Vísindamenn gefast ekki upp í viðleitni sinni til að komast að því hvers konar líferni sé heppilegast til að ná háum aldri.
En nú kemur í ljós að lykillinn að háum aldri leynist kannski í líkamanum.
Vísindamenn við Duke-NUS-háskólann í Singapore hafa rannsakað virkni vel þekkts prótíns, interleukin-11.
Þegar þeir prófuðu að loka fyrir virkni prótínsins kom í ljós að þá aðgerð kynni að mega nota bæði til að lengja ævina og auka á heilbrigði.
Þetta skrifa vísindamennirnir að minnsta kosti í fréttatilkynningu um rannsóknina, sem birtist í hinu virta vísindatímariti Nature.
Prótín orsök öldrunar
Fyrstu rannsóknir á prótíninu leiddu í ljós að í sumum líffærum fór magn þess hækkandi með aldrinum. Af því leiðir aukin fitusöfnun í lifur og kviðarholi ásamt því sem vöðvar rýrna.
Hvort tveggja segja vísindamennirnir dæmigert fyrir öldrun.
Þessar athuganir voru gerðar á músum og að þeim loknum voru mýsnar meðhöndlaðar með efni sem virkaði hamlandi á prótínið og það reyndist draga úr þeim skaðlegu breytingum sem almennt fylgja öldrun.
Efnið kallast anti-interleukin-11 og vísindamennirnir segja það stöðva ákveðna virkni sem vex með hækkandi aldri. Nánar tiltekið lengdi meðferðin líftíma músa af báðum kynjum um allt að 25%.
Meðferð með anti-interleukin-11 breytir hvítri fitu í brúna sem er sú gerð fitu sem brýtur niður fitusameindir, viðheldur líkamshita og brennir kaloríum, segja vísindamennirnir í fréttatilkynningu.
Bandarískir og kínverskir vísindamenn hafa reiknað út að tvær tegundir tilfinninga virðast auka öldrun hraðar en reykingar.
Heilbrigð elli
Vísindamennirnir gátu líka greint hvernig vöðvavirkni og almennt heilsufar fór batnandi hjá þeim músum sem fengu anti-interleukin-11.
Hliðstæð meðferð er nú þegar einnig notuð í klínískum rannsóknum sem eiga að leiða í ljós möguleg áhrif á lungnakrabba að sögn vísindamannanna.
Þeir binda nú vonir við að rannsóknirnar geti bætt verulega við þekkingu manna og með tíð og tíma kannski nýst eldra fólki til að komast hjá sjúkdómum og verða heilbrigðari í ellinni – einkum í þeim samfélögum þar sem lífaldur fer nú mjög hækkandi.