Lifandi Saga

Umskurður átti að lækna kynsjúkdóma

Hjá t.d. Mayum, Forn-Egyptum og kristnum tíðkaðist að umskera drengi - til að vernda gegn sárasótt, fyrir guðina eða til að hemja löngunina til sjálfsfróunar.

BIRT: 01/02/2023

Þegar læknir að nafni Eugen Levit gaf út rit sitt „Umskurður í Ísrael skýrður út frá læknisfræðilegu og mannúðlegu sjónarmiði“, var hann harðorður og bitur.

 

„Hvaða siðmenntaða þjóð fær sig til að álíta blóði drifin og lemstruð kynfæri vera guðdómlegt menningartákn?“ skrifaði austurrískur læknir og gyðingur árið 1874.

 

Sonur Levits var þá nýdáinn af völdum blóðeitrunar sem hann hlaut þegar sýking komst í sár hans í kjölfar umskurðar. Levit blés til baráttu gegn umskurði í því skyni að „vernda þúsundir saklausra barna gegn pyntingum og limlestingum“.

 

Í þá daga álitu læknar í Evrópu og Bandaríkjunum, hvort heldur kristnir eða gyðingatrúar, umskurð sem fólst í því að skera forhúðina af getnaðarlimnum, vera aðferð við að halda limnum hreinum. Án forhúðar gátu engin óhreinindi safnast í húðfellingarnar.

 

Sumir læknar staðhæfðu meira að segja, án þess þó að geta sannað mál sitt, að umskurður kæmi í veg fyrir beinþynningu, flogaveiki, geðveiki og sárasótt.

Umskurður tíðkast enn víða um heim.

Í augum margra gyðinga snerist umskurður hins vegar ekki um hreinlæti, heldur trúarbrögð. Hefðin byggir á 1. Mósebók, þar sem guð sendir Abraham opinberun sem felur í sér skýr skilaboð:

 

„Allt karlkyn meðal ykkar skal umskera. Þið skuluð umskera hold forhúðar ykkar. Það sé tákn sáttmálans milli mín og ykkar“.

 

Rit Eugens Levits varð fljótt hluti af umræðunni um umskurð, rökræðum sem hafa átt sér stað allt frá dögum Alexanders mikla.

 

Umskurður styrkti getnaðarliminn

Ef marka má vísindamenn kann opinberun Abrahams að hafa átt sér stað um 2100 árum fyrir Krist. Þegar þar var komið sögu höfðu Egyptar stundað það að umskera menn og unga drengi í árþúsundir.

 

Röntgenmyndir af 6.000 ára gömlum múmíum leiða í ljós að hinir látnu voru umskornir. Elsta varðveitta myndin af umskurði er jafnframt egypsk. Hana er að finna á steinlágmynd frá því um 2400 fyrir Krist, þar sem drengur einn heldur í aðstoðarmann á meðan presturinn dregur breitt hnífsblað hringinn í kringum lim drengsins.

 

„Haltu honum og gættu þess að hann líði ekki út af“, segir presturinn hvetjandi við aðstoðarmann sinn, samkvæmt myndletrinu á lágmyndinni.

 

Egyptar til forna töldu að stöðugt þyrfti að losa líkamann við óhreina vökva en að öðrum kosti myndi fólk veikjast. Þegar forhúðin hafði verið fjarlægð áttu slæmir vökvar greiðari leið út úr getnaðarlimnum, sögðu þeir. Egyptar álitu umskurðinn einnig styrkja liminn og illir andar kæmust fyrir vikið ekki inn í hann. Mikill heiður var fólginn í því að umbera sársaukann og að streitast ekki á móti umskurðinum.

 

Egyptinn Uha ritaði reynslu sína á steintöflu um það bil 2.200 árum fyrir Krist.

 

„Þegar ég var umskorinn, ásamt 120 öðrum mönnum, reyndi enginn að komast hjá því“, eða svo sagði lýsing hans.

Umskurður tíðkast í mörgum menningarheimum

Maðurinn hefur stundað umskurð í minnst 10.000 ár. Fullorðinshelgiathöfn, blóðfórn og hreinlæti eru meðal skýringanna fyrir því að fjarlægja forhúð drengja.

Blóð mildaði guðina

Frá 3. öld e. Kr. (Mið-Ameríka): Majarnir ristu í húð sína og létu blóðið streyma sem fórn til guðanna fyrir góðri uppskeru. Fræðimenn telja að umskurður hafi verið hluti af helgiathöfn þessari.

Löngun í kynlíf eykst

Frá og með 10. öld e. Kr. (Madagaskar): Forfeðrunum til heiðurs voru eins til tveggja ára drengir umskornir á heimilum sínum. Umskurðinum var ætlað að tryggja karlmennsku og kyngetu síðar á ævinni.

Kaupmenn fluttu siðinn með sér

Frá 13. öld (Indónesía): Múslímskir kaupmenn fluttu hefðina með sér til Mið-Austurlanda þar sem töfralæknar umskáru drengi á öllum aldri. Nú á dögum eru það oftast læknar sem gera aðgerðina.

Sársauki gerir drengi að mönnum

Frá 15. öld (Ástralía): Forhúð á að giska 12 ára ástralskra frumbyggja var fjarlægð með tinnusteinshnífi. Helgiathöfn þessi var til marks um að nú væru drengirnir að komast í hóp fullorðinna.

Grímum ætlað að hræða

Árin 2-3000 f. Kr. (Afríka): Meðal sumra ættbálka í Austur-Afríku tíðkast að umskera tíu ára drengi. Karlar með dýragrímur dansa umhverfis drenginn til að hræða hann svo hann gleymi öllu um sársaukann.

Hefðin breiddist út meðfram allri Miðjarðarhafsströndinni í fornöld. Siðurinn náði alla leið til Mið-Austurlanda og allar götur síðan hafa drengir af gyðingaættum verið umskornir átta dögum eftir fæðingu til að uppfylla sáttmálann sem gyðingar gerðu við guð. Gríski sagnfræðingurinn Herodot nefnir umskurð á 5. öld fyrir Krist:

 

„Egyptar leggja stund á umskurð hreinlætisins vegna, því þeir álíta það vera mikilvægara að vera hreinn en snotur“.

 

Herodot nefnir enn fremur að auk Egypta umskeri einnig Föníkumenn, Eþíópar, svo og „Sýrlendingar í Palestínu“.

 

Umskurður olli hneykslan

Þegar konungur Makedóníu, Alexander mikli, réðst inn í Miðausturlönd árið 332 f.Kr., brá sigurvegurunum í brún: Í grískri menningu tíðkaðist nefnilega að karlmenn stunduðu íþróttir án nokkurrar fataspjarar og þegar Miðausturlandabúarnir mættu til leiks í m.a. glímu vöktu þeir mikla furðu sökum umskorinna getnaðarlima sinna.

 

Grikkir álitu umskorinn getnaðarlim vera ógeðfelldan sökum þess að hann minnti þá á reistan lim.

 

Til að forðast vandræðalegar uppákomur reyndu nokkrir umskornu mannanna og drengjanna að toga þá litlu forhúð sem eftir var yfir reðurhöfuðið. Sennilega hefur sumum þeirra tekist að teygja húðflipann nægilega mikið til að hann hyldi að þeir væru umskornir.

 

„Umskurn, rakstur kynhára, snyrting skeggs, naglaklipping og rakstur hára í holhönd“.

Fimm náttúrulegar leiðir fyrir múslímska karla til að halda sér hreinum.

Umskurður var einkar ógeðfelldur í augum Grikkja og á 3. öld f. Kr. bannaði grísk-palestínski konungurinn Antiochos 4. þennan sið. Allir þeir sem ekki hlýddu boðinu skyldu verða líflátnir. Ýmsar Miðausturlandaþjóðir, þar á meðal gyðingar, héldu uppteknum hætti á laun en þess má geta að m.a. Jesús og lærisveinar hans voru umskornir.

 

„Þegar átta dagar voru liðnir skyldi umskera hann og var hann látinn heita Jesús“, segir í Lúkasarguðspjallinu.

 

Páll postuli efaðist hins vegar verulega um gagnsemi umskurðar og gerði meira að segja grein fyrir þessum skoðunum sínum í kringum árið 50 e. Kr. í bréfi til kristins safnaðar í Galatíu þar sem nú er Tyrkland: „Því í augum Jesú Krists skiptir engu hvort maður er umskorinn eður ei“.

 

Ef maður vildi öðlast frelsi var trúin á Jesú Krist mikilvægari en það að láta fjarlægja forhúðina, rökræddi Páll. Ef engin krafa var gerð um umskurn reyndist trúboðum jafnframt auðveldara að vinna sér fylgi meðal Grikkja og Rómverja.

 

Trúarbrögðin öðluðust brátt svo miklar vinsældir að Theódósíus keisari lögleiddi kristni sem opinbera ríkistrú í Rómarveldi árið 380.

 

Mýta: Gyðingar notuðu kristið blóð

Þegar múhameðstrú tók að breiðast út á 7. öld varð umskurður forhúðarinnar að helgiathöfn meðal milljóna múslíma.

 

Þessi nýju trúarbrögð breiddust á tæpri öld yfir Miðausturlönd til Írans, Egyptalands og Norður-Afríku. Opinberanirnar sem spámaðurinn Múhameð fékk frá Allah voru skráðar í Kóraninn, hina helgu bók múslíma.

 

Hvergi í Kóraninum er nefnt að múslímum beri að láta umskera sig, heldur er umskurnar getið í trúarritum um líf Múhameðs, þeim sem nefnast hadith. Þar lýsir spámaðurinn því yfir að maðurinn geti haldið sér hreinum eftir fimm náttúrulegum leiðum:

 

„Umskurn, rakstri kynhára, snyrtingu skeggs, naglaklippingu og rakstri hára í holhönd“.

 

Ef marka má hefðbundnar frásagnir múslíma fæddist Múhameð fullkominn, þ.e. umskorinn. Þegar múslímaherir ruddust inn í Spán á 8. öld fylgdi þessi hefð með og samkvæmt heimildum spænska prestsins Eulogius þvinguðu múslímarnir kristna menn á svæðinu til að láta umskera sig.

Þegar umskurður gyðinga á sér stað er iðulega hafður auður stóll fyrir spámanninn Elías og er andi hans sagður vaka yfir athöfninni.

Kristnir menn litu á umskurð sem eyðileggingu á verki guðs og margir Evrópubúar á miðöldum litu nágranna sína úr hópi gyðinga fyrir vikið hornauga. Flökkusögur sem voru prentaðar og dreift, juku einungis á tortryggnina í garð gyðinga.

 

Sem dæmi er að finna tréristu í svokallaðri Nürnbergkróníku frá árinu 1493 sem sýnir gyðinga umskera tveggja ára gamlan kristinn dreng sem þeir láta svo blæða út. Höfundur verksins, þýski læknirinn og sagnfræðingurinn Hartmann Schedel, var sannfærður um að gyðingar notuðu blóð kristinna drengja í páskaathöfnum sínum.

 

Þegar Spánn sameinaðist aftur undir kristnum yfirráðum árið 1492 var gyðingum vísað úr landi.

 

Af ótta við frekari ofsóknir hófu margir gyðingar í Evrópu að láta umskera drengi á heimilum foreldranna umfram það að fara með þá í bænahús sem opin voru öllum. Helgiathöfnin lifði áfram öldum saman allt þar til veraldlegir gyðingar fóru að gagnrýna þessa venju sem þeir sögðu vera úr sér genginn og úreltan sið.

 

Umskurn hafði í för með sér berkla

Meðal gagnrýnisraddanna var hópur þýskra gyðinga í Frankfurt. Árið 1842 sendi hópur sem kallaði sig „Félag endurbótavina“ frá sér yfirlýsingu um að þeir vildu „útrýma úreltum venjum“, þar á meðal öllu sem hefði „niðurlægt og vanvirt trúna í augum þenkjandi fólks“.

 

Sífellt fleiri kunngjörðu röksemdir sínar gegn umskurði þegar leið á 19. öldina, jafnframt því sem augu almennings fyrir bakteríum og skaðsemi þeirra opnuðust. Maðurinn sem sinnti umskurðinum sem á hebresku var kallaður mohel, gat nefnilega hæglega borið með sér sjúkdóma þegar hann gerði aðgerðina.

 

Venju samkvæmt á mohel þessi að sjúga sárið hreint af blóði með munni sínum. Væri mohel þessi t.d. með sárasótt eða berkla gat hann hæglega borið sjúkdóminn yfir í barnið með bakteríum úr munni sér.

 

Hnífurinn og sárabindið sem bundið var um umskorna liminn voru oft á tíðum óhrein og gátu borið sýkingu í sárið og í sumum tilvikum blæddi börnum út ef hnífurinn lenti á stórri æð. Árið 1837 tilkynnti læknir einn í Vínarborg um hóp hvítvoðunga sem öll hefðu andast eftir að hafa verið umskorin af sama mohel.

Elsta mynd í heimi af umskurn er um 4.000 ára gömul og stafar frá Egyptalandi til forna.

Þess ber þó einnig að geta að aðrir læknar fengu áhuga á umskurði á þessum sama tíma, jafnvel þeir kristnu. Aðgerðin jók sannarlega á hreinlæti getnaðarlimsins en gerði hann jafnframt síður næman sem dró úr áhuga pilta á sjálfsfróun. Sjálfsfróun var á þessum árum álitin geta haft í för með sér sárasótt, greindarskerðingu og geðveiki.

 

Læknar voru enn fremur þeirrar skoðunar að umskurn gæti læknað börn af því að pissa undir í svefni og árið 1865 staðhæfði enski barnalæknirinn Nathaniel Heckford að sér hefði tekist að lækna flogaveika drengi með því einu að fjarlægja forhúð þeirra. Fimm árum síðar, þ.e. árið 1870, umskar viðurkenndur bandarískur skurðlæknir, að nafni Lewis Sayre, lítinn dreng með þeim afleiðingum að drengurinn læknaðist af lömun.

 

„Hann var fær um að ganga um án nokkurra vandkvæða. Umskurðurinn virðist hafa róað taugakerfi hans algerlega“, ritaði Lewis Sayre uppnuminn til bandaríska læknafélagsins.

 

Frásögnunum fylgdu engar læknisfræðilegar sannanir en þær juku svo sannarlega vinsældir umskurðar í Bandaríkjunum. Upp úr árinu 1880 staðhæfðu læknar landsins meira að segja að umskurn fæli ekki í sér meiri áhættu en bólusetning og að aðgerðin væri svo meinlaus að hægt væri að beita henni vandkvæðalaust á hvítvoðunga án þess að nota klóróform, ópíum né deyfingu.

Umskurður stúlkna er yfirleitt gerður með afar frumstæðum áhöldum.

Stúlkur eru umskornar með rakvélarblöðum

Milljónir stúlkna eru umskornar ár hvert til að gera þær álitlegri í augum væntanlegs eiginmanns. Oft eru ytri kynfærin fjarlægð með öllu og skeiðin saumuð saman, þannig að aðeins þvag og tíðablóð komist leiðar sinnar.

 

Umskurður kvenna á sér rætur í Afríku en elstu heimildir um fyrirbærið er að finna á 4.000 ára gamalli egypskri mynd. Samkvæmt hefðinni gerir eldri kona aðgerðina með rakhníf, rakvélarblaði eða glerbroti.

 

Aldur stúlknanna getur reikað allt frá nokkrum dögum upp í 15 ár. Aðgerðinni er ætlað að bæta ásýnd stúlkunnar og búa hana undir hjónaband og þess má geta að margar mæður láta umskera dætur sínar af ótta við að óumskorin stúlka kunni að vera gerð útlæg úr ættflokknum.

 

Á sumum stúlkum er forhúðin við snípinn fjarlægð, á öðrum eru skapabarmarnir skornir alveg af og leggöngin saumuð saman til að tryggja að stúlkan verði hrein mey áfram. Skilið er eftir 2-3 mm op fyrir þvag og tíðablóð.

 

Á sjálfa brúðkaupsnóttina tekur kvenkyns ættingi stúlkunnar saumana svo úr henni til þess að brúðhjónin geti haft samfarir.

 

Nú á dögum er umskurður stúlkna stundaður í Afríku, Mið-Austurlöndum og Asíu. Heimildir frá UNICEF herma að aðgerðin hafi verið gerð á um 200 milljón stúlkum í 30 löndum. Alls 27 þessara landa er að finna í Afríku og í Sómalíu einni eru 90 hundraðshlutar kvenna umskornar.

Kostirnir voru ósannaðir

Á 20. öldinni jókst andstaða gegn umskurn hins vegar á Vesturlöndum, jafnframt því sem læknar fengu engar vísindalegar sannanir fyrir því t.d. að sjálfsfróun leysti úr læðingi geðveiki.

 

Árið 1949 ritaði skoski barnalæknirinn Douglas Gairdner í grein sinni „Örlög forhúðarinnar“ að áhættan við aðgerðina, m.a. sýking, vægi þyngra en kostir hennar.

 

Á árunum milli 1930 og 1975 fækkaði umskornum Bretum úr 35% í 20%. Heilbrigðisyfirvöld í Vestur-Evrópu, Ástralíu og Kanada sendu frá sér tilskipanir á 8. áratug síðustu aldar sem mæltu gegn því að umskurður skyldi gerður að reglu. Aðgerðin naut þó áfram vinsælda í Bandaríkjunum og í dag eru um 60% allra drengja þar í landi umskornir.

Lestu meira um umskurð

David Gollaher, Circumcision: A History of The World’s Most Controversial Surgery, Basic Books, 2000

Leonard B. Glick, Marked in Your Flesh: Circumcision from Ancient Judea to Modern America, Oxford Uni. Press, 2005

LESTU EINNIG

Menning og saga

HÖFUNDUR: Natasja Broström & Andreas Abildgaard

© Library of Congress, Shutterstock, © The Israel Museum, Jerusalem, © The Picture Art Collection/Imageselect, © Friedrich Stark/Imageselect, Welcome Collection

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Náttúran

Jörðin eftir manninn: Svona munu leifar siðmenningar okkar hverfa

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Alheimurinn

Tvíburi Vetrarbrautarinnar finnst í útjaðri alheimsins

Lifandi Saga

Hvers vegna klæddust fangar röndóttum búningum í gamla daga?

Lifandi Saga

Af hverju er rússneskur bær í Noregi?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is