Í glóandi heitu gasskýi, að minnsta kosti 24 ljósár í þvermál, eru heimkynni mörg hundruð nýmyndaðra stjarna.
Óríonþokan er aðeins 1.350 ljósár héðan og nálægasta geimþoka sem við þekkjum. Svæðið er þess vegna eitt af þeim mikilvægustu að kanna til að átta sig á því hvernig stjörnur verða til.
Þótt tilvist þessarar þoku hafi verið ljós allt síðan 1610, varðveitir hún enn óteljandi leyndardóma.
En með tilkomu James Webb-sjónaukans höfum við loksins náð að sjá alla leið inn í hjarta þessarar stjörnuverksmiðju og myndirnar sem sjónaukinn hefur tekið eru að sögn vísindamanna þær skörpustu og nákvæmustu sem náðst hafa.
James Webb-sjónaukinn kostaði um 10 milljarða dollara og í honum eru m.a. 18 gullhúðaðir speglar sem gegna hlutverki nokkurs konar augna í geimnum. Samtals er flatarmálið 25 fermetrar og því margfalt meira en í gamla Hubble-sjónaukanum þar sem flatarmál speglanna er 4,5 fermetrar.
Vísindamenn trúðu vart eigin augum
Myndin er samsett úr fjórum mismunandi síum og tekin með innrauðum myndavélum sjónaukans en innrautt ljós nær í gegnum hið þétta ský úr ryki og gasi, þar sem stjörnurnar myndast.
Þetta er mikil framför frá Hubble-sjónaukanum sem einungis nýtir sýnilegt ljós og greinir því alls ekki himinhnetti eða form sem leynast í Óríonþokunni eða að baki hennar.
Snið af innviðum Óríonþokunnar séð með Hubble-sjónaukanum (til vinstri) og James Webb-sjónaukanum (til hægri). Hér sést greinilega hversu vel næmar, innrauðar myndavélar James Webb-sjónaukans ná í gegn um þykk ryklög og greina daufari stjörnur djúpt inni í Óríonþokunni.
„Við trúðum varla okkar eigin augum þegar við sáum þessar ótrúlegu myndir. Við hófum þetta verkefni 2017 þannig að við höfum beðið eftir þessum gögnum í fimm ár,“ segir Els Peeters sem er stjarneðlisfræðingur hjá Westernháskólanum í London og einn vísindamannanna sem stóðu að myndatökunni.
Á að auka þekkinguna á okkar eigin sólkerfi
Myndin sýnir litla sneið af innri hluta Óríonþokunnar, þar sem sjá má þykkan, brúnleitan skýjabakka úr ryki og gasi. Þetta ský teygir sig alveg frá efri hluta myndarinnar hægra megin og út að hægri jaðrinum á neðri hluta hennar.
Lítill hluti Óríonþokunnar séður með innrauðum myndavélum James Webb-sjónaukans. Í þokunni eru nú þekktar meira en 700 stjörnur og fleiri bætast við.
Í miðjum skýjabakkanum er skærasta stjarnan á myndinni. Hún kallast θ2 Orionis A. Þótt stjarnan virðist skína skært á myndinni er hún ekki sýnileg með berum augum nema þar sem ljósmengun er alls engin.
Rauða glóðin kringum stjörnuna stafar af örsmáum rykkornum sem endurvarpa birtu hennar.
Jafnframt afhjúpar myndin stjörnur sem eru svo ungar að þær eru enn umluktar því gas- og rykskýi sem hefur skapað þær og vísindamenn gera sér einmitt vonir um að frekari greiningar á myndinni muni auka skilning á misjöfnum aðstæðum við misgamlar stjörnur.
Sólkerfið okkar gæti nefnilega hafa myndast við aðstæður ekki ósvipaðar þeim sem nú ríkja í Óríonþokunni. Ekki síst þess vegna vonast vísindamenn til að nýjar myndir frá James Webb-sjónaukanum geti aukið enn við þekkingu okkar á því hvernig sólin okkar og pláneturnar kringum hana urðu til.