Aðdragandinn að byggingu múrsins
Eftir lok seinni heimsstyrjaldar skiptu sigurvegararnir, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Sovétríkin sundurtættum rústum Þýskalands.
Í svonefndum stýrihópi bandamanna, þar sem gera átti út um framtíð Þýskalands, sátu leiðtogar þessara ríkja og stjórnstöðvunum var valinn staður í Berlín, þrátt fyrir að borgin væri á yfirráðasvæði Sovétríkjanna. Borginni var því líka skipt í fjögur svæði.
Það leið þó ekki á löngu þar til samvinnan rofnaði milli Sovétmanna og annarra bandamanna.
Leiðtogi Sovétríkjanna, Jósep Stalín, vildi fá yfirráð yfir allri borginni og reyndi að fá hersveitir annarra til að yfirgefa borgina.
Frá 24. júní 1948 til 11. maí 1949 voru flutningar nauðsynja, svo sem matvæla, til 2,2 milljóna íbúa Berlínar stöðvaðar enda þurftu þessir flutningar að fara um yfirráðasvæði Sovétmanna.
Vesturveldin neituðu þó að beygja sig og sendu flugvélar með nauðsynlegar birgðir um svokallaða loftbrú. Kalda stríðið var þar með hafið og hitastigið í sambúð Vesturveldanna og Sovétríkjanna nálgaðist frostmark.
Þeim hlutum Þýskalands sem voru undir yfirráðum Vesturveldanna var nú slegið saman, ásamt Vestur-Berlín í ríkið BRD (Bundisrepublik Deutschland) Sambandlýðveldið Þýskaland, almennt kallað Vestur-Þýskaland en sá hluti sem Sovétmenn höfðu hernumið varð DDR (Deutsche Demokratische Republik) Alþýðulýðveldið Þýskaland, almennt kallaði Austur-Þýskaland.
Á sjötta áratugnum leiddi slæmur efnahagur ásamt ótta við búsetu í kommúnistaríki til þess að allt að þrjár milljónir Þjóðverja fluttu sig frá DDR til Vestur-Berlínar.
Slíka fólksflutninga gátu Austur-Þjóðverjar ekki þolað til langframa, ekki síst vegna þess að stór hluti þeirra sem flúðu var ungt fólk og vel menntað.
Leiðin til Vestur-Þýskalands lá nánast undantekningarlaust um Berlín, enda var hart landamæraeftirlit annars staðar á landamærum þýsku ríkjanna tveggja. Aðeins í Berlín var almenningi frjálst að fara milli borgarhluta.
Í júlímánuði 1961 flúðu meira en 30.000 manns. Leiðtogar Austur-Þýskalands ákváðu þá að eina mögulega lausnin væri fólgin í því að loka fólk inni.
Austur-þýskir hermenn stóðu á mörkum borgarhlutanna og héldu vörð meðan verið var að reisa bráðabirgðagirðingu, fyrstu og frumstæða útgáfu Berlínarmúrsins.
Fólk lifði í skugga múrsins
Saga Berlínarmúrsins hófst með hermönnum á verði og gaddavír en stjórnvöld í Austur-Þýskalandi hröðuðu gerð hárrar girðingar sem gerði fólki ókleift að flýja.
Strax árið 1962 var reist ný girðing um 100 metrum austan við hina. Á milli múranna voru öll hús jöfnuð við jörðu og svæðið malborið þannig að auðvelt yrði að greina fótspor.
Svæðið var þekkt sem Dauðaræman, enda var tilgangurinn að auðvelda hermönnum að skjóta hvern þann sem reyndi að flýja.
Árið 1965 hófst svo bygging hins eiginlega steinmúrs sem varð þekktur sem Berlínarmúrinn. Þetta mannvirki átti t.d. að tryggja að ekki væri unnt að flýja með því að keyra bíl á miklum hraða gegnum girðingarnar.
Þegar múrinn var fullbyggður 1980 var þetta orðinn 45,1 km langur veggur úr járnbentri steinsteypu, 3,6 metra hár og 1,2 metrar á þykkt. Á múrnum voru 116 varðturnar og hann vöktuðu sjö herflokkar með 1.000 til 1.200 hermönnum.
Á múrnum voru þó níu hlið og það voru einu staðirnir þar sem hægt var að komast milli Austur- og Vestur-Berlínar. Hliðin voru einkum ætluð borgurum frá Vestur-Berlín og útlendingum sem annað hvort voru að heimsækja Austur-Þýskaland eða áttu þar leið í gegn.
Frægast þessara hliða varð Checkpoint Charlie, gælunafn sem bandarískir hermenn gáfu hliðinu en opinbera heitið var Eftirlitsstöð C.
Þetta hlið var í miðri Berlínarborg og um það fóru einkum diplómatar og leiðtogar herja bandamanna.
Þarna stóðu hersveitir Vesturveldanna og Austur-Þjóðverja hver andspænis annarri og ekki nema tiltölulega fáir metrar á milli.
Þann 22. október 1961 varð þarna eitt alvarlegasta atvik í sögu Berlínarmúrsins. Ósætti um það hvort austur-þýsku hermennirnir mættu skoða vegabréf bandarísks sendiráðsstarfsmanns varð til þess að skriðdrekum var stillt upp til orrustu beggja vegna.
Sovéskir og bandarískir skriðdrekar í viðbragðsstöðu við Checkpoint Charlie.
Ágreiningurinn var leystur friðsamlega fimm dögum síðar þegar Bandaríkjamenn og Sovétmenn drógu skriðdreka sína til baka til að létta á spennunni.
Í kjölfar þessa alvarlega atviks ákváðu ráðamenn Vesturveldanna á endanum að viðurkenna Berlínarmúrinn sem staðreynd og sætta sig við að hann væri ekki tilefni til að hefja þriðju heimsstyrjöldina. Í tengslum við þá ákvörðun er haft eftir John F. Kennedy Bandaríkjaforseta: „Þetta er ekki góð lausn en múr er þó fjandi mikið skárri en stríð.“
Opinberlega gátu íbúar í Austur-Berlín sem best fengið leyfi til að ferðast til Vestur-Berlínar en í veruleikanum var það nánast ógerningur.
Umsókn um opinbert leyfi hefði líka því sem næst sjálfkrafa leitt af sér nána skoðun á persónulegum högum umsækjandans. Slíkt annaðist leyniþjónustan STASI og eftirgrennslanir hennar gátu endað með ákæru fyrir landráð.
Fyrir flesta íbúa Austur-Þýskalands var miklu auðveldara að ferðast til annarra kommúnistaríkja og engar hömlur á ferðafrelsi þar á milli.
Berlínarmúrinn reistur
Aðfaranótt 13. ágúst 1961 lokaði austur-þýskur her skyndilega nær öllum leiðum milli borgarhlutanna. Götur voru grafnar í sundur og þannig gerðar ófærar bílum. Síðan var tekið að leggja gaddavír og aðrar hindranir alla þá 43 km leið sem markaði skiptingu Berlínar í austur og vestur. Skömmu síðar var öll Vestur-Berlín girt af með 156 km langri girðingu úr gaddavír og öðrum hindrunum.
Án nokkurrar aðvörunar vöknuðu íbúar í Austur-Berlín til alveg nýs hversdagslífs. Ferðir til Vestur-Berlínar voru ekki lengur mögulegar og margir sem áður höfðu starfað í Vestur-Berlín voru nú atvinnulausir.
Múrinn aðskildi líka vini og ættingja. Meðal annarra voru um 1.300 börn sem voru í heimsókn í Austur-Berlín en var nú ekki hleypt heim til sín. Mörg þeirra sáu bernskuheimili sitt ekki aftur fyrr en eftir að múrinn féll.
Sjálfir nefndu Austur-Þjóðverjar Berlínarmúrinn „andfasískan verndarmúr“ og samkvæmt ríkisáróðri var hann nauðsynlegur til að stöðva árásargirni kapítalista í Vestur-Berlín sem ætluðu sér að ná Austur-Berlín undir sig.
Þeirri röksemd var líka beitt að með lokun landamæranna ætti að koma í veg fyrir að vestrænir njósnarar kæmust inn í landið. Almennir borgara trúðu þessu ekki nema mátulega því í rauninni var einungis Austur-Þjóðverjum óheimilt að fara vestur fyrir múrinn – ekki öfugt.
Þrátt fyrir viðleitni austur-þýskra stjórnvalda til að loka landamærunum algerlega tókst um 5.000 borgurum að komast fram hjá múrnum og í hið vestræna frelsi.
Fyrstu árin keyrðu menn á bílum í gegnum gaddavírsgirðingarnar en eftir að steinveggurinn var reistur þurftu austur-þýskir borgarar að beita meiri hugkvæmni.
Sumir grófu göng undir múrinn, aðrir notuðu loftbelg eða heimagerðar flugvélar. Hluti holræsakerfisins lá líka undir múrinn og það notuðu margir þar til stjórnvöld uppgötvuðu þessa flóttaleið og lokuðu henni.
En það var lífshættulegt að reyna flótta og fyrsta mannfórnin varð staðreynd strax 22. ágúst 1961. Þá reyndi ung kona að komast vestur fyrir með því að stökkva út um glugga á þriðju hæð.
Varðmenn höfðu fengið skipun um að skjóta alla sem reyndu að fara vestur yfir. Í einni slíkri tilskipun segir t.d.: „Hikaðu ekki við að skjóta, jafnvel þótt konur eða börn séu á ferð. Svikararnir beita þeim oft fyrir sig.“
Að líkindum létu fleiri en 200 lífið í tilraunum til að komast yfir í frelsið.
Víða var Berlínargirðingin og síðar múr og girðing höfð tvöföld með um 100 metra ræmu á milli. Þessi ræma var kölluð Dauðaræman, því verðirnir skutu fólk á leið yfir hana.
Fall múrsins
Andstaðan við Berlínarmúrinn var alla tíð mikil bæði austan hans og vestan en í lok níunda áratugarins magnaðist óánægjan um allan helming.
Dagana 5. – 7. júní 1987 var haldin tónlistarhátíð í Vestur-Berlín svo þétt upp við múrinn að í Austur-Berlín hópaðist fólk saman í þúsundum til að hlusta.
Ekki síst skiptu tónleikar Davids Bowie sköpum en hann talaði beint til áheyrenda austan við múrinn. Daginn eftir réðist austur-þýska lögreglan á mannfjöldann sem hafði safnast saman austan við múrinn og úr urðu harkaleg mótmæli og átök.
Fimm dögum síðar skoraði forseti Bandaríkjanna, Ronald Reagan á aðalritara sovéska kommúnistaflokksins, Mikhail Gorbachev að sýna í verki að hann vildi auka frelsi almennings í kommúnistaríkjunum.
Í ræðu í Vestur-Berlín sagði hann: „Mr. Gorbachev, rífðu þennan múr.“ Þessi orð urðu fleyg um allan heim – og náðu líka til Austur-Þýskalands, þar sem þau sönnuðu almennum borgurum að vestrið stæði með þeim.
Þessir atburðir kyntu undir mikilli óánægju með múrinn í Austur-Berlín en múrinn tók þó ekki að riða til falls fyrr en í júní 1989.
Þá fjarlægðu Ungverjar sínar eigin girðingar á landamærunum til Austurríkis. Ekki leið á löngu þar til Austur-Þjóðverjar flykktust í „frí“ til Ungverjalands, þaðan sem þeir flúðu yfir til Austurríkis.
Þegar stjórnvöld í Austur-Þýskalandi hugðust stöðva þennan flótta leiddi það til fjöldamótmæla í Austur-Þýskalandi undir slagorðinu „VIÐ VILJUM ÚT!“
Stjórnvöld í Austur-Þýskalandi ákváðu að létta á skilyrðum fyrir ferðaleyfi til Vestur-Þýskalands til að hafa einhvern hemil á mótmælunum.
Nýju reglurnar voru kynntar á blaðamannafundi 9. nóvember 1989 og sá sem það gerði var Günter Schabowski sem var þá nýorðinn blaðafulltrúi kommúnistaflokksins.
En Schabowski hafði ekkert í höndunum nema eina A4-pappírsörk og smáa letrið í skilmálunum hafði ekki verið kynnt fyrir honum. Þegar hann var spurður hvenær þessar breytingar ættu að ganga í gildi svaraði hann einfaldlega „Nú þegar,“ þótt í raun hefði ætlunin verið að hefja vinnu samkvæmt breyttum skilmálum daginn eftir.
Austur-Þjóðverjar ætluðu ekki að trúa sínum eigin eyrum þegar þeir hlustuðu á þennan talsvert óreiðukennda blaðamannafund. Þúsundum saman hópaðist fólk að eftirlitshliðunum en hermennirnir sem þeirra gættu höfðu ekki hugmynd um hvað eiginlega gengi á.
Þeir reyndu að fá svör frá yfirmönnum sínum sem ekki vissu heldur hvað gera skyldi og vissu ekki heldur hver bar ábyrgðina.
Mannfjöldinn óx jafnt og þétt eftir því sem leið á kvöldið en hvorki yfirmenn í hernum né í stjórn landsins treystu sér til að gefa skipun um að skjóta og gera sig þar með ábyrga fyrir fjöldamorðum.
Um klukkan hálftólf um kvöldið ákváðu stjórnvöld að láta undan og opna hliðin og hleypa mannfjöldanum í gegn.
Handan múrsins biðu íbúar í Vestur-Berlín með kampavín og blóm.
Og kjarkmikið ungt fólk tók að klífa upp á múrinn frá báðum hliðum. Uppi á þessum breiða steinmúr hittist ungt fólk úr austri og vestri og dansaði til að fagna nýfengnu frelsi.
Þetta kvöld hefði getað endað í hryllilegu blóðbaði en varð þess í stað ein allsherjar þjóðhátíð eftir 28 ára innlokun og aðskilnað.
Fall múrsins 10. nóvember 1989 var aðallega táknrænt, ímynd þess frelsis þegar fólk gat allt í einu ferðast hindrunarlaust milli borgarhlutanna. Vissulega var fljótt farið að brjóta hluta úr múrnum en hann stóð þó í megindráttum óskaddaður í marga mánuði í viðbót.
Skömmu eftir að landamærin voru opnuð tóku margir borgarar sér fyrir hendur að eyðileggja múrinn með hamra og meitla að vopni.
Þetta var vissulega enn bannað en verðirnir gáfust upp á að reyna að stöðva mannfjöldann sem nú stóð daglega við Berlínarmúrinn.
Fáeinum dögum síðar tilkynntu stjórnvöld í Austur-Þýskalandi um opnun nýrra hliða og létu ryðja skörð í Berlínarmúrinn með stórvirkum vinnuvélum.
Og þegar stórir steinsteypuklumpar féllu úr múrnum var fall hans orðið að staðreynd og 28 ára kúgun og innilokun endanlega lokið.
Fall Berlínarmúrsins var tímamótaviðburður og táknrænn fyrir lok kalda stríðsins sem hafði markað veröldina allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar.
Þetta þýddi líka endalok kommúnistaríkisins Austur-Þýskaland sem varð hluti af sameinuðu Þýskalandi þann 3. október 1990, innan við ári eftir fall Berlínarmúrsins.
Lestu meira um Berlínarmúrinn
- Frederick Taylor: The Berlin Wall: A World Divided, 1961-1989, Harper Perennial, 2008.
- Patrick Major: Behind the Berlin Wall: East Germany and the Frontiers of Power, Oxford University Press, 2011