Á miðöldum var mögulegt að krefjast þess að klögumál yrðu útkljáð með einvígi. Ákærandi og hinn ákærði áttu þá að berjast þar til annar stæði uppi sem sigurvegari og sannaði þannig að Guð væri með honum í liði.
Árið 979 ákærði riddarinn Waldo Gero greifa af Alsleben fyrir einhverja óþekkta rangsleitni gegn sér. Ákæran þótti samt svo alvarleg að þýski keisarinn, Ottó 2., skipaði þeim að heyja einvígi.
Í bardaganum hlaut Waldo slæmt sár á hnakkann, meðan Gero greifi fékk svo hart höfuðhögg að hann fékk heilahristing og varð að gefast upp.
Samkvæmt reglunum hafði Gero þannig tapað en meðan mennirnir hvíldust eftir atganginn féll Waldo skyndilega dauður niður af sárum sínum.
Nú stóð Ottó keisari frammi fyrir nokkrum vanda: Með hvorum hélt Guð eiginlega? Keisarinn tók mið af fyrstu úrslitunum og því var Gero greifi hálshöggvinn þrátt fyrir að hafa í raun staðið uppi sem eftirlifandi.