Þrýstiventlar víða í jarðskorpunni
Eldstöðvar eru eins konar þrýstiventlar í jarðskorpunni. Þegar kvika safnast upp og þrýstingur verður mikill myndast eldstöð – eða gömul eldstöð tekur að gjósa á ný.
Eldfjöll eru í öllum heimsálfum, líka á Suðurskautslandinu.
Landfræðilega er dreifingin þó ójöfn því langflestar eldstöðvar eru á mótum jarðskorpuflekanna, sem þekja hnöttinn líkt og púslkubbar. Þéttast liggja eldstöðvarnar kringum Kyrrahafið á svokölluðum „eldhring“ eða „Ring of fire“.
Heildarfjöldi eldstöðva er óþekkt stærð, enda er það skilgreiningaratriði hvað telja bera virka og sjálfstæða eldstöð og hvað hluta af stærra kerfi.
Talið er að 1.300-1.500 eldstöðvar hafi gosið á síðustu 10.000 árum. Við þetta þarf þó að bæta miklum fjölda eldgosa á hafsbotni. Eldstöðvar geta verið allt frá sprungum á flatlendi upp í há eldfjöll, sem byggst hafa upp í fjölmörgum gosum. Ojos del Salado í Suður-Ameríku er hæsta eldfjall heims, nærri 6.900 metra hátt.
Eldgos
Hjartað í virkri eldstöð er kvikuhólfið, þar sem hraunkvikan safnast upp. Eldgos hefst þegar þrýstingur í kvikuhólfinu verður svo mikill að kvikan þrýstist upp á yfirborðið, þar sem hún þeytist oft í mikla hæð.
Rétt eins og hæð og lögun ræðst „skapferli“ eldstöðva af kvikunni sem undir kraumar.
Stundum er kvikan þunnfljótandi og rennur auðveldlega niður lítinn halla (flæðigos). Í öðrum tilvikum kvikan mun þykkari í sér og seigfljótandi og getur valdið stíflu í gosstöðinni (þeytigos).
Eldstöðvum sem gjósa þykkri kviku má líkja við tifandi tímasprengju. Þegar þrýstingur vex mikið, sprengir hann af sér stífluna í gosopinu og upp úr því ryðst glóandi kvika og gjóska.
Regn veldur eldgosi
Veður, loftslag og eldgos hafa víxlverkanir á ýmsan hátt. Sé eldgos mjög kröftugt berst mikið af ösku hátt upp í gufuhvolfið, þar sem öskuagnirnar endurkasta sólskini og geta lækkað hitastig við jörðu í mörg ár.
Á hinn bóginn virðist veðrið líka geta leyst eldgos úr læðingi. Sönnun þess má finna í eldfjallinu Soufrière á eyjunni Montserrat í Vestur-Indíum.
Fjallið gýs oft í kjölfar mikilla rigninga. Regnvatnið seytlar niður um sprungur og myndar gufu þegar það kemst í snertingu við hraunkvikuna. Gufan tekur margfalt meira rými en vatn og því eykst þrýstingur í kvikhólfinu.
Árstíðirnar virðast líka geta haft áhrif. Á norðuhveli jarðar eru eldgos mun tíðari á vetrum en sumrum. Þetta hefur verið skýrt sem áhrif þess gríðarlega vatnsmagns, sem árlega streymir frá norðurhveli til suðurhvels og til baka aftur. Þetta er talið hafa taktbundin þrýstiáhrif á kvikuhólfin undir eldstöðvunum.