Einhverjar stærstu sandöldur veraldar er að finna í Sahara-eyðimörkinni.
Oft myndast margir sandhryggir saman og fyrir kemur að þeir myndi stjörnumynstur út frá sameiginlegri miðju.
Fram að þessu hafa menn ekki vitað mikið um tilurð þessara stóru sandhryggja.
En nú hafa velskir vísindamenn rannsakað eina hæstu sandölduna í Sahara. Sandaldan Lala Lallia er um 100 metra há og er á sandöldusvæðinu Erg Chebbi í Marokkó.
„Það sem kom mest á óvart var að öldurnar eru ekki gamlar,“ segir einn vísindamannanna að baki nýju rannsóknarinnar, Geoff Duller, við miðilinn LiveScience.
,,Við bjuggumst við að 100 metra há sandalda væri nokkuð gömul…nokkur þúsund ára – jafnvel tugþúsund ára gömul. En það kom í ljós að þessi sandalda var 900 ára.”
Sandöldur mynduðust ekki á grænu tímabili Sahara
Vísindamennirnir notuðu m.a. radar við rannsóknirnar og gátu þannig greint mun á kornastærð og vatnsmagni í mismunandi sandlögum. Þeir grófu líka niður í þessa stjörnulaga öldu og tóku sýni úr mismunandi lögum.
Rannsóknin leiddi í ljós að neðsti sandurinn er 12-13 þúsund ára gamall en frá þeim tíma liðu um 8.000 ár þar til meiri sandur tók að safnast ofan á.
Upphafið að þessu langa hléi á uppsöfnun sands segja vísindamennirnir hafa verið samtímis lokum ísaldar. Þá hófst frjósamara tímabil í Sahara og plönturætur bundu sandinn.
Sahara hefur á þeim tíma borið meiri keim af gresju en eyðimörk.
Hvað táknar orðið hillingar? Talað er um að sjá eitthvað í hillingum en hver er raunveruleg merking orðsins?
Þessu tímabili lauk fyrir um 4.000 árum.
Þurrkar réðu aftur ríkjum og sandfokið náði sér á strik. Samt sem áður eru, samkvæmt niðurstöðunum, ekki nema um 900 ár síðan þessi stóra sandstjarna tók að vaxa fyrir alvöru á ný.
Ástæðan er líkast til sú að fram að því hafi sandur annað hvort safnast upp annars staðar eða mögulega fokið yfir Lala Lallia.
Rannsóknin sýnir einnig fram á að hinn stjörnulaga sandhóll færist til um hálfan metra á hverju ári.