Borgir hafa hernaðarlega og táknræna þýðingu í stríðinu. En stríð í borgum umbreytist fljótt í martröð fyrir innrásarliðið.
Í ókunnri borg má búast við launsátri og leyniskyttum sem leiðir til mikils mannfalls og andstæðingarnir eru ekki einungis her óvinarins, heldur einnig almennir borgarar sem einsetja sér að berjast fyrir lífi sínu, heimili og fjölskyldum.
Sprengjuárásir úr lofti og stórskotalið á borgaraleg samfélög vekja jafnan mikinn óhug heimsbúa. Slíkum árásum er refsað, stundum með viðskiptaþvingunum frá Sameinuðu þjóðunum eða NATO en það eru stórveldi sem fáir geta staðist snúning.
ANDSPYRNA BORGARA
Stytta við gömlu borgarmúra Varsjár heiðrar þúsundir barna sem tóku þátt í uppreisninni árið 1944.
Borgarar vörðu Varsjá í 63 sólarhringa.
Þegar Rauði herinn nálgaðist Varsjá í ágúst 1944 í hernumdu Póllandi gerði neðanjarðarher borgarinnar uppreisn gegn Þjóðverjum.
Pólverjar hugðust frelsa borgina áður en hermenn Stalíns komu þangað. Íbúar reistu götuvirki og börðust við Þjóðverja með skotvopnum og mólotov-kokteilum.
Þetta kom þýska herliðinu algjörlega í opna skjöldu. En þegar nasistar uppgötvuðu að Sovétríkin hyggðust ekki blanda sér í átökin fylltust þeir miklum eldmóði.
Þeir réðu niðurlögum borgara fyrst eftir 63 blóðuga sólarhringa sem kostuðu allt að 15.000 þýska hermenn lífið. Pólverjar eru taldir hafa misst um 150.000 manns.
BORGARLANDSLAG
Niðurgrafnir skriðdrekar vörðu hernaðarlega mikilvæg vegamót víðsvegar í Berlín.
Berlín var umbreytt í morðótt vígi
Þegar Rauði herinn hélt þann 25. apríl 1945 inn í Berlín var borgin varin af sundurleitum flokkum 45.000 örmagna hermanna, drengja úr Hitler Jugend ásamt öldruðum mönnum frá svonefndum Volksturm.
En varnarliðið nýtti sér borgarlandslagið óspart. Rústirnar urðu að vígjum og í þröngum götum lokkuðu drengir frá Hitler Jugend sovéska bryndreka í launsátur og sprengdu þá upp.
Bardagarnir kostuðu Sovétríkin næstum 2.000 skriðdreka og um 100.000 manns.
ÓVINIR Í MANNMERGÐINNI
Sprengjuregn rústaði stórum hlutum gömlu keisaraborgarinnar Hue.
Skæruliðar leyndust oft í fólksfjöldanum
Í svonefndri Tet-árás réðust norður-víetnamskar herdeildir í janúar 1968 á margar borgir og herstöðvar í S-Víetnam sem Bandaríkin studdu.
Bardagarnir í gamla menningarbænum Hue stóðu í einn mánuð og voru þeir lengstu og blóðugustu bardagar Bandaríkjamanna. Í þeim leyndust N-Víetnamar í mörgum fornum hofum borgarinnar eða innan um mannfjöldann.
Meira en 600 bandarískir og suður-víetnamskir hermenn ásamt 6.000 borgurum drápust í þessum átökum.
Þessi langdregni bardagi varð til þess að stuðningur Bandaríkjamanna við stríðið hríðféll heima fyrir.
VANTRAUST
Þegar Sovétríkin réðust inn í Kabúl afvopnuðu þau afganska herinn sem þótti sérlega óáreiðanlegur.
Launmorð og umsátur gerðu götur Kabúls ótryggar
Í desember 1979 réðst herafli Sovétríkjanna á mettíma inn í Afganistan. En hafi innrásarliðið vonast eftir skjótum sigri hafði það á röngu að standa.
Nýja ríkisstjórnin sem var studd af Sovétríkjunum, gat ekki reitt sig á eigin hermenn og sovéskir hermenn þurftu því að vakta götur höfuðborgarinnar, Kabúl.
Í þéttbýli borgarinnar lentu hermennirnir margoft í launsátri meðan herforingjar Sovétmanna voru skotnir af leyniskyttum.
Eftir nokkrar vikur yfirgaf herinn varðstöðvar sínar og létu afganskar herdeildir um að vakta göturnar en þær skiptu oft um lið.
ÁLIT HEIMSBYGGÐARINNAR
Bosnísk-serbneski leiðtoginn Radovan Karadzic var árið 2016 dæmdur í 40 ára fangelsi fyrir stríðsglæpi.
Blóðugt umsátur vakti reiði heimsbúa
Þegar serbneskt-bosnískt herlið sat um stórborgina Sarajevo frá 1992 – 1996 í stríðinu í Bosníu héldu þeir ranglega að öll brögð væru leyfileg.
Frá hæðunum umhverfis borgina lét stórskotaliðið sprengjum rigna yfir bæinn meðan leyniskyttur gerðu hversdaginn að martröð fyrir borgara Sarajevo.
Sprengjuregnið kostaði minnst 43 borgara lífið þegar Serbar hittu í ágúst 1995 markaðstorg í borginni.
Árásin vakti svo mikla reiði á Vesturlöndum að NATO réðst á Serba og neyddi þá til að fjarlægja þungavopn sín.
LESTU MEIRA UM STRÍÐ Í BORGUM
- James H. Willbanks & Ramiro Bujeiro: Battle of Hue, 1968, Osprey, 2021
- Louis A. DiMarco: Concrete Hell, Osprey, 2012
- Antony Beevor: Berlin: The Downfall 1945, Penguin, 2007