1.Lyf
Blóðtaka átti að geta læknað hvaðeina, allt frá gigt til farsóttar.
Læknismeðferð gat verið lífshættuleg
Flestar manneskjur á okkar tímum hafa aðgang að hámenntuðum læknum sem styðjast við nýjustu vísindi til að lækna okkur.
Sem æðsti maður ríkisins hafði kóngur vissulega aðgang að bestu læknavísindum miðalda en eiginlega læknamenntun var ekki að finna og meðferðin var oft grundvölluð á hindurvitnum og algerum misskilningi á starfsemi mannslíkamans.
Blóðtaka var t.d. ákaflega vinsæl og var notuð við nánast öllum sjúkdómum. En núna vitum við að blóðtaka dregur fyrst og fremst mátt úr sjúklingnum enda var oft tekið mikið blóð úr honum.
Aðrar meðferðir voru beinlínis lífshættulegar; t.d. voru farsóttir meðhöndlaðar með lyfjum sem innihéldu eitrað kvikasilfur.
Arsenik – sem núna er m.a. notað sem rottueitur – var einnig vinsælt. Arsenik-kúr gegn sjúkdómnum miltisbrandi dró þannig stórlega mátt úr hinum þýsk-rómverska keisara Hinrik VII árið 1311 og varð til þess að hann lést tveimur árum síðar úr venjulegri umgangspest.
2. Matur
Framboðið var mikið á mörkuðum miðalda en það var fyrst á 17. öld sem krydd frá Austurlöndum tóku að berast reglulega á markaði.
Maturinn var bragðlaus
Núna svigna hillur í matvörubúðum undan vörum frá öllum heimshornum og þökk sé skjótum flutningum og kælitækni eru nánast öll matvæli aðgengileg árið um kring og það á viðráðanlegu verði.
Þannig var það ekki fyrir miðaldakónga. Manneskjur á þessum tímum – einnig hinir konunglegu – þurftu að láta sér nægja kjöt, ávexti og grænmeti frá nærliggjandi svæðum.
Kryddvörur eins og svartur pipar, kanill, nellikur og saffran voru stundum í boði en verðið á þeim var svo ofboðslega hátt að einungis allra ríkustu aðalsmenn höfðu ráð á að nota þessar vörur; sem dæmi gat verð á einu pundi af nellikum á miðri 15. öld kostað jafn mikið og verkamaður fékk fyrir sex daga vinnu í Lundúnum.
Sykur kom frá Miðausturlöndum til Evrópu á 15. öld en hann var afar viðkvæmur fyrir raka og erfitt að flytja hann og barst því í takmörkuðum mæli á markaði.
3. Barnahjónaband
Hinn einungis fjögurra ára gamli Davíð og brúður hans settust að í hinum afskekkta kastala Bervick Castle.
Fjölskyldan valdi makann
Flestar manneskjur á Vesturlöndum geta sjálfar valið hverjum þær giftast og lög og reglur verja ófullveðja einstaklinga fyrir því að vera neyddir í hjónaband. Þann lúxus bjuggu kóngar miðalda ekki við.
Fjölskyldan ákvað jafnan makann sem fyrst og fremst átti að tryggja og treysta bandalög við önnur aðalshús. Til að treysta böndin hratt og örugglega voru jafnvel börn neydd í hjónaband.
Þetta á t.d. við um Davíð 2. af Skotlandi sem var látinn ganga í hjónaband einungis fjögurra ára gamall.
Barnahjónabönd gátu verið ákaflega harmræn og ekki bætti úr skák að kóngaættir giftust sífellt hver annarri og voru því í sumum tilvikum svo náskyld að jaðraði við úrkynjun.
4. Híbýli
Himnasængur héldu dálitlum hita – og tryggðu eigendum þess smá næði.
Heimilið var kalt og rakt
Þægileg upphituð híbýli með þéttum gluggum og rennandi vatni þykja nú sjálfsögð á flestum stöðum á Vesturlöndum. Miðaldakóngurinn mátti hins vegar sætta sig við óþétt og rök heimili sem voru laus við öll hreinlætistæki nútímans.
Miðaldakastalinn var fyrst og fremst virki sem átti að halda óvininum úti. Byggingin var því með þykka múra sem jók á rakann og kuldann í herbergjunum um vetur.
Gluggar voru litlir og ekkert gler í þeim. Gluggahlerar héldu kulda og vindi úti en þeir komu einnig í veg fyrir að ljósið kæmist inn í herbergin.
Salerni voru ekki til. Íbúar í höllinni þurftu sjálfir að ganga örna sinna í potti eða í litlum kömrum þer sem setið var á trébrettti. Hola í trébrettinu leiddi út í opinn klóakbrunn og lyktin af honum var jafnan skelfileg.
5. Einkalíf
Sú hefð að snerta konungborna til að læknast virðist hafa byrjað á 13. öld en stóð yfir í mörg hundruð ár.
Enginn hættutími hjá kóngi
Fundir á netinu, tölvupóstar og samfélagsmiðlar gera manneskjur nútímans aðgengilegar allan sólarhringinn en flestar geta þær sjálfar valið hvort þær vilji láta trufla sig og vinnuveitandi þeirra getur ekki neytt þær til að gera annað.
Starf miðaldakónga var hins vegar ekki skilgreint út frá reglum um hvíld og einkalíf. Þvert á móti.
Höllin var full af þjónustuliði og sumir í þvi liði sváfu meira að segja í sama herbergi og konungshjónin.
Endalausir fundir með gestum og ráðgjöfum fylltu dagskrána og bænir og kirkjusókn var eitthvað sem hinn frómi konungur gat ekki forsmáð.
Við bættist að líkami konungs var talinn töfrum gæddur og margir trúðu því að með því að snerta konunginn persónulega gætu þeir læknast af ýmsum sjúkdómum. Einkum var talið að kirtlaveiki sem er alvarlegur sjúkdómur í eitlum hálsins, myndi læknast með því að snerta konung. Þessi mikla nánd fól vitanlega í sér aukna smithættu fyrir konunginn.
Lestu meira um konunga á miðöldum
Danièle Cybulskie: Life in Medieval Europe, Pen & Sword, 2019
Frances Gies & Joseph Gies: Life in a Medieval Castle, Harper Perennial, 2015