisarafjölskylduna flutta til Englands“, hljóðuðu skilaboðin frá enska sendiherranum.

 

Að öllum líkindum var það sjálfur konungurinn sem gerði þessa einu bjargarvon keisarans að engu en hann óttaðist um eigin vinsældir ef hann kæmi þessum umdeilda frænda sínum til aðstoðar í þessu máli.

 

Breskur almenningur hafði nefnilega ekki gleymt öllum þeim mótmælendum sem keisarastjórnin fyrirskipaði að skyldu líflátnir í óeirðunum árið 1905.

 

Á Bretlandseyjum gekk keisarinn fyrir vikið undir viðurnefninu „Nikulás blóðugi“. Georg 5. óttaðist að blóðið á höndum keisarans færðist yfir á hans eigin hendur og að málið gæti í versta falli leitt til glötunar ensku konungsfjölskyldunnar.

 

Keisarinn og fjölskylda hans urðu því að spjara sig sjálf.

Það var ekki fyrr en árið 1998 sem rússneska þjóðin veitti keisarafjölskyldunni og Alexöndru þá fyrirgefningu sem þeim aldrei féll í skaut í lifanda lífi. Við það tækifæri voru jarðneskar leifar keisarafjölskyldunnar lagðar til hinstu hvílu við hátíðlega athöfn í dómkirkjunni í Pétursborg.

 

„Við höfum lengi þagað yfir þessum skelfilega glæp“, mælti þáverandi forseti Rússlands, Bóris Jeltsín, úr ræðustólnum:

 

„Nú er kominn tími til að segja sannleikann: Blóðbaðið í Jekaterínbúrg er eitt skammarlegasta atvikið í sögu okkar“.

Lestu meira um síðustu keisaradrottningu Rússlands

Carolly Erickson: Alexandra – The Last Tsarina, St. Martin’s Press, 2001

Simon Sebag Montefiore: The Romanovs, Weidenfeld & Nicholson, 2014

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS EBBESEN JENSEN , NIELS-PETER GRANZOW BUSCH

© George Grantham Bain Collection/Library of Congress,© No. 678. Hesseni Alexandra portréja “Prsse Alix de Hesse” – 1888 – Magyar Nemzeti Levéltár Országos Levéltára, Hungary - CC BY-NC-SA. https://www.europeana.eu/en/item/520/providedCHO_4172_HU_MNL_OL_P_240_1__a_678_,© Granger/Bridgeman Images & Shutterstock,© Heritage Images/Fine Art Images/akg-images, Shutterstock,© Laski Diffusion/Getty Images,© Beinecke Library,© Archive PL/Imageselect,© CBW/Imageselect,© Archives Charmet/Bridgeman Images,© Heritage-Images/The Print Collector/akg-images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

Heilsa

Langvinnur hósti er ef til vill arfgengur

Tækni

Þvinguð ófrjósemisaðgerð átti að uppræta heimsk börn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is