Bæði gleymska og eldur voru öldum saman nærri því að gleypa íslensku fornsögurnar og vissulega eru sumar þeirra glataðar.
Sumar hafa týnst og fallið í gleymsku og mörg merk handrit brunnu í Kaupmannahöfn árið 1728.
En fjölmargar eru enn varðveittar og þótt margt sé áreiðanlega ýkt og fært í stílinn, veita þessar sögur okkur stórmerkilega innsýn í miðaldasamfélög þar sem því fór fjarri að ein lög giltu fyrir alla.
Grunnur
Heiti: Íslendingasögur/Fornsögur/“The Icelandic Sagas“.
Tilurð: Flestar skrifaðar á 13. öld.
Efni: Sögur ætta og/eða einstaklinga, konungasögur, sögur og ævintýri af fornum hetjum í Norður-Evrópu o.fl.
Vissir þú? Að minnstu munaði af safn Árna Magnússonar yrði eldi að bráð í Kaupmannahafnarbrunanum 1728. Megninu tókst þó að bjarga.
Var íslenskt samfélag einhvern tíma svona?
Íslendingasögurnar lýsa samfélagi þar sem skorið var úr þrætum með báli og brandi og blóðhefndir voru algengar. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið. Íslendingasögurnar gerast á tímabilinu frá landnámi kringum 870 og fram undir miðja 11. öld.
Íslenskir landnámsmenn komu flestir frá Noregi, margir landflótta eftir að Haraldur hárfagri lagði landið undir sig en allmargir komu líka frá Bretlandseyjum, ekki síst frá Írlandi og nýlegar erfðarannsóknir sýna að stór hluti landnámskvenna var ættaður þaðan.
Sagt er að þá hafi hafst hér við írskir munkar en þeir virðast hafa horfið fljótlega.
Á svokallaðri landnámsöld, fyrstu 50-60 árunum ríktu fremur hefðir og venjur en lög á Íslandi.
Fyrstu lögin voru sett við stofnun Alþingis 930. Eftir sem áður réðu þó meira og minna óskráðar reglur, ekki síst um heiður manna og ætta.
Þessi hefð leiddi iðulega til mikilla vígaferla, enda var það eins konar heilög skylda að hefna grimmilega, ekki aðeins fyrir manndráp, heldur einnig aðrar misgerðir.
Langflestar Íslendingasögur snúast einmitt um þetta og frásagnirnar því oft bæði blóðugar og spennandi.
Hvers vegna voru sögurnar skrifaðar?
Eftir að landið var fullnumið var Alþingi stofnað og lög sett í landinu, að mestu sniðin eftir norskum lögum.
Alþingi kom saman í tvær vikur í júní og þar var hægt að sækja menn til saka, þótt úrslit mála réðust oft fremur af völdum höfðingja en málefnum.
Þetta veikburða stjórnkerfi byggðist á valdaskiptingu 36 goða en fékk ekki staðist til lengdar og formlegt vald þeirra, hin svonefndu goðorð, tóku smám saman að safnast á æ færri hendur uns þau voru nánast öll komin í hendur fáeinna voldugra ætta sem á fyrri hluta 13. aldar háðu margar blóðugar orrustur um völdin í landinu.
Vísindamenn hafa lengi reynt að sanna hvaðan orðið víkingur er upprunnið.
Noregskonungar höfðu lengi haft augastað á Íslandi og Hákoni 4. sem ríkti 1217-1263, tókst að nýta sér ringulreiðina á Sturlungaöldinni.
Hann atti höfðingjaættunum saman og tókst loks að fá Íslendinga til að sverja sér hollustueiða á Alþingi 1262 og 1263. Þar með varð Ísland skattskylt Noregskonungum.
Svo vill til að saga þessa tímabils er varðveitt í Íslendingasögu sagnaritarans Sturlu Þórðarsonar (1214-1284). Ólíkt sjálfum Íslendingasögunum og öðrum fornsögum verður að líta á Íslendingasögu Sturlu sem nokkuð trausta heimild, því hann var sjálfur viðstaddur marga þeirra atburða sem hann segir frá.
Íslendingasögurnar sjálfar voru flestar skrifaðar á 13. öld, nokkrum öldum eftir atburðina sem þær lýsa og því hefur væntanlega margt skolast til og orðið ævintýralegra en raunin var.
Auðvitað er ógerlegt að fullyrða um ástæður þess að þær voru skrifaðar en trúlegt er að einhverjir hvatamenn að ritun þeirra hafi viljað halda heiðri forfeðranna á lofti, enda margar sögurnar ættarsögur.
Hitt hefur vafalaust líka átt sinn þátt að menn hafi viljað varðveita sögur sem gengið höfðu í munnmælum kynslóð fram af kynslóð og loks má ekki gleyma skemmtanagildinu.
Einn ástsælasti maður sagnanna er Egill Skallagrímsson.
Egils saga er ágætt dæmi.
Hún segir frá nokkrum ættliðum en aðalpersónan er vissulega Egill sjálfur, mikil bardagahetja, sem nú til dags teldist sennilega fremur ofstopamaður og tæpast í húsum hæfur.
Nú telja flestir að Snorri Sturluson hafi skrifað Egils sögu. Hann var afkomandi Egils í sjötta lið og hefur sjálfsagt viljað halda heiðri ættarinnar á lofti.
Hverjir skrifuðu fornsögurnar og hvað einkennir þær?
Við vitum ekki hverjir skrifuðu þessar sögur. Frá þeirri meginreglu eru aðeins örfáar undantekningar.
Snorri Sturluson skrifaði Heimskringlu sem er saga Noregskonunga allt frá Haraldi hárfagra fram undir lok 12. aldar.
Snorri skrifaði líka rit um norræna goðafræði og fleira. Sturla Þórðarson, bróðursonur hans skrifaði sögu samtíma síns eins og áður er nefnt en auk þess skrifaði hann sögur tveggja Noregskonunga og því hefur verið haldið fram að hann sé höfundur meistaraverksins Njálu.
Við vitum líka að munkar fengust við skriftir og fáeinir eru nafngreindir. En höfundar langflestra Íslendingasagna og annarra fornrita eru algerlega óþekktir.
Frumkvöðlarnir Sæmundur fróði Sigfússon (1056-1133) og Ari fróði Þorgilsson (1067-1148) fengust þó eitthvað við sagnaritun.
Sögurnar sjálfar eru af margvíslegum toga. Það er líka erfitt að ákvarða að hve miklum hluta þessar sögur eru einfaldlega gamlar munnmælasögur sem gengu í arf milli kynslóða áður en þær voru færðar í letur og hve mikið söguritarinn kann að hafa lagað til.
Því má heldur ekki gleyma að höfundurinn hefur sjálfsagt oft þekkt fleiri en eina útgáfu munnmælasögunnar. Hitt má telja víst að sögurnar hafi orðið heldur safaríkari með hverri kynslóð þær aldir sem liðu frá atburðunum þar til sögurnar voru skráðar.
Til að mynda barðist Egill Skallagrímsson einn við ellefu menn og drap þá alla.
Það má heldur ekki gleyma æsilegum ævintýrasögum á borð við Fornaldarsögur Norðurlanda. Og það taldist líka spennandi að krydda sögur með kynlífslýsingum í þá daga ekkert síður en nú. Í Bósa sögu og Herrauðs gengur Bósi til hvílu bóndadóttur að nóttu til og segist vilja brynna fola sínum í ölkeldu hennar.
Stúlkan brást vel við en taldi að endingu að folinn hefði ælt meiru en hann drakk. Þessi saga þótti á síðari tímum hreint ekki boðleg. Hún var gefin út og seld með öðrum klámritum í sjoppum á seinni hluta síðustu aldar.
Sögurnar voru ritaðar mörg hundruð árum eftir að þær gerðust.
Manndráp, galdrar og ástarþríhyrningar
Frægustu sögurnar fjalla um blóðhefndir og valdabaráttu og voru eins konar spennusögur þess tíma. En í þeim er líka að finna ævintýri, rómantík og sumar konurnar eru gríðaröflugar og jafnvel ráðandi persónur.
„Njáls saga“ : Stórvirkið (um 1280)
Njála fjallar m.a. um vináttu Gunnars og Njáls sem engin áföll fá haggað. Eftir dauða Gunnars fremja synir Njáls ódæðisverk sem Flosi og Sigfússynir hefna fyrir með því að brenna Njál og syni hans inni. Lokakaflinn snýst um hefnd fyrir brennuna. Konur Gunnars og Njáls, þær Hallgerður og Bergþóra eru báðar afar öflugar persónur í sögunni.
„Laxdæla saga“: Sú feminíska (um 1245)
Guðrún Ósvífursdóttir er ein aðalpersónan, ekki bara fögur heldur líka afar sterk persóna. Sagan hefst á landnámi Auðar djúpúðgu sem í raun er lýst sem voldugum höfðingja. Og Þorgerður Egilsdóttir gefur karlmönnum ekkert eftir í hefndarþorsta sínum. Var höfundurinn kannski kona?
„Völsunga saga“ : Ævintýrasagan (um 1270)
Hetjurnar eru komnar af guðum og þurfa að kljást við kynjaskepnur. Hér er sagan af Sigurði Fáfnisbana sem drepur orminn Fáfni, tekur gullið sem hann liggur á og étur hjarta hans. Wagner sótti innblástur í söguna, hún hafði áhrif á „Game of Thrones“ og mögulega sögur Tolkiens.
„Ragnars saga loðbrókar“ : Hetjusagan (um 1300)
Sagan fjallar um hetjudáðir víkingakonungsins Ragnars. Sjónvarpsþættirnir „Vikings“ sækja nokkra atburði í söguna, t.d. hernað hans í Englandi og Frakklandi og dauða hans í ormagryfjunni. Margt er hins vegar nútíma skáldskapur. Sagan er ævagömul og ein af svonefndum Fornaldarsögum Norðurlanda, líkt og t.d. Völsunga saga.
„Gunnlaugs saga ormstungu“ : Sú rómantíska (um 1270)
Gunnlaugur verður ástfanginn af Helgu hinni fögru, sonardóttur Egils Skalla-Grímssonar en vill fara til Noregs og faðir hennar samþykkir að hún bíði hans í þrjú ár. En heimferðin tefst og þegar Gunnlaugur kemur heim er Helga gift Hrafni. Þeir heyja einvígi um hana og falla báðir.
Skrifuðu bara Íslendingar?
Fyrstu sögurnar af Noregskonungum munu hafa verið skrifaðar í nánu sambandi við norsku hirðina og Norðmenn sjálfir væntanlega sjálfir eitthvað komið að því verki.
En þessar frásagnir hafa síðar gagnast öðrum sem heimildir, t.d. Snorra Sturlusyni. Íslendingar hafa því nánast verið einir um að skrifa á „danska tungu“ eins og hið sameiginlega norræna mál var stundum kallað. Það var reyndar heilmikið skrifað á þessum tíma en nánast allt á latínu.
Hinir íslensku höfundar voru þó ekki jafn einangraðir og ætla mætti. Snorri Sturluson ólst upp í Odda hjá sonarsyni Sæmundar fróða sem hafði farið til náms suður í Evrópu og hefur vafalaust átt mikið bókasafn.
Það má sömuleiðis telja víst að bókasafn Snorra sjálfs í Reykholti hafi verið talsvert mikið að vöxtum.
Íslendingasögurnar voru innblásnar af rómantískum frönskum riddarasögum, m.a. í sögunni um hina hrífandi Guðrúnu sem etjar tveim bræðrum saman.
Og áhrif utan úr Evrópu höfðu mjög skýr áhrif á íslenska höfunda, ekki síst þegar tók að líða á 13. öldina.
Hákon Noregskonungur mun hafa verið hrifinn af riddarasögum og látið þýða þær og riddararómantíkin setur t.d. óneitanlega svip sinn á Laxdæla sögu, þar sem þeir fóstbræður og bræðrasynir, Kjartan og Bolli verða báðir ástfangnir af Guðrúnu Ósvífursdóttur.
Þennan hluta sögunnar má sem best kalla harmleik. Bolli vélar Guðrúnu til að giftast sér meðan Kjartan er í Noregi og á endanum verður hann Kjartani að bana. En Þorgerður, móðir Kjartans, er dóttir Egils Skalla-Grímssonar og sver sig í ættina, því hún eggjar syni sína til hefnda og fer meira að segja með þeim til að ganga úr skugga um að Bolli lifi ekki af.
Hvernig lifðu sögurnar af?
Á 14. öldinni virðast menn hætta að skrifa nýjar sögur en af þeim handritum sem enn eru varðveitt er augljóst að mikið hefur verið gert af því að skrifa sögurnar upp.
En svo fór áhugi á þessum sögum dvínandi. Gamlar skinnbækur voru víða teknar í sundur og síðurnar notaðar í skó eða bætur á föt, ekki síst eftir að pappír kom til sögunnar. Einhverjar sögur glötuðust með öllu. Það er fullvíst vegna þess að nöfnin sjálf hafa varðveist, t.d. Gauks saga Trandilssonar.
Frásagnarhefð sagnanna dó út þegar plágan barst til Íslands á 15. öld og þurrkaði út allt að þriðjung íbúa eyjarinnar.
En svo kom endurreisnin til sögunnar. Í Suður-Evrópu tóku menn að rifja upp rit frá hinni glæstu fornöld en á Norðurlöndum var ekki miklu til að dreifa.
Árið 1650 gaf Friðrik 3. Danakonungur út tilskipun um söfnun gamalla handrita. Útsendarar hans fundu fljótlega hina fornu lögbók Grágás og Ragnars sögu loðbrókar en að öðru leyti gekk söfnunin illa.
Við bættist svo að Karli 11. Svíakonungi tókst að kaupa 51 handrit fyrir framan nefið á Dönum.
Margar af valdamestu fjölskyldunum treystu böndin með giftingum sín á milli. Slík vensl skapa öflug bandalög en valdagræðgi og fjörráð leiða á endanum til þess að út brýst blóðugt stríð um völdin á Norðurlöndum.
Hver var Árni Magnússon?
Söfnun íslenskra handrita komst fyrir alvöru af stað 1702 þegar Árni Magnússon, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sneri heim til Íslands með umboð frá konungi til að safna handritum.
Öfugt við fyrirrennara sína, taldi Árni hvert snifsi þess virði að varðveita það. Árni náði á endanum að safna einum 500 skinnhandritum og um 2.000 pappírshandritum sem sum voru endurritanir af gömlum skinnbókum sem höfðu glatast.
Íslenski prófessorinn Árni Magnússon fór um allt landið og ýmist keypti handrit eða fékk gefins. Hann hirti hvert minnsta snifsi.
Árni lést í janúar 1730 og hafði þá arfleitt Kaupmannahafnarháskóla að safni sínu.
Meira en tveimur öldum síðar náðist samkomulag um að skipta safninu milli Dana og Íslendinga og merkustu skinnbækurnar eru meðal þess sem nú er varðveitt í Árnastofnun við Háskóla Íslands. Þessum handritum var skilað á árunum 1971-1997.
Voru söguhetjurnar til?
Telja má nokkuð víst að flestar aðalpersónur Íslendingasagna hafi verið til og fullvíst er að margir þeirra atburða sem þær greina frá, gerðust í raun og veru.
Við getum meira að segja tímasett t.d. Brjánsbardaga sem sagt er frá í Njálu, út frá írskum heimildum. Orrustan „The Battle of Clontarf“ var háð skammt frá Dublin 23. apríl 1014.
Jafnvel í gömlum ævintýrasögum má leiða líkum að því að söguhetjurnar hafi a.m.k. verið til. Það gildir t.d. um Ragnar loðbrók sem að líkindum er hinn sami og herjaði á París 845.
Aftur á móti getur enginn vafi leikið á því að sögurnar hafi verið vel kryddaðar og gerðar bæði mergjaðri og hetjulegri en efni stóðu til. Samtöl eru t.d. vafalaust að mestu eða öllu leyti skáldskapur.
Hvaða gildi hafa sögurnar?
Þegar tekið var að safna sögunum, virðast margir hafa talið að þar væri allt satt og rétt.
Sagnfræðingar nútímans líta fremur á þær sem vitnisburð um líf fólks, þjóðskipulag og samfélagshætti fyrir þúsund árum eða svo.
En þær geyma líka ýmis sannleikskorn. Norsku hjónin og fornleifafræðingarnir Helge og Anne Stine Ingstad fundu t.d. fornar norrænar rústir á Nýfundnalandi árið 1961 og tóku þar með af öll tvímæli um að norrænir menn hefðu siglt til Ameríku löngu á undan Kólumbusi.