Almennt eru vísindamenn sammála um að tilgangurinn með fullnægingu karla sé að hvetja þá til að losa sæði og tryggja sér þannig afkomendur.
Þessa kenningu er ekki unnt að yfirfæra á konur, þar eð kona þarf ekki að fá fullnægingu til að verða þunguð.
Þetta gæti verið meðal skýringa á því að konur eigi erfiðara með að leysa úr læðingi þá sprengju hamingjuboðefna sem fullnæging veitir, jafnvel þótt tvöfalt fleiri taugaendar séu í sníp kvenna en getnaðarlimi karla.
Örvun hefst milli eyrnanna
Önnur skýring felst í muninum á kynörvun kynjanna.
Örvun karla hefst í grófum dráttum milli fótanna en örvun kvenna hins vegar miklu fremur milli eyrnanna.
Í kóreanskri rannsókn frá 2013 sýndu heilaskannanir að rómantísk atlot kveiktu meiri virkni í heila kvenna en bein kynferðisleg atlot og ástleitið tal örvaði þær miklu meira en beinar tilvísanir í kynlíf.
Hjá körlum var þetta þveröfugt.
Hvað gerist í líkamanum við fullnægingu? Kíktu á þetta myndband.
Heilinn og líkaminn ekki sammála
Það flækir svo kynlöngun kvenna enn meira að heilinn og líkaminn eru ekki alltaf sammála um stig kynlöngunar. Þess vegna er ekki alltaf fullkomið samhengi milli kynlöngunar og rakastigs í skeiðinni.
Hjá konu þurfa sem sé margir þættir að spila saman til að hún nái þeim unaðssekúndum þegar heilinn troðfyllist af haminguboðefnum.
Fullnæging í þremur fösum
Kynfæri kvenna taka margvíslegum breytingum áður en fullnægingin streymir loks um líkamann.
Fasi 1: Kynörvun
Þegar kona fyllist kynlöngun eykst blóðstreymi til kynfæranna. Æðarnar víkka og snípurinn og skapabarmarnir þrútna. Skeiðarveggirnir mynda raka.
Lengd: Frá nokkrum mínútum upp í nokkrar klukkustundir.
Fasi 2: Sléttan
Blóðstreymið kemur skeiðarveggjunum til að þrútna og stinnast þannig að þeir halda þétt að limnum. Snípurinn verður svo ofurnæmur að hann dregst til baka til að draga úr beinni snertingu.
Lengd: Nokkrar mínútur
Fasi 3: Fullnæging
Taktfastir vöðvasamdrættir verða í skeiðinni og kringum hana. Legið dregst saman og lyftist örlítið. Í heila losna verðlaunaboðefnið dópamín og hormónið oxytósín sem eykur öryggistilfinningu.
Lengd: Venjulega nokkrar sekúndur
Karlar hugsa líka oftar um kynlíf en konur
Árið 2012 rannsakaði sálfræðingurinn Terri Fisher frá Ohio State háskólanum í Bandaríkjunum 283 háskólanema, sem þurftu á einni viku að telja í hvert skipti sem þeir hugsuðu annað hvort um mat, svefn eða kynlíf.
Rannsóknin sýndi að karlar hugsa um kynlíf 34,2 sinnum á dag – næstum tvisvar hvern vakandi tíma.
Konurnar voru heldur ekki alveg saklausar og hugsuðu um kynlíf á u.þ.b. klukkutíma fresti, sem samsvarar 18,6 sinnum á dag.
Hjá báðum kynjum var kynlíf það hugðarefni sem var vinsælast.