1. Augabrúnir beina svitanum frá
Án augabrúnanna myndu sviti og óhreinindi streyma niður yfir augun. Augabrúnirnar gegna líka lykilhlutverki við að forma andlitssvip okkar og andlitstjáningu og þar með tjáskipti okkar við aðra.
2. Handarkrikahárin laða hitt kynið að okkur
Bæði handarkrikahár og kynfærahár dreifa ilmi frá kirtlum í húðinni og vísindamenn telja þennan ilm gegna lykilhlutverki í kynferðislegri aðlöðun.
3. Augnhárin þyrla rykinu frá
Augnhárin ná að grípa rykkorn í loftinu en ennþá mikilvægara er þó að þau stýra loftinu þannig að rykið leitar fram hjá augunum.
4. Skeggið sýnir aldur karlmanns
Við greinum bæði lit og magn skeggs á augabragði og sé það byrjað að grána afhjúpar það aldurinn. Skeggið ber því mikilvæg skilaboð.
5. Hár í nösum verjast sýkingum
Nasahárin mynda einfalda en haldgóða síu sem grípur rykagnir og bakteríur úr loftinu. Þar með koma þau í veg fyrir sköddun og bólgur í viðkvæmri slímhúð í nefinu.
6. Bringuhár eru tákn karlmennsku
Rétt eins og skeggið senda bringuhár skýr skilaboð um kyn og aldur. Mikill hárvöxtur á bringunni ber yfirleitt merki um mikið af karlhormóninu testósteróni í blóði.
7. Hár í eyrum verja hljóðhimnuna
Hárin í eyrunum koma í veg fyrir að óhreinindi og bakteríur komist inn að hljóðhimnunni og eiga þannig sinn þátt í að tryggja að heyrnin haldist í góðu lagi.