Lifandi Saga

Fjölskylduerjur enduðu með drápi konungs

Margar af valdamestu fjölskyldunum treystu böndin með giftingum sín á milli. Slík vensl skapa öflug bandalög en valdagræðgi og fjörráð leiða á endanum til þess að út brýst blóðugt stríð um völdin á Norðurlöndum.

BIRT: 07/05/2023

Skæðadrífa af örvum skyggir á himininn rétt áður en örvunum rignir niður á skipaflota Ólafs Tryggvasonar, konungs Norðmanna.

 

Blóðbaðið er ægilegt og mikill bardagi er hafinn. Sjálfur er Ólafur um borð í Orminum langa og hvetur sína menn til dáða þennan síðsumardag árið 1000.

 

Ólafur og menn hans standa frammi fyrir voldugum flota víkinga sem danskur mágur Ólafs leiðir. Þar er mættur Sveinn tjúguskegg, konungur Dana.

 

Þá þegar er búið að ráðast um borð í mestan hluta 70 fylgdarskipa Ólafs úr umfangsmiklu launsátri sem líkja mætti við slátrun.

 

Mágur Ólafs nýtur aukinheldur liðsinnis annarra fjölskyldumeðlima en þar fara sænskur stjúpsonur Sveins, Ólafur skotkonungur, ásamt norska tengdasyninum Eiríki jarli.

 

Ólafur og menn hans verjast hetjulega gegn þessum kunnuglegu óvinum en þar kemur að þeir ráðast um borð í Orminn langa sem er hlaðinn góssi.

 

Verðmætin hefur Ólafur sótt til Vindlands vegna hvatningar Þyri konu sinnar sem auk þess að vera hans eina sanna ást og drottning Noregs er systir Sveins tjúguskeggs.

 

Fræðimenn vita ekki með vissu hvar í Eystrasalti þessi sjóorrusta – þekkt sem orrustan við Svoldur – átti sér stað.

 

Ein tilgáta er að Svoldur hafi legið vestan undan eyjunni Rügen í núverandi Þýskalandi, en sumir sagnfræðingar telja staðinn vera öllu norðar í dönskum farvötnum.

 

Heimildir benda auk þess til að flotarnir hafi verið álíka öflugir, þó sagnfræðingar séu ekki á einu máli í þeim efnum.

 

 

Þó margt sé á reiki um þessa orrustu þá er eitt algerlega ljóst: Orrustan var hápunktur á flóknum og illvígum fjölskylduerjum sem náðu til allra konunga Norðurlandanna.

 

Erjur sem endanlega skáru úr um það hvaða víkingahöfðingi var hinn sanni drottnari Skandinavíu.

Konungar Norðurlanda háðu ægilega sjóorrustu árið 1000

Heiður ættar krafðist blóðhefnda

Á víkingatímanum voru ættarvensl afar mikilvæg. Áður en Danmörk, Noregur og Svíþjóð voru sameinuð undir einum voldugum konungi undir lok víkingatímans, barðist sérhver víkingahöfðingi fyrir sinni ætt.

 

Í strjálbýlli Skandinavíu héldu ættarhöfðingjar nálægum keppinautum í skefjum. Oftar en ekki tóku þeir lögin í sínar hendur og voru þá bæði lögregla og dómari í annarra sök.

 

Þegar víkingur var drepinn af vígamanni úr annarri ætt, var litið á það sem brot gegn allri fjölskyldu fórnarlambsins.

 

Það var því beinlínis skylda að hefna drápsins með því að myrða þann brotlega. Þetta er kallað blóðhefnd.

 

Tækist ekki að drepa hann mátti öðlast uppreist æru fjölskyldunnar með því að drepa t.d. bróður eða nákominn frænda. Vitanlega var hin fjölskyldan ekki sammála slíkum málalyktum.

„Sjaldan bautasteinar standa brautu nær, nema reisi niður að nið.“

Úr Hávamálum

Þannig gátu blóðhefndir viðgengist fram og til baka milli fjölskyldna svo kynslóðum skipti, áður en menn róuðust og nýju valdajafnvægi var náð – eins og því er lýst í t.d. Íslendingasögunum.

 

Án öflugrar fjölskyldu átti uppivöðslusamur víkingur á hættu að vera útskúfaður úr samfélagi sínu og verða öllum gleymdur. En það að falla í gleymskunnar dá þótti einhver versta svívirða sem hent gat sómakæran víking.

 

Hávamál (mál Óðins) veitir sýn inn í þetta gildismat víkinga:

„Sonur er betri,/ þótt sé síð um alinn/ eftir genginn guma;/ Sjaldan bautasteinar/ standa brautu nær,/ nema reisi niður að nið.“

 

Þannig var ætlast til þess að börnin skyldu tryggja viðeigandi eftirmæli foreldranna með því að hylla þau, t.d. með bautasteini. Að sama skapi gat orðstír barnanna aukið sæmd foreldranna.

 

Víkingar notuðu því ekki eftirnöfn, eins og nú tíðkast á Norðurlöndum, heldur kenndi barn sig við föður sinn – eins og er ennþá raunin hér á Íslandi.

 

Sem dæmi má nefna danska konunginn Harald blátönn sem nefndi sig Gormson en Gunnhildur, systir Haralds, var Gormsdóttir.

Sverð og axir útkljáðu deilur kónganna

Þegar samningaviðræður brugðust, gripu víkingakóngarnir til vopna. Norrænir höfðingjar börðust mörgum sinnum á vígvöllum á víkingatímanum.

Brávallabardaginn

Sögur segja að um miðja 8. öld hafi tveir herir háð blóðugan bardaga í sunnanverðri Svíþjóð. Samkvæmt Íslendingasögunni „Hervarar saga og Heiðreks“, átti bardaginn sér stað á „Brávöllum í eystra Gautalandi“.

Samkvæmt danska sagnaritaranum Saxo sigraði sænski konungurinn Sigurður hringur danakónginn Harald hilditönn og kom í veg fyrir yfirráð Dana í Svíþjóð.

Margir sagnfræðingar telja þetta þó bara vera þjóðsögu sem hefur varðveist í munnlegri geymd. Brávallabardagi merkti þó um langa hríð „blóðugur bardagi“.

Orrustan við Hjörungavog

Árið 986 gerðu svonefndir jómsvíkingar árás í Noregi. Heimildir lýsa jómsvíkingum sem harðskeyttum – einkum dönskum – hermönnum sem bjuggu í borgarvirkinu Jómsborg við sunnanvert Eystrasalt.

Bardaginn fór fram við mynni Hjörungavogs skammt innan við eyna Höð sem nú heitir Hareidland. Slagurinn var bæði tvísýnn og ofsafenginn. Hann endaði með því að Hákon jarl hrakti jómsvíkinga á braut.

Orrustan við Helgeå

Undir lok víkingatímans var ljóst orðið að kóngurinn í Danmörku var valdamesti höfðingi Norðurlanda. Ólafur kóngur Haraldsson í Noregi og Anund Jakob konungur í Svíþjóð reyndu í sameiningu að stöðva uppgang Dana, þegar þeir réðust á Knút ríka árið 1026.

Þeim laust saman fyrir utan mynni Helgeå á Skáni í mikilli sjóorrustu. Þar sigraðist Knútur á andstæðingum sínum og staðfesti þannig stöðu sína sem fremsti konungur Norðurlanda.

Ástin vék fyrir hagsmunum

Kærleikur milli einstaklinga skipti litlu máli á tímum víkinga. Mun mikilvægara þótti að efla samfélagslega stöðu fjölskyldunnar með því að styrkja bönd hennar við aðrar voldugar fjölskyldur með útpældum ráðahag.

 

Sérhver víkingur sem gat státað sig af mörgum dugmiklum fjölskyldum í ættartöflunni, kenndi sig við þá sem mestrar virðingar naut í samfélaginu.

 

Ef það kom síðar í ljós að slíkur ráðahagur virkaði ekki sem skyldi, var tiltölulega auðvelt fyrir víkinga að skilja við maka sinn og finna sér nýjan.

 

Bæði menn og konur höfðu rétt á að sækja um skilnað – nokkuð sem olli arabíska ferðalanginum al-Tartushi furðu og hneykslan, þegar hann heimsótti danska verslunarbæinn Heiðabæ eitt sinn á 10. öld.

 

Lög frá Íslandi staðfesta jafnframt að kona mátti t.d. yfirgefa mann sinn hafi hann ekki haft samræði við hana í þrjú ár.

 

Víkingar skirrðust með öðrum orðum ekkert við því að finna sér nýjan maka, ef það styrkti samfélagslega stöðu þeirra – nokkuð sem kemur ítrekað fram í Íslendingasögum með tilheyrandi afbrýðisemi.

 

Í raunveruleikanum var málum þó háttað þannig að langflestir víkingar voru bændur sem áttu fullt í fangi með að sinna býlum sínum.

 

Flókin fjölskylduvensl varðandi giftingar vörðuðu því einkum voldugustu höfðingjana í samfélaginu.

 

Einatt var kappið um slík hjónabönd mest þegar höfðingi náði yfirráðum á nýju landsvæði.

Knútur ríki Danakonungur sigraði kollega sína frá Noregi og Svíþjóð í mikilli orrustu árið 1026.

Eftir því sem öflugir jarlar náðu smám saman stöðu smákónga á víkingatímanum – m.a. með því að lofa bændum sínum hervernd – jókst ráðabruggið.

 

Aðallinn í Skandinavíu giftist og kvæntist þannig þvers og kruss á 10. öld til þess að skapa bandalög og klekkja á andstæðingnum.

 

Þar sem engar ríkiserfðir voru til á víkingatímanum fólust hagsmunir allra höfðingja í því að staðsetja niðja sína sem næst hásætinu. Tækist syni manns að verða kóngur, efldist orðstír ættarinnar allrar fyrir vikið.

 

Á 10. öld urðu fjölskylduvenslin að skilvirku vopni, þegar danskir, norskir og síðar einnig sænskir konungar börðust um völdin á Norðurlöndum.

 

Það var einkum í Danmörku sem var fjölmennasta og voldugasta ríkið sem ráðahagur konungborinna varð að pólitísku valdatafli.

Armbönd, gull og vopn tryggðu hollustu

Heillaríkast fyrir höfðingja var að afla sér dyggra bandamanna sem studdu þá í stríði.


Gjafir voru gjarnan nýttar til að tryggja slíka hollustu undirsátanna. Því gjafmildari sem hersirinn var í garð stuðningsmanna sinna, þess dáðari og máttugri gat hann orðið.


Algengar gjafir voru t.d. armbönd sem samkvæmt Íslendingasögum voru oft gefin skáldum sem þakklætisvottur fyrir dróttkvæði, enda gátu kvæðin haldið nafni kónganna á lofti í langan tíma.


En fleiri gjafir voru gefnar. Samkvæmt Konungasögum hélt kóngur Noregs, Magnús góði, mikla veislu þar sem hann stráði gjöfum í kringum sig.

 

Magnús gekk inn í veislutjald þar sem hann heiðraði víkinga með sverðum, skjöldum, litklæðum og gulli.

 

Gjafirnar voru breytilegar eftir því hver átti í hlut.

Konungdæmi Gorms reyndist þaulsetið

Snemma á 10. öld stýrði Gormur gamli Jótlandi. Líkast til réði hann einnig ríkjum í mestum hluta Danmerkur sem innihélt Skán, Halland og Blekinge í núverandi Svíþjóð.

 

Eftir öllum ummerkjum að dæma reyndi Gormur að gifta börn sín herskáum nágrönnum til að öðlast frið. Sonurinn Haraldur blátönn giftist sem dæmi Tófu – dóttur vindlenska höfðingjans Mistivojs.

 

Dóttir Gorms, Gunnhildur, varð eiginkona Eiríks blóðaxar sem ríkti með harðri hendi í Noregi frá um 930-935.

 

Samkvæmt Íslendingasögunum var Eiríkur blóðöxi sjálfur hálfur Dani, þar sem víðfrægur faðir hans, Haraldur hárfagri, var sagður hafa átt hann með dönsku konungsdótturinni Ragnhildi.

 

Sumir sagnfræðingar telja að mikilvægt hafi verið fyrir Gorm að styrkja danskt-norskt bandalag, því að norskir og danskir víkingar kepptust um ránsfenginn á bresku eyjunum.

 

Gæti Gormur hægt og rólega komið sér fyrir sem æðsti konungur Norðmanna, myndi það veita konungdæmi hans – með Jalangur sem höfuðstöð – hernaðarlegt og efnahagslegt forskot.

 

Víkin – svæðið í kringum Oslóarfjörð í sunnanverðum Noregi – hafði um áraraðir verið undir yfirráðum Dana.

 

Með nýju bandalagi við Eirík blóðöxi hugðust bæði Gormur og sonur hans og arfi, Haraldur blátönn, líklega að efla áhrif Dana á norðlægari svæðum í Noregi.

„Haraldr konungr bauð gjöra kuml þessi eftir Gorm föður sinn ok Þyri móður“

Rúnaristur Haraldar blátannar á Jalangurssteininum

Hvað sem því leið studdi Haraldur blátönn dyggilega herferðir mágs síns gegn keppinauti hans, Hákoni Aðalsteinsfóstra.

 

Trúlega vonaði Haraldur að Eiríkur myndi að sama skapi endurgjalda sér stuðninginn – og þannig efla áhrif Dana og ítök í Noregi.

 

Því miður fyrir Harald dugði aðstoð hans ekki til að Eiríkur héldi hásæti sínu.

 

Um árið 935 tókst Hákoni Aðalsteinsfóstra að hrekja Eirík blóðöxi og konu hans Gunnhildi af landi brott. Hjónakornin settust að í Englandi og Hákon varð konungur Noregs.

 

Bardagar geisuðu næstu 20 árin, þar til Hákon lét lífið þegar hann barðist við fimm syni Eiríks blóðaxar við Fitjar.

 

Einn þeirra var Haraldur gráfeldur sem settist í hásæti Noregs en frændi hans í Danmörku, Haraldur blátönn, var yfirkonungur.

 

Blátönn í vanda með Norðmenn

Þar sem Haraldur blátönn hafði fóstrað Harald gráfeld í Danmörku reiknaði hann með algerri hollustu Norðmanna, þegar frændi hans komst til valda.

 

Harla sáttur við afrek sín lét Haraldur reisa mikinn rúnastein árið 935 í Jalangri:

„Haraldr konungr bauð gjöra kuml þessi eftir Gorm föður sinn ok Þyri móður sína, sá Haraldr sem vann Danmörku alla ok Noreg ok Dani gjörði kristna.“

 

Margt bendir til að Haraldur blátönn hafi fagnað árangri sínum of snemma. Frá höfuðbóli sínu í austanverðum Noregi hófu Haraldur gráfeldur og bræður hans að stækka yfirráðasvæði sitt – á kostnað blátannar – og herjuðu á valdamikla höfðingja í Þrándheimi, svokallaða hlaðajarla.

 

Haraldur blátönn sendi því boð eftir gráfeldinum sem sigldi samviskusamlega til Jótlands til að hlusta á ákúrur Danakonungs.

 

En áður en Haraldur gráfeldur náði til hafnar var hann drepinn í launsátri um árið 970 við mynni Limafjarðar.

 

Ekki er vitað hver var þar að verki en dauði frændans hentaði Haraldi blátönn ágætlega.

Gormur og Þyri hófu heiftarlegar fjölskylduerjur sem náðu hámarki í orrustunni við Svoldur.

Án Haraldar gráfelds hröktust ættmenni hans frá Noregi og hlaðajarlinn Hákon sem var vinveittur Dönum, varð æðsti höfðingi Noregs – og nýr leppstjóri Haraldar.

 

Fjórum árum síðar studdi Hákon jarl Harald í stríði gegn þýsk-rómverska keisaranum Otto 2. Ekki leið þó á löngu áður en Hákon tók að ýfa fjaðrir Haraldar í frekari valdabaráttu.

 

Danakóngur lét á þessum tíma reisa mörg hringlaga borgarvirki til að verjast mögulegum innrásum – t.d. af hálfu Hákons jarls.

 

Veður voru válynd og valdajafnvægið hliðraðist ennþá meira árið 986. Þá sigraði Hákon jarl hina ægilegu Jómsvíkinga – flokk vígamanna sem bjuggu í virkinu Jómsborg við sunnanvert Eystrasalt.

 

Norðmaðurinn hafði nú sannað að hann þyrfti ekki á Haraldi að halda.

 

Sonur hrifsaði völdin í Danmörku

Haraldur blátönn átti samt sem áður í margvíslegum vandræðum heima fyrir upp úr 980, því sonur hans, Sveinn tjúguskegg gerði uppreisn.

 

Samkvæmt heimildum hraktist Haraldur til Jómsborgar, þar sem hann lést.

 

Fyrir dauðann náði Haraldur að mynda enn eitt bandalagið, þegar hann gifti dóttur sína, Þyri, hinum útlæga sænska konungssyni, Styrbirni sterka en samkvæmt Íslendingasögum hélt hann einnig til í Jómsborg.

 

Þar safnaði Styrbjörn saman liðsafla til að ráðast á móðurbróður sinn Eirík – konung Svía – sem neitaði að deila völdum í ríki sínu með Styrbirni.

 

Bardaginn var háður á Fýrisvöllum um árið 985, þar sem Styrbjörn var drepinn. Sigurinn varð til að Eiríkur fékk viðurnefnið „hinn sigursæli“.

 

Dauði Styrbjörns fól eðlilega í sér að Þyri var nú ekkja. Sveinn tjúguskegg var samt ekkert að flýta sér að finna nýjan eiginmann fyrir systur sína.

 

Þessi nýi konungur Dana einbeitti sér þess í stað að því að halda í víking og ræna og rupla Bretlandseyjar. Þar komst hann í slagtog við metnaðarfullan og ævintýragjarnan Norðmann; Ólaf Tryggvason.

Systir Sveins tjúguskeggs var sögð hafa látið lífið í blóðbaði í Englandi árið 1002 sem brýndi Svein til að ná völdum í eyríkinu.

Sigurvegarinn endaði í hásæti Englands

Þegar Sveinn tjúguskeggur hafði sigrað Ólaf Tryggvason árið 1000 voru yfirráð hans í Noregi tryggð. En danski konungurinn lét ekki þar við sitja.

 

Frá fyrsta leiðangri hans til Englands árið 991 hafði hann dreymt um að leggja eyna í vestri undir sig. Yfirleitt létu danskir kóngar sér nægja að krefja þarlenda um háar fjárhæðir – svokallaðan danaskatt.

 

Árið 1013 rættist þessi draumur Sveins. Hann barði niður alla mótspyrnu og settist síðan í hásætið. Sveinn dó á næsta ári en sonur hans Knútur sór þess eið að endurheimta völdin. Tveimur árum síðar tókst honum ætlunarverk sitt.

 

Þegar bróðirinn Haraldur dó árið 1018, varð Knútur ríki konungur í bæði Danmörku og Englandi. Veldi hans við Norðursjó náði á tímabili yfir Noreg og hluta Skotlands.

Vinátta endaði með fjandskap

Sveinn tjúguskegg og Ólafur Tryggvason tengdust ekki fjölskylduböndum og ekki er vitað hvers vegna þeir gerðust félagar. Líkast til hefur ránsfengurinn í bresku eyjunum og Danaskatturinn verið fyllilega áhættunnar virði.

 

Samkvæmt engilsaxneskum annálum komu þeir Sveinn tjúguskegg og Ólafur Tryggvason til Lundúna þann 8. september árið 994 á 94 skipum en borgarbúar gátu hrundið árás þeirra. Þá héldu þeir hvor sína leið og herjuðu meðfram breskum ströndum, þar sem þeir ollu „ólýsanlegum skaða“.

 

Annálar herma ennfremur að konungur enskra, nefndur Aðalráður ráðlausi, – sem vísar í skort á ráðgjöfum – hafi fengið þá snjöllu hugmynd að bjóða Ólafi ríkulegan skatt gegn því að hann fari heim með allt sitt lið.

 

Án þess að bjóða Sveini sömu býtti. Ólafur þekktist þetta ágæta boð.

 

Þegar Sveinn frétti síðan af þessu, þá varð hann vitanlega æfur. Frá þessum degi lagði danski konungurinn brennandi hatur á Ólaf, enda þóttist hann illa svikinn.

 

Samkvæmt Snorra Sturlusyni sem skráði sögu Ólafs Tryggvasonar í kringum árið 1230, var ákvörðunin um að snúa baki við Sveini langt því frá fyrsti umtalsverði vendipunkturinn í lífi Norðmannsins.

Hermt er að þrællinn Þormóður karkur hafi svikið hann og drepið.

Morðið á Hákoni jarli eftir að Ólafur Tryggvason náði völdum í Noregi.

Faðir Ólafs sem var jarl í sunnanverðum Noregi var drepinn af keppinautum sínum árið 963, þegar Ólafur var ungabarn. Móðir hans flúði með son sinn en þau voru skjótt tekin til fanga af eistneskum sjóræningjum og seld í þrældóm, þegar sonurinn var aðeins þriggja ára gamall.

 

Sex árum síðar keypti frændi Ólafs sem var í þjónustu víkingahöfðingjans í Nýjagarði, drenginn lausan. Þarna dafnaði Ólafur sem mikill vígamaður en árið 989 lenti hann í útistöðum við íbúa Novgorod og þurfti að flýja á brott.

 

Á næstu árum fór Ólafur víða um Evrópu, þar sem hann safnaði saman her manna. Og hann fór víða með herflokki sínum – frá Vindlandi til Írlands í vestri – og hvarvetna sem hann fór voru konur sem bergnumdar yfir þessum glæsilega manni.

 

Eitt og annað í frásögn Snorra bendir til að Ólafur hafi þótt vera sérlega karlmannlegur – sem dæmi gat hann haldið þremur sverðum á lofti sem eitt væri.

 

Þegar hann dvaldi í Vindlandi giftist hann prinsessu en hún dó nokkrum árum síðar á sóttarsæng. Harmi sleginn yfirgaf Ólafur Vindland – og skeytti engu um eigur sínar.

 

Næstu ár rændi og ruplaði Ólafur bresku eyjarnar miskunnarlaust en þar kom að hann ákvað að snúa aftur til Noregs. Ólafur vildi verða konungur Noregs.

 

Norðmenn velja nýjan konung

Heimildir segja að Ólafur hafi komið til Noregs árið 995.

 

Hann steig á land í Þrándheimi og réðst á volduga hlaðajarla. Hákon jarl – sem hafði verið í bandalagi með Sveini tjúguskeggi frá því að Haraldur blátönn dó – var óvinsæll í héraðinu og bændur tóku Ólafi og hans mönnum fagnandi.

 

Meðan Ólafur var hylltur á mörgum samkomum sem nýr konungur flúði Hákon jarl á afskekktan bóndabæ. Sagt er að þrællinn Þormóður karkur hafi svikið hann og drepið.

 

Lát Hákons skelfdi syni hans, Eirík og Svein. Eiríkur jarl flúði til Danmerkur og Sveins tjúguskeggs – bandamanns jarlanna – meðan Sveinn jarl leitaði á náðir Eiríks sigursæla í Svíþjóð.

 

Bræðrunum var vel tekið á báðum stöðum en stuttu eftir komu Sveins jarls til Svíþjóðar dó Eiríkur sigursæli.

Ólafur Tryggvason naut vinsælda meðal margra Norðmanna þegar hann varð gerður að konungi í landinu.

Eftirsótt auðug ekkja

Eiríkur konungur lét eftir sig soninn Ólaf og ekkjuna Sigríði stórráðu. Ólafur – sem fékk viðurnefnið skotkonungur – var aðeins 15 ára gamall en þökk sé ráðkænsku móður sinnar komst hann til valda í Svíþjóð.

 

Nágrannar Svía sáu hér strax færi á að klekkja á þessum unga óreynda kóngi sem stjórnaðist af móður sinni.

 

Hver sá maður sem eignaðist ekkjudrottninguna Sigríði sem eiginkonu, væri með öll ráð Svíþjóðar í hendi sér.

 

Sigríður var hins vegar ákaflega metnaðarfull kona og ekki á hvers manns færi. Heimildir segja að Haraldur Guðröðsson og rússneskur prins hafi beðið hennar.

 

Sigríður vildi ekkert með þessa vonbiðla hafa. Hún skenkti þeim þó ríkulega af mjöði í flottum veislusal og þegar mennirnir voru orðnir vel drukknir kveikti hún í byggingunni. Báðir mennirnir létu lífið þar.

 

Þessi hörmulegu örlög mannanna hræddu samt ekki Ólaf Tryggvason. Hann bað hennar en var samstundis hafnað.

 

Sigríður taldi hann einungis vera að sækjast eftir pólitískum völdum.

 

Þess í stað giftist hún Sveini tjúguskeggi, voldugasta höfðingja Norðurlanda. Brúðkaupið fór fram árið 997 og hjónabandið tengdi kyrfilega saman Danmörku og Svíþjóð í bandalagi gegn Ólafi.

Holger danski er þjóðsagnahetja en sagt er að hann muni vakna og frelsa þjóð sína þegar neyð hennar er mest.

Orðrómur sendi kónga til Landsins helga

Ólafur Tryggvason lét lífið í orrustunni við Svoldur (1000). Engu að síður sást norski konungurinn síðar á lífi víðsvegar í Evrópu.

 

Orrustan við Svoldur endaði samkvæmt „Ólafs sögu Tryggvasonar“ með því að norski kóngurinn stökk í hafið og drukknaði.

 

Hróður Ólafs var slíkur í Noregi að margir neituðu að trúa því að þessi dáði afreksmaður væri dauður, enda fannst ekki lík hans.

 

Sögusagnir um að hann væri enn á lífi tóku að berast út. Samkvæmt einni slíkri hafði Ólafi tekist að synda óséður fram hjá flota óvinanna og komist á land í Svoldur.

 

Önnur saga segir að honum hafi verið bjargað og síðar smyglað um borð í skip.

 

Samkvæmt konungasögunni „Ágrip“ stökk hann ekki einu sinni fyrir borð, heldur hvarf í miklum ljósblossa.

 

Það fer mörgum sögum af því hvað gerðist síðan eftir þetta undraverða hvarf – m.a. töldu margir að hann hafi gengið í klaustur.

 

Íslenski munkurinn Oddur Snorrason ritaði um árið 1190 að sést hefði til Ólafs Tryggvasonar í Landinu helga og einnig í Róm.

 

Sagnfræðingar telja þessar frásagnir vera tilbrigði við hetjusögur um „konunginn í fjallinu“; það hvernig hetjur fyrri tíma muni snúa aftur þegar þjóðin þarf mest á hetjudáðum þeirra að halda, jafnan úr djúpu dái einhvers staðar neðanjarðar eða inni í fjalli.

 

Samsvarandi þjóðsagnir er að finna um t.d. þýsk-rómverska keisarann Friðrik rauðskegg og einnig um Holger danska.

Gagnkvæmt hatur systkina

Eftir þetta unnu bæði Sveinn tjúguskegg og Ólafur að því að efla yfirráðasvæði sín. Þökk sé aðdáun manna á mannkostum Ólafs, tókst honum að tryggja sér stuðning flestra jarla Noregs og höfðingja.

 

Hann útnefndi þessu næst marga lénsherra til að stýra héruðum í Noregi í sínu nafni.

 

Sveini stóð ógn af veldi Ólafs í Noregi. Til þess að styrkja stöðu sína leitaði danakonungur eftir nýjum bandalögum.

 

Hann gifti dóttur sína Gyðu útlæga jarlinum Eiríki og hann fann einnig mann fyrir litlu systur sína Þyri.

 

Hún hafði verið ekkja frá því að maður hennar Styrbjörn var drepinn af Eiríki Sigursæla. En nú þvingaði Sveinn Þyri í hjónaband með vindlenska kónginum Burislav.

 

Þetta þýddi að Þyri gat nú kallað sig drottningu. Hún var samt alls ekki sátt. Í raun var hún ævareið.

 

Burislav var gamall og slitinn karl – 30 árum eldri en nýja konan hans – og sambandið milli systkinanna tveggja varð ískalt eftir þetta.

 

Sveini var slétt sama. Brúðkaupið átti að tryggja vináttu Burislavs til þess að vindlenski konungurinn gæti hindrað Ólaf í að sækja eigur sínar í Vindland skyldi hann snúa til baka eftir þeim.

 

Ráðagerð Sveins var auðsæ: Árið 998 sigldi Ólafur til Vindlands til að sækja eigur sínar. Fjölskyldutengslin við Svein urðu þó til þess að Burislav sendi Norðmanninn tómhentan heim.

 

Sagnfræðingar eru ekki á einu máli hvað gerðist eftir þetta. Samkvæmt einni sögu nam Ólafur hina óhamingjusömu Þyri á brott en m.a. Ólafs saga Tryggvasonar segir að Þyri hafi sjálf flúið til Noregs þar sem hún giftist Ólafi.

 

Hvernig sem þessu var háttað er ljóst að Ólafur og Þyri voru nú hjón. Sveinn varð brjálaður. Fyrst hafði Ólafur svikið hann í Englandi og nú hafði hann rænt systur hans!

 

Tækifæri Sveins til að ná hefndum á nýja mági sínum kom árið 1000. Ólafur sigldi suður á bóginn til Vindlands með um 70 skipa flota til þess að heimta eigur sínar – ásamt því að sækja heimanmund Þyri frá hjónabandinu við Burislav.

 

Sjálfur sigldi konungurinn á sínu mikla skipi Orminum langa. Líkast til hefur Ólafur verið viðbúinn hinu versta þrátt fyrir að ekkert hafi bent til þess að Sveinn hygðist ráðast á sig.

 

Gagnvart svo öflugum flota þorði Burislav ekki að hreyfa neinum andmælum. Hann lét af hendi allt það sem Ólafur bað um og konungurinn hélt nú aftur heimleiðis.

Eftir dauða sinn var Ólafur tekinn í dýrlingatölu og er þekktur sem „Ólafur helgi“.

Höfðingjar Norðurlanda börðust um Noreg

Orrustan við Svoldur kostaði norska konunginn Ólaf Tryggvason lífið og jók áhrif Dana og Svía í Noregi. Stöðug valdabarátta og stríð einkenndu ríkið næstu árin.

 

– 1015

Eftir orrustuna við Svoldur var Noregi skipt í þrjá hluta. Sveinn tjúguskegg réði yfir svæðinu í kringum Víkina, meðan jarlabræðurnir Eiríkur og Sveinn skiptu hinum hlutum Noregs á milli sín.

Árið 1015 sendi nýr konungur Dana , Knútur ríki, boð eftir Eiríki jarli. Þessu næst tók Sveinn jarl völdin í öllum Noregi – fyrir utan yfirráðasvæði Dana í Víkinni. Á meðan þessu stóð unnu voldugir höfðingja að sameiningu Noregs undir einum konungi.

 

– 1016

Sveinn jarl og undirsátar hans börðust við vonarkónginn Ólaf Haraldsson og hermenn hans undan ströndum norska bæjarins Larvik.

Orrustan hefur síðan verið kennd við Nesjar og þrátt fyrir að herafli Sveins hafi verið meiri – 3.000 hermenn á móti 2.000 hjá Ólafi – mátti hann lúta í lægra haldi.

Sveinn jarl flúði til Svíþjóðar og lést þar skömmu síðar.

Eftir sigurinn hrifsaði Ólafur völdin yfir mestum hluta Noregs og neyddi m.a. þegna sína til að taka kristni.

 

– 1030

Bandalag milli Hlaðajarlanna og Knúts ríka hrakti Ólaf Haraldsson frá Noregi. Ólafur flúði til Rússlands en tveimur árum síðar snéri hann aftur úr útlegðinni – með um 3.500 manna her að baki sér.

Ólafur marseraði inn í Verdal norðan við núverandi Þrándheim en þar mætti honum her 7.000 manna, einkum bænda sem studdu Hlaðajarlana.

Stiklastaðaorrustan endaði með dauða Ólafs og sonur Knúts ríka, Sveinn, tók völdin í Noregi.

 

– 1035

Höfðingjar í Þrændalögum fengu á endanum nóg af yfirráðum útlendinga í Noregi.

Þeir kölluðu því til son Ólafs, Magnús góða sem var í útlegð í Rússlandi og settu hann sem konung Noregs.

Daninn Sveinn og ensk móðir hans, Alfífa, voru rekin til Danmerkur. Það sem eftir lifði víkingatímans ríktu norskir kóngar í Noregi.

Fjölskyldumót endaði með blóðbaði

Einhvers staðar nærri Rügen lá floti Sveins Tjúgukeggs hins vegar í leyni. Í för með honum var hinn sænski Ólafur skotkonungur sem var hvattur af móður sinni til að leggja Sveini lið. Hún var Ólafi ennþá bálreið yfir því að hann hafði beðið hennar af pólitískum ástæðum einvörðungu.

 

Með í för danska flotans var tengdasonur Sveins Tjúguskeggs, Eiríkur jarl. Hann þráði að hefna sín á Ólafi sem hafði knúið Eirík og föður hans frá Noregi og tekið völdin í landinu.

 

Ólafur uppgötvaði, samkvæmt Ólafssögu Tryggvasonar, launsátrið nægjanlega skjótt til að geta flúið en hann valdi að berjast.

 

Óháð því hvort norski konungurinn hafði tækifæri til að flýja eður ei varð mikill bardagi einhvers staðar í sunnanverðu Eystrasalti.

„Örvar og spjót flugu nærri, því herskip umkringdu Orminn langa“.

Úr „Ólafs sögu Tryggvasonar“.

Flotarnir voru nokkurn veginn jafn stórir og samkvæmt Ólafs sögu Tryggvasonar snerist stríðsgæfa Norðmannsins þegar konungleg bogaskytta hans, Einar þambarskelfir fékk skot í boga sinn sem brast í sundur.

 

Ólafur Tryggvason spurði þá: „Hvað brast þar svo hátt?“ og samkvæmt sögunni svaraði Einar: „Noregur úr hendi þér konungur“.

 

Ekki er ljóst hvort þessi dramatíska sena hafi átt sér stað en spásögn Einars rættist.

 

Sveinn og liðsmenn hans ruddust um borð í skip Ólafs og náðu að lokum fram til Ormsins langa. Sagan lýsir örvæntingarfullri vörn Ólafs Tryggvasonar:

 

„En Eiríkur jarl síbyrti Barðanum við hið ysta skip Ólafs konungs og hrauð það og hjó þegar það úr tengslum en lagði þá að því er þar var næst og barðist til þess er það var hroðið. Tók þá liðið að hlaupa af hinum smærrum skipunum og upp á stórskipin en jarl hjó hvert úr tengslunum svo sem hroðið var. En Danir og Svíar lögðu þá í skotmál og öllum megin að skipum Ólafs konungs. En Eiríkur jarl lá ávallt síbyrt við skipin og átti höggorustu en svo sem menn féllu á skipum hans þá gengu aðrir upp í staðinn, Danir og Svíar“.

 

Að lokum varð Ólafi ljóst að hann hefði tapað. En í staðinn fyrir að leyfa óvini sínum að fá þann heiður að hafa drepið konung Noregs segir sagan að hann hafi stokkið í hafið og aldrei sést aftur.

 

Þegar fréttirnar bárust Þyri í Noregi kaus hún að svelta sig í hel. Hún og ungur sonur Ólafs, Haraldur, dóu skömmu síðar.

Fleiri rúnasteinar í Skandinavíu vísa mögulega til orrustunnar við Svoldur – m.a. einn steinn frá Kállandi í Svíþjóð.

Rúnasteinn minnist bardagans

Orrustan um Svoldur var hápunkturinn á einu mesta fjölskyldustríði víkingatímans. Með sigrinum undirstrikaði Sveinn Tjúguskegg að hann væri óumdeildur drottnari Norðurlanda.

 

Frásagnir um þessa stórkostlegu atburði fóru um eins og eldur í sinu og rúnasteinn nærri Árhúsum vísar samkvæmt sumum sagnfræðingum til þessa mikla bardaga:

 

„Gunnúlfr ok Auðgautr ok Áslákr ok Hrólfr reistu þennan stein eftir félga sinn Fúl. Hann dó … þegar kóngar börðusk“

 

Sagnir um þessa miklu sjóorrustu lifðu víkingatímann af og tryggðu að lokum nokkuð sem sérhvern víking dreymdi um: Ódauðleg eftirmæli.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Bjørn Bojesen & Andreas Abildgaard

© Angus McBride/Osprey,© Look and Learn/Bridgeman Images & The Stapleton Collection/Bridgeman Images,© Print Collector/Getty Images,© The Picture Art Collection/Imageselect,© The Stapleton Collection/Bridgeman Images,© The Picture Art Collection/Imageselect,© David Coleman/Imageselect,© Album/Fine Arts Images/Imageselect,© Dagjoh

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Heilsa

Hver vegna veikjumst við meira á veturna?

Lifandi Saga

Spænska borgarastríðið: Heimshornaher gegn fasismanum

Jörðin

Hversu mikinn sand flytur sandstormur?

Náttúran

Af hverju er gler gegnsætt?

Lifandi Saga

Beittu áróðri gegn kynsjúkdómum

Alheimurinn

Að lágmarki 400 plánetur í sólkerfinu

Lifandi Saga

Hvenær varð Kasakstan til?

Náttúran

Hvaða gerð geislunar er skaðlegust?

Náttúran

Hvað er svartur ís (frostrigning)?

Náttúran

Á Suðurskautslandinu myndast dularfull vök af og til – nú vita vísindamenn ástæðuna

Náttúran

Órangútanapi græðir sár

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is