Fæstir ná að lifa heila ævi án þess að þurfa til tannlæknis, annað hvort til að fá gert við tannskemmdir eða draga út endajaxla.
Tannskemmdir eru meðal helstu tannhirðuvandamála nú og voru það líka fyrir rúmum þúsund árum, þegar fjölbreytt fæði, kjöt, brauð, hnetur og mjöður, gat bitnað á tönnunum.
Það þurfti talsvert þróaðar aðgerðir til að vinna bug á tannskemmdum. Þetta sýnir rannsókn sem gerð var við Gautaborgarháskóla.
Hópur vísindamanna rannsakaði tennur og kjálka úr alls 171 einstaklingi frá víkingaöld, nánar tiltekið frá 10. og 12. öld.
Samtals voru rannsakaðar 3.292 tennur sem fundust við uppgröft við steinkirkju kristinna og í kirkjugarði að baki klausturkirkjunni Varnhem á Vestur-Gautlandi. Tennurnar voru rannsakaðar undir sterku ljósi með nútíma tannviðgerðaráhöldum. Röntgenrannsóknir voru líka gerðar.
Niðurstöðurnar gefa til kynna að um helmingur íbúanna hafi sloppið við tannskemmdir en 49% hafi fengið einhvers konar tannskemmdir og rúm 4% fengið sýkingar af þeirra völdum. Að meðaltali voru 13% fullorðinna með skemmdar tennur og oft við tannræturnar en tennur barna, bæði mjólkur- og fullorðinstennur voru alheilbrigðar.
Fullorðnir höfðu að meðaltali misst um 6% af tönnum sínum og þá eru endajaxlar ekki meðtaldir. Útdregnum tönnum fjölgaði með hækkandi aldri.
A) Slit á miðframtönnum. B) Notkun tannstöngla við framtennur í neðri gómi. C) Niðurslípun holu við augntönn til að létta á þrýstingi vegna sýkingar. D) Slípaðar framtennur. E) Breytt miðtönn vegna sýkingar.
Háþróuð tannlæknaþjónusta
En tennurnar sem fundist í Varnhem sýndu einnig merki þess að íbúarnir hefðu hirt um tennur sínar.
„Þess voru mörg dæmi að fólk hefði hirt um tennurnar, m.a. sáust dæmi um notkun tannstöngla, slípun framtanna og jafnvel meðhöndlun sýktra tanna,“ segir Carolina Bertilsson hjá Gautaborgarháskóla.
Vísindamennirnir fundu líka ummerki eftir enn þróaðri tannlækningar, þar sem skemmdir höfðu verið slípaðar af augntönnum alveg niður að tannholdinu – sennilega til að létta á þrýstingi frá alvarlegri sýkingu.
„Það er mjög spennandi að sjá þetta og það er ekki ósvipað þeirri meðhöndlun sem við veitum nú,“ segir Carolina Bertilsson.
Ef marka má vísindin bursta flestir tennurnar á röngum tíma.
„Víkingar virðast hafa haft þekkingu á tönnum en við vitum ekki hvort þeir gerðu þetta sjálfir eða fengu utanaðkomandi hjálp.“
Eftir rannsóknina telja vísindamennirnir ljóst að tannhirða hafi verið mikilvægur þáttur í menningu þessa tíma og tannhirða útbreiddari en talið hefur verið.