Appelsínuguli liturinn tengist Hollendingum traustum böndum og er t.d. áberandi þegar íþróttamenn klæðast keppnisbúningum sínum. Tengingin við þennan lit nær aftur til 16. aldar þegar Holland okkar tíma var á valdi Spánverja, en Spánarkonungur var af ætt Habsborgara.
Árið 1559 skipuðu Habsborgarar Vilhelm 1. – prins af furstadæminu Oranje – sem landsstjóra í Hollandi. Vilhelm var hins vegar mótmælendatrúar og harður andstæðingur undirokunar spænskra kaþólikka. Hann lagðist því að sveif með Hollendingum í uppreisn gegn Habsborgurum.
Flest hollenskt íþróttafólk, þar á meðal knattspyrnulandsliðin, klæðast appelsínugulum búningum.
Appelsínugult var litur Vilhelms
Með Vilhelm prins í broddi fylkingar unnu uppreisnarmenn marga mikilvæga sigra og þegar kaþólskur leigumorðingi banaði honum 1584, hafði hann rutt brautina fyrir sjálfstæði Hollands. Enn í dag líta Hollendingar á hann sem hinn mikla landsföður.
Fyrir dauða sinn hafði Vilhelm stofnað hollenska konungdæmið og appelsínuguli liturinn varð einkennislitur þess. Í flestum tungumálum er orðið „orange“ notað um appelsínugulan lit, en getur auðvitað verið stafsett á mismunandi vegu.
Þetta var því tilvísun í Oranje-furstadæmið og hinn appelsínugula fána sem Vilhelm notaði sem merki sitt. Liturinn hefur af þessum sökum alveg sérstaka sögulega þýðingu fyrir Hollendinga, sem líta á hann sem hið fullkomna þjóðartákn.
Appelsínuguli liturinn hefur stundum verið hafður með í hollenska fánanum, en árið 1937 var með konunglegri tilskipun ákvarðað að fánalitirnir skyldu vera rauður, hvítur og blár. Ákvörðunin markaði andstöðu við nasista en hollenskir nasistar notuðu appelsínugula rönd í sínum fána og veifuðu honum áfram meðan Holland var undir hæl Þjóðverja í seinni heimsstyrjöld.