Maðurinn

Gullverðlaun fyrir besta minnið

Geturðu lært röð spila í heilum spilastokki eftir að hafa horft á spilin í eina mínútu? Það getur svokallað „minnisafreksfólk“ og nýjar rannsóknir sýna að hægt er að þjálfa upp slíka hæfni á fáeinum vikum.

BIRT: 15/08/2023

Heilinn í höfði þínu hefur hæfni til að sigra í minniskeppni. Heilaskannanir sýna að líffærafræðilega er enginn munur á heila heimsmeistara og venjulegs fólks.

 

Það er einungis skortur á þjálfun sem kemur í veg fyrir að þú náir að festa í minni spilaröðina í heilum spilastokk eftir að hafa fengið að horfa á hana í innan við eina mínútu.

 

Einfaldar minnisæfingar virkja heilastöðvar víða í heilanum og koma þeim til að starfa saman.

 

Í hvert sinn sem þú leysir nýja þraut, bætir þú tengingar milli tiltekinna heilastöðva og um leið minni þitt í heild.

 

Í miðju þessa tauganetverks situr drekinn, tvö rækjulaga heilafrumubúnt, sem samhæfa allt kerfið og sjá til þess að hugsanir þínar og skynjanir varðveitist í sameindum heilans.

Hér þjálfar þú minnið

Víðfeðmt net taugafrumna um allan heilann vinnur saman að því að varðveita minningar. Og það er auðvelt að styrkja tengingarnar milli þeirra.

 

1. Drekinn er mikilvægasta heilastöð minnisins. Hann samræmir varðveislu minninga annarsstaðar í heilanum.

 

2. Skammtímaminnið nýtir einkum ennisblaðið og skiptir höfuðmáli við að leysa t.d. reikningsdæmi.

 

3. Minningar frá bernsku eða t.d. upplýsingar um höfuðborg Belgíu eru m.a. geymdar í gagnaugablöðkum.

 

4. Flestir geta hjólað án þess að einbeita sér að hreyfingunum. Það er vegna þess að hæfnin er vandlega varðveitt í litla heilanum.

Og nú eru vísindamenn komnir svo nálægt því að lesa þá kóðun, sem drekinn notar við að útdeila minningum, að þeir geta bætt minni fólks á staðnum.

 

Í nýlegri tilraun tókst bandarískum vísindmönnum að fá rafóður í heila til að líkja svo vel eftir kóðanum að minni þátttakenda batnaði um allt að 37%.

 

Fimm gerðir minnis

Skynhrifin eru almennt ekki geymd nema í eina sekúndu. Þessa örstuttu stund eru þau varðveitt í skynboðastöðum, svo sem sjónstöðvum í heilaberki og eru þá hluti af svonefndu skynminni.

 

Eftir það hverfa flestar þessar skynjanir að eilífu, en nokkrar eru þó valdar úr og berast áfram til drekans, kjarna minnisins, sem ásamt fremsta hluta heilabarkarins geymir skynjanirnar í skammtímaminni.

 

Þar geta þær þó ekki verið lengur en í eina mínútu. Til að varðveita minningar lengur þarf að skrá þær í langtímaminnið.

Upphitun 1

Búðu til setningu úr orðum sem byrja á sömu stöfum og heiti hlutanna. Hyldu myndina í nokkra stund og rifjaðu upp allt á myndinni.

 

Sjáðu svörin neðst í greininni.

Langtímaminnið varðveitir skynjun og hugsanir frá allri ævinni. Vísindamenn skipta langtímaminninu í þrennt: framkvæmdaminni, tímaskeiðsminni og merkingarminni.

 

Framkvæmdaminnið geymir minningar um tiltekið verklag, t.d. að halda jafnvægi á reiðhjóli. Tímaskeiðsminni varðveitir tiltekna viðburði sem orðið hafa í lífinu, en merkingarminnið geymir upplýsingar á borð við staðreyndir og orðaforða.

 

Það er drekinn sem á frumkvæðið að vistun minninganna, en þær eru varðveittar á öðrum stöðum í heilanum, einkum í heilaberki og litla heila.

 

Prótín varðveita fortíðina

Til að setja minningar í geymslu notar heilinn ákveðin prótín, svonefnda NMDA-viðtaka. Þeir eru á taugaendum margra heilafrumna og bera rafboð milli frumnanna.

 

Flutningur boðanna gerist þannig að tiltekin heilafruma, sem þegar hefur fengið rafboð, losar boðefnið glutamat til næstu frumu.

 

Glutamat bindur sig við NDMA-viðtaka frumunnar og opnar þá líkt og dyr. Gegnum viðtakana flæða nú jákvætt hlaðnar kalsíumjónir inn í frumuna.

Upphitun 2

Skiptu hlutunum í flokka. Hyldu myndina í nokkra stund og rifjaðu upp allt á myndinni.

 

Svörin eru neðst í greininni.

Kalsíumjónirnar opna enn aðrar dyr í frumunni og þar komast rafhlaðnar jónir ýmist inn eða út. Þannig myndast bylgja rafvirkni sem streymir gegnum frumuna – rafboð.

 

Að lokum koma þessi rafboð frumunni til að losa boðefni yfir til næstu frumu í röðinni.

 

Því meira sem tiltekin heilafruma er notuð, því fleiri NMDA-viðtaka myndar hún. Af því leiðir að fruman verður næmari fyrir glutamati og á um leið auðveldara með að senda rafboð.

 

Þegar tiltekinn atburður verður í lífi okkar, virkja skynfærin fjölda heilafrumna og drekinn sér um að tengja þær saman í keðju sem varðveitir allar upplýsingar um atburðinn.

 

Ef þú virkjar þessar keðjur – eða netverk – oft, mynda frumurnar fleiri NMDA-viðtaka og netverkið styrkist. Afleiðingin verður sú að heilanum verður auðveldara að kalla fram minningar um atburðinn – og þú manst hann.

Hugarganga kemur heilanum í form

Blátt: Veikari tengingar
Rautt: Sterkari tengingar

Þú getur styrkt minnið með einfaldri tækni. Á mettíma byggir heilinn upp nýjar og sterkari tengingar. Þú finnur áhrif þjálfunarinnar í marga mánuði eftir að þú hættir.

 

Á einungis sex vikum geturðu byggt upp stálminni á við heimsmeistara. Í rannsókn árið 2017 sýndu vísindamenn m.a. hjá Max Planck-stofnuninni í Þýskalandi að munurinn á venjulegu fólki og minnismeisturum er ekki fólginn í byggingu heilans, heldur í tengingum milli heilafrumnanna. Þessar tengingar er unnt að þjálfa upp bæði hratt og örugglega.

 

Eftir að hafa rannsakað heilaskannanir venjulegs fólks, sem þátt tók í rannsókninni, voru allnokkrir settir í sex vikna heilaþjálfun. Í þjálfuninni var var notuð aðferðin „method of loci“ eða staðsetningaraðferð. Þátttakendur áttu að ímynda sér að þeir staðsettu þá hluti, sem þeir áttu að muna á mismunandi staði í vel þekktu umhverfi, t.d. á sínu eigin heimili. Þegar fólkið fór síðan í huganum aðra ferð um húsið, reyndist þeim auðvelt að sjá og þar með muna hvern hlut fyrir sig.

 

Þeir þátttakendur, sem fengið höfðu þessa þjálfun, stóðu sig marktækt betur á minnisprófi eftir þjálfunina, en hinir sem enga þjálfun fengu.

 

Heilaskannanir sýndu líka að tengingar í heila voru farnar að líkjast taugatengingum í meistarheila mun meira en áður. Öflugar tengingar auka samskiptin milli heilastöðva sem koma að varðveislu minninga.

 

Eftir þjálfun sýndu heilaskannanir venjulegs fólks næstum sama mynstur tenginga og hjá minnismeisturunum. Þetta fólk stóð sig líka betur en fyrir þjálfun á prófi þar sem muna átti 72 orð. Og fjórum mánuðum síðar stóð fólkið sinn talsvert betur en fyrir þjálfun.

Minningar eru þó fjarri því að vera óbreytanlegar. Netverkið þarf að virkja reglubundið til að það haldi styrk sínum. Hver einstök fruma getur líka síðar orðið hluti annarrar keðju og því fylgir sú hætta að tvær minningar blandist.

 

Þetta fyrirbrigði skapar iðulega vanda fyrir dómi, en þá getur minni vitnis skipt sköpum varðandi niðurstöðuna. Tilraunir hafa sýnt að vitni blanda minningum iðulega saman, án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. Það sem vitnið man er þá ekki lengur það sem gerðist.

 

Örflaga festir minningar

Árið 2017 skannaði fjölþjóðahópur vísindamanna heilann í 23 af besta afreksfólki heims á sviði minniskeppni. Þetta er fólk sem keppir í minnisþrautum og er m.a. fært um að leggja á minnið röð allra 52 spilanna í tilviljanastokkuðum spilastokk eftir að hafa skoðað röðina í eina mínútu. Eða lært þúsund tilviljanatölur á klukkutíma og þulið síðan í réttri röð.

 

Til viðbótar gekkst hópur venjulegs fólks undir heilaskönnun.

Langhlaup: Innréttaðu íbúðina í huganum

Minnisþjálfun í formi staðsetningar er tækni sem hefur verið notuð um þúsundir ára og nýjar rannsóknir sýna að hún bætir tengingar í heila og auðveldar þér að muna. Hér getur prófað hana á eigin skinni. Skoðaðu listann hér fyrir neðan og ímyndaður þér einhvern stað, þar sem þú þekkir vel til, t.d. heimili þitt. Ímyndaðu þér nú að þú farir um allt húsið eða íbúðina í ákveðinni röð.

 

Í hverju herbergi líturðu vel og kerfisbundið í kringum þig, t.d. frá hægri til vinstri og sérð fyrir þér öll húsgögn sem þú gengur fram hjá. Á þessari leið áttu að tengja hvern hlut á listanum – í réttri röð – við þau húsgögn sem mæta augunum á leiðinni. Þegar þessu er lokið, hylurðu textann og bíður með framhaldið í svo sem korter.

 

Nú ferðu sömu leið aftur. Af því að þú hefur þegar tengt hvern hlut við við ákveðinn stað, man heilinn vonandi eftir hlutunum jafnóðum og þá geturðu svarað spurningunum.

 

Stígvél
Blóm
Tómatsósa
Jólasveinn
Bolti
Fiskur
Banani
Lest
Fluga
Turn
Fata
Kaffi
Ský
Eikartré
Lampi
Bók
Hamar
Húfa
Blýantur
Ljón

 

Sjáðu svörin neðst í greininni.

1.

Hvað varð á leið þinni næst á eftir lestinni?

2.

Hvað var næst á undan banananum?

4.

Hvaða tvo hluti sástu næst á eftir stígvélinu?

4.

Hvaða þrír hlutir voru næstir á undan ljóninu?

Niðurstöðurnar sýndu að minnisstöðvar í heila afreksfólksins voru nákvæmlega eins uppbyggðar og í heila allra annarra. Hin ótrúlega hæfi afreksfólksins stafaði einvörðungu af þjálfun.

 

Og þegar hinir venjulegu þátttakendur fengu þjálfun í kjölfarið, batnaði minni þeirra merkjanlega. Þessar athyglsverðu niðurstöður komu afreksfólkinu ekkert á óvart, enda hafði það einungis haft venjulegt minni á uppvaxtarárum.

 

Fleiri tilraunir styðja þá kenningu að allt fólk geti bætt minni sitt verulega með þjálfun. Til dæmis náði hópur eldra fólks, sem greinst hafði með forstig kölkunar, góðum árangri með því nota appið „Game Show“, sem breskir taugasérfræðingar þróuðu.

 

Í appinu eru skemmtilegar þjálfunarþrautir og eftir aðeins átta klukkutíma samtals á fjórum vikum hafði þetta eldra fólk bætt minni sitt um meira en 20%.

 

Enn merkilegri niðurstöður birtust eftir bandaríska tilraun 2018. Í henni beittu vísindamennirnir ýtrustu nákvæmni við að örva drekann í heila þátttakenda meðan þeir þreyttu minnispróf.

Sjúkur heili VS límheili

Sjúkur heili

Hin bandaríska Susannah Cahalan missti minnið 24 ára að aldri – en þó aðeins í einn mánuð. Hún fékk fyrst inflúensueinkenni, fór svo að sjá ofsjónir og missti loks minnið. Hún greindist loks með sjálfsofnæmi, sem lýsti sér í því að ónæmiskerfið réðist gegn svonefndum NMDA-viðtökum og hún var því ekki lengur fær um að koma minningum í geymslu. Hún er nú orðin frísk, en þarf að taka lyf til að halda sjúkdómnum niðri.

Límheili

Spyrðu hann af handahófi um einhvern tiltekinn dag á síðustu 15 árum og hann getur sagt þér hvernig veðrið var, í hvaða fötum hann var klæddur og hvar hann sat í lestinni á leið til vinnu. Bandaríski hagfræðingurinn Nima Veiseh hefur minni á við myndbandsupptöku og man jafnvel minnstu smáatriði. Hann þjáist af svonefndu HSAM-heilkenni sem lýsir sér með ofvexti svæða m.a. í heilaberkinum og í taugahnoðum djúpt inni í heilanum.

Tilraunin náði til hóps flogaveikra, sem höfðu fengið rafóður græddar í heilann, sem hluta af meðferðinni við sjúkdómnum. Vísindamennirnir notuðu rafóðurnar til að greina boð drekans þegar fólkinu var sýnd tiltekin mynd, sem það átti síðan að muna í 70 sekúndur.

 

Notaðar voru upptökur frá þeim tilvikum sem þátttakendur höfðu munað rétt og reiknað út hvaða boð þyrfti til að skapa öflugt minni.

 

Nokkrum dögum síðar fengu þátttakendur nýtt viðfangsefni, sem einnig fólst í því að muna myndir.

 

Nú notuðu vísindamennirnir útreikningana til að láta rafóðurnar spila réttu boðin í heila sumra þátttakenda um leið og þeir áttu að leggja myndirnar á minnið.

 

Árangurinn reyndist öflugra minni og allt að 37% bæting í tilrauninni.

 

Nýjar frumur hjálpa til

Vísindamennirnir álíta að árangur heilaþjálfunar og raförvunar byggist fyrst og fremst á öflugri tengingum milli einstakra heilafrumna.

 

Nýjar tilraunir benda þó á, að annað fyrirbrigði gegni líka mikilvægu hlutverki í varðveislu heilans á minningum, nefnilega myndun nýrra heilafrumna úr stofnfrumum.

 

Fyrstu uppgötvuðu menn þetta ferli í músum og gerðu tilraun til að hægja á því með með geislun. Áhrifin urðu þau að mýsnar áttu erfiðara með að muna.

Endasprettur: 1

Reyndu að muna alla hlutina á borðunum þremur. Hyldu svo myndina og svaraðu þrautinni fyrir neðan.

Hvað lá á kringlótta borðinu?

Endasprettur: 2

Horfðu vandlega á stóru myndina og snúðu henni í huganum um 180 gráður. Hvernig lítur hún nú út?

Endasprettur: 3

Leggðu staðsetningar krossa og hringa á minnið. Hyldu myndina og svaraðu þrautinni.

 

Þraut: Hvað var í reitnum B3?

Endasprettur: 4

Horfðu vandlega á myndina og hyldu hana svo. Finndu þrjú atriði sem eru breytt á neðri myndinni.

Endasprettur: 5

Horfðu á myndina í því sem næst 5 sekúndur og hyldu hana svo.

Leystu þrautirnar fyrir neðan.

 

 

A . Var gúmmíöndin með hatt?

 

B.  Hvernig var kolkrabbinn á litinn?

 

C.  Af hverju var myndin á fötunni?

 

D.  Hve margir deplar voru á boltanum?

 

E.  Hvernig var vörubílspallurinn á litinn?

 

F.  Hélt dúkkan á einhverju í hendinni?

Aðrar rannsóknir sýna að þetta gerist líka í mönnum.

 

Fjölþjóðlegur hópur vísindamanna rannsakaði heila látinna og gat ákvarðað aldur einstakra heilafrumna.

 

Af niðurstöðunum gátu vísindamennirnir dregið þá ályktun að í fullorðnum myndist daglega um 700 nýjar heilafrumur í drekanum.

 

Svo virðist sem þessar nýju frumur nyndi fleiri tenginginar, sem aftur auki hæfni heilans til að varðveita minningar.

Lausnir

– Upphitun

1. Jarðarber, fíll, pottur, pensill, appelsína og stóll.

 

2. Zebrahestur, úlfaldi, pera, ber, skrúfjárn, töng og sög.

 

– Langhlaup

1. Fluga.

 

2. Fiskur.

 

3. Blóm og tómatsósa.

 

4. Hamar, húfa og blýantur.

 

– Endasprettur

1. Trompet, myndavél og farsími.

 

2. D.

 

3. Kross.

 

4. Köttur er kominn í stað hunds, litum trjánna er víxlað og annar ljósastaurinn er horfinn.

 

5. A) Nei. B) Blár. C) Sól. D) Fimm. E) Gulur. F) Nei.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: ANDREAS ANDERSEN

© Shutterstock & Claus Lunau, Shutterstock,© Michael Hurcomb/REX/All Over & Gustavo Caballero/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Jól

Hver er uppruni jólanna?

Alheimurinn

Fjórar óskiljanlegar FFH-kenningar

Alheimurinn

Úr hverju er alheimur?

Heilsa

Sérstakar svefnvenjur geta aukið hættuna á hjartasjúkdómum um 26 prósent

Náttúran

Bessadýr: Harðgerðustu lífverur Jarðar

Maðurinn

Þess vegna er óreiða góð fyrir sköpunargáfu þína

Lifandi Saga

Gallerí: Baráttan við náttúruöflin

Lifandi Saga

Miðaldir voru tími svikahrappanna: Sérfróðir í svikum og prettum 

Lifandi Saga

Hversu margir bjuggu í Ameríku þegar Kólumbus bar að garði?

Lifandi Saga

Öll von slokknaði í fangelsum 19. aldarinnar

Maðurinn

Streita veldur ofþyngd

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.