Í sólkerfi í þúsund ljósára fjarlægð frá jörðu hafa stjörnufræðingar í fyrsta sinn séð hvernig vatn berst til svæða þar sem nýjar reikistjörnur eru í fæðingu.
Í gegnum Spitzer-sjónauka NASA hafa stjörnufræðingar athugað sólkerfið NGC 1333-IRAS 4B í stjörnumerkinu Perseifi. Þetta reikistjörnukerfi er umlukið risavöxnu skýi sem gefur frá sér mikið af ís. Þessum ís „rignir“ síðan niður á heita skífu í reikistjörnukerfinu.
Hér bráðnar ísinn og verður að vatnsgufu. Sú vatnsgufa sem sést hefur gegnum sjónaukann samsvarar fimmföldu því magni sem er að finna í heimshöfunum á jörðinni samanlagt.
Minnka skýin í rigningu?
Ský glata massa þegar það rignir en hlýtt og rakt loft jafnar það út.
Skífan liggur umhverfis unga stjörnu sem er enn að vaxa og dregur því stöðugt til sín meira efni úr umhverfinu. Í skífunni er að finna mikið af byggingarefni í nýjar reikistjörnur.
Auk steina og geimryks er sem sagt hér einnig að finna vatn. Það gufar upp þegar það kemst í snertingu við heita skífuna en síðar frýs það aftur og myndar þá m.a. halastjörnur, sem enn síðar kunna að eiga eftir að færa reikistjörnum vatn.