Árið 1054 e.Kr. sáu jarðarbúar nokkuð merkilegt fyrirbæri. Á himni skein ein stjarna svo bjart að í 23 daga mátti sjá hana frá sólarupprás til sólseturs. Um nætur var hún sýnileg í ennþá lengri tíma, því hér var um að ræða sprengistjörnu – stjörnu sem í 6.500 ljósára fjarlægð sprakk og brann út.
Sjá mátti þetta undur víðsvegar í heiminum. Kínverskir annálaskrifarar nóteruðu þetta hjá sér sama ár:
„Gestastjarna hefur dúkkað upp. Yfir stjörnunni er veikt gult blik“.
Sýn þessi skók margar af grunnstoðum kirkjunnar og því var allt umtal um hana bannað í heimi kristinna. En bízantískur vísindamaður gerði leynilega uppreisn samkvæmt teymi vísindamanna frá háskólum í Ástralíu, Suður-Afríku og Serbíu:
Hann náði að bæta við sprengistjörnunni á gullmynt frá árinu 1054.

Á valdatíð Konstantíns 9. (vinstra megin við Jesús) klofnaði kristin kirkja þegar páfinn í Róm bannfærði patríarkann í Konstantínóbel. Aðrir vísindamenn staðhæfa að stjörnurnar tvær á myntinni árið 1045 e.Kr. vísi í raun um þennan klofning.
Fyrirbærið á himni var þaggað niður
Myntir af hinum bízantíska keisara, Konstantín 9. Monomachos (1042 – 1055) höfðu fram til þessa einungis borið eina staka stjörnu. En gullmyntir sem komu fram á árinu þegar sprengistjarnan birtist sýna allt í einu tvær stjörnur.
Vísindamenn uppgötvuðu einnig að stærðin á aukastjörnunni minnkaði á síðari myntum eftir því sem örðugara reyndist að greina stjörnuna eftir því sem frá leið.
„Kannski var þetta ein leið fyrir útpældan stjörnufræðing við háskólann í Konstantínóbel að fagna þessu undri. Hann nýtti sér dulmál – í sjálfri myntsláttunni“, skrifa vísindamennirnir í greinargerð sinni.