Okkur finnst það e.t.v. hálfkjánalegt þegar við sjáum almenning í menguðum borgum eins og í Peking og Hong Kong með grímur þegar það fer út undir bert loft. En það er síður en svo heimskuleg hugmynd því að loftmengun inniheldur öragnir sem festast í lungnavef sem geta dregið úr vörnum aldraðra gegn t.a.m. öndunarfærasýkingum.
Mengun vegna útblásturs bíla og eldgosa
Það sem gerist er að örsmáar agnir frá t.d. útblæstri bíla, iðnaðarmengun, skógareldum, eldgosum o.fl. frásogast í sogæðavef lungna. Þessi tegund loftmengunar er einnig kölluð svifryksmengun. Samkvæmt rannsókn sem unnin var af vísindamönnum frá Columbia háskóla getur svifryksagnir safnast saman í lungunum og haft hörmulegar afleiðingar fyrir varnir lungnanna sjálfra.
„Ef eitlar safna nægilega miklu magni af þessum ögnum geta þeir að lokum ekki sinnt starfi sínu,“ segir Elizabeth Kovacs, sem er frumulíffræðingur og rannsakar bólgur og vefjaskemmdir við háskólann í Colorado Anschutz Medical Campus í Aurora í Bandaríkjunum.
Eitlar stíflast
Í eitlum eru meðal annars ónæmisfrumur, sem kallast átfrumur, sem gleypa bakteríur og ýmsa aðskotahluti eins og þessar litlu agnir í loftmenguninni. Þegar kirtlarnir fyllast af þessari ögnum minnkar náttúruleg seyting þeirra á cýtókínum, sem eru prótein sem hjálpa til við að virkja aðrar ónæmisfrumur.
Því geta átfrumurnar ekki lengur tekið upp meiri mengun. Það er samsetning þessara tveggja þátta sem endar með því að lama ónæmiskerfi lungnanna.
Ný vitneskja á tengslum loftmengunar og lungnakrabbameins hefur breytt skilningi vísindamanna á því hvernig krabbameinsfrumur verða til.
Vísindamennirnir sem unnu rannsóknina greindu eitlavef úr lungum 84 líffæragjafa á aldrinum 11-93 ára. Enginn þeirra reykti eða hafði reykt. Útfrá greiningum sínum gátu vísindamennirnir séð hvernig svifryk jókst stöðugt í eitlum í lungnavef eftir því sem fólk varð eldra.
Vaxandi ógn
Samkvæmt rannsókn þeirra mun eldra fólk hafa safnað svo mikilli loftmengun að það getur einfaldlega ekki geymt meira og það hindrar getu líkamans til að verjast frekari mengun.
„Mengun er viðvarandi og vaxandi ógn við heilsu og lífsviðurværi jarðarbúa,“ segja fræðimennirnir í grein sinni. Þess má geta að dánartíðni af völdum öndunarfærasýkinga hjá fólki eldri en 75 ára er 80 sinnum hærri en hjá yngri fullorðnum og því er mikilvægt að hafa góða lungnavörn.