Lifandi Saga

Stríðsrekstur Hitlers á lestarteinum 

Reichsbahn skiptir sköpum fyrir nasista í síðari heimsstyrjöldinni. Lestirnar tryggðu mikilvægan árangur í herförinni en þær ruddu einnig brautina fyrir myrkasta kafla í sögu stríðsins. Einungis var hægt að framkvæma helförina gegn gyðingum með liðsinni Reichsbahn.

BIRT: 13/11/2024

Djúpar drunurnar sem nálgast boða ekkert gott. Þjóðverjinn Willy Reinshagen er dag einn í júní 1944 að vinna að viðgerð á lestarbrú ásamt vinnuflokki sínum, þegar hann heyrir hvernig sprengjuflugvél nálgast óðum við franska bæinn L´Agile.

 

Í 120 km fjarlægð höfðu Bandamenn nokkrum dögum áður hafið landgöngu á ströndum Normandí og síðan þá hafa lestarteinarnir í norðanverðu Frakklandi verið daglegt skotmark þeirra.

 

„Skömmu síðar rigndi sprengjunum yfir okkur. Skelfingu lostnir hentumst við niður í skurðina eða út á akrana í von um að halda lífi, meðan helvíti var sleppt lausu“, skrifaði Reinshagen síðar í endurminningum sínum.

 

Sprengingarnar tæta upp jörðina og sjö félagar Reinshagens úr vinnuflokki hans láta þar lífið.

 

Dauðinn er stöðugt nálægur í síðari heimsstyrjöldinni meðal verkfræðingaherdeildanna sem er ætlað að sjá til þess að flutningar Þjóðverja á hermönnum, birgðum og búnaði gangi hnökralaust fyrir sig.

 

Járnbrautanetið í Þýskalandi – sem teygir sig einnig yfir öll hernumdu lönd Þjóðverja – skiptir sköpum fyrir þrótt og skriðþunga allra herdeildanna á vígstöðvunum.

 

Það er einmitt þess vegna sem Bandamenn og andspyrnuhreyfingin í Frakklandi leggja alla áherslu á að stöðva lestaferðirnar, því útkoma stríðsins getur ráðist af lestarteinunum – rétt eins og raunin er þennan júnídag.

Endalausir þýskir lestarvagnar fluttu milljónir hermanna og margvíslegan búnað til vígstöðvanna.

Reichsbahn var hjartað í ríkinu

Þjóðverjar höfðu löngu fyrir fyrri heimsstyrjöldina áttað sig á mikilvægi járnbrautanna í mögulegum átökum framtíðar.

 

„Byggið ekki fleiri virki, leggið járnbrautir!“ hafði hinn víðfrægi marskálkur Helmuth von Moltke krafist þegar árið 1843.

 

Þegar Frakkland og Rússland gengu í hernaðarbandalag árið 1891 brugðust Þjóðverjar við með því að framkvæma einhverja mestu uppbyggingu innviða í Evrópuríki til að mæta þessari ógn.

 

Í staðinn fyrir jarðföst og óhagganleg virki lögðu þýskir hershöfðingjar megináherslu á skilvirkar samgöngur járnbrautanna til þess að geta flutt herafla, búnað og vistir til átakasvæða á ótrúlega skömmum tíma.

 

Þessi fjárfesting átti sannarlega eftir að borga sig. Einungis 12 dögum eftir að fyrri heimsstyrjöldin braust út höfðu þýskar lestir flutt ríflega 2,1 milljón hermanna og 600.000 hesta til víglínanna.

„Byggið ekki fleiri virki, leggið járnbrautir!“
Þýski marskálkurinn Helmuth von Moltke.

Þrátt fyrir ágæti járnbrautanna, þá lutu Þjóðverjar í lægra haldi í fyrri heimsstyrjöldinni. En þeir gleymdu aldrei mikilvægi járnbrautanna í hernaðinum.

 

Þegar önnur heimsstyrjöld vofði yfir tók Adolf Hitler fulla stjórn á öllum þýskum járnbrautum og nefndi þær Deutsche Reichsbahn – þýsku ríkisjárnbrautirnar.

 

Lestarteinanetið varð meðan á stríðinu stóð bókstaflega að æðakerfi Þriðja ríkisins sem dældi hermönnum, skotfærum og öðrum búnaði til vígstöðvanna, meðan hráefni frá hernumdum löndum var flutt til Þýskalands.

 

Þegar veldi Hitlers reis hvað hæst hafði hann yfir að ráða 180.000 km af brautarteinum, 63.000 eimreiðum, 240.000 farþegavögnum og 1,6 milljónum af gripavögnum.

 

Fjöldi starfsmanna í Reichsbahn var meira en 2 milljónir. – auk hermannanna sem, eins og Willy Reinshagen, voru skipaðir vélstjórasveitum.

 

Og mörg þúsund lestir sönnuðu gildi sitt strax í upphafi seinni heimsstyrjaldar.

Eftir valdatökuna árið 1933 hóf Hitler mikla uppbyggingu á Reichsbahn sem einnig fékk spánýtt merki nasista.

Á fullum dampi til Póllands

Fyrsta verkefni Reichsbahn í stríði nasista var að hertaka Pólland.

 

Meira en 200 eimreiðar byrjuðu í ágúst 1939 að flytja hersveitir með miklum hraði og á næstu dögum fram að sjálfri innrásinni var 1.700 lestum bætt við í innrásina.

 

Innrásarherinn faldi sig í 13.800 farþegavögnum og 171.600 flutningavögnum. Þökk sé Reihcsbahn gátu 1,6 milljón hermenn hertekið vesturhluta Póllands á einum mánuði en í kjölfarið lögðu Sovétmenn undir sig austurhluta Póllands nokkru síðar.

 

Nokkrum dögum fyrir innrásina hafði forstjóri járnbrautanna, Julius Dorpmüller, stappað stálinu í starfsmenn sína.

 

„Ágæta þýska starfsfólk mitt! Við stöndum öll staðföst – og með óhagganlegri drottinhollustu – að baki Foringjanum í baráttunni fyrir stórbrotinni framtíð ríkis okkar“, hljóðuðu skilaboðin frá Dorpmüller sem var jafnframt samgöngumálaráðherra Þýskalands.

 

Bardagarnir höfðu leikið pólsku járnbrautirnar afar illa en í fyrstu létu Þjóðverjar sprengjum rigna yfir lestarstöðvar og teina en síðan voru það Pólverjar sem orsökuðu enn frekari skemmdir á lestarkerfinu í von um að tefja framsókn Þjóðverja. Tilkynnt var um meira en 25.000 meiriháttar skemmdir á pólskum lestarteinum og stöðvum.

 

MYNDSKEIÐ: Þýsk áróðursmynd sýnir framleiðslu á stríðslestum 

Í stríðinu framleiddi Nasista-Þýskaland nokkrar áróðurskvikmyndir til að sýna hversu mikilvægar stöðugar sendingar nýrra stríðslesta voru í stríðinu.

Leifturstíð með lestum

Eftir að Þjóðverjar höfðu lagt undir sig Danmörku, Noreg, Holland, Belgíu og Frakkland stórefldust yfirráð þeirra á lestarteinum og stöðvum yfir gríðarlega mikilvæg landsvæði.

 

Frá Þýskalandi gat Reichsbahn nú ekið lestum sínum hindrunarlaust í Þriðja ríkinu. En áætlanir Hitlers voru í raun langtum stórbrotnari.

 

Með mikilli leynd unnu meira en 30.000 starfsmenn járnbrautanna að því að tvöfalda bolmagn lesta Þjóðverja í Póllandi haustið 1940 á hersetnum svæðum.

 

Að þessu gríðarlega umfangsmikla verki loknu í júní 1941 rúlluðu daglega eftir sex helstu járnbrautarlínunum 220 eimreiðar með fulla vagna af hermönnum til austurlandamæranna, þar sem Sovétríkin höfðu lagt undir sig sinn skerf af Póllandi samkvæmt samningnum milli þeirra og Þjóðverja.

Þýskir stjórnmálamenn gátu ekki sameinast um lausnir á gríðarlegum vanda Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöld og kauphallarhrunið á Wall Street. Hitler fann leið til að nýta sér vantraust almennings gagnvart stjórnmálamönnum og náði völdum 1933. Skömmu síðar var lýðræðið afnumið.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins 1941 ferðuðust u.þ.b. 3 milljónir þýskir hermenn í 33.000 lestarferðum, auk 3.000 skriðdreka og 7.000 fallbyssa – stærsta framrás sögunnar með járnbrautum.

 

Lestarvagnarnir voru dulbúnir sem borgaralegir flutningavagnar og njósnarar Stalíns urðu einskis varir. Þegar nasistar réðust síðan á Sovétmenn þann 22. júní1941, þá kom árásin Sovétmönnum gersamlega í opna skjöldu og herdeildir nasista náðu ótrúlega miklum landsvæðum á sitt vald það sem eftir leið sumars.

„Við erum nú þegar búin að brjóta óvininn á bak aftur“.
Adolf Hitler í ræðu árið 1941.

Hernaðaráætlun Þjóðverja gekk út á að ná sem fyrst valdi á helstu borgunum. Frá þeim átti síðan að endurtaka farsæla framvindu hernaðar úr fyrri heimsstyrjöldinni, þar sem þýskar hersveitir stigu einfaldlega um borð í lestirnar og gátu þannig hertekið miklu fleiri rússneska bæi út frá járnbrautarstöðvum.

 

En nú blasti við Þjóðverjum áður óþekktur vandi: Um 90.000 km brautarteinakerfi Sovétmanna hafði á dögum keisarans verið lagt með breiðara spori. Millibil lestarteinanna voru 1.524 mm en ekki 1.435 mm eins og raunin var í mestum hluta Evrópu.

 

Til að komast hjá því vandaverki að smíða nýjar eimreiðar fyrir þessa sporvídd hófust þýskir verkfræðingar handa við að endurleggja mörg þúsund kílómetra af lestarteinum.

 

„Þetta var mikið vandaverk. Fyrst þurfti að draga út naglana og síðan færa annan teininn 89 mm nær hinum og festa síðan niður rækilega“, minntist Willy Reinshagen sem var einungis 19 ára gamall þegar hann var sendur til austurvígstöðvanna til að vinna við viðgerðir á járnbrautunum.

 

Í ræðu einni í október 1941 gortaði Hitler sig af því að hafa náð að endurbyggja 15.000 km af brautarteinum Sovétmanna:

 

„Við erum nú þegar búin að brjóta óvininn á bak aftur“, staðhæfði Foringinn glaðhlakkalegur.

 

En Rússar voru alls ekki á sama máli. Sporvíddin var nefnilega hreint ekki eini vandi nasistanna.

Kriegslok 52-eimreiðin vó um 100 tonn og var fjöldaframleidd í stríðinu. Myndin er úr þýskri áróðursmynd frá árinu 1943. 

Ódýrar eimreiðar brunuðu til austurs 

Stríðsrekstur Þjóðverja krafðist þess að útbúin væri sérstök stríðslest sem væri ódýr í framleiðslu og gæti einnig þolað fimbulkulda Rússlands. 

 

Veturinn 1941 – 1942 gerði Þjóðverjum ljóst að þeir þurftu á nýrri gerð lesta að halda á austurvígstöðvunum. Gömlu eimreiðarnar gátu ekki þolað fimbulkuldann í Sovétríkjunum.

 

Lausnin fólst í nýju ofurlestinni Kriegslok 52 sem var sérstaklega hönnuð til að þola mikinn kulda. Þannig voru gufu- og vatnsleiðslur færðar nær katlinum og upphitun á stimplunum tryggði að þeir myndu ekki frjósa fastir. 

 

Kriegslok 52 átti auk þess að vera ódýr og skjót í framleiðslu. Fjölmargir íhlutir, eins og öxlar, voru fjöldaframleiddir. 

 

„Smíðistíminn var minnkaður um 6.000 vinnustundir“, mátti lesa í hernaðartímaritinu Die Wehrmacht

 

Á árunum 1942 til 1945 framleiddu þýskar lestarverksmiðjur 6.303 Kriegslok 52 eimreiðar sem gátu flutt 1.200 tonn og haldið meðalhraða sem nam 65 km/klst. 

Á innan við þremur árum smíðuðu Þjóðverjar yfir 6.000 Kriegslok 52 eimreiðar. Á árinu 1943 einu saman smíðuðu þýskar verksmiðjur 4.533 eimreiðar af öllum gerðum.

Þrautaganga beið Þjóðverja

Járnbrautastarfsmenn og þýskir hermenn höfðu ærinn starfa næstu daga á herteknum sovéskum landsvæðum árið 1941 við að fragta ógrynni af herfangi með flutningalestum heim til Þýskalands.

 

Það sem eftir leið árs var 140.000 tonnum af korni, 290.000 tonnum af kartöflum og 20.000 tonnum af kjötmeti staflað í ótal vagna og allt þetta endaði síðan í þýskum eldhúsum.

 

En afar bágborið lestarteinakerfi Rússa kom í veg fyrir mun meiri afrakstur, enda þoldi undirlag teinanna ekki viðlíka þyngdir á flutningavögnum á löngum köflum. Slíkar þyngdir flutningavagna þekktust einfaldlega ekki í Sovétríkjunum.

 

Við þetta bættist að víðsvegar voru aðeins einspora-teinar og því þurfti að byggja hliðarspor til þess að lestar gætu ekið í báðar áttir.

„Við getum ekki tapað þessu stríði vegna samgönguvandamála.”
Hitler við stjórn Reichsbahn í maí 1942.

Þessar tafir gerðu Hitler ævareiðan.

 

„Við getum ekki tapað þessu stríði vegna samgönguvandamála. Þetta verður að leysa!“ tilkynnti Hitler stjórn Reichsbahn í maí 1942.

 

Refsing við hvers konar sleifarlagi gat verið miskunnarlaus. Á þessu ári lét Hitler sem dæmi tvisvar sinnum taka af lífi tvo háttsetta embættismenn fyrir dugleysi við lestarflutninga í Úkraínu. Þetta var grimmileg áminning um að menn þyrftu nú að vinna nótt sem nýtan dag til að halda lífi.

 

Þegar hausta tók stóðu Þjóðverjar frammi fyrir ennþá ægilegri áskorun, enda voru herir þeirra þá komnir til Stalingrad og nú var meira en 2.500 km fjarlægð milli Berlínar og austurvígstöðvanna.

 

„Þar sem við vorum undir gríðarlegri tímapressu urðu borgaralegir nágrannar að leggja sitt af mörkum“, skrifaði Reinshagen sem ásamt herdeild sinni þvingaði íbúana í þrælkunarvinnu til að klára smíði á brú yfir Donetsfljótið til að tryggja að lestirnar næðu til Stalíngrad. 

 

Þessar gríðarlegu fjarlægðir torvelduðu verulega birgðaflutninga, ekki síst vegna mikilla og útbreiddra skemmdarverka. Undir lok ársins réðu Þjóðverjar yfir 41.000 kílómetrum af sovéskum brautarteinum en þrátt fyrir mikla vöktun var ekki hægt að verja alla teinana. 

Eftir því sem á leið stríðið þurftu Þjóðverjar að skipa fleiri varðmönnum á lestirnar sem skæruliðar réðust stöðugt á, einkum á austurvígstöðvunum.

Til að bregðast við þessu voru sumar lestir útbúnar með eigin verkfræðingasveitum sem var ætlað að gera við skemmdarverk á lestarteinum eins hratt og kostur var. Á aðeins einni nóttu í ágúst 1943 eyðilögðu skæruliðar nærri Minsk lestarteina á 8.522 stöðum. 

 

Einnig var ráðist á lestarstöðvarnar. Árið 1943 settu skæruliðar segulsprengjur undir einn lestarvagninn í bænum Osipovichi norðan við Minsk. Sprengingin orsakaði kveðjuverkun sem eyðilagði 33 eldsneytisvagna, 65 skotfæravagna, 8 Tiger-skriðdreka og fimm eimreiðar. 

 

„Í fyrsta sinn hefur skæruliðum tekist að valda okkur miklum skaða af áður óþekktu umfangi með eyðileggingu birgðaflutninga okkar“, staðfesti Heeresgruppe Mitte skekin í einni skýrslu. Mitte var annar tveggja hersöfnuða á austurvígstöðvunum.

Skæruliðar réðust á þýskar lestir nótt sem nýtan dag. 

Þýska lestarkerfið var í stríðinu eitt helsta skotmark skæruliða sem og herdeilda Bandamanna. Þúsundir af þýskum hermönnum urðu því að vakta lestarteina og stöðvar en hvorki vöktun né aftökur gátu hindrað skemmdarverkin. 

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Gyðingaflutningar skapa ringulreið 

Árið 1943 réð Þriðja ríkið samanlagt yfir meira en 180.000 km af járnbrautum. Umferðin var gríðarlega mikil og áætlanir riðluðust oft, ekki síst vegna ofsókna nasista á gyðingum.

 

Fram undir lok ársins 1941 voru 3,5 milljónir gyðinga fluttar með lestum í bágborin gettó og ári síðar tóku nasistar upp kerfisbundna útrýmingarherferð á gyðingum. 

 

Á þeim tímapunkti var gríðarlega mikið álag á lestarflutningum í austri en Hitler gat einungis framkvæmt áætlun sína með aðstoð Reichsbahn.

 

Reichsbahn naut hins vegar góðs af þessum gyðingaflutningum sem voru unnar í samvinnu við SS og samgönguráðuneytið. Í fyrstu – þegar margir vagnar með þriðja farrými voru lagðir undir flutningana – þurftu gyðingarnir sjálfir að borga fargjaldið. 

 

Nasistar útskýrðu að hér væri einungis um að ræða „flutninga til að fá vinnu í austri“.

 

Gjaldið fyrir miða aðra leiðina fyrir fullorðna var fjórir pfennigar, börn milli 10 og 12 ára fengu helmingsafslátt á meðan stúlkur og drengir undir fjögurra ára fengu ókeypis ferð. Reichsbahn og SS deildu ágóðanum á milli sín. 

 

Umfang gyðingaflutninga jókst enn frekar og í janúar 1943 vildi SS-foringinn Heinrich Himmler hraða þeim enn frekar. 

 

„Ef okkur á að takast það, þá þurfum við fleiri lestir. Útvegið mér fleiri lestir“, skrifaði Himmler hastur til forkólfa Reichsbahn. 

1,1 milljón Gyðinga borguðu miða fyrir aðra leiðina til Auschwitz. 

Helförin var einvörðungu framkvæmanleg vegna Reichsbahn. Frá öllum landshornum í Þriðja ríkinu fluttu dauðalestir Hitlers um þrjár milljónir gyðinga til fangabúða. Um 1,1 milljón gyðinga og annarra óæskilegra manna voru keyrðar beint í helstu útrýmingarbúðir nasista, Auschwitz. 

 

Evrópa 1943 – 1944

Dökkgrátt: Þýskaland nasista
Blátt: Bandamenn Þjóðverja
Grænt: Bandamenn
Drapplitað: Hlutlaus lönd
Appelsínugult: Víglínan 1944
Hauskúpa: Útrýmingarbúðir
Stjarna: Helstu járnbrautalínur
Hvítar örvar: Stærri flutningaleiðir

 

Smelltu á mynd til að sjá hana stærri með lýsingu

Með allt að 55 gripavagna gátu eimreiðarnar nú rétt svo flutt allan mannskarann – og var þá stappað í hvern einasta flutningavagn. 

 

„Við vorum meira en 100 manns í gripavagninum og eina hreinlætisaðstaðan fólst í tveimur blikkfötum. Það var óbærilega loftlaust og heitt og við vorum við það að kafna“, minntist Leo Schneiderman sem árið 1944 var fluttur frá gettói í Łódz til útrýmingarbúðanna í Auschwitz með gripavagni. 

 

Gyðingar þurftu reyndar ekki að kaupa miða fyrir ferðina með gripavögnum en Reichsbahn kvartaði ekki. Stjórn nasista tók á sig kostnaðinn með taxta sem samsvaraði því að gyðingar ferðuðust með þriðja farrými og allt að 5.000 ferðalangar í hverri lestarferð á leiðinni urðu þess valdandi að Reichsbahn malaði gull á helförinni. 

 

En gyðingaflutningarnir áttu eftir að verða kostnaðarsamir fyrir þýsku stríðsvélina. Þrátt fyrir að gyðingaflutningar hefðu lægsta forgang í lestarferðum – oft þurftu lestirnar hlaðnar gyðingum að bíða á hliðarspori svo dögum skipti – seinkaði mikilvægum lestum með nýjum búnaði og vistum til vígstöðvanna mikið. 

 

Og nú þegar aðstæður gátu nánast ekki orðið verri opnaðist ný víglína þegar Bandamenn gengu á land á Sikiley. 

Um 1,1 milljón fórnarlamba endaði lífið í Auschwitz sem var með sína eigin lestarstöð.

Lestunum snúið suður

Innrásin í júlí 1943 var skipulögð til að létta á baráttu Sovétmanna gegn Þjóðverjum og aðgerðin heppnaðist vel. Hitler þurfti nú sem snarast að senda herdeildir og búnað suður á bóginn. 

 

En risastórum þýskum járnbrautarfallbyssum eins og Krupps K5 með 283 mm sprengjum tókst ekki að koma í veg fyrir að Bandamenn næðu í land á ítalska fastalandinu haustið 1943.

 

Nú voru Þjóðverjar komnir í verulega erfiða stöðu, ekki síst á járnbrautarlínunum.

 

„Sprengjuflugvélar réðust á brýr, göng, lestarstöðvar og öll opin svæði á meðan orrustuflugvélar eltu uppi lestir og eimreiðar“, minntist einn starfsmaður Reichsbahn, Karl Eugen Hahn. 

 

Bandamenn gengu síðan á land í Normandí þann 6. júní 1944 og sprengjuregnið dundi nú á þýskum járnbrautarlínum. Fáeinum dögum eftir innrásina fékk Willie Reinsagen – sem áður hafði verið sendur til austurvígstöðvanna frá Vestur-Frakklandi – að kenna á árásinni á brúna í L´Agile sem kostaði sjö félaga hans lífið. 

Sprengjuárásir Bandamanna rústuðu fjölmörgum lestum Þjóðverja árið 1944.

Bandamenn herjuðu á lestir Hitlers

Skömmu fyrir innrásina í Normandí hófu Bandamenn heiftarlegar árásir á járnbrautir í Frakklandi, til þess að Þjóðverjar gætu ekki komið varaliði sínu á vígstöðvarnar. 

 

Einn liður í landgöngu Bandamanna í Normandí fólst í svonefndri Transport-áætlun Breta og Bandaríkjamanna sem átti að hindra Þjóðverja í að sækja meiri liðsafla til norðvesturhluta Frakklands.

 

Vorið 1944 hófu bandarískar sprengiflugvélar að sprengja lestarstöðvar, vöruskemmur og verkstæði í borgum eins og Le Mans, Laon og Amiens nærri Normandí. 

 

Alls rigndi niður 26.200 tonnum af sprengjum á þýsku járnbrautirnar fram að D-degi þann 6. júní 1944 en þá var frekari árásum beint gegn lestarstöðvum nærri ströndinni ásamt brúm og helstu tengipunktum lestarkerfisins lengra inni í landinu. Þessi aðgerð heppnaðist vel, eins og fram kemur í þýskri skýrslu frá 13. júní 1944:

 

„Árásirnar hafa orsakað algjört niðurbrot á öllum aðalflutningaleiðum okkar og strandvarnir eru nú ekki lengur í neinum tengslum við birgðaflutninga frá baklandinu“.

 

Bandamenn voru einnig harla sáttir við Transport-áætlunina og áhrif hennar á herflutninga Þjóðverja. „Hermennirnir neyddust til þess að taka á sig miklar krókaleiðir og þurftu að flytja vistir, vopn og annan farm með vörubílum, hestakerrum, reiðhjólum og jafnvel fótgangandi hermönnum frá París“, stóð í skýrslunni. 

Hlutverk Reinsagen í vestri var að fylgjast með strategískum járnbrautatengingum en þetta var ömurlegt verkefni fyrir þennan 21 árs gamla nýliða, því járnbrautarkerfið í Frakklandi var undir stöðugum sprengjuárásum. 

 

Verkfræðingadeildir voru nú skyndilega í mikilli lífshættu og það sama átti við eimreiðastjóra og annað starfsfólk lestanna. Engu að síður sinnti það skyldum sínum dyggilega samkvæmt eigin stríðsfréttaritara Reichbahn árið 1944: 

 

„Við sáum sama baráttuanda og í austri. Þrátt fyrir heiftarlegar sprengjuárásir sem tættu upp teinana og sendu eimreiðavagnana niður í djúpa gíga og þrátt fyrir vélbyssuárásir frá lágfleygum flugvélum héldu hjól lestanna áfram að rúlla“.

 

Þetta sama ár fraktaði Reichsbahn – þrátt fyrir allar árásirnar – hvorki meira né minna en 3,7 milljarða farþega og 625 milljón tonn af vörum ýmis konar.

 

En þýskum járnbrautum fossblæddi. Lágfleygar orrustuflugvélar Bandamanna leituðu uppi eimreiðar sem voru tættar í sundur í kúlnaregni. 

 

Til þess að verja eimreiðarnar var komið fyrir meiri brynvörnum á þeim og eins í kringum staði þar sem starfsfólk þurfti að sinna starfi sínu.

 

Jafnframt voru sérstakir vagnar útbúnir með loftvarnabyssum til að verja lestarnar gegn árásum. En þetta dugði ekki til. Reichsbahn var að kikna undan álaginu. 

Þjóðverjar komu örvæntingarfullir loftvarnarbyssum fyrir á járnbrautarvögnum til að verjast loftárásum Bandamanna.

Hættulegasti óvinurinn kom af himnum

Til þess að verja járnbrautirnar gegn flugvélum Bandamanna komu Þjóðverjar fyrir loftvarnarbyssuvögnum sem var ætlað að verjast árásum þeirra. 

 

Lestir Reichbahns með herdeildir, birgðir og eldsneyti voru lífsnauðsynlegar fyrir stríð nasista. Það var auðveldasta verk í heimi fyrir Bandamenn að fylgja eftir lestarsporunum þar til þeir fundu sjálfa lestina.

 

Því urðu Þjóðverjar að verja dýrmætan farm sinn með því að tengja svokallaða loftvarnarvagna við lestina. 

 

Þjóðverjar komu að jafnaði fyrir þremur slíkum vögnum í halarófunni – einum að baki sjálfri eimreiðinni, öðrum í miðjunni og enn öðrum aftast. Loftvarnarvagnarnir voru oftast útbúnir með 20 mm fallbyssum en hermennirnir gátu aðeins hafst við í helmingi vagnsins.

 

Varðmenn á hvorum enda lestarinnar fylgdust með öllum aðsteðjandi ógnum. 

 

„Öllu loftvarnarliði ber að vera ævinlega viðbúið“, mátti lesa í þýskri handbók. 

 

Þjóðverjar nýttu einnig sérhannaða loftvarnarvagna með öflugri fallbyssum en ekki var hægt að skjóta úr þeim á meðan lestin var á ferð. Slíkum vögnum var því komið fyrir á mikilvægum stöðum þar sem erilsamt var og eins til að verja sérstaklega verðmætan farm. 

Leifarnar af Reichsbahn hurfu

Dag eftir dag árið 1945 þurftu Þjóðverjar að láta landsvæði af hendi og með framrás Rauða hersins á þýskum hersetnum svæðum í austri börðust járnbrautirnar nú í örvæntingu við að flytja borgara og hermenn í austri á undanhaldinu. 

 

Alls voru fimm milljónir þýskra borgara fluttar með lestum. Meðal þeirra var hinn 12 ára gamli Engelbert Köhler og fjölskylda hans sem í mars 1945 komst um borð í yfirfulla flutningalest í Slesíu. 

 

„Næstum allar lestarstöðvar voru fullar af flóttafólki“, minntist Engelbert. 

„Lestin stöðvaðist og við þurftum að flýja út í kúlnaregnið“.
Tólf ára Engilbert Köhler um árás á flóttamannalest. 

Sneisafullir vagnarnir rúlluðu fram hjá því það var ekki pláss fyrir fleiri. Skyndilega, nærri Prag, gerðu bandarískar orrustuflugvélar árás. 

 

„Lestin stöðvaðist og við þurftum að flýja út í kúlnaregnið“, minntist Engelbert en fjölskylda hans lifði allar þessar hremmingar af gegn öllum líkum. 

 

Þýsku lestirnar áttu ekki möguleika gegn orrustuflugvélum bandamanna 

Horfðu á bandarískar orrustuþotur ráðast á þýskar lestir í seinni heimsstyrjöldinni.

Á meðan járnbrautarnetið minnkaði stöðugt fengu Willie Reinshagen og margir aðrir nýliðar ný verkefni. Reinshagen var fluttur yfir í fótgönguliðadeild og hélt í mars 1945 aftur til austurvígstöðvanna.

 

Í stað þess að berjast fyrir lífi Reichsbahn lagði Hitler nú áherslu á að óvinurinn skyldi ekki fá að njóta járnbrautarkerfis hans á hernumdum svæðum. 

 

„Allar eimreiðar, farþega- og gripavagna ber að gjöreyðileggja“, mátti lesa í svonefndri Neró-tilskipun hans þann 19. mars 1945. 

 

Það voru þó alls ekki allir sem sinntu þessari skipun. Fram að uppgjöfinni gátu bandamenn náð á sitt vald 9.000 þýskum eimreiðum og 100.000 flutningavögnum. Það var síðan um miðjan apríl sem lestarsamgöngur hrundu endanlega og þar með var stríðinu í raun lokið fyrir Reichsbahn.

 

Þrír fjórðu af lestum og lestarkerfi Þýskalands var ónýtt. 

 

Willie Reinshagen náði einnig á sinn endastað um vorið 1945. Þá 22 ára gamall var hann tekinn til fanga af Rússum þann 19. maí 1945 eftir að hafa barist fyrir Reichsbahn í langan tíma. 

 

Það verður að teljast kaldhæðnislegt að hann var fluttur í fangabúðir í austurhluta Sovétríkjanna eftir sömu brautarteinum sem hann hafði átt þátt í að leggja þremur árum áður. 

 

„Ég gat ekki lengur þolað hræðilegt kvæsið frá eimreiðunum meðan þær keyrðu yfir endalausar víðáttur Sovétríkjanna“, skrifaði Reinshagen sem fyrst þremur árum síðar gat snúið aftur heim til Þýskalands. 

Að stríði loknu enduðu meira en 2.100 Kriegslok 52 lestir sem herfang í Sovétríkjunum þar sem þær voru í notkun á næstu áratugum.

Lestu meira um Reichsbahn

Reinshagen: Von Stalingrad in die Normandie, GeraMond, 2012

 

A. Gottwaldt: Deutsche Eisenbahnen im Zweiten Weltkrieg, Kosmos, 1983

 

A. Mierzejewski: The Most Valuable Asset of the Reich, University of North Carolina Press, 2000.

 

HÖFUNDUR: Troels Ussing - Niels-Peter-Granzow Busch

© Archiv für Zeitgeschichte/SZ Photo/Ritzau Scanpix,© Interfoto Imageselect/INTERFOTO HERMANN HISTORICA GmbH/Imageselect ,© Sueddeutsche Zeitung Photo/Alamy Stock Photo/Imageselect ,© arkivi/akg-images,© Mondadori Portfolio/Heinrich Hoffmann/Bridgeman Images,Getty Images ,© Alamy/Mirrorpix, Trinity Mirror/Mirrorpix/Imageselect,© Michael Foedrowitz/akg-images

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Lifandi Saga

Hve marga Rómana drápu nasistar? 

Maðurinn

Hvaða tilgangi gegna líkamshár mannsins?

Náttúran

Hvernig myndast El Ninjo?

Lifandi Saga

Blóðsúthellingar og kynlíf: Íslendingar skrifuðu ævintýrasagnfræði

Heilsa

Óþekktar lendur heilans kortlagðar

Alheimurinn

Missýningar og veðurfyrirbæri skapa fljúgandi diska.

Heilsa

Epla- eða perulögun? Líkami þinn kemur upp um hættuna á ótímabæru andláti

Alheimurinn

Ráðgáta sólkerfisins verður leyst á tunglunum 

Lifandi Saga

Allir hræddust miskunnarlausa böðla

Náttúran

Af hverju verður fólki ekki kalt í framan?

Jörðin

Af hverju spúa eldstöðvar ösku?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.