Krabbamein getur átt upptök sín nánast í hvaða líffæri sem er og er næstalgengasta dánarorsök fólks á heimsvísu.
Krabbamein hefst þannig að ein af um 50 billjón frumum líkamans tekur að hegða sér óeðlilega og þverskallast við því grundvallarboðorði að deyja ef galli kemur upp. Þess í stað verður fruman ofvirk og skiptir sér hömlulaust og það gera dótturfrumur hennar líka.
En nú hafa vísindamenn hjá háskólum í Kaliforníu og Indiana gert uppgötvun sem kynni að gera kleift að ráðast gegn þessum frumuverksmiðjum úr tveimur áttum.
Getur aukið árangur
Læknar ráða nú þegar ýmsum vopnum í baráttunni við krabbamein.
Meðal hinna nýjustu er svonefnd T-frumu-meðferð en þá eru ónæmisfrumur, svokallaðar T-frumur eftir genagræðslu notaðar til að ráðast beint á krabbafrumurnar.
Þetta getur einkum gagnast vel gegn blóðkrabba. Meðferðin hefur þó líka skilað nokkrum árangri gegn æxlum sem t.d. vaxa í lungum, meltingarvegi, höfði og hálsi eða í lifrinni.
Uppgötvun bandarísku vísindamannanna kynni nú að geta bætt þann árangur.
Í rannsóknastofu sinni tókst þeim að finna lítinn prótínlykil sem bindur sig við sérstakan viðtaka, nefndan CD95 sem er að finna á yfirborði krabbafrumna.
Gæti verið mikilvæg bylting fyrir meðferðina
Þegar prótínið virkjar þessa viðtaka getur það sett af staða keðjuverkun efnaboða sem koma krabbafrumunni til að fremja sjálfsmorð. Þessi „dauðaviðtaki“ hefur lengi verið í sigtinu í baráttunni en tilraunir til að virkja hann ekki skilað árangri.
Nú gera vísindamennirnir sér vonir um að með uppgötvun þess prótínlykils sem virkjar viðtakann hafi þeir náð að stíga afgerandi skref í baráttunni. Og reyndar ekki nóg með það.
Uppgötvunin kynni líka að koma krabbafrumunum til að opna leið inn í æxlið og hleypa þar inn genabreyttum T-frumum, nokkuð sem gæti breytt vígstöðunni.
Egyptar lýstu krabbameini fyrir 4.600 árum en fornleifafundir sýna að þessi vágestur hefur fylgt mannkyninu miklu lengur.
Og það telja vísindamennirnir að muni koma sérstaklega að haldi gegn krabbameini í eggjastokkum.
Rannsóknin var gerð á músum og mannsfrumum, ræktuðum á rannsóknastofu.
Það þarf því fleiri rannsóknir til að hægt sé að fullyrða að uppgötvunin muni í raun og veru koma að haldi gegn krabbameini í mönnum.