Gamlar bækur gefa sjaldnast neitt einhlítt svar við því hver átti hugmyndina að tiltekinni tískusveiflu en hvað útilegur snertir er raunar til ótvírætt svar:
Útilegur, ánægjunnar vegna, voru hugarfóstur ævintýragjarns bresks klæðskera að nafni Thomas Hiram Holding (1844-1930) og Bandaríkjamannsins Williams Henry Harrison Murray (1840–1904).
Murray hvatti Bandaríkjamenn til dáða og benti þeim á að njóta náttúrunnar en Holding lagaði hugmyndina að Evrópubúum. Holding hafði ferðast yfir gjörvöll Bandaríkin í hestvagni foreldra sinna á árunum upp úr miðri 19. öld og hafði sú reynsla vakið með Bretanum ævarandi gleði og áhuga á frumstæðum ferðamáta.
Þegar fjölskyldan sneri aftur heim til Englands og Holding óx úr grasi lagðist hann í ferðalög, útbúinn tjaldi sem vó aðeins 368 grömm en tjaldið hafði hann sjálfur saumað úr olíubornu silki.
Árið 1878 lagði hann grunninn að félagsskap, ásamt 18 öðrum áhugasömum hjólreiðaköppum. Félagið nefndi hann „Hjólreiðafélagið“ (Bicycle Touring Club). Hann stundaði kajakróður í Skotlandi og eftir að hafa hjólað um suðvesturhluta Írlands í samfellt þrjá daga ritaði hann bók sína „Hjólreiðar og útilega í Connemara“.
Í kjölfarið á þessu riti kom svo út fyrsta „biblía útivistarfólks“ árið 1908, rösklega 400 síðna handbók sem kallaðist einfaldlega „Handbók útivistarfólks“.
Holding hélt áfram að stunda útilegur allt fram í andlátið en hann lést 86 ára gamall. Þessi orð eru eignuð honum:
„Útilegur halda gömlum mönnum ungum og veita þeim frið og sálarró“.
Lesið hér um frumbernsku útilegunnar þegar suðaði í prímusnum, hestar drógu sumarbústaðinn og konur voru beðnar um að halda sig heima.
Smáeldhús gjörbreyttu matseld úti í náttúrunni
Geymir prímussins inniheldur steinolíu og er handknúin dæla notuð til að auka þrýstinginn. Eldsneytisúðinn brennur með skærum og hreinum loga.
Þegar Svíinn Frans Wilhelm Lindqvist fann upp prímusinn árið 1892 varð öll matseld á ferðalögum margfalt auðveldari en verið hafði. Í stað þess að bisa við að kveikja eld gat hver og einn nú soðið vatn í katli á svipstundu.
Fyrstu viðskiptavinir Lindqvists voru veitingamenn sem seldu mat sinn á götuhornum en brátt fóru allir mögulegir, allt frá tjaldbúum í útilegum yfir í heimskautakönnuði á borð við Friðþjóf Nansen og Róald Amundsen, að nota prímusa.
Ferðafólk gerði kröfu um hlý tjöld
Þessu lúxustjaldi, frá því skömmu eftir aldamótin 1900, var tjaldað í bandarískum skógi í fylkinu New Hampshire sem liggur skammt frá landamærunum upp að Kanada.
Undir lok 19. aldar og í upphafi þeirrar 20. gátu fæstir aðrir en efnafólk leyft sér að taka margra daga frí. Allir aðrir voru bundnir við vinnu, nema þá á sunnudögum. Efnafólkið vildi fá að njóta náttúrunnar án þess að allir yrðu kaldir og blautir.
Ferðaskipuleggjendur létu því setja upp endingargóð tjöld með innbyggðum brenniofnum í þjóðgörðum víðs vegar í Bandaríkjunum. Mat var hægt að elda á eldavélum fyrir framan tjöldin en þær voru hitaðar með eldiviði.
Hjólhýsi eru eldri en bifreiðar
Bifreið af gerðinni Ford T frá því kringum 1921 með hjólhýsi úr viði.
Árið 1884 lagði rithöfundurinn William Gordon Stables inn pöntun fyrir fyrsta hjólhýsi heims hjá framleiðandanum Bristol Wagon & Carriage Works. Áform hans voru að ferðast eftir endilöngu Englandi, frá norðri til suðurs, í vagninum sem dreginn var af tveimur hestum.
Hjólhýsi, dregin af bifreiðum, færðust í aukana eftir því sem bílum fjölgaði. Árið 1910 átti um hálf milljón Bandaríkjamanna bíl en árið 1920 hafði bifreiðum fjölgað upp í átta milljónir. Bandaríkjamenn nefndu hjólhýsaeigendur fyrst í stað „dósaferðalanga“ því þeir lifðu mestmegnis á upphituðum dósamat á ferðalögum sínum.
Hjólhýsi úr stáli í stað viðar
Húsbíll Pembertons Billing var 5,5 metra langur og hafði að geyma salerni og eldhús, auk þess að vera skipt í konu- og karladeild.
Árið 1902 hugðist Bretinn dr. Lehwess sem reyndar var fæddur í Þýskalandi, ferðast í húsbíl sínum „Passe Partout“ um gjörvalla Evrópu, Asíu og Ameríku, áður en hann sneri aftur heim til London.
Bensínknúið orlofsheimili hans á hjólum komst reyndar ekki lengra en til Póllands en tveimur árum síðar var farið að fjöldaframleiða svokallaða húsbíla í Bandaríkjunum.
Slík farartæki voru gerð úr viði fram yfir 1920 en árið 1927 breyttust húsbílar til muna þegar Pemberton Billing hóf að framleiða svonefndar „vegasnekkjur“ úr stáli.
Tjaldstæði spruttu upp
Á fyrstu árum útivistarferða þurftu konur að leita lengi að tjaldstæðum sem þorðu að veita þeim aðgang.
Cunningham orlofssvæðið á eynni Mön er sagt vera elsta tjald- og hjólhýsasvæði heims sem notað var af ferðalöngum í fríi. Svæðið tók til starfa árið 1894 og dvöldu um 600 karlmenn í hverri viku í þessari orlofsparadís á eynni milli Englands og Írlands.
Konur máttu ekki dvelja þar yfir nótt. Gestirnir snæddu máltíðir sínar í sameiginlegu tjaldi þar sem vinsælasti rétturinn hefur sennilega verið reykt, þurrkuð síld (enska: kippers) með sultutaui.
Þrátt fyrir hvað rétturinn hljómar einkennilega, þ.e. reyktur fiskur og sæt sulta, kom það ekki í veg fyrir að tjaldstæðið stækkaði stöðugt og innan fárra ára voru þar hverju sinni um 1.500 tjöld.
Í Englandi fengu konur aðeins leyfi til að dvelja á fjölskyldutjaldstæðum eða sérlegum orlofssvæðum sem ætluð voru konum einum.
Bréf, gjöf eða grenitré – það þurfti ekki mikið til að koma hermönnum fyrri og seinni heimstyrjaldar í jólaskap. Þrátt fyrir sprengjur og hrikalegar þjáningar reyndu hermenn beggja vegna víglínunnar að halda í hefðirnar.
Þaktjöld slá í gegn í Austur-Þýskalandi
Austurþýsk bifreið af gerðinni Trabant 601 með Müller-tjald ofan á toppnum.
Fyrstu gistimöguleikarnir ofan á bílþökum komu á markað á árunum milli 1930 og 1940.
Ævintýramenn á borð við aksturskappann og ljósmyndarann Nino Cirani sem lagði stund á kappakstur gegnum alla Afríku og frá Mílanó til Nordkapp í Norður-Noregi á sjöunda áratug 20. aldar, áttu þátt í að auka vindsældir þaktjalda en Cirani tók ógrynni ljósmynda af tjaldi styrktaraðila síns sem hann ferðaðist með til ótalmargra framandi staða á árunum upp úr 1960.
Um miðjan áttunda áratug 20. aldar var þessi hagkvæmi ferðamáti orðinn óheyrilega vinsæll í Austur-Þýskalandi en þess má geta að hið svokallaða Müller-tjald passaði nákvæmlega ofan á austurþýsku bíltegundina Trabant.
Vinsældir tjaldvagna jukust næstu 40 árin
Í Bandaríkjunum var farið að kalla tjaldvagna „skyndihjólhýsi“
Fyrstu tjaldvagnarnir, þ.e. dreginn vagn með tjaldi í sem auðvelt reyndist að setja upp, komu á markað í Bandaríkjunum upp úr 1920 en fyrst í stað seldust þeir í takmörkuðum mæli. Það var ekki fyrr en upp úr 1960 sem tegundir á borð við „Camp-let“ og „Combi-Camp“ urðu þekktar um gjörvalla Evrópu.
Dráttarvagnar þessir voru umtalsvert léttari en hjólhýsi sem gerði það að verkum að jafnvel litlir bílar gátu dregið þá. Samt sem áður buðu farartæki þessi upp á þægilega gistingu, svo og samanbrjótanlegt eldhús.
Fjöldaferðamennska leiddi af sér troðfull tjaldsvæði
Útilegur njóta einnig vaxandi vinsælda í Bandaríkjunum. Hér gefur að líta vinsælt tjaldsvæði við ströndina Myrtle Beach í Suður-Karólínu.
Útilegur eru arðvænleg starfsemi í miklum ferðamennskulöndum á borð við Frakkland, Þýskaland og Ítalíu.
Í Frakklandi einu gistu ríflega 140 milljón manns á tjaldstæðum landsins í fyrra. Á mesta ferðamannatímanum eru öll þau rösklega 11.000 tjaldstæði sem Frakkland hefur upp á að bjóða, þéttsetin hjólhýsum, tjöldum og tjaldvögnum.
Hnatthlýnun ógnar hjólhýsadvöl
Bandarísk hjón, ásamt þremur hundum sem neyðst hafa til að yfirgefa heimili sitt á tjaldvagnasvæði í Tennessee árið 2020.
Milljónir manna eiga möguleika á að dvelja úti í náttúrunni í hjólhýsum, húsbílum eða álíka en í sumum tilvikum færast ofsafengin náttúruöflin fullnálægt íbúunum.
Hnatthlýnun hefur nefnilega einnig í för með sér aukinn vanda fyrir tjald- og húsbílastæðin. Þar sem mörg slík svæði er að finna nærri stöðuvötnum eða sjó er hætt við að tímabil sem einkennast af vætu og stórviðrum hafi í för með sér flóð sem ekki aðeins eyðileggja fríið heldur einnig viðlegubúnaðinn.
Þá hefur tjaldstæðum víðs vegar um heiminn einnig staðið ógn af skógareldum.
Glæsiútilegur færast í aukana
„Skógarturninn“ í grennd við Rønnede á Sjálandi í Danmörku er einn þeirra mörgu staða sem bjóða upp á glæsigistingu í lúxustjaldi.
Eftirspurnin eftir dýrum útilegum eykst ár frá ári. Þúsundir þrá að geta notið fagurrar náttúru fyrir framan tjald sitt en að sama skapi gist í þægilegu rúmi, með loftkælingu og haft kæliskáp innan seilingar.
Glæsiútilegur sem á ensku kallast „glamourous camping“ eða „glamping“, eiga rætur að rekja allt aftur til fyrstu tjaldferðalaga yfirstéttanna, þar sem þjónustufólkið var haft með til að sinna öllu því sem gera þurfti.
Líkt og við átti meðal aðalsfólks á 19. öld þurfa þeir sem eru í glæsiútilegum ekki sjálfir að setja upp tjald sitt. Þeir þurfa heldur ekki að sitja á lélegum, gömlum tjaldstólum, heldur geta þeir sest í mjúkan hægindastól.
Í stað sameiginlegrar sturtu á almennu tjaldstæðunum er að finna innbyggðan sturtuklefa í glæsitjöldunum sem að sjálfsögðu eru einnig útbúin þráðlausu neti.
Árþúsundum saman hafa töframenn beitt brellum og sjónhverfingum til að sýna töfralist sem stenst engin vísindaleg lögmál.