Það er almennt afar slæm hugmynd að gleypa rafhlöðu – og flestir vita það mæta vel. Engu að síður hefur hópur ítalskra vísindamanna einmitt sett saman rafhlöðu sem óhætt er að innbyrða.
Í rafhlöðu eru tvö skaut, forskaut og bakskaut. Forskautið tengist jákvæða pólnum á rafhlöðunni en bakskautið þeim neikvæða.
Í þessari ætu rafhlöðu er bakskautið gert úr ríboflavíni eða B2-vítamíni sem m.a. er að finna í möndlum. Forskautið er gert úr efninu quercetín sem er þekkt fyrir jákvæð áhrif á ónæmiskerfið.
Bæði þessi efni er að finna í fjölmörgum plöntum og öðrum matvælum. Virk kol eru svo notuð til að auka rafleiðni.
Hlustaðu á einn af rannsakendum á bak við uppfinninguna tala um hana hér:
Raflausnin sem tengir skautin tvö er vatnsblanda og til aðskilnaðar sem kemur í veg fyrir skammhlaup er notað þangefni sem algengt er í sushi.
Loks eru svo tvær gullsnertur en þær eru úr gullþynnum sem viðurkenndar eru til neyslu og lag úr býflugnavaxi umlykur bæði skautin.
Þegar rafhlaðan er fullhlaðin getur hún skilað 48 míkróampera straumi við 0,65 volt í 12 mínútur.
Straumstyrkurinn er sem sagt vissulega lítill en vísindamennirnir segja þetta samt duga til að knýja litlar einingar á borð við daufa LED-peru.
Nýjar sólþiljur eru þynnri en mannshár
Til lengri tíma litið vonast vísindamennirnir til að rafhlöðuna megi m.a. nota til bættrar greiningar og meðferðar á magasjúkdómum.
Hópurinn hefur þegar hafist handa við að þróa smærri útgáfu rafhlöðunnar sem á að hafa meiri getu.