Maðurinn

Vinirnir bjarga lífi þínu

Þakkið fyrir vini ykkar því án þeirra eykst hættan á ótímabæru andláti. Þakkið jafnframt fyrir nef ykkar því það er sennilega nefið sem hefur hjálpað ykkur að þefa uppi bestu vinina.

BIRT: 03/10/2023

Ímyndið ykkur að þið standið úti í horni í veislu sem ykkur í raun langaði ekkert að fara í. Þið gerið árangurslausar tilraunir til að spjalla við fólk en eigið ekkert sameiginlegt með hinum gestunum.

 

Þá gerist allt í einu eitthvað. Þið rekist á einhvern sem hlýtur fulla athygli ykkar. Þið hafið aldrei hitt viðkomandi fyrr en skynjið samt sem áður eitthvað undarlega kunnuglegt. Samtalið kemst á skrið og þið rabbið saman allt kvöldið.

 

Þetta minnir eilítið á ást við fyrstu sýn en samt eru engir ástarenglar á sveimi. Þið eruð einfaldlega bara í þann veginn að eignast vin. Vísindamönnum hefur nú í fyrsta sinn tekist að gera sér grein fyrir hvað það var sem fangaði athygli ykkar fyrst í stað, þetta litla smáatriði sem gerði það að verkum að nýi vinurinn virtist vera svo kunnuglegur.

 

Uppgötvun þessi er mikilvægur hlekkur í leit vísindanna að því hvernig vinátta myndast og hvaða áhrif hún hefur á líkama okkar.

 

Þetta vísindasvið kann að virðast hversdagslegt eða óþarft en ekkert er fjarri sannleikanum. Vinátta hefur gríðarleg áhrif á heilsu okkar og án vina væri líf okkar í raun og veru í hættu.

 

Vísindamaður telur vini okkar

Vísindamenn skipta félagslegu samneyti okkar gjarnan í þrjá hópa: fjölskyldumeðlimi, ástvini, svo og vini og kunningja.

 

Fjölskyldumeðlimir skipa stóran sess snemma á ævinni þar sem þeir eiga mikinn þátt í að móta okkur sem einstaklinga. Á unglingsárunum glata foreldrar og systkini smám saman sess sínum sem fyrirmyndir og þess í stað fara vinir og kunningjar að skipta meira máli fyrir ákvarðanir okkar.

 

Ástvinir uppfylla á fullorðinsárum grundvallarþarfir okkar fyrir náin kynni og traust. Ef sambandinu lýkur eru venslin oft endanlega rofin.

150 vini og kunningja ræður heilinn við, ef marka má vísindamanninn Robin Dunbar.

Vinátta er hins vegar sveigjanlegri og getur staðið yfir alla ævi af mismiklum styrk þó. Náin vinátta í grunnskóla getur t.d. gufað upp á unglingsárunum en síðan vaxið aftur af fullum krafti þegar líf vinanna er komið í fastar skorður, þeir fengið vinnu og stofnað fjölskyldu.

 

Vinafjöldi á heilli ævi er sennilega miklu hærri tala en við á um önnur vensl. Árið 1993 gerði breski mannfræðingurinn Robin Dunbar tilraun til að reikna út nákvæmlega hve marga vini við getum eignast.

 

Hann komst að raun um samhengi milli heilastærðar hjá prímötum og fjölda dýra í hjörð þeirra. Miðað við þessar upplýsingar tókst honum að reikna út að við mennirnir getum átt í þýðingarmiklu og traustu sambandi við 150 einstaklinga.

 

Um það bil fimm þeirra eru mjög nánir vinir, tíu eru góðir vinir, 35 eru bara vinir og afgangurinn aðeins kunningjar.

Ef marka má mannfræðinginn Robin Dunbar má skipta félagslegu samneyti í nokkur lög. Við erum fær um að bera kennsl á u.þ.b. 1.500 einstaklinga. Þar af heyra um 500 til vina eða kunningja. Af þeim eru 150 reglulegir kunningjar eða vinir. Í síðastefnda hópnum eru 50 sem við tengjumst vináttuböndum og 15 nánir vinir. Aðeins fimm þeirra eru mjög nánir vinir.

Munurinn á góðu vinunum tíu og þeim fimm bestu felst í því hversu miklu við erum tilbúin til að fórna fyrir hvert annað.

 

Við finnum fyrir samkennd í garð góðra vina og hughreystum þá, þegar á móti blæs, með orðum eða gjörðum sem ekki krefjast of mikils af okkur sjálfum. Hins vegar hjálpum við bestu vinunum þó svo að það feli í sér að okkar eigin þarfir og hagsmunir þurfi að víkja.

 

Niðurstöður Dunbars eru að sjálfsögðu enginn algildur sannleikur og fjöldi þeirra sem við myndum félagsleg tengsl við getur verið breytilegur frá einum til annars.

 

Sama máli gegnir um nánd. Sem dæmi má geta þess að þeir sem eru mannblendnir og opinskáir eiga oft margra vini sem eru þó ekki eins nánir vinir og ella en þeir sem eru ómannblendnir og dulir eiga oftar fáa en hins vegar nána vini.

 

Lykillinn að vináttu

Náin vinátta einkennist oft af sérlegum þáttum. Þessu komst félagsfræðingurinn Reuben Thomas að raun um árið 2019 þegar hann lagði spurningalista fyrir alls 1.077 Bandaríkjamenn. Hann bað þátttakendurna um að svara ýmsum spurningum um þá vini sem þeir vörðu flestum frístundum sínum með.

 

Niðurstöðurnar leiddu í fyrsta lagi í ljós hvernig stofnað hafði verið til vináttunnar. Á unga aldri gerðist þetta mestmegnis í grunnskóla og öðrum menntastofnunum en fullorðnir eignast hins vegar oftast bestu nýju vinina á vinnustað. Þeir sem eldri eru eignuðust sína nýju, nánu vini helst í nágrenninu eða gegnum sjálfboðavinnu.

Við kynnumst iðulega nýju fólki gegnum aðra vini eða kunningja á lífsleiðinni. Á unga aldri gerist þetta oft gegnum foreldrana en á fullorðinsárum myndast ný vinátta oft gegnum börnin.

 

Niðurstöður Reubens Thomas leiddu enn fremur annað í ljós. Aðeins 13 prósent af allri vináttu sem myndast snemma á ævinni er milli barna og unglinga af ólíkum kynþætti. Hlutfallið eykst upp í 23% meðal fullorðinna en tilhneigingin er þessi: Við vingumst fyrst og fremst við fólk sem líkist okkur.

Vinátta er vanabindandi

Minni hormónastarfsemi og virkar heilastöðvar þegar við eignumst nýja vini, hrinda af stað ýmsum líffræðilegum ferlum sem við að lokum verðum háð.

 

1. Hormónaskortur ýtir undir vináttumyndun

Minna magn af karlhormóninu testósteróni og streituhormóninu kortisóli eykur líkurnar á að við tengjumst vináttuböndum. Ef hormónamagnið heldur áfram að minnka þegar við kynnumst nýjum einstaklingi er vinátta í þann veginn að verða til.

 

2. Heilastöð leiðir af sér gleði og samkennd

Vináttan styrkist þegar samneyti við nýja vininn virkjar möndlu heilans, drekann og verðlaunakjarnann. Virkni þessara heilastöðva einkennist af jákvæðum tilfinningum, sameiginlegum góðum minningum og mikilli samkennd.

 

3. Við verðum háð vináttu

Vinir virkja miðlægan hluta af verðlaunakjarna heilans, nucleus accumbens. Þetta veldur ekki einungis ánægju tengdri samveru, heldur myndast einhvers konar fíkn sem gerir það að verkum að við þráum að hittast aftur.

Niðurstöðurnar eru í samræmi við bandaríska rannsókn frá árinu 2001 sem leiddi í ljós að kynþáttur skiptir meginmáli fyrir hverja við vingumst við.

 

Í næsta sæti er svo að finna aldur og jafnvel smávægilegur aldursmunur virðist skipta máli.

 

Í 72% allra vinasambanda karla var aldursmunurinn innan við átta ár og aðeins tvö ár aðgreindu vinina í 38% tilvika. Við þetta má bæta að við höfum tilhneigingu til að velja vini meðal þeirra sem eru með sömu menntun og svipað starf og við sjálf.

 

Nú hafa nýlegar rannsóknir jafnframt sýnt fram á að við eigum ýmislegt annað sameiginlegt með vinum okkur, jafnvel þætti sem ekki liggja í augum uppi.

 

Vinir okkar lykta

Árið 2022 tók taugasálfræðingurinn Philip Shaw heilasneiðmyndir af alls 125 grunnskólanemendum sem sumir hverjir voru bekkjarfélagar og tengdust hver öðrum vináttuböndum í mismiklum mæli.

 

Sneiðmyndirnar leiddu í ljós að því nánari vinir sem börnin voru, þeim mun meiri líkindi voru með heilastarfsemi þeirra í þeim heilastöðvum sem tengjast félagslegri hegðun.

 

Shaw gerir sér í hugarlund að líkindin í heilastöðvunum tákni að börnin bregðist við á svipaðan hátt í félagslegu samhengi.

 

Það eru svo þessi líkindi í félagslegri hegðun sem hann telur stuðla að nánari vináttuböndum meðal barnanna.

125 hollensk skólabörn voru sett í segulómtæki til að kanna hvort heilanetin ráði því við hverja við vingumst.

Annar sameiginlegur þáttur meðal vina kom verulega á óvart en þetta kom í ljós í rannsókn sem gerð var árið 2022. Ísraelski taugalíffræðingurinn Noam Sobel hafði uppi á 20 vinapörum sem höfðu verið vinir að meðaltali í sex ár og þar sem stofnað hafði verið mjög hratt til vináttunnar í fyrsta skipti sem einstaklingarnir tveir hittust.

 

Þessir alls 40 vinir fengu hver um sig bómullarbol sem þeim var ætlað að klæðast tvær nætur í röð til þess að bolurinn tæki í sig líkamslykt hvers og eins. Því næst létu vísindamennirnir svokallað rafeindanef greina lyktarefnin úr bolunum fjörutíu.

LESTU EINNIG

Niðurstöðurnar leiddu í ljós miklu meiri líkindi á að tveir vinir væru með sömu lykt en við átti um tvo ókunnuga.

 

Þetta táknar með öðrum orðum að þeir sem við vingumst tiltölulega hratt við séu með sömu líkamslykt og við sjálf.

 

Noam Sobel hafði áður tekið myndir með falinni myndavél sem leiddu í ljós þann ávana okkar að þefa af hægri hendi eftir að hafa heilsað öðrum með handabandi. Þetta telur vísindamaðurinn vera til marks um að við beitum nefinu í leit okkar að nýjum vinum.

 

Þegar við finnum fyrir fyrirvaralausri tengingu við ókunnugt fólk kann það að stafa af því að við höfum orðið þess áskynja að þeir lykta líkt og við sjálf, án þess þó að við beinlínis gerum okkur grein fyrir þessu.

 

Vinátta ræðst á veirur

Óháð því hvað hefur leitt okkur og vini okkar saman, eiga vinirnir einlægar þakkir skildar. Þeir eru nefnilega ein helsta ástæða þess að við yfirleitt erum á lífi.

 

Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós að vinátta skiptir sköpum fyrir líkamlega og andlega heilsu okkar.

 

Vinátta er t.d. talin gagnast um 50% betur til að draga úr streitu en við á um líkamsrækt, auk þess að ljá okkur jákvæða sýn á lífið.

 

Áhrifin af vináttu hafa djúpstæð áhrif á líkama okkar. Þegar sálfræðingurinn Sheldon Cohen lét rösklega þúsund manns smitast af kvefveiru árið 2005 komst hann að raun um að einungis 34% af þeim vinamörgu veiktust, miðað við 61% þeirra sem fáa vini áttu.

 

Tilraunir sem gerðar voru í kjölfarið sýndu að þeir sem áttu stóran vinahóp urðu síður veikir því ónæmiskerfi þeirra var sterkara en ella.

Traustir vinir gagnast okkur alla ævi

Góð vinátta gagnast ekki einungis heilsu okkar. Góðir vinir sjá enn fremur til þess að við spjörum okkur betur í skóla, í starfi og í útivistinni.

Fjöll virðast lækka

Tilraunir hafa leitt í ljós að brött brekka virðist langtum síður brött ef við höfum vin okkur við hlið. Í raun réttri verður brekkan strax meira aflíðandi ef við hugsum um vininn og því nánari sem vinurinn er, þeim mun minni halli finnst okkur vera á brekkunni.

Ávinningurinn eykst

Í fyrirtækjum þar sem góð vinátta hefur skapast meðal starfsmanna verða 36% færri slys en í öðrum fyrirtækjum, 12% meiri hagnaður og 7% fleiri ánægðir viðskiptavinir en gengur og gerist í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru síður vinir.

Einkunnir hækka

Nemendur sem eiga góða vini meðal bekkjarfélaganna spjara sig að öllu jöfnu betur en ella. Gerð var tilraun í bandarískum grunnskóla sem leiddi í ljós að vinamörgu nemendurnir voru í hópi þess fjórðungs nemenda sem fengu hæstu einkunnirnar í stærðfræði og lestri.

Vinirnir vernda að sama skapi heila okkar. Heilinn skreppur saman með aldrinum og þetta bitnar að öllu jöfnu á andlegri getu en þeir sem hafa nægilega marga til að tala við geta hins vegar forðast þróunina.

 

Ein tiltekin rannsókn afhjúpaði t.d. að þó svo að góður hlustandi geti ekki komið í veg fyrir að heilinn skreppi saman þá geti vináttan gagnast heilanum til að bæta upp fyrir heilafrumumissinn. Þannig getur andleg geta haldist óbreytt, auk þess sem minni hætta verður á að viðkomandi þrói með sér sjúkdóminn alsheimer.

 

Enn skýrari niðurstöður fengust úr svokallaðri safngreiningu árið 2010. Þar var safnað saman niðurstöðum úr alls 148 rannsóknum, þar sem fylgst hafði verið með rösklega 300.000 þátttakendum um árabil. Greiningin gerði uppskátt að traust félagslegt net með mörgum vinum sem við verjum miklum tíma með, eykur um 50% líkurnar á að við höldum lífi næstu 7,5 árin.

 

Þetta eitt ætti að verða okkur hvatning til að þefa uppi marga nýja vini næst þegar okkur leiðist í veislu.

HÖFUNDUR: GORM PALMGREN

Shutterstock,© Shutterstock & Lotte Fredslund,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Menning

Hverjir höfðu fasta búsetu í Machu Picchu?

Lifandi Saga

Hitler var á efnum alla seinni heimsstyrjöld

Jörðin

Af hverju virðist Grænland álíka stórt og Ástralía?

Lifandi Saga

Hversu góðir vinir eru Kína og Rússland? 

Náttúran

Greind í heimi dýranna

Alheimurinn

Hér eru sannanirnar fyrir Miklahvelli

Náttúran

Nýfundin risaeðla með furðu smáa framlimi

Lifandi Saga

Veislubúningar varðmanna Nixons aðhlátursefni

Náttúran

Hvað eru doppleráhrif?

Spurningar og svör

Af hverju eru sítrónur súrar?

Maðurinn

Hvernig framleiðir líkaminn orku úr fæðunni?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.