Gerðir eldstöðva
Til eru ýmsar gerðir eldstöðva.
Einkum er eldstöðvum skipt í þrjá meginflokka:
- Dyngjur (Sield volcano)
- Eldkeilur (strato volcano eða composite volcano)
- Eldhryggir (fissure vent)
Almennt má segja að eldstöð sé þar sem op eða sprungur myndast í yfirborði jarðskorpunnar þannig að hraunkvika og gas komist upp á yfirborðið.
Kvika er bráðið berg úr möttli jarðar og þegar hún berst upp á yfirborðið í eldgosi, storknar hún og verður að hrauni.
Almennt gildir líka að gas- og kísilinnihald (kísill er svonefndur hálfmálmur) ákvarði hvaða form eldstöðin tekur á sig og þar með hvernig hún flokkast.
Þunnfljótandi hraun breiðist út um langan veg og myndar breið en tiltölulega lág eldfjöll sem oftast kallast dyngjur. Þykkari kvika myndar hærri eldfjöll svo sem eldkeilur en eldhryggir geta líka náð mikilli hæð.
Dyngjur
Mauna Loa á Hawaii er ein stærsta dyngja heims og fjallið er enn virkt.
- Útlit: Víðfeðmt en fremur flatt eldfjall.
- Einkenni: Þunnfljótandi kvika.
- Staðsetning: Við heita reiti, svo sem á Íslandi og Hawaii eða neðansjávar á jarðflekamótum þar sem skorpuflekarnir færast sundur og nýtt land rís.
- Dæmi um dyngjur: Skjaldbreiður á Íslandi, Kilauea og Mauna Loa á Hawaii og Piton de la Fournaise á Réunioneyju í Indlandshafi.
Dyngjur gætu minnt á skjöld riddara
Það er þunnfljótandi kvika sem smám saman byggir upp dyngjur. Hraunkvikan getur streymt mjög langt frá upptökunum áður en hún storknar.
Dyngjur gætu þannig minnt á gríðarstóran skjöld sem liggur flatur á jörðinni.
Langar og aflíðandi hlíðar einkenna dyngjurnar og það dregur enn úr hallanum efst. Jafnvel lágreistar dyngjur geta því náð yfir mjög stórt landsvæði.
Skýringarmynd
Ein af allra stærstu dyngjum á jörðinni er Mauna Loa á Hawaii, eldfjall sem enn er virkt.
Dyngjur eru sú gerð eldstöðva sem gjósa einna oftast. Aftur á móti eru gosin sjaldnast ofsafengin og sprengigos fátíð vegna þess að sáralítið vatn er í kvikunni eða kemst í snertingu við hana.
Þegar vatn verður á leið kvikunnar gufar það strax upp og þenst við það svo mikið út að úr getur orðið sprengigos, eins og t.d. þegar gýs undir jökli. En því minna vatn, því minni hætta á sprengivirkni.
Eldkeilur
Mayon-eldfjallið á Filippseyjum er eitt glæsilegasta dæmið um eldkeilu með afar reglubundna strýtulögun.
- Útlit: Keilulaga eldfjall með brattar hlíðar.
- Einkenni: Þykkfljótandi hraunkvika.
- Staðsetning: Algengast er að eldkeilur myndist á jarðflekamótum þar sem jarðskorpuflekarnir rekast saman og annar rennur inn undir hinn og hverfur niður í undirdjúpin.
- Dæmi um eldkeilur: Vesúvíus sem gaus árið 79 og gjöreyddi ítölsku bæjunum Pompejus og Herculeanum, Payon á Filippseyjum og Momotombofjall í Nicaragua. Á Íslandi eru aðeins taldar vera þrjár eldkeilur: Snæfellsjökull, Eyjafjallajökull og Öræfajökull.
Börn teikna eldkeilur
Eldkeilur eru þessi dæmigerðu eldfjöll sem iðulega má sjá börn teikna, þegar þau teikna eldfjall, hátt fjall með brattar hlíðar. Það er einmitt þessi lögun sem liggur að baki íslensku nafngiftinni.
Það er einkum nokkuð þríhyrningslaga form sem einkennir eldkeilurnar. En þær geta líka orðið talsvert háar og í hlíðunum skiptast oft á hraun- og gjóskulög.
Skýringarmynd
Hæsta eldkeila í heimi heitir Nevada Ojos de Salado. Þetta fjall er í Chile og heilir 6.887 metrar á hæð.
Hæð eldkeilnanna stafar af tregfljótandi kviku með mikilli kísilsýru.
Kísilsýra er málmoxíð og heitir SiO2 eða kísiloxíð og er einmitt algengasta efnið í jarðskorpunni.
Vegna þess hve þykkfljótandi þessi hraunkvika er, storknar hún á leið sinni niður fjallshlíðina.
Eldkeilur gjósa sjaldan en það er m.a. talið stafa af því að storknað berg geti haldið aftur nýrri kviku nokkuð lengi.
LESTU EINNIG
En þegar eldkeila gýs á annað borð getur gosið orðið mjög ofsafengið.
Ástæðan er sú að í bergkvikunni er talsvert magn af vatni. Þegar vatnið nær að gufa upp, sprengir það bergmassann ofan af sér í tætlur þegar gosið hefst.
Þekktasta dæmið um hamfaragos í eldkeilu er gosið í Vesúvíusi árið 79 sem m.a. gróf borgina Pompeius í glóandi heitri gosösku.
En stór hluti af eldkeilum hnattarins er í Kyrrahafi þar sem þær mynda hinn svokallaða eldhring ásamt öðrum eldstöðvum.
Eldhryggir og sprungugos
Hér sjást glóandi hraunstraumar á sprungusvæðinu í Geldingadölum árið 2021.
- Útlit: Sprungur á flötu landi sem geta myndað eldhrygg.
- Einkenni: Misþykkt hraunflæði. Þunnfljótandi kvika getur runnið langar leiðir.
- Staðsetning: Gossprungur myndast helst á jarðflekamótum þar sem jarðskorpuflekar færast sundur og þar getur nýtt land risið úr sæ.
- Dæmi um eldhryggi: Hekla, frægasta eldfjall á Íslandi er eldhryggur og í Heklugosum gýs úr sprungum í fjallinu fremur en einum, stökum gíg. Sprungugos mynda að vísu sjaldnast heil fjöll. Þekktasta sprungugosið var í Lakagígum árið 1783.
Sprungugos geta myndað eldhrygg eða dyngju
Sprungugos mynda sjaldnast eldhryggi á borð við Heklu. Þegar kvikan sem vellur upp úr sprungunni – eða gígaröðinni – er þunnfljótandi, rennur hún langar leiðir og þegar tók að gjósa á Reykjanesi 2021 nefndu íslenskir jarðeðlisfræðingar þann möguleika að við værum ef til vill að sjá upphafið að myndun dyngju.
Sprungugosa gætir helst á þeim svæðum á hnettinum þar sem jarðskorpuflekarnir eru að færast sundur en Ísland hefur einmitt myndast á slíku svæði á gríðarlöngum tíma.
Sprungugos eru því nokkuð tíð og nefna má Skaftárelda (gosið í Lakagígum), Kröfluelda á síðustu öld og nú síðast sprungugosin á Reykjanesi – auk sjálfrar Heklu.
Skýringarmynd
Nýjasta dæmið um sprungugos hér á landi er goshrinan sem hófst sunnan við Fagradalsfjall 19. mars 2021.
Áður en goshrinan á Reykjanesi hófst, hafði ekki gosið á því svæði í ein 800 ár en enginn veit hve lengi þessi goshrina stendur.
Kannski lýkur henni fljótlega en hún gæti líka staðið – þá væntanlega með hléum – í áratugi eða jafnvel aldir.