Í fyrri heimsstyrjöld sköpuðu kynsjúkdómar hermanna mikil vandræði og bandaríski herinn varð samtals af 7 milljónum starfsdaga.
Þegar Bandaríkin hófu þátttöku í seinni heimsstyrjöldinni var herstjórnin ákveðin í að koma í veg fyrir að þetta endurtæki sig. Milljónum dollara var varið í áróðursherferðir þar sem hermenn voru varaðir við margvíslegum hættum af umgengni við konur í nágrenni herstöðva Bandaríkjamanna.
Ásamt stórbættum meðferðarúrræðum dugði þetta til þess að draga úr veikindum vegna kynsjúkdóma um 90% frá fyrri heimsstyrjöld.
Það var mikilvægur hluti af áróðrinum að undirstrika þá skömm sem kynsjúkdómarnir (VD) hefðu í för með sér.
Stan Lee stóð að bandarískum áróðri
Hinn frægi myndasöguteiknari, Stan Lee, var einkum þekktur fyrir ofurhetjur á borð við Spider-Man, Hulk og Iron-Man sem allar urðu heimsþekktar á 7. áratugnum.
En Lee var þegar farinn að vinna að myndasögugerð á tímum seinni heimsstyrjaldar og frá 1943 tilheyrði hann þjálfunarmyndadeild hersins (Training Film Division). Sú deild framleiddi m.a. þjálfunarmyndir og áróður sem beint var að bandarískum hermönnum.
Að því er Lee sagði sjálfur náði hann einkum miklum árangri með áróðursherferðum sínum gegn kynsjúkdómum en þar voru hermennirnir varaðir við konum í grennd við herstöðvar Bandaríkjamanna í ýmsum löndum.