Sumir lifa löngu og heilbrigðu lífi en aðrir eru ekki svo heppnir.
Líftími okkar ræðst af mörgum þáttum, og spurningin er hvaða þættir hafa mest áhrif á hversu hratt við eldumst, hvort við veikjumst og hvort við deyjum snemma?
Vísindamenn við Oxford-háskóla á Englandi hafa nú gert ítarlega greiningu á því hvað getur stuðlað að skemmri líftíma og komist að þeirri niðurstöðu að erfðir skipta ekki mestu máli – heldur eitthvað allt annað.
Góðu fréttirnar eru að, ólíkt erfðafræðilegum þáttum, er þetta eitthvað sem við sjálf getum haft áhrif á.
Nákvæm greining á gögnum frá nærri hálfri milljón manns úr stóra breska gagnabankanum sýnir að umhverfisþættir vega tífalt þyngra en erfðir þegar kemur að hættu á ótímabæru andláti.
Lífsskilyrði okkar og lífsstílsval hafa því mikil áhrif á heilsu, öldrun og áhættu á langvinnum sjúkdómum.
“Þó að erfðir skipti miklu máli þegar kemur að heilahrörnunarsjúkdómum og sumum tegundum krabbameins, sýna niðurstöður okkar að hægt sé að draga úr hættu á langvinnum sjúkdómum í lungum, hjarta og lifur – sem eru helstu orsakir örorku og dauða á heimsvísu,” segir prófessor Cornelia van Duijn í fréttatilkynningu.
Gætum breytt flestu
Vísindamennirnir greindu 164 umhverfisþætti, eins og saltneyslu og hjúskaparstöðu, og komust að því að 85 þeirra tengdust aukinni áhættu á ótímabæru andláti.
Þar á meðal voru þættir eins og atvinnustaða móður, tekjur heimilisins og hvort móðirin reykti á meðgöngu. Af þessum 85 þáttum voru 25 teknir til enn ítarlegri greiningar með tilliti til líffræðilegrar öldrunar.
Hundaeistu, ungt blóð, saur og ævagamlar bakteríur – vísindamenn hafa á ýmsum tímum gert furðulegustu tilraunir í leit sinni að uppsprettu eilífrar æsku.
Þegar vísindamennirnir báru saman umhverfis- og erfðaþætti, kom í ljós að um 50% af breytileikanum í áhættu á ótímabæru andláti mátti rekja til aldurs og kyns.
Hinir 25 umhverfisþættir skýrðu viðbótar 17%. Erfðafræðileg tilhneiging gagnvart 22 algengum sjúkdómum útskýrði innan við 2%.
Það mikilvægasta er að hægt er að vinna með 23 af þessum 25 áhættuþáttum – sem þýðir að við getum, að hluta til, breytt aðstæðum okkar og lífstíl og því beinlínis haft áhrif á heilsu og langlífi.