Risavaxin stjarna springur og kjarni hennar hrynur niður í sjálfan sig með furðulegu afli. Svarthol eru leifar ótrúlega stórra stjarna en þau eru undraverð fyrirbæri, í sjálfu sér.
1. Við erum umkringd af milljónum svarthola
Teymi vísindamanna við University of California hefur komið fram með flókna útreikninga til að öðlast „kosmískt manntal“ svarthola.
Niðurstaða þeirra var sú að stjörnuþoka okkar inniheldur aragrúa af svartholum, nokkuð sem stingur í stúf við viðteknar skoðanir stjarnfræðinga.
Þetta felur í sér að það kunna að fyrirfinnast um 100 milljónir svarthola í stjörnuþoku okkar, Vetrarbrautinni.
2. Massi þeirra er langtum meiri en svo að maður getur skilið það
Svarthol verða til þegar svonefndar risastórar rauðar stjörnur sem eru mörg hundruð sinnum stærri en sólin okkar, falla saman og springa síðan í tætlur. Alþjóðlega heitið yfir þennan atburð er jafnan „supernova“ en á hinu ástkæra ylhýra máli okkar segjum við þetta vera sprengistjörnu.
Svarthol með þvermál sem nemur einum sentimetra, inniheldur massa upp á 3.370.000.000.000.000.000.000.000 kg – sem samsvarar um hálfum massa jarðar. Og þetta er pínulítið svarthol.
Massi svarthola orsakar svo mikið þyngdarafl að ekki einu sinni ljós getur sloppið undan þeim ægilega krafti.
3. Þau eru ósýnileg
Það er miklum örðugleikum bundið að skoða svarthol með beinum hætti, t.d. með sjónaukum, því þau endurvarpa ekki neinu ljósi. Á sama tíma hafa þau furðulega lítið rúmmál miðað við ógurlegan massa þeirra.
Það þarf því afar sérhæfða sjónauka til að afhjúpa tilvist þeirra, einkum út frá því hvernig stjörnur og gasský nærri svartholum haga sér.
Þegar svarthol og stjarna dansa í hring hvort um annað, myndast ótrúlega orkuríkt ljós sem einungis sérhæfður búnaður getur numið.