Eftir 100 ára siglingar kola- og síðar dísilknúinna skipa, snúa seglskipin nú aftur með talsvert breyttu sniði. Sænskir verkfræðingar eru að þróa stærsta seglskip heims eftir nýrri hugmynd sem byggist á fimm seglum sem eru í lögun svipuð og flugvélavængir.
Skipið á að heita Oceanbird og fara á flot strax árið 2024. Fyrsta verkefnið verður að sigla yfir Atlantshaf. Nú annast um 450 skip flutninga á þessari leið og brenna um 40.000 tonnum af olíu á degi hverjum.
Þegar það verður fullbúið árið 2024 verður hið 200 metra Oceanbird stærsta skipið sem er knúið með vindi.
Oceanbird verður 12 daga á leiðinni. Það er lengri tími en olíuknúnu skipin þurfa en á móti sparast 90% af þeim gróðurhúsalofttegundum sem olíuknúið skip blæs upp í loftið.
7.000 bíla á seglskipið Oceanbird að geta flutt yfir Atlantshaf í hverri ferð. Í góðum byr tekur ferðin 12 daga.
Seglskipið verður 32.000 tonn að þyngd, 200 metra langt og 40 metra breitt og seglin formuð í hylki líkt og sjónauki og hægt að renna þeim saman og sundur.
Seglin lækkuð undir brúm
Í fullri hæð ná seglin 80 metra upp úr skipinu og í 105 metra hæð yfir sjávarborði. Í lægstu stöðu verður samanlögð hæð skipsins hins vegar aðeins 45 metrar. Svo mikið verða seglin aðeins lækkuð í hávaðaroki og svo þegar sigla þarf undir brýr.
Seglin á skipinu Oceanbird eru formuð eins og flugvélavængir. Þau eru líka í hlutum sem hægt er að fella hvern niður í annan og geta þannig náð 45-100 metra yfir hafflötinn.
Að smíðinni standa fyrirtækið Wallenius Marine, ráðgjafarstofan SSPA og Konunglegi tækniháskólinn í Stokkhólmi.
Að sögn er erfiðasti hluti hönnunarinnar fólginn í því að fá skrokkinn og seglin til að mynda eina heild gagnvart lögmálum loftaflfræðinnar og ná þannig mesta mögulegum hraða.
Myndskeið: Sjáðu hvernig segl skipsins virka:
Seglin verða gerð úr stáli og blöndunarefnum og hægt verður að snúa þeim heilan hring, þannig að alltaf verði unnt að nýta vindinn eins og best verður á kosið. Hámarkshraðinn verður 10 hnútar eða um 19 km/klst.
Skipið verður búið varavél sem mögulega verður rafknúin. Hana á þó einunigs að nota þegar snúa þarf skipinu á litlu svæði og t.d. sigla inn í eða út úr höfn.