Löngu áður en Andy Warhol öðlaðist heimsfrægð ólst hann upp í bandarísku stáliðnaðarborginni Pittsburg. Foreldrar hans voru fátækir innflytjendur sem áttu rætur að rekja til Medzilaborce-héraðsins í austurhluta Slóvakíu.
Andy var grannvaxinn og tilfinninganæmur piltur sem stakk ákaflega í stúf í kaldranalegu verkamannahverfinu sem hann ólst upp í. Hann var fljótur að átta sig á að hann skaraði fram úr hinum drengjunum í hverfinu á einu tilteknu sviði.
Hann kunni nefnilega að teikna og mála og nýta sér það til framdráttar.
Í stað þess að láta þrjótana í hverfinu ganga í skrokk á sér sátu þeir hinir sömu grafkyrrir fyrir framan Andy á meðan hann teiknaði þá og málaði með öruggri hendi. Þeir sem ekki hrifust af hæfileikum hans hlutu að vera með hjarta úr steini.
Það voru þessir sömu hæfileikar sem tryggðu piltinum inngöngu á hönnunar- og listnámsbraut Carnegie tækniháskólans í Pittsburgh í Bandaríkjunum árið 1945. Andy var þá 17 ára gamall.
Árið 1949 yfirgaf Andy Warhol heimabæ sinn sem útlærður auglýsingateiknari og fluttist búferlum til New York. Næsta áratug á eftir skapaði Andy sér nafn hjá fyrirtækinu Mad í New York sem einn af fremstu hönnuðum og teiknurum stórborgarinnar.
Hann hannaði allt frá jólakortum og bókakápum yfir í það að skipuleggja yfirgripsmiklar auglýsingaherferðir fyrir stórar skóverslanir og verslanakeðjur og ekki leið á löngu áður en hann var farinn að verðleggja sig sjálfur.
Metnaðurinn risti þó enn dýpra en sem svo. Andy Warhol hafði hug á að kynnast betur sjálfum sér sem manni og listamanni. Í hans augum nægði ekki einungis að ná tökum á listinni og handverkinu sem tengdist henni því Andy hafði sett sér annað markmið: Hann vildi verða frægur.
Hann var með ljóta húð, skakkt nef og há kollvik sem allt átti þátt í að gera hann að algerri andstæðu þeirra frægu einstaklinga sem prýddu tímaritin sem hann myndskreytti. Við þessu voru þó ráð. Árið 1957 undirgekkst hann lýtaaðgerð á nefinu og um svipað leyti fór hann að nota hárkollur sem urðu í raun hans aðalsmerki allar götur síðan.
Andy hafði orð á sér fyrir að vera dulrænn og svalur náungi og varð hinn „nýi“ Andy Warhol hluti af hópi hinna frægu New Yorkbúa þar sem stjarna hans skein hátt fyrir þær sakir að hann þótti hafa einstakan persónuleika til að bera og gerði listræna uppreisn gegn „góðum smekk“.
Langaði til að vera vél
Þegar Warhol var strákur elskaði hann súpu frá Campbell's og að eigin sögn borðaði hann hana á hverjum degi í hádeginu í 20 ár.
„Þegar fram í sækir eiga allir eftir að upplifa 15 mínútna frægð“, er Andy Warhol þekktur fyrir að hafa sagt. Sú frægð var raunar komin til að vera og spannaði allan heiminn hvað þennan fjölmiðlameðvitaða listamann snerti. Listamaðurinn Andy sviðsetti í sífellu sjálfan sig sem svalasta fræga einstaklinginn, allt frá upphafi 7. áratugarins, fram í andlátið árið 1987.
Myndmál fjölmiðlanna og auglýsingalistarinnar gagnaðist Andy Warhol til að koma sjálfum sér á framfæri sem ókrýndur konungur popplistarinnar.
Verk hans voru innblásin af poppmenningunni og segja má að sum hafi jafnvel verið afsprengi hennar og enn fremur af Hollywood-kvikmyndum, teiknimyndum, vöruumbúðum, popptónlist o.fl. og þau afmáðu í raun skilin milli listar og gróðahyggju.
„List er það sem þú kemst upp með að gera“.
Andy Warhol.
Andy gerði að engu hugmyndir annarra um vinnustofur listamanna. Á hinum ýmsu stöðum setti hann á laggirnar ólíka listræna starfsemi, þar sem listamenn og áhangendur þeirra gátu hist og öðlast frelsi til að stunda list sína.
Á vinnustofunni sem gekk undir heitinu Verksmiðjan, fjöldaframleiddi Andy Warhol verk sín með því yfirlýsta markmiði að þannig gæti listin öðlast frelsi.
„Ástæða þess að ég mála eins og ég geri er sú að ég vil vera eins og vél“, sagði hann á sinn ótvíræða hátt, líkt og hann vildi villa um fyrir fólki. Manninn Andy Warhol þekktu fæstir.
Kvikmyndir Andys Warhol: Ógerningur að horfa á til enda
Kvikmyndaleikstjórinn stendur hér við hliðina á drögum að auglýsingaveggspjaldi fyrir vestraádeiluna: „Lonesome Cowboys“.
Þrjár Warhol myndir sem víkkuðu út mörk kvikmyndagerðar
„Kvikmyndir mínar eru betri í umtali en áhorfi“, sagði Andy Warhol eitt sinn um bíómyndir sínar. Og það var ekki alveg fjarri lagi.
Andstætt við myndlist hans sem meðvitað átti að höfða til fjöldans voru kvikmyndir hans framúrstefnulegar og einstaklega furðulegar. Hér gefur að líta stutt yfirlit yfir skringilegustu kvikmyndirnar sem Andy Warhol hefur átt þátt í að gera sem fáir horfðu á en sem engu að síður tryggðu honum nafn sem einhvers þekktasta kvikmyndalistamanns á sviði framúrstefnulistar á sjöunda áratugnum.
“Sleep” (1964)
Maður einn sefur í fimm klukkustundir. Ekki þarf fleiri orð til að lýsa atburðarás rösklega fimm tíma langrar listrænnar kvikmyndar Andys Warhol, „Sleep“. Já, atburðarás er hugsanlega ekki réttnefni því myndin sýnir í raun ekkert annað en þáverandi kærasta Andys, John Giorno, sofandi í rúminu sínu.
„Empire“ (1964)
„Empire“ er meðvitað leiðigjörn, átta klukkustunda löng upptaka af Empire State byggingunni í New York sem sýnd er hægt. Andy Warhol sagði sjálfur að markmiðið með kvikmyndinni væri „að sjá tímann sniglast áfram“.
„Blow Job“ (1963)
Í svart-hvítu þöglu myndinni „Blow Job“ er myndavélinni beint að andliti ungs manns í 35 mínútur á meðan einhver sem ekki sést, er að veita honum munnmök. Kvikmynd þessi er meðal þeirra fyrstu sem Andy Warhol tók upp í Verksmiðjunni.
Ofgnótt vímuefna og sköpunargáfu
Allt frá árinu 1964 endurnýtti Warhol og mýmargt aðstoðarfólk hans myndskreytingar fjölmiðlanna, auglýsinganna og stórstjarnanna á litríku silkiþrykki sem breytti bandarískri poppmenningu í myndskreytilist og gerði að engu upprunalega merkingu hennar.
Verksmiðjan breyttist í listrænan leikvöll fyrir útúrdópaðar og furðulegar listrænar sálir í New York.
Og það var ekki einungis sköpunargáfan sem ofgnótt var af í Verksmiðjunni. Eða líkt og bandaríski ljósmyndarinn Billy Name sem var aðstoðarmaður Andys Warhol allan sjöunda áratuginn, hefur sagt:
„Við vorum dópaðir frá morgni til kvölds. Þetta var lífsstíll. Og fyrir vikið var eitthvað alveg einstakt við það hvernig við vorum sem Andy laðaðist að. Hann þráði að umgangast fólk sem þóttist ekki vera neitt annað en það var og var ekki að leika eitthvað annað. Einstaklinga sem vildu gangast við því hverjir þeir voru og sem hann gat lifað með, í merkingunni „vera lifandi með“.
Vinsælasta vímuefnið var metamfetamín en þeir sem tilheyrðu Verksmiðjugenginu notuðu líka ýmis önnur efni á borð við LSD, maríjúana, heróín og annað.
Heróín var í miklu uppáhaldi hjá framúrstefnuhljómsveitinni Velvet Underground. Lagatextar hljómsveitarinnar fjölluðu að miklu leyti um heróínmisnotkun, klæðskiptinga og sadómasókisma, auk þess sem tónlistin var meðvitað höfð viðvaningsleg og óvönduð.
Andy Warhol féll algerlega fyrir hljómsveitinni og árið 1965 gerðist hann umboðsmaður hennar. Velvet Underground seldi takmarkað magn af plötum en hafði gríðarlega mikil áhrif á tónlistarsenuna, bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Eða líkt og tónlistarmaðurinn Brian Eno sem var meðlimur hljómsveitarinnar Roxy Music, sagði:
„Aðeins um 10.000 manns keyptu fyrstu plötuna með Velvet Underground en hver og einn einasti þeirra stofnaði sína eigin hljómsveit“. Listræn virkni Andys Warhol vó iðulega salt á milli þess framúrstefnulega annars vegar og þess sem sumir gagnrýnendur kölluðu fyrirlitlega gróðahyggju hins vegar.
Andy fjöldaframleiddi litrík málverk af ofurstjörnunum Elvis og Marilyn Monroe með annarri hendi og stjórnaði með hinni hljómsveitum sem ekkert viðskiptavit höfðu, svo sem eins og Velvet Underground og framleiddi jafnframt mjög óvenjulegar listrænar kvikmyndir sem einkar torvelt reyndist að horfa á.
Popplist veltir milljörðum
Claes Oldenburg (1929-2022) sérhæfði sig, líkt og Andy Warhol, í myndum af ofur venjulegum hversdagshlutum í popplist sinni, iðulega í stórum hlutföllum.
Popplist leit dagsins ljós í Bretlandi og Bandaríkjunum á 6. áratug 20. aldar sem andsvar við afstrakt expressjónisma sem öðlast hafði vinsældir eftir heimsstyrjöldina síðari og sem einkenndist af því að sýna tilfinningar og huglæga upplifun listarinnar.
Í Bandaríkjunum var Andy Warhol fremstur í flokki þeirra sem lögðu stund á listgrein þessa, ásamt Roy Lichtenstein.
Í Verksmiðjunni tókst Andy að taka listina niður úr fílabeinsturninum og láta „góðan smekk“ víkja fyrir einföldum „vinsælum“ hlutum frá færiböndum verksmiðjanna, fréttanna og Hollywood: Coca Cola, þvottaefni, sjálfsmorð, umferðarslys, svo og tónlistar- og kvikmyndastjörnur.
Hvort heldur ber að túlka þekktu verkin hans, í líkingu við Campbell-súpur og litríkar silkiprentmyndir af frægu fólki, á borð við Marilyn Monroe og Elvis Presley sem virðingarvott við bandaríska fjöldamenningu eða gagnrýni á hana, það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig.
„Hugmyndin er ekki fólgin í því að lifa að eilífu, heldur að skapa eitthvað sem mun gera það“, sagði Andy Warhol. Og það má með sanni segja að listaverk hans geri.
Þeir sem hafa hug á að eignast ófalsaða mynd eftir Warhol sjálfan, þyrftu nú sennilega að seilast djúpt ofan í vasana.
Árið 2022 var mynd Warhols af Marilyn Monroe í dæmigerðum litum, blágrænum, gulum og bleikum, seld fyrir andvirði 28 milljarða íslenskra króna sem táknar að myndin var dýrasta listaverk 20. aldarinnar sem nokkru sinni hefur selst á uppboði.
Ofstækisfullur femínisti skaut Warhol
Þegar Andy Warhol var á hátindi frægðar sinnar munaði þó minnstu að hann endaði líf sitt sem píslarvottur í þágu listarinnar. Hinn 3. júní árið 1968 fór róttæka kvenréttindakonan og rithöfundurinn Valerie Solanas inn í Verksmiðjuna við Union torg í New York. Hún hélt á brúnum bréfpoka með tveimur skammbyssum í.
Valerie Solanas hafði áður hitt Andy Warhol sem hafði boðið henni að koma á vinnustofuna, þar sem úði og grúði af listamönnum sem voru fastagestir hans. Á meðan Andy var að tala í símann dró Valerie Solanas aðra byssuna upp úr pokanum og skaut þremur skotum í átt að myndalistarmanninum.
Eitt skotanna hæfði manninn og fór í gegnum lungað. Byssukúlan olli skemmdum í maga, milta, lifur og vélinda áður en hún fann sér leið gegnum hitt lungað og þeyttist út úr líkama mannsins.
Aðstoðarmaður Warhols, ljósmyndarinn Billy Name, heyrði skothljóðin þaðan sem hann var staddur inni í myrkrakompu innst í vinnustofunni. Áður en hann kom að Andy var Valerie horfin á braut í lyftunni sem hún hafði komið upp í. Andy lá í blóðpolli á gólfinu. Þegar Billy lyfti honum upp á arma sína, hrópaði hann:
„Gerðu það Billy, láttu mig ekki fara að hlæja, ég finn svo skrambi mikið til“. Andy var ekið á brott í sjúkrabíl og hann fluttur á sjúkrahús. Fyrst í stað var talið að hann væri látinn en einn læknanna uppgötvaði á síðustu stundu að sjáöldur hans hreyfðust.
Að aflokinni fimm klukkustunda aðgerð á sjúkrahúsinu sem m.a. fól í sér að læknarnir opnuðu brjóstkassa mannsins og hnoðuðu hjartað í gang, reis Andy Warhol loks upp frá dauðum.
Valerie Solanas gaf sig sjálf fram við lögregluna skömmu eftir morðtilræðið. Þegar lögreglan spurði hvert tilefni morðtilræðisins hefði verið svaraði hún mjög undarlega:
„Sökum þess að hann hefur of mikla stjórn á lífi mínu“. Hún var síðar meir úrskurðuð með geðklofa og afplánaði einungis þriggja ára dóm fyrir morðtilræðið.
Fyrir daga samfélagsmiðla þurftu verðandi stjörnur að nýta sér aðra miðla – og Kitty var sérfræðingur í því.
Warhol með fjórum stórstjörnum sínum úr The Factory
Ofurstjörnur Andys Warhol
Ofurstjörnur fylgdu Andy Warhol í gegnum allt líf hans: Á vinnustofunni á daginn, í næturklúbbunum á kvöldin og síðast en ekki síst, einnig á heimili hans.
Sannkallaðar ofurstjörnur
Þegar vinnudegi var lokið umgekkst hann alvöru ofurstjörnur þegar hann skemmti sér í vinsælustu næturklúbbunum í New York, m.a. í hinum nafntogaða „Studio 54“, þar sem kampavínið flæddi í stríðum straumum og vímuefnin voru aldrei langt undan. Á myndinni sem er tekin 1978 má sjá Andy í gleðskap í Studio 54 ásamt meðal annarra Lizu Minnelli og Biöncu Jagger sem tilheyrðu þeim hópi fræga fólksins sem þráði að láta sjá sig með þessum sérkennilega listamanni.
Ofurstjarna Warhols sjálfs
Þegar Andy Warhol reis upp frá dauðum eftir morðtilræðið flutti einn af föstu, ungu aðstoðarmönnum, Jed Johnson, inn hjá honum. Fyrst í stað var einungis ætlunin að ungi maðurinn annaðist hann og sýndi honum umhyggju en þegar fram liðu stundir myndaðist innilegt ástarsamband milli mannanna tveggja og deildu þeir tveir heimili síðustu 12 árin af ævi Andys.
Ofuraðstoðarfólk
Andy Warhol umgekkst mjög marga hinsegin einstaklinga sem hann hvatti til dáða og nýtti sem aðstoðarfólk í Verksmiðjunni. Dags daglega kallaðist fólk þetta „ofurstjörnur“. Hér gefur að líta Joe Dallesandro, stjörnuna í tveimur þekktustu og í raun alræmdustu kvikmyndum Warhols, „Heat“ og „Flesh“, svo og þrjú ókyngreind ungstirni úr innsta hring Verksmiðjunnar, þau Jane Forth, Jackie Curtis og Holly Woodlawn.
Morðtilræði breytti Andy Warhol og list hans
Andy Warhol varði tveimur mánuðum á sjúkrahúsi. Þegar hann loks losnaði þaðan var hann breyttur maður og jafnframt breyttur listamaður.
Hann ritaði í dagbók sína: „Allar götur síðan ég varð fyrir skotárásinni hefur mér fundist ég lifa í draumi. Mér finnst ég ekki átta mig á hvort ég er lífs eða liðinn. Maður skyldi ætla að ég óttaðist ekki lengur dauðann nú þegar ég hef komist í návígi við hann. En ég er hræddur og ég skil ekki hvernig á því stendur“.
Dauðahræðsla Andys magnaðist en list hans sem áður hafði verið svo litrík á að líta fékk á sig drungalegan blæ.
Nú fór hann m.a. að mála höfuðkúpur í ýmsum litum og gerðum. Í fyrsta sinn á öllum starfsferli hans varð nú unnt að koma auga á manninn á bak við verkin.
Allan áttunda áratug 20. aldarinnar málaði Andy Warhol allnokkurt magn af pöntuðum verkum fyrir þekkta auðmenn og málaði myndir af m.a. John Lennon, Lizu Minnelli og keisaranum af Íran, Muhammad Reza Pahlavi.
Jafnframt þessu gerði hann tilraunir með m.a. svokallaðar „pissumyndir“ sínar, þar sem ófyrirsjáanleg mynstur mynduðust á striga eða koparplötum eftir að hann hafði hellt þvagi yfir þær.
Mesta listaverk Andys Warhol
Steinþrykk Warhols af litmyndum af stórstjörnum voru bæði þá og nú afar eftirsótt.
Afkastageta Andys og sköpunargáfa hans létu mjög á sjá eftir morðtilræðið árið 1968 og popplistamaðurinn lést einungis 58 ára gamall úr hjartastoppi í gallblöðruaðgerð sem hann fór í árið 1987.
Listamaðurinn Andy Warhol sem kunni að sviðsetja sjálfan sig og þráði frægð, var hvort tveggja í senn, frumkvöðull og fyrirboði um þá þráhyggju sem sumir verða haldnir gagnvart frægum einstaklingum, auk þess að vera fyrirboði um þá áhrifavaldamenningu sem samfélagsmiðlarnir hafa alið af sér.
Eftir andlát Warhols hafa fundist rösklega 100.000 ljósmyndir á heimili hans sem sýndu alla mögulega þætti einkalífs hans, svo og listrænt starf um áratuga skeið.
Andy Warhol hefði án efa hrifist af óendanlegum tækifærum Internetsins til að koma sjálfum sér stöðugt á framfæri á sama tíma og það flokkast undir heppni að fá að lifa við nafnleynd í 15 mínútur.
Líkt og ljósmyndari Verksmiðjunnar, Nat Finkelstein, orðar það á einkar hnyttinn máta í heimildaþáttaröðinni „The Andy Warhol Diaries“ sem sýnd var á Netflix árið 2022:
„Fremsta listaverk Andys Warhol var Andy Warhol“.
“Empire” – 8 tíma kvikmynd frá Andy Warhol
Nánast ekkert gerist í “Empire”. Það sýnir tímann líða af stað í endalausri hægmyndatöku af Empire State byggingunni í New York.
Lesið meira um Andy Warhol
Andy Warhol (ritstj. Pat Hackett): The Andy Warhol Diaries, Warner Books, 1991 Blake Gopnik: Warhol: A Life as Art, Penguin Books Ltd, 2020