Daður – Fyrstu tímarnir eða dagarnir
Við teflum á tæpasta vað með tilfinningarnar
Daðri mætti líkja við það að spila fjárhættuspil eða að neyta vímuefna. Í öllum tilvikum bera umbunarstöðvar heilans ábyrgð á sterkum tilfinningunum, sem stjórna atferli okkar.
Boðefnið dópamín losnar úr læðingi í litla verðlaunakjarnanum NAcc (nucleus accumbens) í fremsta hluta heilans, sem veitir svo mikla vellíðan að við reynum eftir fremsta megni að endurtaka það sem olli vellíðaninni.
Vísindamenn hafa mælt hækkun dópamíns í tilraunum á fólki, sem var lofað peningum, svo og hjá gagnkynhneigðum körlum, sem skoðuðu myndir af aðlaðandi konum.
Mikilvæg heilastöð:
- Verðlaunakjarni
Hormónamagn:
- Dópamín: mikið
- Kortísól (streituhormón): mikið
- NGF (streituhormón): mikið
- Testósterón: mikið
Heilastarfsemin fyrstu tólf mánuðina:
Sérstakt svæði heilans er virkjað á fyrstu klukkustundunum og dögunum en þrjú önnur svæði vinna baki brotnu fyrstu árin.
Verðlaunakjarni
Verðlaunar okkar með dópamíni
Horngári
Metur tilfinningar þess útvalda
VTA-svæðið
bregst við þegar elskhuginn birtist
Fremsti hluti ennisblaðsins
Metur hvort hinn aðilinn er sá rétti
Verðlaunakjarni
verðlaunar okkar með dópamíni
Horngári
Metur tilfinningar þess útvalda
VTA-svæðið
bregst við þegar elskhuginn birtist
Fremsti hluti ennisblaðsins
Metur hvort hinn aðilinn er sá rétti
Ástfangin – Fyrstu sex- tólf mánuðirnir
Hamingjan veldur streitu
Víman sem fylgir því að verða ástfanginn gæðir tímabilið að öllu jöfnu ekki hamingju, heldur einkennist það af óvissu og öryggisleysi. Streituástandið sést greinilega þegar vísindamenn skyggnast inn í heila þeirra ástföngnu.
Streituhormónamagnið er mikið og þær heilastöðvar sem tengjast vali og mati á áformum annarra eru rauðglóandi af virkni.
Ástfangnir taka erfiðar ákvarðanir
Ástarskot fela í sér mikinn vafa. Sálfræðingurinn Xiaomeng Xu við Stony Brook háskólann í New York skannaði heila átján ástfanginna ungra karla og kvenna árið 2011.
Tilraunin leiddi í ljós mikla aukningu virkninnar í fremsta hluta ennisblaðsins (OFC) þegar sá útvaldi birtist. Heilastöð þessi á þátt í að taka erfiðar ákvarðanir um hvort t.d. tiltekinn verknaður borgi sig.
Þegar sá útvaldi birtist varð jafnframt aukin virkni í hluta af hægra hveli umbunarstöðvarinnar (VTA). Ef hins vegar náskyldur ættingi birtist varð aukin virkni í vinstra hvelinu. Heilinn gerir með öðrum orðum greinarmun á rómantískri ást og ást á ættingja.

Stöðvarnar OFC og VTA lýstust upp þegar sá heittelskaði birtist.
Magn ástar er mælanlegt
Ástfangið fólk er stöðugt með áhyggjur af því hvort tilfinningar þess séu endurgoldnar.
Litla svæðið horngári (gyrus angularis) milli hnakkablaðsins og hvirfilblaðsins aftast í heilanum á meðal annars þátt í að skilja hugarástand og áform annarra, en svæðið er einmitt mjög virkt hjá ástföngnu fólki.
Stephanie Ortigue við Kaliforníuháskóla í Santa Barbara skimaði heilann í 29 ástföngnum konum á meðan þær hinar sömu hugsuðu um stóru ástina.
Tilraunin leiddi í ljós að því ástfangnari sem þær sögðust vera, þeim mun meiri virkni mældist í horngáranum.
Mikilvægar heilastöðvar:
- Horngári
- Undirslæða (VTA)
- Fremsti hluti ennisblaðs (OFC)
Hormónamagn:
Kortísól: mikið.
Í rannsókn sem gerð var á ástföngnu fólki mældi geðlæknirinn Donatella Marazziti, við Pisa-háskólann á Ítalíu, alls 42 hundraðshlutum meira af streituhormóninu kortísóli í blóði í upphafi ástarsambands heldur en mældist eftir eitt ár þegar tilfinningarnar höfðu dofnað eilítið.
NGF: mikið.
Ítalski geðlæknirinn Enzo Emanuele, við háskólann í Pavia, sýndi fram á að hlutfall annars streituhormóns, NGF, í blóðinu er alls 85 prósentustigum hærra meðal ástfangins fólks en ella. Hormónahlutfallið eykst eftir því sem fólk telur sig vera meira ástfangið.
Testósterón: lítið.
Karlmenn sem eru nýlega orðnir ástfangnir eru með minna af testósteróni í blóði heldur en karlar í föstum samböndum og einstæðir menn. Ástfangnar konur framleiða á hinn bóginn meira magn testósteróns. Hormónið á að öllum líkindum þátt í að tengja elskendurna böndum í upphafi ástarsambandsins.
Fast samband – Frá einu ári og áfram
Hormónar skapa öryggi
Eftir að vera ástfanginn í hálft til eitt ár, með tilheyrandi streitu og sæluvímu, fer sambandið inn á öruggt stig sem stjórnast af öðrum kemískum efnum. Magn streituhormónanna kortísóls og NGF fellur niður á eðlilegt stig.
Magn hormónsins oxýtócíns eykst á hinn bóginn til muna. Oxýtócín er meðal annars að finna í svæði sem nefnist mandla í hvirfilblöðunum.
Þar dregur hormónið úr streitu og ótta og á þátt í að skapa öryggistilfinningu og ró í tryggum ástarsamböndum.

Sléttumúsin verður trygg makanum af oxýtócíni
Langflest spendýr eru fjöllynd, en með því er átt við að þau eignist marga maka á lífsleiðinni. Litla nagdýrið sléttumús lifir hins vegar í langvarandi sambandi við sama makann og trygglyndið er talið eiga rætur að rekja til hormónsins oxýtócíns. Sléttumýs eru með fleiri oxýtócínviðtaka en þekkist hjá öðrum spendýrum og ef vísindamenn hefta viðtakana fer músin óðum að skipta um maka.
Oxýtócín gerir kærustuna fallega
Hormónið oxýtócín virðist skipta sköpum fyrir ástarlíf fólks. Þýski geðlæknirinn René Hurlemann við háskólann í Bonn birti árið 2013 mjög áhugaverðar niðurstöður tilrauna með þetta sama efni. Hurlemann fékk 20 unga menn, sem voru í tryggu, langvarandi sambandi, til að horfa á stafla af myndum af konum.
Í staflanum leyndust myndir af kærustunni innan um myndir af óþekktum konum og voru mennirnir beðnir um að gefa konunum einkunn allt eftir því hversu aðlaðandi þær væru.
Hurlemann endurtók síðan tilraunina, en að þessu sinni var oxýtócíni úðað upp í nasir karlmannanna.
Niðurstöðurnar voru mjög skýrar. Þegar áhrifa hormónsins gætti fannst mönnunum maki þeirra vera langtum meira aðlaðandi en fyrr, þó svo að efnið virtist ekki hafa áhrif á hugmyndir þeirra um hinar konurnar.
Heilaskannanir leiddu í ljós að oxýtócín virkjaði heilasvæðið verðlaunakjarna (NAcc), sem er hluti af umbunarstöðvunum. Aðrar tilraunir leiddu í ljós að þessi hluti heilans á þátt í að kalla fram góðu tilfinninguna sem tengist rómantískri ást og að því leyti tengir hormónið aðilana saman.
Mikilvægar heilastöðvar:
- Verðlaunakjarni
- Mandla
- Hvirfilblað
- Gagnaugablað
- Fremsti hluti ennisblaðs
Hormónamagn:
- Oxýtócín: mikið
- Kortísól: lítið
NGF: lítið
Þessi heilasvæði eru líkleg til að taka til starfa í föstu sambandi
Hvirfilblað
Minnkuð virkni veldur öryggi
Gagnaugablað
Minnkuð virkni veldur öryggi
Mandla
Minnkuð virkni veldur ótta
Verðlaunakjarni
Gefur góðu ástartilfinninguna
Fremsti hluti ennisblaðsins
Minnkuð virkni þegar við erum ástfangin
Hvirfilblað
Minnkuð virkni veldur öryggi
Gagnaugablað
Minnkuð virkni veldur öryggi
Mandla
Minnkuð virkni veldur ótta
Verðlaunakjarni
Gefur góðu ástartilfinninguna
Fremsti hluti ennisblaðsins
Minnkuð virkni þegar við erum ástfangin
Föst sambönd draga úr neikvæðum tilfinningum
Taugalíffræðingurinn Semir Zeki við University College í London hefur rannsakað heilaskannanir annarra sérfræðinga, þar sem þátttakendum var gert að horfa á myndir af makanum.
Niðurstaða hans leiddi í ljós minnkaða virkni í ýmsum heilastöðvum þegar við lifum í tryggum og hamingjuríkum samböndum.
Þetta á meðal annars við um möndlu heilans, sem virkjast í tengslum við ótta, og hluta af heilaberkinum í hvirfil- og gagnaugablöðunum, sem á þátt í að framkalla neikvæðar tilfinningar.
Lítil virkni í þessum svæðum er talin valda auknu öryggi, rósemi og jafnvægi, en þetta eru einmitt þær tilfinningar sem ráða ríkjum í hamingjuríkum ástarsamböndum.
Heilaskannanirnar leiddu enn fremur í ljós að þeir sem eru í langvarandi samböndum eru með minni virkni í fremsta hluta ennisblaðsins þegar þeir horfa á myndir af sínum heittelskuðu.
Þetta svæði er virkt þegar við reynum að meta hvað öðrum finnist um okkur og Semir Zeki túlkar þessa minnkuðu virkni á þann hátt að fólk í föstum samböndum, andstætt við þá ástföngnu, treysti því að ást þeirra sé endurgoldin og þurfi fyrir vikið ekki að eyða mikilli orku í vangaveltur um tilfinningar hins aðilans.

Löngunin stjórnast af þremur hormónum
Kynlífið stjórnast af þremur hormónum: karl- og kvenhormónunum, testósteróni og estrógeni, svo og hormóninu oxýtócíni, sem gefur nautn og eykur á samkennd.
Karlar:
Kynhvötin stjórnast að miklu leyti af kynhormóninu testósteróni. Í tilraun þar sem hormónið var bælt með lyfjum í ungum mönnum varð löngunin í kynlíf miklu minni en ella næstu tvær vikurnar, auk þess sem kynórum fækkaði og þeir fróuðu sér sjaldnar.
Konur:
Sennilega eykur estrógen löngun í kynlíf, beint eða óbeint. Sumar tilraunir hafa einnig leitt í ljós að konur sem eiga marga bólfélaga eru með meira testósterón í blóði en konur í sambúð.
Bæði kynin:
Hormónið oxýtócín, sem tengir elskendur tilfinningaböndum, hefur í sumum tilraunum virst auka kynhvötina. Oxýtócín losnar úr læðingi þegar karlar og konur fá fullnægingu og á þátt í að framkalla nautn.
Sambandsslit
Vangoldin ást minnir á þunglyndi
Þegar löngu sambandi lýkur er unnt að greina það í heilanum. Christina Stoessel, geðlæknir við Friedrich Alexander háskólann í Nürnberg, bar saman heilaskannanir annars vegar 12 manns, sem makarnir höfðu sagt upp, og hins vegar 12 manns, sem lifðu í hamingjuríkum samböndum.
Þeir yfirgefnu voru með minnkaða heilavirkni í heilastöðvunum eyju og í fremri hluta gyrðilgára (ACC). Þessar stöðvar, sem skipta meginmáli fyrir úrvinnslu tilfinninga, eru að sama skapi óvirkari hjá fólki sem er með sjúkdómsgreininguna þunglyndi, og þetta kann að skýra sorgina sem hellist yfir okkur þegar langvarandi sambandi er slitið.

Eftir sambandsslit er minnkuð virkni í heilastöðvunum eyju og gyrðilgára (ACC).
Mikilvægar heilastöðvar:
ACC
Eyja
Hormónamagn:
Kortisól: mikið
Adrenalín: mikið