Lifandi Saga

Adolf Hitler – maðurinn sem táldró heila þjóð

Hann var latur í skóla og algerlega misheppnaður sem listmálari. Árum saman lifði Adolf Hitler í dagdraumum, þar til hann uppgötvaði hæfni sína til að fá fólk á sitt band. Honum tókst að sannfæra Þjóðverja um gildi hugmynda sinna og breytti ríkinu í harðstjórnarveldi nasista.

BIRT: 26/01/2023

Adolf Hitler kemst til valda í Þýskalandi

Vetrarsólin skein yfir stjórnarráðsbygginguna þegar Adolf Hitler steig út og var orðinn nýr kanslari Þýskalands.

 

Aðeins örfáum árum fyrr hafði hann talist uppskafningur sem stjórmálaelítan talaði um af fyrirlitningu. „Undirliðþjálfinn frá Böhmen“, var það sem Hindenburg forseti kallaði hann. En nú, í stjórnarkreppu eftir tvennar kosningar, í júlí og nóvember 1932, átti Hindenburg ekki annars úrkosta en að setja hann í embætti leiðtoga þjóðarinnar.

 

Með pípuhatt á höfði og íklæddur hefðarfrakka stóð Hitler nú undir vetrarsólinni, reiðubúinn að fást við hlutverk sitt sem æðsti ráðamaður þjóðarinnar. Á Hótel Kaiserhof, beint á móti stjórnarráðinu, beið hans fullur salur af traustustu fylgismönnum hans til að halda upp á þennan stórviðburð. Hitler geislaði af gleði og stolti. Þegar hann gekk í salinn mátti sjá tár í augum hans að því er einn viðstaddra sagði síðar.

* Fólk fagnaði og salurinn logaði af eldmóði þegar Hitler gaf reiðinni lausan tauminn í ræðu sinni og talaði um Versalafriðarsamningana og niðurlægingu Þýskalands.

Hyllingarnar héldu áfram um kvöldið þegar 25.000 meðlimir flokkshersins Sturmabteilung (SA) marseruðu gegnum Brandenborgarhliðið og að stjórnarráðinu.

 

Bjarma frá kyndlunum sló á gljáburstuð stígvél og logarnir lýstu upp fánana. Fyrir framan stjórnarráðið nam fjöldinn staðar og allir hrópuðu einum rómi: „Sieg Heil!“

 

Þegar hrópin urðu háværari steig Hitler fram í upplýstan glugga og lyfti handleggnum í heilsun.

 

Í öllu landinu – frá Flensburg í norðri til München í suðri – sneri fólk tökkunum á útvarpstækjum sínum til að fylgjast með atburðarásinni sem útvarpað var beint frá Berlín.

 

Embættistaka Hitlers sem kanslara átti að verða hátíð allrar þjóðarinnar. Það hafði áróðursmeistari nasista útbásúnað í þýska ríkisútvarpinu.

 

Öllum átti að verða ljóst að nú var eitthvað alveg nýtt að taka á sig form. Nú myndi Hitler gera upp við gömlu stjórnvöldin sem að hans áliti voru sek um „heimsku, meðalmennsku, óljósa afstöðu, heigulshátt, veiklyndi og vanmátt.“

 

Þýskalandi skyldi lyft upp úr fátæktinni og þeirri auðmýkingu sem uppgjöfin í lok fyrri heimsstyrjaldar hafði kallað yfir þjóðina.

 

Göbbels var yfir sig ánægður þegar hann yfirgaf stjórnarráðið eftir miðnætti – „í stjórnlausri hrifningarvímu,“ eins og hann lýsti því sjálfur.

 

Sjálfur átti Hitler í erfiðleikum með að trúa því að þessi stóri dagur hefði loksins runnið upp. Hann sagði einum af áhangendum sínum að eitthvert guðlegt inngrip hefði bjargað sér, „þegar ég var við það að bíða skipbrot, var kominn að köfnun af völdum samsæra og efnahagsþrenginga“.

 

Eftir 14 ára pólitíska vegferð – og síðustu fjögur árin í formi langdreginnar og erfiðrar kosningabaráttu – var hann loksins kominn til valda. Allt sem hann hafði barist fyrir, virtist ætla að verða að veruleika.

 

Adolf Hitler var gáfaður en latur drengur

Á barnsaldri lét Adolf Hitler sig dreyma um að verða listamaður.

Hitler fæddist 20. apríl 1889 í Braunau am Inn í norðausturhluta Austurríkis. Faðir hans, Alois Hitler, var ráðvandur embættismaður hjá tollgæslunni.

 

Algengt var að misklíð ríkti milli feðganna því áform föðurins fyrir hönd sonar síns, stefndu í allt aðra átt en það sem Adolf lét sig dreyma um. Drengurinn lét ekkert tækifæri ónotað til að útskýra fyrir föður sínum að hann hygðist ekki loka sig inni á skrifstofu hjá tollinum, heldur ætlaði hann að njóta frelsisins sem listamaður.

 

Sennilega er réttara að segja að Klara, móðirin, hafi annast drenginn en að hún hafi alið hann upp og Adolf átti náið samband við móður sína. Þegar hann var fimm ára flutti fjölskyldan til Linz, þar sem hann gekk í skóla.

 

Adolf var vel gefinn en latur. Hann átti erfitt með að eignast vini og reyndi með öllu móti að forðast skólann. Þegar hann var 16 ára fékk hann leyfi móður sinnar til að hætta í gagnfræðaskóla án þess að ljúka prófi. Faðirinn var þá látinn fyrir tveimur árum og hafði þar með ekkert um málið að segja.

 

Listamannsdraumar runnu út í sandinn

Í stað skólanáms notaði Adolf Hitler nú tímann í dagdrauma milli þess sem hann teiknaði, málaði eða sótti óperusýningar. Einkum hreifst hann af örlagaþrungnum óperum Wagners.

 

Átján ára fluttist Hitler til Vínarborgar til að gera alvöru úr listamannsdraumum sínum. Í upphafi 20. aldar var þetta heillandi stórborg. Um göturnar gekk fólk víða að úr hinu víðfeðma Austurrísk-ungverska ríki: Austurríkismenn, Ungverjar, Pólverjar og fólk úr hinum slavnesku héruðum. List, menning og byggingarlist stóðu í miklum blóma.

 

Hinn ungi Hitler hreifst af iðandi lífi borgarinnar. Hann gat dáðst að glæsilegum byggingum tímunum saman og hann var tíður gestur í óperunni.

 

Líf hans breyttist þó skjótlega til hins verra. Eftir að hafa fallið tvisvar á inntökuprófi í Listaakademíuna, var honum sagt að hann hefði ekki hæfileika sem málari en gæti hins vegar kannski orðið arkítekt. Sú leið var honum þó lokuð þar eð hann hafði ekki lokið gagnfræðaprófi. Þegar lífsdraumur hans var þannig að engu orðinn eigraði hann um í ráðaleysi án þess að finna sér nokkurn tilgang.

 

Á þessum tíma varð honum ljós önnur hlið á Vínarborg, sú spenna sem ríkti milli ólíkra þjóðabrota, kraumandi óánægja meðal verkamanna og stúdenta ásamt tilfinningu fyrir því að hið gamalgróna keisaradæmi myndi innan tíðar líða undir lok.

 

Hitler bjó sjálfur ekki við neina örbirgð. Eftir að móðir hans dó fékk hann fjárstuðning vegna foreldraleysisins. En hann var ósáttur. Honum fannst sem hann væri settur til hliðar í samfélaginu. Þessar persónulegu tilfinningar hans sóttu einnig næringu til þeirra umkomuleysingja sem hann var samtíða á gistiheimilum þar sem hann bjó.

 

Gyðingahatrið vaknar í Hitler

Líkt og svo margir aðrir sem leituðu að einhverju til að kenna um það sem aflaga hafði farið í lífinu, fór Hitler að líta á gyðinga sem sökudólga. Andsemitískir bæklingar sem út voru gefnir í Vín sönnuðu þetta fyrir honum: Gyðingar höfðu bundist samtökum um að spilla Austurríki.

 

Með markvissum áróðri eyðilögðu þeir föðurlandsást verkamanna og lokkuðu þá til fylgis við hinn alþjóðlega marxisma.

 

Hitler gat ekki um annað hugsað en gyðinga. „Ekki í mannsheila, heldur aðeins í heila ófreskju, gæti orðið til áætlun um slíkt skipulag og þess konar starfsemi hlaut að leiða af sér hrun samfélagsins og eyðileggingar veraldarinnar,“ skrifaði hann seinna.

 

Andsemitísk viðhorf Hitlers voru ekkert óvenjuleg á þessum tíma. Aðalborgarstjórinn í Vín, Karl Lueger, tengdi saman félagslegar umbætur og þjóðernishyggju og andsemitísk viðhorf. Þessi blanda minnir talsvert á þann þjóðernissósíalisma sem síðar kom. Lueger var snjall ræðumaður og náði vel til „fólksins á götunni“ með einföldum slagorðum sínum.

 

Lueger vakti áhuga Hitlers á stjórnmálum og hann hreifst af mælskutækninni. En sósíaldemókratar sem Hitler annars fyrirleit, urðu honum líka fyrirmynd. Hann dáðist að fjölmennum kröfugöngum þeirra ásamt því hvernig þeir náðu til fjöldans með áróðri sínum.

 

Hitler gekk í herinn í fyrri heimsstyrjöld

Leiður á Vínarborg og óreiðunni þar flutti Hitler sig til München í Þýskalandi. Hann hélt áfram að láta sig dreyma og reyndi að hafa lifibrauð af málverkum sínum. En nú knúði alvaran dyra. Þann 1. ágúst 1914 lýstu Þjóðverjar yfir stríði gegn Rússum og skömmu síðar var fyrri heimsstyrjöldin skollin á.

 

Hitler var fullur ákefðar og bauð sig fram til herþjónustu þar sem hann lenti í 16. fótgönguliðaherdeildinni í Bayern. Eftir tæplega tíu vikna þjálfun var herdeildin send á vesturvígstöðvarnar þar sem hún lenti í einni fyrstu orrustum styrjaldarinnar, orrustunni við Ypres í október 1914.

 

Í fyrri heimsstyrjöldinni fann Hitler (til vinstri) loksins tilgang í lífinu. Hann naut sín meðal hermannanna og sýndi slíkan hetjuskap að hann fékk tvo járnkrossa.

Sjónarvottar hafa sagt frá því hvernig þessir ungu, óþjálfuðu Þjóðverjar þrömmuðu fullir sjálfstrausts beint framan að Bretunum og sungu föðurlandssöngva. Englendingar voru hins vegar betur undirbúnir og Þjóðverjar misstu marga menn.

 

En þrátt fyrir óhugnaðinn lýsti Hitler stríðinu sem „ógleymanlegasta og merkasta tíma í mínu jarðneska lífi“. Hann naut sín meðal hermannanna og í bardögum þar sem honum gafst tækifæri til að geta sér orð í þágu góðs málstaðar.

 

Hitler var á vígstöðvunum í fjögur ár. Tvisvar sinnum fékk hann járnkrossinn, árið 1918 meira að segja af 1. gráðu sem var óvenjulegt þar eð hann var aðeins undirliðþjálfi. Hann var vel liðinn af félögum sínum en þó í aðra röndina nokkuð einrænn.

 

Hann átti til að gleyma sér í hugsunum og virtist þá ekki taka eftir neinu í kringum sig en svo gat hann talað lengi um herstjórnarlist – nokkuð sem félögum hans þótti ekki við hæfi.

 

Það var í einni af síðustu gasárásum Breta sem Hitler blindaðist og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Þar var hann staddur þegar hann frétti að Þýskaland hefði gefist upp. Tilkynningin varð honum mikið áfall og – að eigin sögn fleygði hann sér niður á rúmið, gróf andlitið í koddanum og grét.

 

Hitler uppgötvar hæfileika sína

Eftir stríðið leitaði Hitler í skjól herbúða deildar sinnar í München, þar sem hann reyndi að sætta sig við þessar nýju aðstæður. Þýski keisarinn hafði sagt af sér og Þýskaland var orðið að lýðveldi. En lýðræðið var veikburða frá upphafi og því stóð ógn af vopnuðum hersveitum og stöðugum uppreisnum.

 

Hitler bar í brjósti óslökkvandi hatur á „nóvemberglæpamönnunum“, stjórnmálamönnunum sem höfðu grafið undan baráttukrafti Þýskalands og þvingað Þjóðverja til uppgjafar. Hugsanir hans snerust um hefnd og endurreisn æru þýsku þjóðarinnar.

 

Reikular og fálmkenndar hugleiðingar hans fengu óvænta útrás í september 1919 þegar hann átti að vera að sinna eftirliti og var skipað að fylgjast með litlum hópi þjóðernissinna sem kölluðu sig Þýska verkamannaflokkinn.

 

Hitler hafði einungis verið falið að fylgjast með en hann var mjög fljótlega kominn á kaf í umræður þjóðernissinnanna. Mánuði síðar var hann genginn í flokkinn og fékk það hlutverk að sjá um áróður og öflun nýliða.

 

Flokksstarfið skapaði Hitler endurnýjað sjálfstraust og hann uppgötvaði hæfileika sína sem ræðumaður. Hugmyndin um svik gyðinga og kommúnista við þýsku þjóðina féll víða í frjóan jarðveg.

 

Fagnaðarlætin dundu í samkomusölum þegar Hitler gaf reiði sinni lausan tauminn og skammaðist yfir Versalafriðnum og niðurlægingu Þýskalands. Það fjölgaði mjög ört í flokknum og Hitler sló fyrir alvöru í gegn þegar opinber flokksfundur dró að sér ríflega 2.000 áheyrendur 1920.

 

Skömmu síðar skipti flokkurinn um nafn, varð Nationalsozialistische Deutsche Arbeiterpartei (NSDAP) og tók upp hakakrossinn sem merki sitt.

 

Knæpubyltingin hafði afleiðingar

Árið 1921 var Hitler orðinn leiðtogi flokksins og hófst handa við að einkenna flokksmenn sem fengu handleggsborða, merki og fána. Hann stofnaði líka SA-sveitirnar sem áttu að marsera um göturnar til að laða fleiri til fylgis og hræða andstæðinga.

 

Það fór ekki fram hjá Hitler hvernig Benito Mussolini komst til valda á Ítalíu með því að láta flokkshermenn sína, „svartstakkana“ marsera til Rómar. Hann áleit stjórnina í Þýskalandi síst öflugri en þá sem „Il Duce“ hafði steypt og gerði sér áætlun um svipaða göngu til Berlínar.

 

Fyrsta skrefið átti að vera valdarán í München, höfuðstaðnum í Bayern. Að kvöldi 8. nóvember 1923 gekk Hitler inn á knæpuna Bürgerbräuerkeller, skaut af skammbyssu upp í loftið og lýsti því að þjóðarbylting væri hafin. Hann hafði hins vegar ekki tryggt sér stuðning stjórnmálamanna og um nóttina náðu yfirvöld í Bayern að tryggja varnir sínar gegn valdatöku nasista.

 

Þegar Hitler daginn eftir – fullviss um sigur – marseraði gegnum borgina með menn sína mættu þeir óvæntri fyrirstöðu. Við Odeonplatz var lögreglulið mætt. Lögreglumenn skutu og drápu 14 nasista.

 

Stjórnvöld í Bayern komust á snoðir um byltingaráform Hitlers og sendu lögreglulið á móti nasistunum. Í München féllu 4 lögreglumenn og 14 nasistar. Nasistarnir 14 töldust síðar píslarvottar nasista.

Adolf Hitler ákærður fyrir landráð

Hitler hafði skjátlast. Tími byltingar nasista var ekki runnin upp. Þess í stað var hann nú dreginn fyrir rétt, ákærður fyrir landráð. Hitler neitaði sök. Það voru valdhafarnir sem voru svikarar, sagði hann; sjálfur hafði hann borið hag þjóðarinnar fyrir brjósti.

 

Áhorfendur í salnum höfðu vissa samúð með málstað Hitlers og að einhverju leyti líka dómararnir sem viðurkenndu tilgang hans og hrósuðu honum fyrir þjóðernisstoltið. Dómurinn varð fimm ára fangelsi en eftir rúmlega eitt ár var hann látinn laus vegna góðrar hegðunar.

 

Hitler neyddist til að viðurkenna að hann yrði að halda sig innan ramma laganna ef hann ætlaði sér að ná völdum. Hann hófst strax handa við að endurbyggja NSDAP sem hafði hrörnað til mikilla muna meðan foringinn var í fangelsi.

 

Málaferlin höfðu aftur á móti skapað honum landsfrægð og aflað margra nýrra fylgismanna þannig að Hitler gat enn fyllt samkomusali þegar hann hélt eldræður sínar. Stundum gekk hann of langt – samtímamaður lýsti því þannig að ræður Hitlers hefðu verið eins og ofbeldisárásir – og hann var því settur í ræðubann í mörgum landshlutum.

 

En hann hafði þó enn leyfi til að tala á lokuðum samkomum og árin 1925-28 notaði hann til að endurskipuleggja flokkinn sem nú starfaði í flokksdeildum í öllu landinu. Jafnframt náði hann á sitt band mönnum sem áttu eftir að gera mikið gagn, þeirra á meðal var Joseph Göbbels.

 

MYNDBAND: Sjáðu Hitler þjálfa sig í ræðumennsku:

Nasistar buðu fram sem stjórnmálaflokkur vorið 1929. Það var þó ekki fyrr en meira en hálfu ári síðar sem þeir fengu fyrir alvöru vind í seglin. Um haustið skall á kreppa með hruni verðbréfa á Wall Street. Kreppan náði fljótt til Þýskalands og lagði efnahaginn í rúst. Atvinnuleysið náði fljótlega til meira en sex milljóna og verðbólgan steig í nýjar hæðir.

 

Sá vöxtur sem verið hafði í Þýskalandi á þriðja áratugnum gufaði upp og fljótlega hvarf traust til stjórnmálamanna sem hvorki gátu unnið saman né náð árangri. Nasistar gripu tækifærið.

 

Með vel smurðri áróðursmaskínu réðust þeir af hörku á hið veikburða lýðræði. Sjálfur var Hitler áhrifamesta vopn flokksins. Það virtist greinilegt að hann teldi sig útvalinn sem frelsara Þjóðverja og þeir tóku fegnir við boðskapnum.

 

Adolf Hitler verður leiðtogi Þýskalands

Ímynd Hitlers sem eins konar Messíasar var fullkomnuð með því sem kallað var „Deutschlandsflug“ eða Þýskalandsflug hans. Á tímabilinu frá apríl fram í nóvember 1932 ferðaðist hann milli staða með flugvél og tókst þannig að vera nánast alls staðar nærverandi. Alls kom hann fram á 148 fjöldafundum.

 

Fundina sóttu iðulega 20-30 þúsund manns og þeir minntu á trúarsamkomur þar sem leiðtoginn birtist af himnum ofan til að tala til fjöldans.

 

Hrifningarvíma Berlínarbúa á þessu kvöldi 1933 þegar Hitler hafði tekið við kanslaraembættinu snerist um „foringjann, spámanninn, stríðsmanninn (…) síðustu von fjöldans, hið skínandi tákn um þrá Þjóðverja eftir frelsi“, eins og Göbbels komst að orði.

LESTU EINNIG

Hitler var nú orðinn kanslari en án þingmeirihluta á bak við sig. Það fullnægði síður en svo metnaði hans. Hann ætlaði sér ekki að hafa setu sína á kanslarastólnum undir náð og miskunn annarra. Þess vegna fékk hann Hindenburg forseta mjög fljótlega til að boða til nýrra kosninga.

 

Hann vildi nýta stemninguna sem skapast hafði til að tryggja völd sín sem hinn nýi leiðtogi þjóðarinnar. Í kosningunum 5. mars 1933 kusu 43,9% kjósenda nasistaflokkinn og Hitler hafði samtals nauman meirihlutastuðning í þinginu.

 

Þetta reyndist síðasta tækifæri Þjóðverja til að fara á kjörstað. Hitler hófst strax handa við að brjóta lýðræðið á bak aftur. Þann 23. mars tókst honum að fá þingið til að samþykkja lög sem gerðu ríkisstjórninni – og umfram allt Hitler sjálfum – kleift að stjórna án aðkomu þings eða forseta. Þar með var Hitler í raun orðinn einvaldur.

 

Hitler formar nasistaríkið

Hitler reyndi með öllum ráðum að skapa þá þjóð og það samfélag sem hann hafði látið sig dreyma um á gönguferðum sínum í Vín og þóst sjá glytta í á vígstöðvunum við Ypres. „Við viljum byggja upp annað samfélag þýskra stétta. Af bændum, borgurum og verkafólki á aftur að rísa upp þýsk þjóð,“ lofaði hann.

 

Innleiðing nasistaríkisins var umfangsmikil; allir flokkar nema nasistaflokkurinn voru annað hvort bannaðir eða lögðu sig niður sjálfir. Lögregla og dómstólar lutu stjórn nasista, verkalýðssamböndum og atvinnurekendafélögum var slegið saman í ein vinnumarkaðssamtök á forsendum nasista.

 

Strax á árinu 1933 voru 50.000 kommúnistar og sósíaldemókratar settir í fangelsi eða hinar nýju kz-búðir. Með Nürnberg-lögunum frá 1935 voru gyðingar sviptir borgararéttindum og þremur árum síðar skipulögðu nasistar Kristalsnóttina, þegar mörg þúsund gyðingar voru myrtir og eigur annarra eyðilagðar.

 

Hitler varð „fyrsti hermaðurinn“

Um miðjan fjórða áratuginn undirbjó Hitler annan hluta uppgjörsins við Versalafriðinn; að endurreisa æru Þýskalands. Hann vildi sameina alla kynborna Þjóðverja í hinu nýja þjóðarsamfélagi sínu og skapa „lífsrými“ eða „lebensraum“ fyrir vaxandi fólksfjölda. En hann vildi einnig fara í stríð stríðsins vegna.

 

Hann vitnaði til sinnar eigin reynslu þegar hann sagði: „… stríð er besta uppeldið fyrir þýska æsku“. Frá 1936 var stríðsundirbúningur á fullu og næstum helmingur af opinberum útgjöldum fór til hernaðarmála.

 

Efst á lista Hitlers yfir ný landsvæði var Austurríki. Hann leit því á það sem mikinn persónulegan sigur þegar Austurríkismenn samþykktu að forminu til sjálfir sameiningu við Þýskaland árið 1938. Sama ár urðu Súdetahéruðin í Tékkóslóvakíu þýsk eftir samninga Þjóðverja, Frakka, Ítala og Breta í München sem margir trúðu þá að myndi tryggja frið í Evrópu, enda lýsti Hitler því yfir að Þjóðverjar gerðu ekki frekari landakröfur.

 

En þann 1. september 1939 Þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland lýstu Bretar og Frakkar yfir stríði. Hitler tók því fagnandi að vera orðinn stríðsherra: „Ég á mér ekki aðra ósk en að vera fyrsti hermaður Þýskalands,“ sagði hann. „Ég er þess vegna aftur kominn í þann búning sem verið hefur mér helgastur og dýrmætastur. Úr honum fer ég ekki aftur fyrr en sigur er unninn – að öðrum kosti lifi ég ekki stríðslokin.“

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Else Christensen

© Bildarchiv Preussischer Kulturbesitz, Ullstein Bild, © Getty Images, © Wikimedia Commons

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

Lifandi Saga

„Pólskir riddarar réðust á þýska skriðdreka“

Náttúran

Finna skordýr sársauka?

Maðurinn

Heilaþvottur á að losa þig við versta óttann

Maðurinn

Sannleikurinn um heilabilun

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is