Haustið 1940 varpaði Luftwaffe sprengjum á golfvöllinn í Richmond í sunnanverðu Englandi. En ensku kylfingarnir létu Þjóðverjana ekki eyðileggja leikinn fyrir sér.
Þessi 50 ára gamli golfklúbbur sem hafði státað af mörgum ráðherrum sem meðlimum í gegnum tíðina, birti nýjar reglur sem vöktu umtalsverða athygli.
Nú var leyft að leita sér skjóls í keppni án refsingar ef sprengjuflugvéla yrði vart yfir höfðum kylfinganna.
Auk þess skyldi klúbburinn sjá til þess að ósprungnar sprengjur yrðu merktar með rauðum flöggum.
Þá voru kylfingarnir beðnir um að tína upp sprengjubrot á brautunum til þess að þau myndu ekki skemma sláttuvélarnar.
Golfreglur
1. Spilarar eru beðnir um að tína upp sprengjubrot svo að þau skemmi ekki sláttuvélarnar.
2. Í keppni er leyfilegt að leita skjóls þegar sprengjum er varpað eða við skothríð óvinarins.
3. Ósprungnar sprengjur eru merktar með rauðu flaggi.
4. Fjarlægja má refsilaust sprengjubrot sem liggja innan við lengd kylfunnar frá kúlunni.
5. Færist kúla til vegna árása óvinarins má stilla henni upp á ný, þó ekki nær holunni.
6. Lendi kúla í sprengjugíg má færa hana upp á flötina.
7. Verði keppandi fyrir truflun við högg vegna sprengingar má hann leika aftur með nýrri kúlu.
Þessar nýju reglur golfklúbbsins náðu slíkri frægð að Þjóðverjar sáu sig tilknúna að bregðast við með yfirlýsingu:
„Með þessum hlægilegu reglum reyna ensk snobbhænsn að slá sig til riddara með innantómu hugrekki. Þeir geta leikið sitt golf án nokkurrar áhættu, enda vita allir að þýski flugherinn gerir einungis árásir á hernaðarlega mikilvæg skotmörk“, mátti lesa í háðskri greinargerð frá þýska áróðursmálaráðuneytinu, þar sem Joseph Göbbels réði ríkjum.
Nokkru síðar eyðilagðist þvottahús golfklúbbsins í sprengjuárás Þjóðverja.