Lifandi Saga

Drakúla greifynja

Aðalskonan Elísabet Báthory er einn hræðilegasti raðmorðingi gjörvallrar sögunnar. Hún hrinti í framkvæmd kvalalostadraumórum sínum í höll einni, þar sem nú heitir Slóvakía, allt þar til konungurinn frétti af öllum grunsamlegu dauðsföllunum og konunum sem hurfu af hennar völdum.

BIRT: 25/03/2023

 

Þetta gerðist á hráslagalegu, dimmu kvöldi í lok ársins 1610. Hópur karlmanna var á leið upp brekkuna sem lá upp að höllinni Cachtice í norðurhluta ungverska ríkisins.

 

Fremstur gekk fyrsti ráðherra ríkisins, György Thurzó greifi. Matthías 2. konungur, hafði sent hann til að reyna að komast að raun um hvort eitthvert sannleikskorn leyndist í sögusögnunum sem stöðugt færðust í vöxt um mannrán, pyntingar og dularfull morð í virki Elísabetar Báthory, ekkjugreifynju.

 

Thurzó greifi sem var náfrændi greifynjunnar, hafði heyrt lygilegar sögur um kynsvall hennar og aðstoðarfólks hennar, svo og nornaveislur á þeirra vegum.

 

Sendiboðarnir læddust upp að virkinu í von um að standa einhvern að verki. Þeir fóru afar laumulega því greifynjan var einkar valdamikil kona.

 

Hún gæti orðið varasamur andstæðingur ef mennirnir ryddust inn og enginn fótur reyndist vera fyrir rógburðinum.

 

Öllum til mikillar furðu var hliðið galopið og enga varðmenn þar að sjá. Inni í virkisgarðinum rákust þeir fyrst á unga þjónustustúlku sem lá skælandi í snjónum með brotna mjöðm.

 

Þessi sýn hafði engin veruleg áhrif á mennina, því þeir voru vanir að sjá þjónustufólkinu refsað, já, jafnvel að það væri tekið af lífi en slíkt tíðkaðist og var jafnvel viðurkennt meðal aðalsins.

 

Virkið minnti á pyntingarklefa

Inni á köldu steingólfinu lá önnur ung kona, hálfnakin. Hún var ákaflega föl á að líta og leit út eins og allt blóð hefði verið tæmt úr æðum hennar. Innan skamms höfðu mennirnir sannreynt að unga konan væri látin.

 

Rétt hjá lá önnur ung kona. Líkami hennar var sárum þakinn og lágværar stunur gáfu til kynna að hún væri í andarslitrunum.

 

Sendisveitin hélt áfram för sinni inn í virkið sem virtist mannlaust, án þess að nokkur reyndi að stöðva mennina. Í dimmum neðanjarðarkjallara varð á vegi þeirra fangaklefi sem tólf stúlkur höfðu verið lokaðar inni í.

 

Í hryllilegum pyntingarklefa fundu þeir fleiri látnar stúlkur og enn aðrar með litlu lífsmarki. Þær síðastnefndu virtust hafa gleymst þegar örmagnaðir böðlarnir gengu til hvílu í lok nætur.

 

Böðlarnir voru nú gripnir glóðvolgir í herbergjum sínum, sumir hverjir enn íklæddir blóði drifnum klæðum. Sjálf frúin reyndist einnig vera í virkinu. Þegar felmtri slegnir sendiboðarnir höfðu farið um alla höllina höfðu þeir rekist á rösklega 50 illa lemstruð lík.

 

Þau reyndust þó vera margfalt fleiri þegar upp var staðið. Í réttarhöldunum sem fylgdu í kjölfarið kom fram að greifynjan og handbendi hennar hefðu gegnum árin pyntað og deytt allt að 612 stúlkur og ungar konur.

 

Greifynjan pyntaði og myrti hundruð ungra kvenna, ásamt húsbóndahollum þjónum sínum.

Blóðskömm í ættgöfugu fjölskyldunni

Elísabet Báthory fæddist árið 1560 í ungversku borginni Nyírbátor. Hún ólst upp í borginni Ecsed í Transylvaníu í einum af mörgum kastölum fjölskyldunnar.

 

Foreldrar hennar, György Báthory de Ecsed barón og kona hans Anna Báthory, tilheyrðu hvort sinni grein einnar af efnuðustu og áhrifamestu lútherstrúarfjölskyldunum í ungverska ríkinu.

 

Föðurbróðir hennar, Stefan Báthory, var prinsinn af Transylvaníu og konungur Póllands á árunum 1575 til 1586 og meðal annarra skyldmenna voru kardínáli, nokkrir biskupar og fyrsti ráðherra ríkisins, Thurzó greifi sem tók þátt í handtöku Báthory greifynju, allri löðrandi í blóði, árið 1610.

 

Greifynjan hafði verið einkar skapstór sem barn. Ýmislegt þykir benda til þess að hún hafi þjáðst af flogaveiki eða öðrum taugasjúkdómi sem ýmsir sagnfræðingar segja að stafi af innrækt sem var stunduð í því skyni að halda auðævunum innan fjölskyldunnar.

 

Afbrigðilegar gjörðir annarra fjölskyldumeðlima benda til sömu niðurstöðu en skortur á heimildum gerir það að verkum að erfitt reynist að segja til um hvað eru sögusagnir og hvað seinni tíma skýringar á óskiljanlegum gjörðum hennar.

 

Sömu sögu er að segja af frásögnum af því hvað á að hafa hent greifynjuna í barnæsku sem m.a. herma að hún hafi orðið vitni að því að öskuillir bændur nauðguðu og myrtu systur hennar og að minnstu hafi munað að hennar biðu sömu hryllilegu örlög.

 

Hún beit fórnarlömb sín til blóðs

Elísabet Báthory var ekki nema 14 ára að aldri þegar hún var látin giftast Ferencz Nádasdy greifa og flutti inn í höll hans, Cachtice. Eiginmaðurinn lést árið 1604 og enginn veit fyrir víst hvert banamein hans var.

 

Um þetta leyti byrjaði greifynjan fyrir alvöru að fremja ódæðisverk sín. Ef marka má sögusagnir gerðist þetta fyrir algera tilviljun. Sagan segir að ung þjónustustúlka hafi hárreitt greifynjuna þegar hún greiddi henni.

 

Greifynjan á þá að hafa rekið stúlkunni kinnhest með þeim afleiðingum að blóðið úr nefi hennar lak niður á hönd frúarinnar. Þegar hún hafði þurrkað af sér blóðið sýndist henni húðin verða unglegri á að líta.

 

Þegar hún svo hafði ráðfært sig við fólk sem lagði stund á galdra lét hún skera stúlkuna á háls og hella blóðinu í baðker. Greifynjan baðaði sig því næst í blóðinu og drakk jafnframt af því, hvort tveggja í því skyni að endurheimta æskublómann.

 

Konan á að hafa verið heltekin af þrá í eilífa æsku og er þessi þráhyggja talin vera skýringin á ógeðfelldum athöfnum hennar. Þess ber þó að geta að engar samtímaheimildir greina frá því að hún hafi farið í blóðbað.

 

Því er hins vegar lýst á mörgum stöðum að hún hafi bitið tægjur af húð fórnarlamba sinna með tönnunum, svo blóðið spýttist úr fórnarlömbunum.

 

Er ástæðan rakin til kvalalosta greifynjunnar, svo og blætisdýrkunar hennar á blóði og hugsanlegum yngingarkrafti þess.

 

Grevinde_Dracula_bog

Bókmenntapersónan Drakúla byggir að öllum líkindum á sögunum um Báthory greifynju.

Morðkvendi varð kveikjan að blóðsugubók

Þessar skelfilegu sögur um Báthory greifynju urðu kveikjan að mörgum kvikmyndum og bókum. Hún er m.a. þekkt sem „blóðgreifynjan“.

 

Þegar blóðþyrsta drottningin lést árið 1614 var innleitt bann gegn því að nefna nafn hennar næstu hundrað árin. Frændi hennar, Thurzó greifi, faldi þingbækurnar úr réttarhöldunum í höll sinni í því skyni að bjarga orðspori fjölskyldunnar.

 

Jesúítamunkurinn Laszló Turáczi fann svo bækurnar um miðja 18. öld en hann ritaði fyrstur allra um atburðina sem þar er greint frá.

 

Elísabet Báthory hefur síðan orðið mörgum sálfræðingum, afbrotafræðingum og ekki hvað síst rithöfundum uppspretta að efniviði.

 

Persónan Elísabet Báthory kemur fyrir í nokkrum hryllingsmyndum sem bera titla í líkingu við „Grafreiturinn“ og „Blóðhöllin“, auk skáldsagna á borð við „Blóðgreifynjan“ eftir rómanska rithöfundinn Andrei Codrescus.

 

Bókmenntafræðingar eru sammála um að frásagnir af greifynjunni að drekka og baða sig í blóði hafi verið kveikjan að bókinni um Drakúla sem Bram Stoker ritaði árið 1897.

 

 

Líkunum var kastað hingað og þangað

Heimildir herma að margar ungar stúlkur hafi horfið frá nærliggjandi þorpum og sveitum. Þær sem ekki létu narra sig með gylliboðum um starf í höllinni voru teknar með valdi og sáu húsbóndahollir skósveinar greifynjunnar um þann hluta.

 

Fyrst í stað fannst engum neitt merkilegt við stúlkuhvörfin. Skyndileg, óútskýrð dauðsföll voru ekki óalgeng í fátækum þorpum og í raun réttri þorðu ekki margir að andmæla þessari skapstóru óðalsfrú.

 

Þegar ekki var lengur hægt að þagga niður sögusagnir og kvartanir ættingjanna, neyddist presturinn loks til að láta í sér heyra.

 

Hann kvartaði sáran yfir því að leynilegar greftranir ættu sér stað í skjóli nætur í kirkjugarðinum, æ ofan í æ, án þess að sér eða grafaranum væri tilkynnt um.

 

Í kirkjugarðinum bættust sífellt við nýjar grafir, allar án legsteins.

 

Kvartanir prestsins höfðu ekkert að segja. Greifynjan og handbendi hennar sem voru þess fullviss að þau yrðu ekki gripin glóðvolg, létu sér detta í hug nýjar aðferðir til að losna við líkin.

 

Líkunum var nú hent hvar sem morðingjunum hentaði – stundum úti á akri, út í ána eða í brekkunni fyrir neðan virkisveggina.

 

Þó svo að dánarorsökin væri opinbert leyndarmál, þá hafði enginn kjark í sér til að ásaka greifynjuna. Hún átti valdamikla ættingja og fórnarlömbin voru öll dætur bláfátækra bænda.

 

Dætur aðalsmanna einnig í kastljósinu

Þegar frá leið fækkaði sveitastúlkunum og þá gleymdi Báthory alveg að sýna varkárni. Hún fór nú að taka inn á heimilið stúlkur tilheyrandi lágaðlinum undir því yfirskyni að hún skyldi gera úr þeim raunverulegar aðalskonur.

 

Þetta var litið miklu alvarlegri augum og þegar konunginum Matthíasi 2. barst til eyrna sagan af lágaðalsstúlkunum níu sem hurfu af yfirborði jarðar eftir að hafa farið upp í höllu greifynjunnar, neyddist hann til að grípa til sinna ráða.

 

Konungurinn varð að treysta á velvilja aðalsins ef hann vildi hafa von um að halda stöðu sinni.

 

Sagnfræðingar hafa getið sér til um að framtak konungsins hafi byggst á tilraun hans til að útkljá valdabaráttu milli hans og greifynjunnar.

 

Matthías 2. hafði fengið ógrynni fjár að láni hjá greifanum, á meðan sá síðarnefndi var á lífi og hafði engin tök á að endurgjalda skuldina. Yrði greifynjan dæmd sek fyrir morð slyppi hann ekki einvörðungu við að greiða skuldina, heldur gæti hann þá jafnframt komist yfir allar eigur hennar, svo og nærliggjandi landsvæði.

 

Cachtice-virkið hýsti m.a. pyntingarklefa greifynjunnar. Rústir bygginganna má sjá enn þann dag í dag nærri þorpinu sem ber sama heiti, þar sem nú er Slóvakía.

Glæpirnir voru opinberaðir

Thurzó greifi lét strax setja frænku sína í stofufangelsi. Samsærismenn hennar voru handteknir og færðir til borgarinnar Presslau sem í dag heitir Bratislava, þar sem réttarhöldin yfir þeim skyldu hefjast fyrstu dagana í janúar árið 1611.

 

Staða Elísabetar Báthory sem aðalskonu, svo og áhrifamiklir vinir hennar, komu í veg fyrir að ákæra yrði birt henni, þvert gegn óskum konungsins.

 

Meðan á málaferlunum stóð vitnuðu margir hinna ákærðu um glæpi sína. Yfirþjónninn, dvergurinn Johannes Ujvary, bar vitni um að hafa verið viðstaddur morð alls 37 ungra kvenna á aldrinum 11 til 27 ára.

 

Hann lýsti í smáatriðum með hvaða móti konurnar höfðu verið pyntaðar áður en þær voru teknar af lífi. Sama máli gegndi um barnfóstru greifynjunnar, Ilona Joo. Hún játaði að hafa aðstoðað við morðin á rösklega 50 stúlkum.

 

Mesta áfallið var þó þegar ung þjónustustúlka að nafni Zusanna greindi frá því að hún hefði eitt sinn komist í dagbók greifynjunnar, þar sem sú hafði fært inn nöfn fórnarlambanna með lýsingum á borð við: „dökkhærð“, „afar smágerð“ o.fl.

 

Þjónustustúlkan kvaðst hafa talið alls 612 nöfn á listanum.

 

Í þingbókum er aðeins getið um 80 fórnarlömb en réttarhöldin snerust nær eingöngu um morð stúlkna tilheyrandi aðlinum. Matthías konungur skrifaði reyndar í bréfi til fyrsta ráðherrans Thurzó að sér hafi verið kunnugt um ríflega 300 stúlkur.

 

Grevinde_Dracula_sorte_ridder

Ferencz Nádasdy hafði mikla reynslu af ofbeldi og pyntingum úr ótalmörgum herferðum sínum gegn Ósmönum. Hann deildi sögum af þessari reynslu með ungri eiginkonu sinni.

Svarti riddarinn hafði dálæti á sömu gjörðum og eiginkonan

Sendibréf hafa leitt í ljós að greifynjan og eiginmaður hennar hrifust bæði mjög svo af morðum og ofbeldi. Saman pyntuðu þau þjónustufólkið.

 

Hinn 8. maí 1575 giftist Elísabet Báthory fimm árum eldri greifa að nafni Ferencz Nádasdy. Hann var liðsforingi í þjónustu krúnunnar og varði miklum tíma í herferðir gegn erkióvini Ungverjalands, tyrknesku Ósmönunum sem ungverska ríkinu stóð ógn af frá suðri.

 

Nádasdy sem gekk undir heitinu „Hinn svarti riddari Ungverjalands“ hélt áfram hermennsku eftir brúðkaupið. Á þessu tímabili fór að bera á sögum þess eðlis að greifynjan hefði unun af að refsa þjónustufólki sínu.

 

Dæmi eru um bréfaskriftir þar sem hjónin skiptust á hugmyndum um hvernig best væri að refsa starfsfólkinu.

 

Greifynjan kynnti m.a. fyrir eiginmanni sínum þá hugmynd að gera mætti „ísstyttur“ úr nöktum, ungum stúlkum með því að hella köldu vatni yfir þær þar til þær frysu í hel.

 

Árið 1602 ritaði prestur einn í héraðinu umhverfis Báthory-höll að umrædd hjón legðu í sameiningu stund á „skelfilega glæpi sem ekki væri unnt að nefna“.

 

Þá sjaldan að Nádasdy var heima í höllinni tók hann virkan þátt í pyntingum undirsáta sinna.

 

Svarti riddarinn lést skyndilega í einni af heimsóknum sínum í höllina árið 1604. Sögusagnir hermdu að eitrað hefði verið fyrir honum. Engar getgátur voru þó um gerandann.

 

 

Þeir ákærðu voru dæmdir til dauða

Þar sem vitnisburður þeirra ákærðu var fenginn fram með pyntingum í von um vægari dóm, þótti hann ekki ýkja áreiðanlegur.

 

Þess ber þó að geta að rösklega 200 aðrir einstaklingar gáfu vitnisburð í réttarhöldunum, meðal annars margar þeirra kvenna sem komust lífs af, svo og karlmennirnir sem laumuðust inn í höllina ásamt Thurzó nóttina afdrifaríku í desember.

 

Dómararnir sem voru 21 talsins, sýndu enga náð og dæmdu hina ákærðu alla til dauða.

 

Þrjár „nornir“, þar á meðal Joo, voru dæmdar til þess að fingurnir yrðu rifnir af höndum þeirra með glóandi töngum, áður en þær voru brenndar lifandi á báli, fyrir það „að hafa látið kristilegt blóð fljóta“. Greifynjan slapp sökum aðalsstéttar sinnar.

 

Konungurinn Matthías gerði ítrekaðar tilraunir til að fá hana dæmda og öll verðmæti hennar gerð upptæk en Thurzó kom í veg fyrir að það yrði gert, með vísan í hið góða nafn fjölskyldunnar.

 

Greifynjan var múruð inni

Öllum bar þó saman um að greifynjan gæti ekki gengið laus. Að lokum fór svo að greifynjan var múruð inni í litlum klefa í höllinni þar sem hún hafði framið flest illvirkin. Einungis voru skildar eftir tvær litlar lúgur, önnur fyrir loft og hin fyrir matarbakkann.

 

Hinn 21. ágúst 1614 sá varðmaður nokkur hana liggjandi á grúfu í klefa sínum. Hún hafði orðið bráðkvödd 54 ára að aldri.

 

Jarðarförin gekk ekki friðsamlega fyrir sig. Borgarbúar sem aldrei höfðu þorað að opna munninn á meðan greifynjan lifði, risu nú upp, allir sem einn:

 

„Þessi ungverska mella skal ekki hvíla í vígðri jörð hér í landi“. Til þess að unnt yrði að jarðsetja morðóðu greifynjuna með þeim hætti sem þótti sæma aðalskonu þurfti því að flytja líkið með hraði til heimaborgar fjölskyldunnar, Esced í Transylvaníu, þar sem hún var lögð til hinstu hvílu.

 

Ítarefni á ensku:

  • Raymond McNally: Dracula Was a Woman, Mcgraw-Hill, New York, 1983

 

  • Valentine Penrose: The Bloody Countess, Creation Books, 2000

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: MIkkel Larsen

© Imagno / Getty Images, © British Library / Imageselect & Shutterstock, © Dipper Historic/Imageselect, Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

Hvað verður um gaspláneturnar?

Læknisfræði

Hver var fyrsti kvensjúkdómalæknirinn?

Maðurinn

Af hverju þreytumst við í hita?

Menning og saga

Hvað varð um Nefertítí drottningu?

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is