Breytingar á heila eru eðlilegur hluti öldrunar ekki síst breytingar á þeim svæðum sem stýra minni og námi, svo sem til dæmis svonefndur heiladreki.
Það er þó ýmislegt sem getur hraðað þessu ferli.
Vísindamenn hafa nú sýnt fram á þetta með áralangri stórri rannsókn á meira en 32.000 einstaklingum.
Rannsóknin leiðir í ljós að tóbak hefur áberandi áhrif á heilann.
Það voru vísindamenn hjá læknadeild Washington-háskóla sem stóðu að rannsókninni. Þeir notuðu MRI-heilaskönnun, spurningalista og DNA-sýni og hafa fylgst með þróun þátttakenda síðan árið 2006.
Eldri rannsóknir hafa sýnt tengsl reykinga við rúmmál heilans, bæði gráan og hvítan heilavef en hvort það voru reykingarnar sem höfðu áhrif á heilann hefur verið óljóst þar til nú.
Reykingar minnka heilann
Niðurstöður nýju rannsóknarinnar leiða í ljós að reykingar valda því að rúmmál heilans dregst saman.
Daglegar reykingar minnka bæði gráan og hvítan heilavef og því meira sem reykt er yfir daginn þeim mun minna verður rúmmál heilans.
Bandarískir og kínverskir vísindamenn hafa reiknað út að tvær tegundir tilfinninga virðast auka öldrun hraðar en reykingar.
Rannsóknin sýnir glögglega hversu mikilvægt það er að hætta að reykja til að koma í veg fyrir áframhaldandi heilaskaða og minnka áhættu á heilaglöpum.
„Það er nú orðið alveg ljóst að reykingar hafa afar slæm áhrif á heilann. Þær minnka rúmmál hans og það er mikilvægt þegar við eldumst því öldrun og reykingar eru hvort tveggja áhættuþættir varðandi heilaglöp,“ segir aðalhöfundur niðurstöðuskýrslunnar Laura Bierut sem er prófessor í geðlækningum við Washingtonháskóla.
Heilinn nær aldrei fyrri stærð
Önnur mikilvæg niðurstaða er sú, að heilinn nær aldrei aftur fyrri stærð. Heili þeirra þátttakenda sem hættu að reykja mörgum árum áður en rannsókn hófst, var minni en heili þeirra sem aldrei höfðu reykt.
Góðu fréttirnar eru þær að það að reykbindindi kemur í veg fyrir að heilavefurinn rýrni enn frekar.
Grunnur
Útbreiðsla: Árið 2020 notuðu 22,3% jarðarbúa tóbak.
Dauðsföll: Árlega deyja um 8 milljónir af völdum reykinga, þar af um 1,3 milljónir sem ekki reykja.
Það fólk sem hafði hætt að reykja fyrir löngu reyndist hafa glatað minna af gráum heilavef en þeir þátttakendur sem hætt höfðu nýlega.
Þetta bendir til að það að hætta reykingum geti stöðvað rýrnun heilavefjar jafnvel þótt heilinn nái ekki aftur sömu stærð.
Þú getur ekki bætt þann skaða sem þegar er orðinn en þú getur komist hjá að valda meiri skaða segir Yoonhoo Chang, einn höfunda niðurstöðuskýrslunnar og meistaraprófsnemi við Washingtonháskóla í fréttatilkynningu.