Nítján ára gamall maður kemur á bráðamóttökuna í Brooklyn í New York. Hann er langt niðri, sinnulaus og svartsýnn.
Hann segir að móðir sín hafi andast af völdum krabbameins fjórum árum áður og að hann áfelli sjálfan sig, allar götur síðan, fyrir að hafa ekki reynst henni betri sonur.
Maðurinn hafði áður verið lagður inn þar sem hann var greindur með alvarlegt þunglyndi en á öðru sjúkrahúsi síðar meir breyttist sjúkdómsgreiningin í áfallastreituröskun (PTSD).
Læknarnir á bráðamóttökunni höfnuðu því hins vegar að um þessa geðrænu kvilla gæti verið að ræða. Þeir voru sannfærðir um að ungi maðurinn þjáðist af „margbrotinni sorg“.
Sjúkdómsgreining þessi var alveg ný af nálinni en hún bættist ekki á lista Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) fyrr en árið 2022.
Sorg má líkja við beinbrot
Venjuleg sorg er að öllu jöfnu álitin vera eðlilegt ferli sem er okkur nauðsynlegt til að vinna úr ástvinamissi.
Hjá um 5-10% allra syrgjenda hverfur sorgin hins vegar ekki af sjálfu sér heldur varir hún við óbreytt, án þess að dvína, í hálft ár hið minnsta og oft miklu lengur. Meðal þessa fólks er sorgin orðin að sjúkdómi.
Einkenni margbrotinnar sorgar eru einhvers staðar miðja vegu milli einkenna hefðbundinnar sorgar og þunglyndis, þar sem einnig má greina eilitla áfallastreituröskun.
60% meiri hætta á að syrgjendur fái hjartasjúkdóm, auk þess sem hjartað getur beinlínis brostið af sorg.
Fræðimenn líkja muninum á venjulegri sorg og margbrotinni sorg við beinbrot. Hefðbundið beinbrot grær að öllu jöfnu af sjálfu sér en margþætt beinbrot krefst hins vegar aðstoðar læknis, eigi það að gróa rétt saman.
Líkt og við á um hefðbundið beinbrot sem grær á eðlilegan máta fer hefðbundin sorg einnig í gegnum nokkur meira eða minna vel skilgreind þrep áður en tekist hefur að vinna úr sorginni og unnt verður á nýjan leik að líta tilveruna björtum augum og leyfa sér að njóta lífsins að nýju.
Árið 1969 skilgreindi svissneski geðlæknirinn Elisabeth Kübler-Ross fimm þrep sorgar. Fræðimenn í dag telja skilgreininguna vera einfaldaða og ónákvæma en þó má segja að hún gefi hugmynd um þau tilfinningalegu viðbrögð sem margir ganga í gegnum.
Ef marka má Kübler-Ross neitar syrgjandinn fyrst í stað að horfast í augu við ástvinamissinn. Því næst fyllist hann gremju og reiði. Í þriðja þrepinu kennir hann sjálfum sér um allt það sem hann kom ekki í verk en að því loknu er hætt við að syrgjandinn sökkvi sér í vonleysi og að eins konar þunglyndi hellist yfir hann.
Meirihlutinn finnur fyrir lausn í fimmta þrepinu, þar sem horfst er í augu við missinn og unnt er að halda áfram. Sumir syrgjendur fara hins vegar út af sporinu undir lok ferlisins og liðið geta mörg ár áður en þeir hafa tök á að lifa með sorginni. Þessir tilteknu syrgjendur hafa þróað með sér margbrotna sorg.
Þannig má þekkja í sundur tvær gerðir af sorg
Margbrotin sorg er alvarlegri og aðgreinir sig frá hefðbundinni sorg í nokkrum atriðum en ástandið er engu að síður frábrugðið eiginlegu þunglyndi og veldur heldur ekki eins langvinnum sjúkdómseinkennum.
Hefðbundin sorg líður hjá
Varir: Stendur yfir í hálft ár hið mesta. Blossar oft upp í bylgjum.
Hugsanir: Að öllu jöfnu jákvæðar minningar. Syrgjandinn leitar í hluti sem minna á hinn látna.
Sektarkennd: Ræðst af eðli missisins en sektarkennd er að öllu jöfnu takmörkuð.
Daglegt líf: Sorgin hefur áhrif á daglegt líf fyrst í stað en slíkt rjátlast nokkuð fljótt af.
Sjálfsvígshugleiðingar: Sjaldséðar.
Margbrotin sorg festist rækilega
Varir: Lengur en hálft ár. Nokkuð óbreytt ástand.
Hugsanir: Stöðugar hugsanir um og þrá eftir þeim látna. Forðast að gera hluti sem laða fram minningar.
Sektarkennd: Sektarkennd vegna þess sem gert var eða ekki gert sem hefði getað haft áhrif á missinn.
Daglegt líf: Erfitt reynist að sinna starfi og leggja stund á félagsleg tengsl við vini og fjölskyldu.
Sjálfsvígshugleiðingar: Gera alloft vart við sig og þeim fylgja iðulega óskir um að fá að fylgja þeim látna.
Stöðugt þunglyndi
Varir: Getur staðið yfir allt frá fáum vikum yfir í nokkur ár og er stöðugt til staðar.
Hugsanir: Mikil depurð. Sá dapri getur ekki fundið fyrir gleði og skortir lífsviljann.
Sektarkennd: Almenn sektarkennd yfir að vera ódugandi og óæskilegur að eigin mati.
Daglegt líf: Þunglyndið torveldar að hægt sé að sinna starfi og viðhalda félagslegum tengslum við fjölskyldu og vini.
Sjálfsvígshugleiðingar: Nokkuð algengar og þeim fylgir ósk um að komast út úr vonleysi þunglyndisins.
Sumir fræðimenn styðjast við sjö þrep sorgarferlis og enn aðrir neita að viðurkenna að sorgin skiptist í ólík þrep en hvernig sem á allt þetta er litið er úrvinnsla sorgar einstaklingsbundin og ferlið ekki eitt og hið sama frá einum til annars.
Sumir syrgjendur virðast geta sleppt úr þrepi eða gengið í gegnum þrepin í annarri röð en aðrir en afar breytilegt er hversu löngum tíma hver og einn ver í hin ólíku þrep.
Fyrir bragðið er ástæðulaust með öllu að hafa áhyggjur þótt sorgarferlið hafi verið með öðru sniði en almenna ferlið.
Syrgjendur veikjast oft
Óháð því hvort syrgjendur ganga í gegnum hefðbundna eða margbrotna sorg þá er það eigin líkami sem verður fyrir barðinu á sorginni.
Áströlsk rannsókn leiddi t.d. í ljós að syrgjendur veikjast um það bil helmingi oftar en aðrir og eru sjaldnar alveg heilir heilsu en hinir.
5-10% allra syrgjenda skynja að sorgin minnkar ekkert næsta hálfa árið eða jafnvel mörg næstu árin.
Fjöldi veikindadaga á m.a. rætur að rekja til þess að sorgin veldur aukningu streituhormóns og setur líkamann í viðvarandi og íþyngjandi viðbragðsástand.
Sorgin bitnar verst á hjartanu og syrgjendum er t.d. 60% hættara við að veikjast í þessu lífsnauðsynlega líffæri en við á um aðra. Í versta falli getur farið illa og hjartað „brostið“ sem táknar að fólk deyr einfaldlega úr sorg.
Á fagmáli kallast þetta sjaldséða fyrirbæri streituvaldandi broddþensluheilkenni. Það gerir vart við sig ef sorg eða áfall veikir vegginn í vinstra hjartahólfi með þeim afleiðingum að veggurinn þenst út og kemur í veg fyrir að hjartað dæli blóði á eðlilegan hátt um líkamann.
Sorg bitnar á gjörvöllum líkamanum
Sorg er fyrst og fremst andleg viðbrögð sem einkennast af depurð og reiði en sorgin hefur jafnframt sínar líkamlegu hliðar sem geta leitt til ýmissa ólíkra sjúkdóma.
1. Ójafnvægi á ónæmiskerfinu
Sorg veldur aukningu þeirra boðefna í blóði, frumuboða sem hafa stjórn á ónæmiskerfinu. Þetta veldur óeðlilegum viðbrögðum ónæmiskerfisins og getur leitt til þess að við verðum móttækilegri fyrir sýkingum og bólgum.
2. Verkir magnast
Ef við þjáumst af verkjum í t.d. baki, liðamótum eða brjósti, er hætt við að sorg magni upp vandann. Tilraunir hafa leitt í ljós að þrálátir verkir virðast verða þrefalt verri eftir makamissi og þetta getur varað við svo árum skiptir.
3. Nætursvefninn skerðist
Svefntruflanir eru um tvöfalt algengari meðal syrgjenda en annarra. Syrgjendur eiga m.a. í basli með að sofna, þeir vakna upp um miðjar nætur og þurfa oftar að taka svefnlyf en aðrir. Að meðaltali hefur sorg af okkur um 1,5 klst. svefn á hverri nóttu.
4. Streitustigið hækkar
Framleiðsla nýrnahettnanna á streituhormóninu kortísóli eykst um 25 til 30% við ástvinamissi. Kortísól setur líkamann í viðbragðsstöðu og skerðir lífsgæðin. Streitustigið helst hátt í minnst hálft ár.
5. Hjartað slær örar
Missir ástvinar getur orsakað aukinn hjartslátt sem nemur um fimm aukalegum slögum á mínútu mánuðum saman og þetta kann að auka hættuna á alvarlegum hjartasjúkdómum um 14 prósent. Sorg leiðir jafnframt af sér hærri blóðþrýsting og eykur hættu á blóðtappa.
6. Þyngdartap
Syrgjendur missa iðulega matarlystina og ánægjan yfir gómsætri máltíð hverfur og þetta veldur 50% meiri hættu á þyngdartapi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að syrgjendur vega gjarnan 12 kg minna ári eftir makamissi en þeir vógu áður.
Sorg bitnar á gjörvöllum líkamanum
Sorg er fyrst og fremst andleg viðbrögð sem einkennast af depurð og reiði en sorgin hefur jafnframt sínar líkamlegu hliðar sem geta leitt til ýmissa ólíkra sjúkdóma.
1. Ójafnvægi á ónæmiskerfinu
Sorg veldur aukningu þeirra boðefna í blóði, frumuboða sem hafa stjórn á ónæmiskerfinu. Þetta veldur óeðlilegum viðbrögðum ónæmiskerfisins og getur leitt til þess að við verðum móttækilegri fyrir sýkingum og bólgum.
2. Verkir magnast
Ef við þjáumst af verkjum í t.d. baki, liðamótum eða brjósti, er hætt við að sorg magni upp vandann. Tilraunir hafa leitt í ljós að þrálátir verkir virðast verða þrefalt verri eftir makamissi og þetta getur varað við svo árum skiptir.
3. Nætursvefninn skerðist
Svefntruflanir eru um tvöfalt algengari meðal syrgjenda en annarra. Syrgjendur eiga m.a. í basli með að sofna, þeir vakna upp um miðjar nætur og þurfa oftar að taka svefnlyf en aðrir. Að meðaltali hefur sorg af okkur um 1,5 klst. svefn á hverri nóttu.
4. Streitustigið hækkar
Framleiðsla nýrnahettnanna á streituhormóninu kortísóli eykst um 25 til 30% við ástvinamissi. Kortísól setur líkamann í viðbragðsstöðu og skerðir lífsgæðin. Streitustigið helst hátt í minnst hálft ár.
5. Hjartað slær örar
Missir ástvinar getur orsakað aukinn hjartslátt sem nemur um fimm aukalegum slögum á mínútu mánuðum saman og þetta kann að auka hættuna á alvarlegum hjartasjúkdómum um 14 prósent. Sorg leiðir jafnframt af sér hærri blóðþrýsting og eykur hættu á blóðtappa.
6. Þyngdartap
Syrgjendur missa iðulega matarlystina og ánægjan yfir gómsætri máltíð hverfur og þetta veldur 50% meiri hættu á þyngdartapi. Rannsóknir hafa leitt í ljós að syrgjendur vega gjarnan 12 kg minna ári eftir makamissi en þeir vógu áður.
Þess ber að geta að ekki aðeins líkaminn, heldur einnig heilinn, verður fyrir áhrifum sorgar og þetta á einkum við um margbrotna sorg. Leitt hefur verið í ljós með heilaskimun að taugabrautir heilans breytast þegar hefðbundin sorg breytist í margbrotna sorg.
Árið 2020 skönnuðu spænskir vísindamenn heila heilbrigðra einstaklinga, svo og heila þeirra sem þjáðust af margbrotinni sorg, á meðan þátttakendurnir voru látnir horfa á myndir af kirkjugörðum, alvarlegum slysum og viðlíka sem allt gat leitt hugann að dauðanum.
Niðurstöðurnar leiddu í ljós að myndirnar löðuðu fram langtum meiri virkni í heilastöðvunum möndlu og gráhýði meðal þeirra sem þjáðust af sorg en báðar þessar stöðvar tengjast neikvæðum tilfinningum. Þeim mun alvarlegri sem sorgin var, því meiri varð virknin í þessum tveimur heilastöðvum.
Rannsóknir sýna fram á að það geta verið nokkrar góðar ástæður til að leyfa tárunum að renna niður kinnarnar þegar þið eruð ánægð, sorgmædd eða reið.
Þetta gefur til kynna að heilar þeirra sem þjást af margbrotinni sorg hafi tilhneigingu til að magna upp allar neikvæðar tilfinningar.
Ný meðhöndlun sefar sorgina
Sálfræðingur að nafni Mary-Frances O’Connor, við háskólann í Arizona sem er einn fremsti sérfræðingur á sviði margbrotinnar sorgar, hefur gert áþekkar tilraunir með heilaskimun þar sem hún bar saman heilastarfsemi kvenna sem hefðbundin sorg hrjáði annars vegar og kvenna sem þjáðust af margbrotinni sorg hins vegar, á meðan þær horfðu á myndir af látnum eiginmanni.
Niðurstöðurnar sýndu, svo ekki varð um villst, að myndirnar virkjuðu heilasvæði sem tengjast sársauka hjá báðum hópum en meðal kvennanna sem þjáðust af margbrotinni sorg virkjuðu myndirnar jafnframt umbunarstöðvar heilans.
Þegar konur sem þjást af margbrotinni sorg horfa á mynd af látnum eiginmanni virkjast verðlaunastöðvar heilans. Þetta bendir til þess að þær varðveiti óheilbrigða tengingu við látna manninn.
Bandaríski sálfræðingurinn túlkaði niðurstöðurnar á þann veg að í fólki sem þjáist af margbrotinni sorg sé búið að koma á taugatengingum í heila sem torveldi þeim hinum sömu að gleðjast yfirleitt.
Þar sem þessir einstaklingar geti ekki horfst í augu við ástvinamissinn og verið raunsæir gagnvart nýju aðstæðunum, verði þeir áfram tilfinningalega tengdir einstaklingi sem þeir aldrei eiga eftir að berja augum meir.
Eftir að vísindamönnum tókst að skilgreina kvillann með heiti hefur til allrar hamingju tekist að greina sjúkdóminn af meiri nákvæmni og að beita áhrifamikilli meðferð sem felst í tiltekinni gerð sállækninga.
Meðferð þessi kallast PGDT (viðvarandi sorgarkvilli) en hún var þróuð af geðlækninum Katherine Shear við Columbia háskóla í Bandaríkjunum. Í meðferðinni er stuðst við þá kenningu að sorg sé ofur eðlilegt og heilbrigt ferli sem líði hjá sjálfkrafa ef syrgjandinn stöðvar ferlið ekki sjálfur.
Í alls 16 samtalsmeðferðartímum er sá sem verið er að meðhöndla ítrekað látinn horfast í augu við sorgina með því að segja frá því hvernig ástvinurinn lést en jafnframt þessu lærist viðkomandi að einblína á sín eigin persónulegu markmið og vensl.
Flestir syrgjendur horfast í augu við ástvinamissinn og halda lífinu áfram og með réttri meðhöndlun getur þeim sem þjást af margbrotinni sorg tekist það.
PGDT hefur reynst gera helmingi meira gagn en aðrar almennari gerðir sállækninga og þess má geta að klínískar rannsóknir Katherine Shear sjálfrar hafa leitt í ljós að alls 70% þeirra sem þjáðst hafa af viðvarandi sorgarkvilla svo árum eða áratugum skiptir, ná verulegum bata eftir einungis fjögurra til fimm mánaða meðhöndlun.
Nýleg flokkun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) á margþættri sorg sem sérstakri sjúkdómsgreiningu hefur gagnast læknum og sálfræðingum við að greina á milli þeirra tilvika þar sem gera má ráð fyrir að sorgin gangi yfir á eðlilegan hátt og þeirra tilvika þar sem hún hefur náð föstum tökum á hinum sorgbitna og þarfnast meðferðar.