Sjón
Augunum má líkja við myndavél. Sjáaldrið stýrir ljósmagni sem berst inn í augað og linsa augans beinir ljósinu í fókus á nethimnuna innst í auganu. Á nethimnunni eru meira en 100 milljón ljósnæmar frumur sem kallast stafir og sex milljón svonefndar keilur sem greina rautt, blátt og grænt ljós sem að samanlögðu mynda alla liti sem við sjáum.
Lyktarskyn
Lyktarskynið er sérstætt að því leyti að taugar frá nefinu liggja beint í frumstæðar heilastöðvar sem nefnast randkerfið. Þessar heilastöðvar tengjast frumstæðum grundvallartilfinningum svo sem ótta, kynhvöt og hungurtilfinningu auk minnis. Þetta er trúlega ástæða þess að tiltekin lyktarefni leysa oft úr læðingi minningar og sterkar tilfinningar – í mun meira mæli en önnur skynhrif.
Heyrn
Heyrnarboð verða til þegar bifhár eyrans þýða þrýstibylgjur í lofti í hljóð. Það er hlutverk eyrans og heilans í sameiningu að umbreyta stærð og tíðni hljóðbylgnanna í styrk og tón og samtímis reiknar heilinn út hvaðan hljóðið kemur. Stefnan er reiknuð á grundvelli hins örsmáa tímamunar milli þess sem hljóðið berst hvoru eyra fyrir sig. Við getum greint tímamun allt niður í 1/10.000 af sekúndu.
Bragðskyn
Í bragðlaukum í tungunni eru skynjarar sem bregðast við efnasameindum í matnum. Bragðlaukarnir eru um 10.000 talsins og um þúsund skynjarar eru í hverjum og einum. Fræðilega séð ættum við því að geta greint milljónir bragðhrifa en í rauninni er bragðskyn okkar ekkert sérstaklega gott en það bætir talsvert úr skák að lykt hefur líka áhrif og lyktar- og bragðskyn vinna vel saman.
Ég hef heyrt að trefjaríkt jurtafæði auki gasframleiðslu þarmanna hjá grænmetisætum. Er það rétt, eða prumpa kjötætur alveg jafn mikið?
Snertiskyn
Skynfrumur senda heilanum upplýsingar um það sem gerist við hörundið eða í líkamanum, svo sem þrýsting, tog, hreyfingu, hitastig og sársaukaáhrif. Slíkar skynfrumur eru um allan líkamann, flestar á húð á höndum, fótum og í andliti en færri í innri líffærum. Tilfinningaskynið kemur okkur líka að góðu haldi við að forðast sköddun og klæða okkur í samræmi við tíðarfar og hitastig.
Líkamsskyn
Skynhrif frá vöðvum og liðum halda heilanum stöðugt upplýstum um stöðu allra líkamshluta. Okkur er því t.d. alltaf fullkomlega ljóst hvar fæturnir eru og hvort munnurinn er opinn eða lokaður.
Jafnvægisskyn
Jafnvægisskynið heldur heilanum upplýstum um jafnvægið, hvort heldur við sitjum, göngum, stöndum á höfði eða erum að missa jafnvægið. Lítil, vökvafyllt bogagöng í eyranu greina hreyfingar höfuðsins og stöðu þess í samanburði við þyngdaraflið og breytingar á hraða hreyfinganna. Ef jafnvægisskynið virkar ekki fullkomlega rétt getur okkur svimað og orðið óglatt.