Lifandi Saga

Rannsóknarréttur og galdrabrennur: Töframenn í andstöðu við guð

Árþúsundum saman hafa töframenn beitt brellum og sjónhverfingum til að sýna töfralist sem stenst engin vísindaleg lögmál. Hrifningin á töfrabrögðum breyttist hins vegar í ótta þegar nornaofsóknir komust í hámæli í Evrópu.

BIRT: 12/08/2023

Áheyrendasalurinn í höll Keóps faraós iðaði af eftirvæntingu þegar gamall boginn maður gekk inn í salinn. Um gjörvalla Evrópu höfðu verið sögur á kreiki um að gamli maðurinn gæti vakið dauð dýr aftur til lífsins og nú hyggst sjálfur leiðtogi ríkisins komast að raun um sjálfur hvort sögusagnirnar um töframanninn Dedi eigi við rök að styðjast.

 

Önd er hálshöggvin og haus hennar er komið fyrir í öðrum enda salarins og búknum í hinum.

 

Dedi fer með galdraþulu og augu áhorfenda standa á stilkum þegar búkur andarinnar rís á fætur og kjagar yfir í hinn endann þar sem höfuðið liggur. Höfuðið og búkurinn sameinast og öndin lifnar öll við. Hún kvakar hátt og faraóinn getur ekki leynt hrifningu sinni.

 

„Leyfum Dedi að búa í höllinni og sjáum honum fyrir 1.000 brauðhleifum, 100 ölkrúsum, einu nauti og 100 knippum af grænmeti“. Þannig hljóðuðu orð þjóðhöfðingjans, ef marka má Westcar-papírushandritið frá því á 18. öld f.Kr., þar sem ritað er um sýningu Dedis.

Keóps faraó sem var jarðsettur í píramídanum fyrir rösklega 4.500 árum, var mikill aðdáandi töframannsins Dedi eða svo segir í Westcar-papírushandritinu.

Hvernig þetta fyrsta töfrabragð sögunnar var framkvæmt kemur hins vegar ekki fram í handritinu. Líkt og við átti um seinni tíma starfsbræður hans, upplýsti töframaðurinn Dedi aldrei hvernig hann framkvæmdi töfralistir sínar.

 

Hins vegar kemur skýrt fram í handritinu að galdralist á tímum Keóps, fyrir rösklega 4.500 árum, væri aðdáunarverð. Það að Dedi hefði tekist að endurlífga dauða önd væri einfaldlega til marks um að töframaðurinn væri í nánum tengslum við æðri máttarvöld (sem nefndust „heka“) eða svo töldu Egyptar til forna.

 

Þessi skoðun á sakleysislegum töfrabrögðum átti þó eftir að breytast til muna þegar fram liðu stundir. Á síðari hluta miðalda var farið að líta á töfralist sem hættulega galdra og grundsemdir um töfra nægðu til að brenna konur og menn á báli, þar sem þau voru ásökuð um að vera í slagtogi með djöflinum.

 

Bolla- og kúlubragðið er ævafornt

Árþúsundum saman hefur maðurinn beitt sjónhverfingum og töfrum til að vekja aðdáun. Í grafhýsi Bagets 3. faraós Egyptalands frá því kringum 2000 f.Kr. er að finna mynd af tveimur mönnum sem virðast vera að beita svokölluðum bollabrögðum.

 

Bragð þetta er iðulega framkvæmt með þremur bollum og þremur litlum kúlum. Töframaðurinn lætur líta út fyrir að kúlurnar komist í gegnum heilan botn bollanna. Síðan flytur hann bollana fram og til baka af handahófi og lyftir þeim til að sýna að kúlurnar geti farið á milli bollanna, líkt og töfrum sé beitt.

 

Líkt og nú á við, krafðist bragðið áður fyrr einnig lagni, hraða og getunnar til að villa um fyrir áhorfendum en þessir þrír þættir eru forsendur þess að töfrabrögð takist.

 

Heimspekingurinn Seneca átti eftir að dást að bolla- og kúlubragðinu í Róm einum 2.000 árum síðar þegar töframenn léku listir sínar á götuhornum, sennilega með það fyrir augum að áhorfendur gætu lagt undir fé og veðjað á lit kúlnanna undir bollunum. Seneca dáðist einkum að fimi töframannanna.

 

„Þetta er álíka sakleysislegt og sjónhverfingar og teningaspil, þar sem sjálf brögðin veita mér ánægju. Ef mér hins vegar er sýnt hvernig brögðin eru útfærð, missi ég samstundis áhugann“, ritaði Seneca vini sínum Lucilíusi í bréfi árið 65 e.Kr.

„Hókuspókus“
Töfraþulan á rætur að rekja til latnesku orðanna „Hoc est corpus meum“ (þetta er líkami minn).

Gríski rithöfundurinn Alkifron hafði ekki eins mikinn áhuga á töfrabrögðum. Í texta frá því um 200 e.Kr. lýsir hann manni sem lék listir sínar með bolla- og kúlubragðið og notaði til þess tunnur og hvíta steina:

 

„Steinana faldi hann undir tunnunum, suma lét hann hverfa og fann þá síðan í munni sínum. Hann gleypti þá og togaði til sín fólk sem hann tók steinana úr nefinu eða eyrunum á. Ég myndi ekki kæra mig um að vera í tygjum við slíkan mann, því ógerlegt er að koma upp um látbrögð hans og hann gæti stolið frá mér öllu steini léttara, jafnvel bóndabæ mínum og öllu sem honum tilheyrir“.

 

Á dögum Alkifrons gat ásökun um þjófnað sem framinn var með brögðum og töfrum orðið afdrifarík. Í Rómarveldi og þar með einnig grísku héruðunum, mátti nefnilega dæma til dauða hvern þann „sem beitti göldrum og töfrum til að flytja uppskeru annars yfir á sitt land“.

 

Sú tilhugsun að sakleysisleg töfrabrögð væru í raun hættulegir galdrar átti eftir að verða sífellt algengari á komandi öldum.

 

Svartigaldur drepur

Þó svo að einföld töfrabrögð og brellur hafi flokkast undir ánægjulega skemmtun til forna, óttuðust allir svartagaldur. Mörkin á milli hugtakanna voru afar óljós.

 

Bæði karlar og konur áttu það til að stunda svartagaldur sem þjóðtrúin sagði vera hægt að beita til að myrða og stela. Margir óttuðust að sá sem kynni eitthvað fyrir sér í göldrum gæti hellt eitruðum vökva í vín eða mat með þeim afleiðingum að sá sem drykkjarins neytti fengi hundaæði, brjálaðist eða léti lífið.

 

Þá var einnig algengt að formæla fjandmönnum og keppinautum. Oft voru illir andar undirheimanna ákallaðir þegar ætlunin var að formæla þeim sem hatast var við.

 

„Þið skuluð éta hjarta, líkamshluta, innyfli og iður Maurossusar“, stendur ritað á blýtöflu frá því á 2. öld e.Kr. sem fannst skammt frá hafnarborginni Karþagó.

 

Maurossus var þekktur skylmingaþræll og er álitið að einn keppinauta hans hafi samið bölvunina.

 

Illkvittnislegir galdrar gátu enn fremur haft það að markmiði að „gagntaka“ hinn aðilann, líkt og Rómverjar kölluðu það, m.a. með aðstoð lítilla vúdú-brúða, gerðum úr vaxi eða leir. Síðan stakk töframaðurinn nálum í augu brúðunnar, höfuð hennar eða maga, í því skyni að skaða líkama þess sem dúkkan átti að tákna, nú eða þá vitsmuni hans.

Slöngutemjarar voru taldir búa yfir töfraeiginleikum í fornöld.

Töframenn hafa leikið listir sínar allt frá því í fornöld

Fyrstu töframenn heims voru álitnir hafa yfir að ráða guðdómlegum eiginleikum. Síðan breyttust töfrabrögð yfir í það að verða litrík skemmtun fyrir bæði almenning og fyrirfólk.

 

– Kína, 1600 f.Kr. – Bein sögðu fyrir um slys

Með því að rýna í sprungur á kýrlöppum sögðust spámenn geta spáð fyrir um framtíðina og m.a. séð hvaða daga bæri að varast sérstaklega.

 

– Assýría, 1000 f.Kr. -Flauta dáleiddi eiturslöngur

Götuskemmtikraftar í Babýlon voru m.a. þekktir fyrir að geta stjórnað slöngum með flautuleik sínum. Í augum almennings líkist bragð þetta sannkölluðum töfrum.

 

– Róm, 50 e.Kr. – Hópar farandlistamanna skemmtu Rómverjum

Svokallaðir bollatöframenn tróðu upp á götum borginnar en þeir léku listir sínar með bolla og kúlur. Sýningar þessar fólust í því að láta kúlur fara á milli bollanna án þess að lyfta þeim upp.

 

– Evrópa, 1000 e.Kr. – Hraðar hendur blekktu augað

Farandlistamenn létu peninga eða kúlur hverfa fyrir augum áhorfenda og birtast síðan annars staðar, t.d. í hinni hendi skemmtikraftsins.

 

– Evrópa, 1400 e.Kr. – Töfrar héldu aðlinum hugföngnum

Duglegir töframenn voru ráðnir til starfa hjá aðalsmönnum og héldu sýningar þar. Í því sambandi nægir að nefna spilagaldra þar sem spil hurfu á undraverðan hátt eða þá skiptu um lit.

Brúðurnar virðast hafa slegið í gegn í Rómarveldi, því fornleifafræðingar hafa fundið leirbrúður sem málmnálum hafði verið stungið í, allt suður til Rómar og norður til Bretlandseyja. Þá var einnig unnt að nota brúður til að kveikja ástarloga, einkum ef myrkraöflin hjálpuðu til.

 

„Viltu láta Viktoríu hrífast af mér og gera hana hugsjúka og svefnvana af ást til þess að ég fái notið hennar sem er yndislegust allra kvenna“. Þannig hljóðaði bæn sem hafði verið rituð á rómverska töflu sem fannst í Norður-Afríku.

 

Hins vegar var engan veginn hættulaust að leggja stund á töfralist í Rómarveldi. Ef einhver óttaðist að hafa verið beittur göldrum gat sá hinn sami sakað hinn aðilann um galdra og var refsingin fólgin í brottvísun frá staðnum eða opinberri hýðingu.

 

„Apúlejus er galdrakarl. Ég er í álögum af hans völdum og fyrir vikið er ég orðin ástfangin af honum“ staðhæfði hin grísk-rómverska Púdentilla í ákæruskjali gegn heimspekingnum og rithöfundinum Apúlejusi kringum árið 158 e.Kr.

 

Þökk sé ræðusnilld hans og haldbærum röksemdum var Apúlejus sýknaður fyrir réttinum. Einum 50 árum síðar voru lögin þó hert og eftir það gátu einföld töfrabrögð haft í för með sér dauðarefsingu.

 

Töframönnum varpað fyrir villt dýr

Þó svo að rómversk lög bönnuðu galdra og fjölkynngi var löngunin til að stunda þessar forboðnu listir enn til staðar. Rómverski lögmaðurinn Julius Paulus tók ákvörðun um að herða refsingar gegn töfrabrögðum og göldrum í von um að uppræta hvort tveggja.

 

„Sá sem hefur framið eða staðið fyrir óguðlegum eða leynilegum helgisiðum í því skyni að galdra, lama með töfrum eða að hefta annan, skal verða krossfestur ellegar honum varpað fyrir villt dýr“, ritaði Paulus í tillögum sínum í ritasafninu „Álit“ frá því um 200 e.Kr.

 

Paulus var ráðgjafi hjá Septimiusi Severusi keisara (193-211 e.Kr.). Eftir margra ára ringulreið undir stjórn hins óútreiknanlega keisara Commodusar (180-192 e.Kr.) óskaði Severus þess að koma á friði og spekt í ríkinu. Lagasafn Paulusar féll því í góðan jarðveg hjá Severusi sem samþykkti lögin.

 

Önnur lög frá Paulusi segja svo fyrir að banna skuli með öllu og brenna rit um töfra og galdra. Þá átti samkvæmt þeim lögum jafnframt að brenna galdramenn lifandi.

 

Sagnfræðingar eru ekki á einu máli um hve margir meinlausir töframenn og sjónhverfingamenn hafa verið brenndir á báli eða étnir lifandi af villidýrum í hringleikahúsum sökum þessara laga Paulusar en þegar kristni tók að breiðast út í Rómarveldi á 4. öld biðu sífellt fleiri töframanna þau skelfilegu örlög að vera brenndir á báli, því kaþólska kirkjan leit á alla töfra og galdra sem ógn.

„Abrakadabra“
Töfraþulan á rætur að rekja til 1.500 ára gamallar hebreskrar galdraþulu.

Áður fyrr hafði t.d. tíðkast að stinga töfraþulum í lítil hylki sem bundin voru við ólar hunda áður en farið var á veiðar til að tryggja vænlega veiði. Nú fór kirkjan að líta slíka hjátrú hornauga.

 

„Forðist guðlast, heiðna verndargripi, siði og stjörnuspámenn“. Þannig hljóðuðu viðvaranir Ágústínusar biskups í Norður-Afríku á 5. öld.

 

Kirkjan leyfði einungis töfra guðs en með því er átt við kraftaverk. Þegar pílagrímar heimsóttu helga legstaði var tilgangurinn sá að biðja þá látnu um milligöngu um kraftaverk, m.a. til að lækna banvæna sjúkdóma.

 

Kraftaverk áttu sér að sama skapi stað innan veggja kirkjunnar. Þegar gengið var til altaris deildi presturinn út oblátum og víni til safnaðarins. Kirkjunnar feður sögðu brauð og vín breytast í hold og blóð Krists á óútskýrðan hátt.

 

Trúhneigðir litu á kraftaverk sem guðdómlega töfra. Kirkjugestir skildu ekki stakt orð í guðsþjónustum, enda fóru þær fram á latínu en litið var á óskiljanlegar romsur prestsins sem heilagar töfraþulur.

 

„Hoc est corpus meum“ (þetta er líkami minn), segja prestar á latínu þegar gengið er til altaris og orðin breyttust í munnmælum í „hókus pókus“. Frá því á 17. öld hafa orð þessi verið þekkt sem töfraþula og oft einnig notuð yfir galdra almennt.

 

Allir hrífast af töfrabrögðum

Andstaða kirkjunnar við töfra kom ekki í veg fyrir löngun almennings til að fylgjast með sjónhverfingum. Á markaðsdögum á miðöldum glöddu skemmtikraftar iðulega stóreygða og gapandi bændur og borgarbörn með bolla- og kúlubragðinu. Þá kom það einnig fyrir að töframönnum væri boðið í veislur hjá aðalsfólki til að skemmta með sjónhverfingum sínum. Að launum hlutu þeir gjarnan eina máltíð.

 

Dæmigerðar sjónhverfingar fólust í að leggja klút yfir epli eða jafnvel lifandi dúfu. Þegar töfraþulan hafði verið höfð yfir fjarlægði töframaðurinn svo dúkinn og áhorfendum til mikillar furðu voru þá eplið og dúfan horfin eins og dögg fyrir sólu. Hámarki töfranna var svo náð þegar eplið eða dúfan birtust á nýjan leik, yfirleitt í vasa á herðaslá töframannsins. Slíkar sjónhverfingar nefnast á ensku close-up magic (ísl. nærgaldrar) en þeim er einkum beitt í spilagöldrum.

 

Þó svo að kirkjan hafi fordæmt töfrabrögð höfðu bæði prestar og nunnur einstaklega gaman af slíku gríni. Andans fólk var beinlínis áfram um að borga fyrir töfrasýningar.

 

„Ósiðlegt“, skrifaði franski guðfræðingurinn Peter Abelard í verki sínu „Samræður“ frá því um 1130. Greiðslurnar komu nefnilega úr samskotabauk kirkjunnar og þeir peningar hefðu átt að renna til fátækra, sagði Abelard.

Margir vasaþjófar notfærðu sér töfrabrögð á miðöldum, svo sem eins og að láta kúlur undir bollum hverfa og birtast annars staðar, til að dreifa athygli fórnarlambanna frá sjálfum þjófnaðinum.

Markaðsdagar voru jafnframt tyllidagar spákvenna. Ef fólk fýsti að fá að skyggnast inn í framtíðina var hægt að líta við í tjaldi spákonunnar á markaðstorginu. Með því að „lesa í“ línur lófans sagðist hún geta séð inn í framtíð gesta sinna.

 

Í augum kirkjunnar flokkuðust staðhæfingar um að geta rýnt í framtíð fólks undir guðlast. Spádómslist þótti ganga í berhögg við áætlun guðs með alheiminn og taldist fyrir vikið vera djöfullegir galdrar.

 

„Biskupar og aðstoðarmenn þeirra eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að útrýmingu skaðlegrar spádóms- og galdralistar sem er uppfinning skrattans“, stendur í kirkjulega lagatextanum „Canon episcopi“.

 

Árið 1277 hafði Jóhannes páfi 21. fengið sig fullsaddan af töfrum og göldrum og fékk biskupa Parísarborgar sem voru helstu sérfræðingar landsins á sviði guðfræði og laga, til að útbúa lista yfir refsiverða villutrúargaldra. Á yfirlitinu var m.a. að finna galdra og spádómslist. Eftir þetta fjölgaði umtalsvert réttarhöldum yfir mönnum og konum sem álitið var að hefðu beitt göldrum.

 

 

Baunir og galdrar skaða kyngetuna

Ein elstu galdraréttarhöld sem skráð hafa verið fóru fram í Bergen árið 1324. Íbúum bæjarins brá í brún þegar biskupinn Auðfinnur Sigurðsson sakaði ekkju að nafni Ragnhildur Tregagås um galdra.

 

Ef marka má ákæruskjalið hafði Ragnhildur af brennandi en óendurgoldinni ást til nýkvænts frænda síns reynt að spilla fyrir honum brúðkaupsnóttinni. Vitni þóttust hafa heyrt Ragnhildi hafa yfir galdraformúlu og fela fimm brauðbita og fimm baunir í hjónasæng brúðhjónanna til að gera brúðgumann getulausan.

 

„Hún er afvegaleidd á glapstigum villutrúar“, þrumaði biskupinn. Hann var ekki einn um að ásaka konuna heldur var einnig að verki dómari einn sem dæmdi Ragnhildi seka.

 

Þegar þarna var komið sögu tíðkaðist enn ekki að brenna fólk á báli fyrir galdra og fjölkynngi. Biskupinn áleit Ragnhildi einfaldlega vera ruglaða konu og dæmdi hana til að lifa á vatni og brauði í nokkra daga.

 

Þeir ákærðu sluppu ekki svo auðveldlega þegar nornaveiðar komust í hámæli í Evrópu um miðja 15. öld. Undir lok miðalda byrjuðu fræðimenn að lesa rit fornklassískra hugsuða. Þetta nýja tímabil nefndist endurreisnartíminn en hann táknaði að gamlir textar litu dagsins ljós á nýjan leik og í þeim var ofgnótt af galdraþulum og töfralýsingum.

Töfralistamenn héldu áhorfendum hugföngnum

Með hröðum höndum, heillandi sjónhverfingum og gífurlegum liðleika hefur helstu töfra- og sjónhverfingamönnum heims tekist að heilla áhorfendur upp úr skónum kynslóðum saman.

Jean-Eeugėne Robert-Houdin, 1805-1871: Töframaður fína fólksins

Þessi franski töframaður sýndi fyrirfólki og eðalbornum listir sínar, m.a. tróð hann upp fyrir Napóleon 3. Frakkakonung. Robert-Houdin kom ætíð fram í jakkafötum og hanskaklæddur en töframenn klæðast enn þann dag í dag slíkum fatnaði.

Lafayette hinn mikli, 1871-1911: Ljónatemjari var fæddur sýningarstjóri

Að baki dulnefninu leyndist Þjóðverjinn Sigmund Neuberger en hann var þekktur fyrir töfrabrögð sem fólust í því að hafa vistaskipti við lifandi ljón í búri, sitt á hvað. Íburðarmikið yfirbragð hans var fyrirmynd að töfrasýningum nútímans.

Harry Houdini, 1874-1926: Slöngumaður plataði dauðann

Hann varð heimsþekktur fyrir að losa sig úr handjárnum, snæri og hlekkjum. Í sínu þekktasta töfrabragði losnaði Houdini úr hlekkjum og tanki fullum af vatni án þess að hann sakaði.

Dai Vernon, 1894-1992: Spilakóngur kenndi þeim bestu

Fáir hafa verið jafn lagnir í spilagöldrum og Kanadabúinn David Frederick Wingfield Verner, öðru nafni Dai Verner. Dai Verner varði mörgum áratugum í að kenna öðrum spilagaldra sína og hlaut fyrir vikið viðurnefnið „prófessorinn“ af starfsfélögum sínum.

Ein af þessum galdraþulum var þúsund ára gömul hebresk þula: „Abrakadabra“.

 

Þulan var merkingarlaus en margir prestar og bændur þuldu hana upp til að verjast slysum og sjúkdómum. Þulan var sögð veita vörn gegn malaríu, vernda uppskeruna gegn slæmu veðri og lækna sjúka grísi.

 

Í öðrum gömlum textum var því lýst hvernig sumir kristallar gátu fangað anda og notað þá til að spá fyrir um framtíðina. Ritin fólu að sama skapi í sér flóknar töflur sem nota mátti til að formæla öðrum.

 

Kirkjunnar menn ákváðu að banna mörg gömlu ritanna. Ef galdrakerlingar og -karlar komust yfir slíka fjölkynngi gátu þau jafnvel truflað gang alheimsins, sagði páfinn.

 

Græðsla og lækning sára voru verk djöfulsins

Þrátt fyrir bann kirkjunnar tókst lærðum endurreisnarmönnum engu að síður að safna saman í laumi gamalli vitneskju um það sem kallaðist galdrabækur eða „grimores“ á frönsku. Orðið er myndað af franska orðinu „grammaire“ sem táknar málfræði.

 

Galdrabækur voru gefnar út nafnlausar, því höfundarnir óttuðust að verða dæmdir fyrir galdra. Þetta kom þó ekki í veg fyrir vinsældir umdeilds innihalds þessara rita, því þau voru í raun sneisafull af hollráðum og hagnýtum ráðleggingum.

 

Í riti sem nefndist „Elstu galdrarnir“, frá árinu 1530, var því lýst hvernig andar í Ólympusfjalli í Grikklandi til forna gátu rétt fólki hjálparhönd og það með leyfi guðs:

 

„Þessir andar kunngjöra örlögin og geta úthlutað banvænni bölvun, ef guði er það þóknanlegt“.

 

Kaþólska kirkjan reyndi að refsa eigendum bókanna en erfitt var að sanna að þær hefðu verið notaðar til að fremja galdra. Þess í stað beindi kirkjan oft athygli sinni að spákonum og þeim einstaklingum sem höfðu þekkingu á náttúrulyfjum.

„Simsalabimm“
Töfraþula þessi á sennilega rætur að rekja til barnavísu.

Þegar einhver sagðist geta skyggnst inn í framtíðina eða læknað sár með sérstökum jurtum hlaut sá hinn sami að hafa leitað ráða í villutrúarritum, ályktaði kirkjan.

 

Þrátt fyrir þá sundrung sem siðaskiptin árið 1517 höfðu í för með sér voru kaþólska kirkjan og mótmælendakirkjan innilega sammála um eitt:

 

Útrýma bæri öllum galdrakonum og öllum göldrum. Kaþólska kirkjan setti á laggirnar heila sveit galdraveiðimanna í þessum tilgangi en með því er átt við rannsóknarréttinn.

 

Með kirkjunnar blessun þræddu munkar og lögmenn landssvæðin í leit að nornum og göldróttu fólki og áður en langt um leið var farið að brenna fólk á báli um gjörvalla Evrópu. Ef marka má franska nornaveiðimanninn Henry Boguet var enginn skortur á nornum en hann áleit ekki færri en 1,8 milljón þeirra vera í Evrópu en líkt og hann sagði „leyndust þær alls staðar, eins og ormar í kálgarði“.

 

Galdrar bannaðir með lögum

Sá samfélagshópur sem hvað oftast var sakaður um fjölkynngi og villutrúargaldra voru svokallaðir skottulæknar. Í mörgum borgum og þorpum var að finna skottulækna sem aðstoðuðu við fæðingar og gátu sagt fyrir um veðrið með því að rýna í skýin.

 

Í augum kirkjunnar flokkaðist fæðingarhjálp og lágmarksþekking á veðurfræði undir villutrú og andans menn grunuðu skottalækna jafnvel um að geta haft áhrif á veðrið. Þessar ranghugmyndir ýttu verulega undir nornahræðslu þegar veðrið olli skemmdum á mannvirkjum og uppskeru.

 

„Él og vindur geisuðu sem aldrei fyrr og ollu meiri skemmdum en áður hafði sést. Sökum þessa voru margar konur sem sagðar eru geta skapað hagl og vinda, brenndar á báli“, má lesa í frásögn frá Bayern frá árinu 1445.

 

Nornir voru færar um að ráðskast með veruleikann eða svo staðhæfði kirkjan. Með því að bera á líkama sína fitu soðinna kornabarna gátu þær m.a. flogið, var sagt.

Samkvæmt kirkjunni gátu nornir bruggað alls kyns mixtúrur sem lögðu álög á alla sem innbyrtu þær.

Þegar töframaður gat látið hnetur eða reipi svífa frammi yfir augum áhorfenda sinna, hluti færast á milli bolla ellegar hverfa, þá hlaut sá hinn sami að vera í slagtogi við illa anda eða sjálfan kölska, staðhæfðu kirkjunnar menn í Englandi.

 

Árið 1563 samþykkti enska þingið ný lög sem tóku á „særingum, álögum og göldrum“.

 

Lögin fyrirskipuðu dauðarefsingu hverjum þeim til handa sem „kallar yfir sig eða særir fram illsku, illa anda og nornagaldra með því að beita álögum, töfragripum eða galdrasæringum“.

 

Refsingar til handa fólki með sérlega hæfileika tíðkuðust enn fremur á meginlandi Evrópu. Árið 1566 var töframaðurinn Johann Büchsenschütz í Lemgo í Norður-Þýskalandi, sakaður um að hafa selt töfraþulur og fyrir að spá fyrir um framtíð annarra í kristalskúlu sinni.

 

Þrátt fyrir að vera beittur pyntingum neitaði Büchsenschütz því að töfrar hans flokkuðust undir djöfuldóm. Hann hélt því á hinn bóginn fram að töfrarnir væru tilkomnir fyrir „orð guðs“ sem átti að tákna að guð hefði verið honum innblástur.

 

Yfirvöld í Lemgo slepptu loks Büchsenschütz úr varðhaldinu og létu sér nægja að brenna þær bækur hans sem fólu í sér töfraþulur.

 

Galdraorðabók olli reiði konungs

Enski þingmaðurinn Reginald Scot fékk sig fullsaddan á því hvernig göldrum og töfralist var ruglað saman. Árið 1584 ritaði hann bókina „Sannleikurinn um fjölkynngi“ sem hafði þann tilgang að útskýra muninn á þessum tveimur fyrirbærum.

 

Bókin er skreytt með teikningum sem ætlað var að útskýra hvaða brögðum töframenn beita til að blekkja áhorfendur sína. Ein teikninganna sýnir sem dæmi afbrigði af gamla töfrabragðinu hans Dedis sem Westcar-papírushandritið sagði hafa hrifið Keóps faraó á fornöld.

 

Á teikningunni í riti Scots má sjá, að því er virðist, höfuðlausan búk liggja fram á borð. Við hlið búksins má sjá afhoggið mannshöfuð á fati. Teikningin leiðir í ljós að maðurinn var í reynd falinn undir borðplötunni og einungis höfuðið stakkst upp úr gati á fatinu.

 

Scots var mótmælendatrúar og tilgangur hans með bókinni var að leiða kirkjunnar mönnum hið sanna í ljós. Þegar prestar héldu því fram að brauð og vín breyttust í líkama Krists í altarisgöngunni, hristi skynsemisfólk höfuðið. Í þeirra augum hafði helgisiðurinn ekkert með kraftaverk að gera, heldur var um að ræða blekkingu, líkt og tíðkaðist þegar töfrabrögð voru sýnd.

Í bók einni frá árinu 1584 sýndi Englendingurinn Reginald Scot m.a. fram á að galdurinn með afhoggna höfuðið væri byggður á sjónhverfingum.

Bókin „Sannleikurinn um fjölkynngi“ öðlaðist engar vinsældir. Þess í stað fékk Scot bæði ensku kirkjuna og konunginn upp á móti sér. Jakob 1. konungur áleit alla umræðu um bellibrögð og töfra vera fólki hvatning til að taka upp nornasiði og leggja stund á illan ásetning.

 

Árið 1603 fyrirskipaði konungurinn að öll eintök af bók Scots skyldu gerð upptæk og brennd, með þeim afleiðingum að aðeins fáein eintök hafa varðveist. Scot hafði sjálfur látist fjórum árum áður. Hefði hann hins vegar enn verið á lífi þegar þetta gerðist er allt eins víst að hann hefði endað lífdaga sína á sama hátt og bækurnar, þ.e. verið brenndur á báli.

 

Það var svo ekki fyrr en á 18. öld að nornaveiðar fjöruðu út. Fram að því höfðu ógrynni manna og kvenna orðið logunum að bráð eftir að hafa hlotið dóm fyrir galdrasæringar og kukl. Fræðimenn áætla að allt að 50.000 saklausra borgara hafi verið brenndir á báli eftir að hafa hlotið dóm fyrir svartagaldur.

 

Eftir því sem nornaveiðum fækkaði fór aftur að bera á iðkun sjónhverfinga. Töfrasýningar nutu mikilla vinsælda á 18. og 19. öld og nú á dögum reiða áhorfendur gjarnan fram fé fyrir að sjá töframenn sýna töfrabrögð sín.

Robert-Houdin notaðist við litrík og áberandi veggspjöld til að lokka forvitnar sálir á sýningarnar.

Allir vildu horfa á töfrasýningar

Þegar álit manna breyttist á 18. öld frá því að töfrar væru af hinu illa yfir í það að vera til almennrar skemmtunar gátu sniðugir töframenn og sjónhverfingafólk öðlast frægð og frama fyrir stórfenglegar sýningar sínar.

 

Á tímum upplýsingatímans á 18. öld gleymdist öll tenging kirkjunnar milli töfra og nornaiðkunar. Töfrafólk breyttist í stjörnur á faraldsfæti þar sem fólk horfði agndofa á konu sem var „söguð í tvennt“. Engu var líkara en að konan hefði verið söguð í tvo hluta og bútunum síðan skeytt saman aftur án þess að konan liði fyrir.

 

Frá því um miðja 19. öld breytti Frakkinn Jean-Eugène Robert-Houdin sem upprunalega var úrsmiður, töfrabrögðum í tilkomumiklar og vandaðar sýningar. Robert-Houdin sem klæddist glæsilegum jakkafötum, heillaði fyrirfólk og efnafólk í Evrópu með því t.d. að troða eggi í gegnum vasaklút.

 

Robert-Houdin er álitinn vera upphafsmaður okkar tíma töfrabragða. Brögð hans mynduðu grunninn að kynslóðum töframanna og sjónhverfingamaðurinn Houdini sem öðlaðist frægð sína fyrir að brjóta af sér hlekki, valdi listamannsnafn sitt Frakkanum til heiðurs.

 

Stórsýningar með aðstoðarmönnum, aukaleikurum og hljómsveit litu fyrst dagsins ljós í Englandi á 20. öld þegar breski töframaðurinn John Nevil Maskelyne kynnti slíkar sýningar til sögunnar. Stjörnur á borð við Bandaríkjamanninn David Copperfield tóku þessa aðferð upp.

Lestu meira um sögu töfrabragða

Gary K. Waite: Heresy, Magic and Witchcraft in Early Modern Europe, Palgrave Macmillan, 2003

 

Chris Gosden: The History of Magic: From Alchemy to Witchcraft, from the Ice Age to the Present, Penguin Books, 2020

 

Owen Davies: Grimoires: A History of Magic Books, Oxford University Press, 2009

 

Owen Davies: The Oxford Illustrated History of Witchcraft and Magic, Oxford University Press, 2021

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: NATASJA BROSTRÖM , ANDREAS ABILDGAARD

© ArchaiOptix & Shutterstock,© Clark Art Institute,© The Yorck Project (2002),© Kat. Berlin DHM 2002,© Reginald Scott/Wikimedia Commons,© Photo Josse/Bridgeman Images

Náttúran

Krabbar hafa farið sömu ferðina 17 sinnum

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Maðurinn

Er veganmatur óhollur börnum?

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Náttúran

Risaeðlubeinagrind seld fyrir meira en sex milljarða króna á uppboði.

Lifandi Saga

Ísraelski vígamaðurinn: Vill lifa í friði með Palestínumönnum

Maðurinn

Er hægt að verða gráhærður á einni nóttu?

Heilsa

Hrotur geta verið vísbending um hjartasjúkdóm: Einn hópur er í sérstakri áhættu

NÝJASTA NÝTT

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Maðurinn

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Maðurinn

Þannig getum við nýtt drauma okkar

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

Jörðin

Jörðin eftir manninn

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Jörðin

99 stórborgir eru að sökkva

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Munnvatnið er fullt af eitri

Maðurinn

Gæludýr koma í veg fyrir offitu og ofnæmi meðal barna

Náttúran

Hvernig bárust kettir til Ameríku?

Heilsa

Er mikið um kyrrsetu hjá þér í vinnunni? Þá getur kaffi lengt líf þitt samkvæmt stórri rannsókn.

Heilsa

Lækning gegn útbreiddum meltingartruflunum finnst í flestum eldhúsum.

Vinsælast

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Myndir af einangruðum ættflokki sýna mannlegan harmleik, samkvæmt verndarsamtökum

3

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

4

Jörðin

Jörðin eftir manninn

5

Spurningar og svör

Hvað á eiginlega að gera við kjarnorkuverið í Tjernobyl?

6

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

1

Maðurinn

Bakteríur leysa vind í munni okkar

2

Maðurinn

Geta matvörur varið húðina gegn útfjólubláum geislum sólar?

3

Jörðin

Jörðin eftir manninn

4

Heilsa

Kostir þess að vera nátthrafn

5

Lifandi Saga

Hvað átti sér stað við Wounded Knee árið 1973?

6

Maðurinn

Gerið það sama og þúsundir gera á samfélagsmiðlum: Verið þakklát og lifið lengur

Heilsa

Læknar hafa grætt heilt auga í mann

Maðurinn

Nú geta vísindamenn ráðskast með drauma okkar

Tækni

140.000 veirutegundir hafa fundist í þarmaflórunni

Maðurinn

Kornabörn þekkja móðurmálið sitt

Læknisfræði

Hvers vegna fáum við ofnæmi?

Maðurinn

Lamaður maður gengur fyrir eigin hugarafli

Lifandi Saga

Dans indíána orsakaði blóðbaðið við Wounded Knee

Heilsa

Rannsókn: Tæp skeiðfylli af þessari fitutegund daglega dregur úr hættu á heilabilun

Maðurinn

Er hollt að gefa blóð?

Tækni

Vandamál sem gat orðið aðkallandi

Maðurinn

Efnaskiptin eru stöðug frá 20 til 60 ára aldurs

Maðurinn

Er siðblindingi á vinnustaðnum þínum?

Er hægt að verða sólbrúnn í skugga?

Er sólarvörn yfirhöfuð nauðsynleg ef dvalið er í skugga mestallan daginn?

Maðurinn

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.