Helsta ástæðan fyrir andfýlu skríður um í sjálfum munninum.
Milljónir gerla – rösklega 700 ólíkar tegundir – lifa í tannsýklunni, svo og í fellingum og rifum víðs vegar í munnholinu og á tungunni. Þar háma gerlarnir í sig matarleifar sem fyrirfinnast í munnholinu og framleiða lofttegundir, líkt og í þörmunum.
Með þessari samlíkingu mætti því segja að munnurinn væri að reka við.
Brennisteinslofttegundir leiða af sér andfýlu
Munnbakteríurnar lifa að öllu jöfnu á kolvetni sem leynist í matarleifum í munninum, án þess þó að leiða af sér sérlega slæma lykt.
Þegar við hins vegar höfum ekki borðað lengi og eins þegar við sofum, ráðast örverur þessar til atlögu við próteinin í munnvatninu eða í dauðum frumum í slímhúð munnsins.
Munngerlar sem brjóta niður prótein, mynda brennisteinsríkar lofttegundir í líkingu við brennisteinsvetni og metaneþíól og það eru þessi efni sem lykta eins og rotið egg og leiða af sér andfýlu.
Þannig má forðast fúlan anda:
HREINSIÐ TENNURNAR:
Góð tannhirða heldur bakteríunum í skefjum og vinnur bug á myndun brennisteinslofttegunda. Fjarlægið skán af tönnunum með tannburstanum því skánin er heppilegur íverustaður fyrir bakteríur sem eru á leið niður í tannslíðrið. Þar boða gerlarnir til veislu og fjölga sér. Einnig er gott ráð að fjarlægja matarleifar milli tannanna með tannþræði.
BURSTIÐ TUNGUNA:
Tungan er vinsælasti dvalarstaður gerlanna. Hrufótt yfirborðið er afar ákjósanlegt fyrir prumpandi lofttegundirnar og um það bil fjórfalt fleiri gerlar leynast á tungunni en annars staðar í munninum. Því skyldi bursta tunguna með tannbursta alla daga, alveg aftur eftir henni eða þá með sérlegri tungusköfu.
NAGIÐ SÚRA ÁVEXTI:
Sítrusávextir gera umhverfi munnsins súrt og lágt pH-gildi er einmitt óvinsælt meðal gerla: Það heftir getu þeirra til að brjóta niður prótein og framleiða brennisteinslofttegundir sem lykta eins og fúlegg.
LEITIÐ Á NÁÐIR SINKSINS:
Tannkrem og töflur sem innihalda sink bindast brennisteinsefnasamböndum í lofttegundum sem gerlarnir losa frá sér og draga þannig úr lyktinni. Munnskolvatn með bakteríudeyðandi efnum á borð við klórhexidín er ekki talið vera vænlegur kostur, því margir sérfræðingar óttast að skolefnin geti leitt af sér viðnámsþolna munngerla.
Þannig má forðast gular tennur
BORÐIÐ OG DREKKIÐ:
Þegar við borðum og drekkum hrinda munnvatnskirtlarnir af stað munnvatnsframleiðslu og munnvatnið hreinsar einmitt í burtu vatnsuppleysanlegar brennisteinslofttegundir í munninum.
SJÚGIÐ OG TYGGIÐ:
Sykurlaust tyggjó og hálstöflur eiga þátt í að örva munnvatnsframleiðslu og stuðla fyrir vikið einnig að því að gerlar skolist burtu úr munninum.
FARIÐ TIL TANNLÆKNIS:
Tannslíðurhrörnun er slæm fyrir þá sem vilja forðast að vera andfúlir. Sýkt tannslíður er afar vænleg gróðrarstía fyrir munngerla sem lykta eins og brennisteinn.
HÆTTIÐ AÐ REYKJA:
Reykingafólk þjáist oft af tannslíðurhrörnun og reykurinn þurrkar upp munninn sem gerir gerlunum auðveldara uppdráttar.
FORÐIST HVÍTLAUK:
Sumar fæðutegundir valda frekar andfýlu en aðrar, án þess þó að kvillinn einskorðist við munninn. Hvítlaukur veldur t.d. myndun allýlmetýlsúlfíðs í þörmunum sem kemst út í lungun með blóðinu og losnar úr læðingi þegar við öndum frá okkur. Fiturík fæða og mjólkurafurðir geta jafnframt valdið andfýlu.
Veruleg andfýla
Um það bil helmingur fólks lendir í því að vera með sérlega fúlan anda á einhverju stigi ævinnar. Ástæðuna er oftast að finna í gerlatengdum brennisteinslofttegundum í munni.
Þrálát andfýla – andremma – er nokkuð sem hrjáir um einn af hverjum fimm og er henni lýst sem verulega vondri lykt sem veldur óþægindum hjá þeim sem hún leggst á, svo og í umhverfi þeirra. Um 90% orsaka andremmu er að finna í sjálfum munninum en 10% stafa af sjúkdómum, meltingarfærum, maga eða þá lyfjanotkun.