Það getur oft verið vandræðalegt að leysa vind og það telst ekki beinlínis viðeigandi. Fólki þykir almennt óþægilegt að sitja í þarmagasi annarra. Það eru þess vegna rótgróin félagsleg viðbrögð okkar flestra að herpa endaþarmsvöðvann til að spilla t.d. ekki andrúmsloftinu í atvinnuviðtali eða á fyrsta stefnumóti.
Þarmagasið verður til í tengslum við niðurbrot matarúrgangs, þegar bakteríur í þörmum mynda gas á borð við metan, súrefni og koltvísýring en líka ýmis brennisteinssambönd og það eru einmitt þau sem þykja illa lyktandi. Gasmyndunin veldur þrýstingi í þörmum og að meðaltali leysir fólk vind um 5-15 sinnum á dag til að aflétta þrýstingnum.
Ef við stillum okkur um þetta eykst þrýstingurinn sem getur leitt af sér óþægindi; ropar, tútnun, vindverkir og svo öflug vindlosun að ekki verður við ráðið.
Sú tilgáta hefur verið sett fram að mikil aðhaldssemi varðandi prump sé áhrifamikill þáttur í þarmasjúkdómi sem veldur bólgum í ristilblöðrum. Vísindamenn hafa þó átt í erfiðleikum með að finna þarna ótvírætt samband.
Fer gegnum útöndun
Þegar endaþarminum er lokað finnur hluti loftsins sér aðra leið. Aukinn þrýstingur í þörmum veldur þá því að gassameindir leita út í gegnum þarmaveggina og út í blóðrásina. Þessar sameindir berast til lungnanna og yfirgefa líkamann með útönduninni.