Devonshire, England, 13/11 1849
Herra minn
Ég varð vitni að aftökunni sem fór fram í morgun í fangelsinu í Horsemonger Lane (∗). Ég fór þangað í þeim tilgangi að fylgjast með mannfjöldanum sem þyrpst hafði saman til að fylgjast með atburðinum.
Ég fékk gott tækifæri til að hafa gætur á því sem þar fór fram, fyrst með því að fylgjast reglulega með því sem gerðist um nóttina, síðar með nærveru minni allt frá sólarupprás og þar til allt var yfirstaðið.
(∗)
Manning hjónin voru leidd fyrir rétt í október 1849 og dæmd fyrir morðið á fyrrum elskhuga frú Manning, Patrick O’Connor.
Tilgangur minn með þessu bréfi er ekki sá að rökræða um dauðarefsingu sem slíka, né heldur að varpa ljósi á rök málsvaranna og andstæðinganna.
Ég óska þess aftur á móti að breyta mætti þessum hræðilega atburði í eitthvað sem komið gæti almenningi að gagni.
Charles Dickens
Var uppi: 1812-1870.
Hverrar þjóðar: Breti.
Starf: Rithöfundur, blaðamaður, fyrirlesari og samfélagsrýnir.
Hjúskaparstaða: Kvæntur Catherine Thomson og faðir tíu barna.
Þekktur fyrir: Í skáldsögum sínum lýsti Dickens skuggahliðum Viktoríutímabilsins. Hans er ekki hvað síst minnst fyrir skopstæltar mannlýsingarnar á m.a. hinum illkvittna og fégráðuga Ebenezer Scrooge í sögunni „Jólasaga“.
Mig langar að vekja athygli með skiljanlegum orðum á því sem hr. G. Grey (∗) ýjaði að á síðasta þingfundi, þ.e. að ríkisstjórnin hygðist breyta framkvæmd dauðarefsingar í einkamál sem eigi sér stað innan veggja fangelsanna.
Ég þrábið af öllu hjarta hr. G. Grey um að reyna að sjá til þess að löggjöfinni á þessu sviði verði breytt. Slík er skylda hans gagnvart samfélaginu og í raun ábyrgð sem hann getur ekki skotið sér endalaust undan.
(∗)
Sir George Grey (1799- 1882) var innanríkisráðherra og andsnúinn opinberum aftökum. Hann átti síðar meir þátt í að setja ný lög um refsingar sem þessa.
Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt heiðið land í víðri veröld geti umborið viðlíka illsku og ófyrirleitna skemmtun sem þá er mannmergðin tók þátt í í dag.
Óttinn sem það vakti innra með mér að sjá gálgann, svo og hugsunin um glæpinn sem morðinginn hafði framið, urðu að engu samanborið við illskuna sem lýsti sér í hegðun áhorfendanna, orðum þeirra og gerðum.
Þegar ég mætti á staðinn um miðnætti heyrði ég óp og vein sem mig hryllti við að heyra.
„Ég get ekki ímyndað mér að nokkurt heiðið land í víðri veröld geti umborið viðlíka illsku“.
Charles Dickens.
Öskrin heyrðust áfram alla nóttina og augljóst var að þau áttu rætur að rekja til hóps karla og kvenna sem safnast höfðu saman til að njóta þess sem í vændum var.
Fólk tók jafnframt undir í skopstælingum ýmissa dægurlaga. Textanum úr hinu vel þekkta lagi „Ó, Súsanna!“ hafði t.d. verið breytt í „Mrs. Manning“ og fleira heyrðist í þeim dúr.
Þegar birti af degi bættust við þjófar, gleðikonur, glæpamenn og alls kyns utangarðsfólk. Nærvera fólksins hvatti til alls kyns ósæmilegrar og hneykslanlegrar hegðunar.
Margir slógust, liðu út af, ærsluðust, blístruðu, reyttu af sér dónalega brandara og líktu eftir óforskömmuðu teiknimyndapersónunni Punch (∗) eftir bestu getu.
(∗)
Punch var hin dónalega, háværa og yfirgangssama aðalpersóna í vinsælum enskum brúðuleikritum um „Punch og Judy“.
Nokkrar konur í druslufötum sem voru í þann veginn að falla í ómegin, voru fluttar á brott af lögreglunni. Þessi sjón kætti mannskapinn enn frekar.
Þegar sól skein í heiði þennan góðviðrisdag lýsti hún upp andlitin á þúsundum áhugasamra áhorfenda.
Andlitin sem lýstu af fögnuði og tillitsleysi, virtust mér svo einstaklega óþægileg sjón að ég fann fyrir skömm yfir að vera maður. Mig hryllti við tilhugsuninni um að við værum greinilega sköpuð í mynd djöfulsins.
Þegar fórnarlömbin tvö sem öllum þessum hamagangi ollu, héngu loks í lausu lofti og líkamar þeirra skulfu og titruðu, voru áhorfendurnir gjörsneiddir nokkurri tilfinningu og meðaumkun.
Enginn hugleiddi frekar að þessar tvær ódauðlegu sálir stæðu nú frammi fyrir dómara sínum. Enginn nærstaddra hélt aftur af dónalegum athugasemdum sínum og ósmekklegum bröndurum.
Í Bretlandi á 19. öld kölluðust aftökur manna á meðal „hengingarmarkaðir“.
Í sannleika sagt skyldi ætla að kristin gildi hefðu aldrei verið kynnt fyrir heiminum og að fólk gerði því skóna að hinir dánu tortímdust líkt og kýr þegar þeir létust.
Ég hafði vanið komur mínar í verstu spillingarbælin og hélt ekki að neitt sem gerðist í Lundúnum gæti framar komið mér á óvart.
En enginn getur gert sér í hugarlund neitt jafn ógeðfellt og opinbera aftöku. Ég er furðu lostinn yfir þeirri ógnvekjandi mannvonsku sem látin er í ljós við slík tækifæri.
Ég held ekki að samfélagið geti þrifist þegar slíkur hryllingur og siðspilling, eins og átti sér stað fyrir framan fangelsið við Horsemonger Lane, getur átt sér stað rétt við heimili siðprúðra borgara og atburðurinn getur verið virtur að vettugi eða gleymst.
Þegar við um næstu jól sem eru innan seilingar, lofsömum guð og heitum því að berjast gegn illskunni í landi okkar, langar mig að biðja lesendur um að velta því fyrir sér hvort ekki sé kominn tími til að beina huganum að því illa sem ég hér hef gert að umræðuefni mínu og reyna að útrýma því.
Yðar trúfasti þjónn,
Charles Dickens
Eftirmáli:
Bréf Charles Dickens átti þátt í að virkja almenning til mótmæla gegn opinberum aftökum í Bretlandi.
Lögin (lagabreyting um dauðarefsingu) sem bönnuðu slíkt voru þó ekki samþykkt fyrr en árið 1868 eftir langvarandi nefndarstörf.
Síðasta opinbera aftakan átti sér stað það sama ár. Dauðarefsing var þó ekki afnumin á Bretlandi fyrr en árið 1965.