Náttúran

6 atriði sem þú ættir að vita um skeggskottu: Gráðugur ættingi silfurskottunnar gæti brátt hertekið heimili þitt

Meinlausa silfurskottan gæti fengið samkeppni frá öllu skæðara meindýri: Skeggskottan er bæði stærri og þaulsetnari – og meindýrið getur étið kærustu minningar þínar.

BIRT: 23/11/2024

Lítið eitt um skeggskottu

Af hverju er hún til umræðu? Skeggskottan nær sífellt meiri útbreiðslu í hýbýlum manna og berst vafalítið brátt til landsins – ef hún er ekki þegar komin. 📖

 

Af hverju nefnist skordýrið skeggskotta? Skeggskottu má greina frá silfurskottu á loðnari búk og höfði sem kvikindið dregur nafn sitt af. 🪲

 

Tala sem þú ættir að hafa í huga: 55 – ef loftraki fer niður undir 55 hundraðshluta, þá getur skeggskottan ekki þrifist.💧

Á síðustu áratugum hefur nýtt meindýr verið að leggja undir sig Evrópu: skeggskottan.

 

Núna dafnar þetta litla skordýr á okkar breiddargráðum þar sem það graðkar í sig dauðar húðflögur, bylgjupappa og fjölskyldualbúmið þitt. 

 

Hvað er skeggskotta? 

Skeggskotta hefur latneska heitið Ctenolepisma longicaudatum og er lítið vængjalaust skordýr.

 

Fullvaxin er lengdin á búk hennar 10 – 18 mm. Hún er með þrjá halaþræði sem eru álíka langir og skrokkurinn og tvo langa þreifara. Á höfðinu er hún með eins konar skeggkraga eða bursta og dregur nafn sitt af þeim. 

 

Mitt í skegginu er kjaftur hennar með sterka kjálka sem gerir skeggskottunni kleift að bíta nokkuð fast. Skrokkurinn er varinn með dökkgrárri skel sem verndar skottuna og veitir henni glansandi útlit. 

 

Samanborið við margar aðrar skordýrategundir sem lifa fáeina daga eða jafnvel mánuði þá getur skeggskottan náð nokkuð háum aldri. Dýrið nær kynþroska um tveggja ára aldur og líffræðingar telja að hún geti orðið allt að átta ára gömul. 

 

Skeggskottur sækja í myrkur og lifa – a.m.k. á okkar breiddargráðum – einungis innandyra ef aðstæður eru heppilegar.

Skeggskottur þrífast vel í dimmum, heitum og örlítið rökum stöðum, til dæmis í kössum með gömlum bókum í geymslunni.

Skeggskottan kýs loftraka sem er á milli 55 og 90% og hitastig á milli 16 og 40 gráða, aðstæður sem er að finna á mörgum heimilum, t.d. í baðherberginu, kjöllurum og í fataskápum. 

 

Er skeggskotta einnig nefnd silfurskotta? 

Skeggskottan er náskyld silfurskottunni en þetta eru tvær skordýrategundir.

 

Silfurskottan nær sjaldnast meira en 11 mm lengd og því mun minni en skeggskottan. Silfurskottan (Lepisma saccharina) er ekki með loðið höfuð og er auk þess mun ljósari á skrokkinn. 

 

Silfurskottan lifir einnig einungis innandyra en er kresnari á bústaði. Rakinn þarf að vera yfir 75% og hún getur ekki fjölgað sér ef hitastigið er undir 25 gráðum. Í Norður-Evrópu felur það í sér að silfurskottan lifir einkum í sprungum á baðherberginu þar sem gólfhiti og blaut handklæði halda hitastigi og raka uppi. 

Hvers vegna þrífast silfurskottur í baðherbergjum? Hvaðan koma þær og lifa þær hvergi annars staðar?

Í baðherberginu er jafnan að finna fæðu, t.d. dauð skordýr og prótín úr fituleifum í niðurfalli. Silfurskottan er afar nægjusöm og þarf ekkert annað en aðgang að vatni til að geta lifað án fæðu í meira en eitt ár. 

 

Silfurskottan er ekki hættuleg og hægt er að draga úr fjölda þeirra í baðherbergi með því að ryksuga þar oft og halda loftrakanum niðri. 

 

Hvaðan kemur skeggskottan? 

Fyrstur til að lýsa silfurskottu vísindalega var þýski skordýrafræðingurinn Karl Escherich sem árið 1905 rannsakaði eintak af skordýrinu sem fannst í Suður-Afríku.

 

Líffræðingar telja að skeggskottan – rétt eins og silfurskottan – gæti hafa verið til í einhver 300 milljón ár. En það er fyrst á síðustu áratugum sem skeggskottan hefur náð fótfestu í mestum hluta heimsins, einkum á Norðurlöndum þar sem jafnan væri of kalt og þurrt fyrir hana.

 

En hlý og notaleg híbýli okkar eru eins og sköpuð fyrir þetta litla kvikindi. 

Skeggskottan er fædd til að lifa í hýbýlum manna

Útlit skeggskottunnar sýnir að hún er náskyld silfurskottunni. Líffræðingar vita harla lítið um lifnaðarhætti hennar í náttúrunni en segja má að skeggskottan sé sérfræðingur í að dafna vel í húsakynnum manna.

Kjálkarnir geta nagað bækur

Á loðnum hausnum er að finna öfluga kjálka sem geta hlutað í sundur dauð skordýr – og nagað pappa og blaðsíður. Einföld augu skeggskottunnar samanstanda hvort af 12 ljósnæmum frumur sem kallast stemmata.

Efnahvatar geta brotið niður sellulósa

Framarlega í meltingarkerfi skeggskottunnar er að finna efnahvata sem nefnist endoglucanase. Hann getur brotið niður sellulósa í plöntum – eða pappírnum í fjölskyldumyndum þínum.

Skeggskottan verpir eggjum í rifur og sprungur

Tveggja ára verður skottan kynþroska og verpir þá eggjum, t.d. í rifur á baðherbergisgólfinu. Í röku umhverfi með hita nærri 25 gráðum klekjast eggin út eftir ríflega tvo mánuði.

Innan dyra er hitinn yfirleitt nokkuð hár allt árið um kring. Við förum oft í bað og gleymum að lofta úr baðherberginu. Varminn og rakinn er einmitt það sem skeggskottan þráir.

 

Fyrstu tilkynningar um skeggskottur í Evrópu eru frá frönsku Rivíerunni árið 1915. 

 

Á árinu 1989 var tegundin komin alla leið norður til Hollands og á síðasta áratug hefur skeggskottan einnig dúkkað upp bæði í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Það er einkum á allra síðustu árum sem tilkynningar um skeggskottu í Norður-Evrópu hefur aukist verulega og skýringuna er líklega að finna í auknum pakkasendingum milli landa. 

 

Í vöruskemmum er vörunum pakkað í kassa úr bylgjupappa og litlu holrýmin eru ágætis felustaðir fyrir skeggskottur. Þegar pakkinn er síðan sendur af stað fá skordýrin far með honum á áfangastað. Frá einu heimili geta þær síðan dreifst út til þess næsta með því að fela sig t.d. í klæðum, skóm eða farangri. 

 

Á hverju lifa skeggskottur? 

Líffræðingar vita ákaflega lítið um á hverju „villtar“ skeggskottur nærast í náttúrunni en mataræði þeirra innandyra er svipað og hjá silfurskottunni. Brauðmylsna, húðflögur, dauð skordýr og fitukleprar í niðurföllum, allt þetta leggur hún sér til munns. 

Skeggskottan fannst fyrst í Evrópu árið 1915 á frönsku Rivíerunni. Síðan hefur hefur hún haldið ótrauð norður á bóginn og gæti verið búin að koma sér fyrir hérlendis.

Bæði silfurskottur og skeggskottur geta, ólíkt manninum, melt sellulósa í pappír og skeggskotta er með sterka kjálka sem geta bitið pappírinn í sundur. Það er ein helsta ástæða þess að litið er á skeggskottuna sem meindýr. 

 

Valda skeggskottur skaða? 

Skeggskottur eru – rétt eins og silfurskottur – hvorki hættulegar gæludýrum eða mönnum.

 

Nái þær hins vegar fótfestu í eldhúsinu, þar sem eru t.d. opin ílát með hveiti eða grjónum, geta þær fræðilega borið sjúkdóma en ákaflega fá dæmi eru um slík tilvik. 

 

Öllu verri er hæfileiki skeggskottunnar til að brjóta niður sellulósa í pappír.

 

En hins vegar er ekki allur pappír á matseðli skeggskottunnar. 

Skeggskotturnar halda sig fjarri svokölluðum mekanískum pappírsmassa en sú gerð pappírsmassa hefur mikið innihald af náttúrulega líminu ligníni sem hentar ágætlega til prentunar en gulnar með árunum.

 

Ef pappírinn er hins vegar gerður úr svokölluðum súlfatmassa, þar sem pappamassinn er framleiddur með því að brjóta trjákvoðuna kemískt niður, þá er ligníninnihaldið minna og pappírinn gulnar ekki jafn auðveldlega. En þennan pappír elskar skeggskottan. 

Skeggskottur eru ekki hættulegar mönnum en þær éta ákveðnar pappírstegundir og geta því verið óttalegir skaðvaldar á bókasöfnum og skjalasöfnum.

Skeggskottur geta lifað í mörg ár á súlfatspappírsmassa og þetta litla meindýr getur þannig t.d. eyðilagt bækur, skjöl og myndir sem búið er að varðveita. 

 

Hvernig ræður maður niðurlögum skeggskottu? 

Þegar skeggskottan hefur náð að koma sér fyrir á heimili og fundið sér þægilega varman og rakan bústað getur verið örðugt að losna alveg við hana.

 

Á venjulegum heimilum felst fyrsta skrefið í því að lofta betur út með því að opna glugga og á það sérstaklega við um baðherbergi.

 

Með því að draga úr loftraka – sérstaklega á köldum mánuðum – og ná honum niður undir 55 hundraðshluta til lengri tíma þá má ráða niðurlögum skeggskottunnar.

 

Egg og ung dýr eru afar viðkvæm fyrir slíkum þurrkaskeiðum. 

 

Næsta skref er að ryksuga oftar. Það getur fjarlægt bæði lifandi skeggskottur, egg þeirra og fæðu svo sem brauðmylsnu, sykurkorn og dauðar húðflyksur. 

 

Þessar aðgerðir geta haldið fjölda þeirra niðri inni á heimili en ef þar er t.d. að finna verðmætt bókasafn eða söguleg skjöl þarf að grípa til frekari aðgerða.

Vísindamennirnir telja að öll landdýr séu komin af fiskum. En hvaðan koma skordýrin?

Norsk rannsókn frá árinu 2019 sýndi t.d. að eiturefnið indoxacarp sem er t.d. notað gegn kakkalökkum, er sérstaklega skilvirkt hvað skeggskottur varðar.

 

Eitrið stíflar natríngöng í miðtaugakerfi skordýranna og tilraunir hafa sýnt að efnið getur drepið níu af hverjum tíu skordýrum á 10 til 12 vikum. 

 

Skeggskotturnar komast hins vegar ævinlega að því hvar eitrið er að finna og forðast slík svæði og dreifast þar af leiðandi til nýrri búsvæða. Árið 2022 var indoxacarp auk þess bannað í Evrópusambandinu því það er einnig notað við kynbætur á nytjaplöntum og getur mögulega skaðað býflugur og lítil spendýr á ökrunum.

 

Án eiturs er því best að kæla kvikindin niður í drjúgan tíma. 

 

Ef hægt er að ná hitastigi niður undir 16 gráður í nokkurn tíma deyja lang flestar skeggskottur.

 

En eftir 300 milljón ára aðlögunarhæfni geta í raun hvorki eitur né kuldi útrýmt þessum dugmiklu skordýrum. 

HÖFUNDUR: Af Ebbe Rasch

© eleonimages,© Macronatura/Shutterstock,© Jean-Raphaël Guillaumin,© Signal Scientific Visuals/Shutterstock,© Morten Hage/NIPH,© Olga Fedoseeva

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Stjörnufræðingar finna fyrstu frumvísa að Vetrarbrautinni

Maðurinn

Hve hratt fer blóðið um líkamann?

Lifandi Saga

Fjöldamorð SS leiddi til miskunnarlausrar hefndar

Lifandi Saga

Hvað var gula?

Náttúran

Öflugasta bit heims – Hér eru fimm dýr sem ekki væri gott að enda í skoltinum á

Náttúran

Geta elliglöp herjað á hunda?

Lifandi Saga

Martröð í Mogadishu

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is