Við erum mikið fyrir að sykra tilveruna aðeins en á sama tíma reynum við að passa upp á kílóin. Þetta er skýringin á því hvers vegna aspartam, sakkarín og álíka efni eru notuð í staðinn fyrir sykur í mörgum tegundum gosdrykkja og matvæla.
Sum þessara sætuefna hafa þó komist í kastljós rannsókna vegna gruns um að þau séu skaðleg líkamanum.
600 sinnum sætari en sykur
Eitt þeirra sem veldur áhyggjum er súkralósi. Reyndar er vísindamönnum nú svo brugðið yfir því sem þeir hafa séð í rannsóknum að þeir eru jafnvel að kalla eftir endurmati á skaðsemi þessa gervisætuefnis.
Súkralósi er unninn úr venjulegum sykri. Útkoman er kaloríulaust sætuefni sem er 600 sinnum sætara en venjulegur hvítur sykur.
Eyðileggur DNA frumna
Þegar við neytum súkralósa og efnið er brotið niður í líkamanum, myndast efnaúrgangsefni eða umbrotsefni sem kallast súkralósi-6-asetat. Þetta efni er erfðaeitur, sem þýðir að það eyðileggur DNA frumna.
„Til að setja þetta í samhengi hefur Matvælaöryggisráð Evrópu EFSA (European Food Safety Authority) sett dagleg eiturefnafræðileg viðmiðunarmörk fyrir erfðaeiturefni upp á 0,15 míkrógrömm á einstakling,“ útskýrir Susan Schiffman, sem er lífeindatæknifræðingur og tengist ríkisháskóla Norður-Karólínu í Bandaríkjunum.
„Rannsóknir okkar benda til þess að magnið af súkralósa-6-asetati sem finnast í einum gosdrykk með súkralósa fari yfir þennan þröskuld,“ segir hún.
Aukin bólga og oxunarálag
Ásamt hópi samstarfsmanna hefur Susan Schiffman framkvæmt röð rannsóknarstofutilrauna með blóðfrumur úr mönnum og frumur úr þarmaveggnum til að sjá hvernig frumurnar brugðust við súkralósa og súkralósa-6-asetati.
Tilraunir þeirra leiddu í ljós að súkralósi-6-asetat veldur litningaskemmdum sem þýðir að DNA þræðir eyðileggjast.
Aukin virkjun gena sem tengjast bólgu, oxunarálagi og krabbameini kom einnig fram. Oxunarálag er þegar skaðleg súrefnissambönd (sindurefna) ráðast á heilbrigðar frumur og vefi. Einnig fundust merki um skemmdir á þarmaveggnum.
Mörg vinsæl sætuefni eru notuð í gríðarmiklu af kaloríusnauðum mat og drykkjum. Sérfræðingar í iðnaðinum neita því alfarið að það geti verið hættulegt til neyslu.
Lekir þarmar
Vísindamennirnir gátu séð að bæði súkralósi og súkralósi-6-asetat geta orsaka leka þarma – fyrirbæri sem kallast gegndræpir þarmar (leaky gut). Lekir þarmar þýðir að matur sem er að hluta til búið að melta og eiturefni geta komist úr þörmunum inn í blóðrásina með ýmsum skaðlegum áhrifum í kjölfarið.
Upphaflega var súkralósi samþykktur á grundvelli rannsókna sem sýndu að efnið fer í gegnum meltingu án þess að breytast. Nýlegar rannsóknir hafa nú afsannað þetta, þar á meðal núverandi rannsókn.
Út frá þessum rannsóknum vísindamannanna ráðleggja þeir fólki frá því að neyta afurða með súkralósa.