Stjarneðlisfræðingar hafa nýlega séð merki um stærsta árekstur svarthola. Afraksturinn var svarthol af sérstakri gerð sem vísindamenn hafa ekki séð áður.
Svartholin tvö höfðu 66 og 85-falda þyngd sólar og útreikningar sýna að afrakstur samrunans varð svarthol með 143 sólmassa.
Þetta þýðir að áreksturinn hefur losað orku sem samsvarar níu sólmössum. Megnið af þeirri orku hefur streymt um geiminn í formi svonefndra þyngdarbylgna sem skynjararnir LIGO í BNA og Virgo á Ítalíu geta mælt.
Þyngdarbylgjur sýna stærð svartholanna
Þegar svarthol gleypa hvort annað losnar úr læðingi óhemjulegt magn orku í formi þyngdarbylgna sem ferðast um geiminn. Styrkur þeirra sýnir hve þung svartholin voru.
1. Mörkin við 100 sólmassa
Þyngdarbylgjur sem áður hafa mælst í LIGO og Virgo vegna samruna svarthola hafa skilið eftir sameinað svarthol undir 100 sólmössum.
2. Nýr samruni slær met
Greiningar á samruna tveggja svarthola sýna nú að þau voru 66 og 85 sólmassar og afraksturinn varð nýtt 142 sólmassa svarthol.
Samruninn er ekki aðeins stærsti atburður sem þyngdarbylgjur hafa mælst frá hingað til, heldur einnig sá fjarlægasti. Áreksturinn varð á svæði sem nú er í 17 milljarða ljósára fjarlægð héðan.
Það eru þó ekki liðnir 17 milljarðar ljósára frá árekstrinum, heldur aðeins sjö. Alheimurinn hefur sem sagt verið um helmingur af núverandi stærð. Vegna útþenslu alheimsins er þetta svæði nú í miklu meiri fjarlægð.
Risavaxinn árekstur tveggja svarthola kom af stað svokölluðum þyngdarbylgjum sem hafa ferðast um geiminn í 7 milljarða ára áður en skynjararnir Virgo (innfellt) og LIGO uppgötvuðu þær.
Uppgötvun 142 sólmassa svarthols er mikilvæg vegna þess að þetta er í fyrsta sinn sem fundist hefur svarthol í svonefndum millivigtarflokki en samkvæmt viðtekinni kenningu myndast slík svarthol við samruna tveggja smærri.
Fleiri árekstrar skapað svartholið
Minni svarthol myndast þegar stór stjarna en þó minni en 60 sólmassar, fellur saman. Sé stjarna yfir þessum stærðarmörkum tætist hún í sundur í stað þess að mynda svarthol.
Þessi tvö svarthol, annað 66 sólmassar en hitt 85, hafa því trúlega sjálf myndast í árekstri, segja vísindamennirnir.
Svarthol í fjórum þyngdarflokkum
1. Upprunalegt svarthol
Stjörnufræðingar hafa þá kenningu að í ungum alheimi hafi myndast mjög lítil svarthol á stærð við frumeind en með massa á við stórt fjall.
5. Stjörnumassasvarthol
Myndast þegar stjarna með 5-60 sólmassa brennur út og fellur saman. Sé stjarnan þyngri springur hún í tætlur í stað þess að mynda svarthol.
3. Millivigtarsvarthol
Vega milli 100 og 100.000 sólmassa. Myndast þegar tvö eða fleiri stjörnumassasvarthol renna saman í þyngra svarthol.
4. Ofurþung svarthol
Vega meira en milljón sólmassar og er trúlega að finna innst í öllum stjörnuþokum. Myndast um leið og stjörnuþokan sjálf er að taka á sig form.
Stjörnufræðinga skortir nú aðeins sannanir fyrir tilvist minnstu svartholanna. Samkvæmt kenningunni mynduðust þau skömmu eftir Miklahvell og eru ekki nema svo sem á við eitt fjall að þyngd. Enn hefur ekkert slíkt fundist.