Lifandi Saga

Hefnd MacArthurs 

Þegar Bandaríkjamenn voru hraktir frá Filippseyjum árið 1942 sór Douglas MacArthur hershöfðingi þess dýran eið að hann myndi snúa til baka. Þremur árum síðar hélt MacArthur á land á aðaleyju Filippseyja, Luzon. En óvinurinn var viðbúinn komu hans. 

BIRT: 28/01/2024

Douglas MacArthur gæti varla verið sigurvissari þegar hann horfir yfir gríðarstóran flota í gegnum sólgleraugun. Hann stendur um borð í beitiskipinu USS Boise og flotinn sem telur 818 skip, líkist múr úr gráu stáli og glansandi fallbyssum þegar hann siglir á fullri ferð morguninn 9. janúar 1945 í átt að Lingayenflóa undan stærstu eyju Filippseyja, Luzon. 

 

Frá því að japanski herinn hrakti MacArthur og herafla hans frá eyjunni fyrir næstum þremur árum hefur þessi 64 ára gamli hershöfðingi unnið markvisst að því að snúa til baka. Japanar auðmýktu hinn sómakæra MacArthur árið 1942 en nú er hann mættur með stærsta innrásarflota Kyrrahafsins og tilbúinn að hefna sín. 

„Engin lifandi vera getur hafa lifað þetta af“. 

Sjóliði eftir sprengjuregnið við Lingayenflóa

„Um leið og við náum fótfestu á ströndinni sækjum við hratt í suður áður en þeir vita hvað er að skella á þeim“, tilkynnir MacArthur snemma um morguninn. 

 

Nákvæmlega klukkan 7.00 er hleypt úr fallbyssum á orrustuskipum, beitiskipum og öðrum herskipum. Ærandi hávaðinn sker í eyru sjóliðanna meðan þeir fylgjast með hrikalegum áhrifum sprengjuregnsins. Það hefur umbreytt ströndinni í tungllandslag og einn sjóliðanna er sannfærður um að „engin lifandi vera getur hafa lifað þetta af“. 

Eftir að hafa látið flota sinn sundursprengja strönd Lingayen-flóa, sendi MacArthur hershöfðingi landgöngupramma af stað með þúsundum hermanna innanborðs.

Frá landinu svara Japanar ekki fyrir sig. En í gegnum þykk reykjarskýin birtast kamikaze-flugvélar skyndilega í loftinu. Einn japanski sjálfsmorðsflugmaðurinn stýrir vél sinni að beitiskipinu USS Colombia sem liggur nærri flaggskipi MacArthurs, Boise. Um borð í Colombia og Boise skjóta menn sem mest þeir mega á óvininn með 20 og 40 millimetra byssum, án árangurs. 

 

Á 700 kílómetra hraða skellur flugvélin á Colombia og drepur 24 áhafnarmeðlimi á sekúndubroti. Sjálfsmorðsárásirnar þýða aðeins eitt: Hermenn keisaraveldisins munu berjast til síðasta manns. Bardaginn um Luzon og Manila kemur til með að kosta fleiri mannslíf en nokkur annar bardagi milli BNA og Japans í Kyrrahafsstríðinu. 


MacArthur þyrsti í hefnd

Fyrir BNA var innrás á Filippseyjar og Luzon ekki endilega nauðsynleg. Á árinu 1944 höfðu Bandaríkjamenn unnið marga sigra gegn japanska flotanum og keisaraveldið hafði misst skipakost sem samanlagt var meira en tvær milljónir tonna – samsvarandi meira en 30 flugmóðurskipum. 

 

Yfirburðir Bandaríkjamanna voru algerir á Kyrrahafi og markmiðið undir lok ársins 1944 var að hertaka sjálft Japan. Filippseyjar sem frá 1898 til 1942 höfðu verið undir stjórn Bandaríkjamanna, hýstu marga flugvelli sem gætu gagnast BNA í frekari sókn til Japans. 

„Hann var niðurbrotinn, algjörlega niðurbrotinn“.

Eiginkona MacArthurs um flóttann frá Filippseyjum árið 1942.

Þetta voru helstu rök MacArthurs haustið 1944 sem urðu til þess að Roosevelt forseti lagði blessun sína yfir endurheimt Filippseyja en þar hafði MacArthur sjálfur vaxið upp sem barn. Og frá árinu 1936 hafði hann verið yfirhershöfðingi filippeyska hersins og hernaðarráðgjafi forsetans. 

 

„Filippseyjar heilluðu mig – og ég hef myndað órjúfanleg bönd við eyjarnar“, skrifaði MacArthur sem einnig hafði verið útnefndur yfirmaður bandaríska heraflans í Austurlöndum fjær í júlí 1941. 

 

Tilfinningarnar voru gagnkvæmar, því að filippeyska þjóðin hélt mikið upp á þennan hógværa Ameríkana sem fyrir stríð var oft á ferðinni um götur Manila í kadilakk sínum. 

 

„Hann var niðurbrotinn, algjörlega niðurbrotinn“, minntist eiginkona hans, Jean, eftir að MacArthur þurfti í mars 1942 að flýja ásamt fjölskyldu sinni þegar Japanar réðust inn á Filippseyjar. 

Japanskar herdeildir völtuðu yfir Ameríkana þegar þeir náðu Filippseyjum á sitt vald árið 1942. Skotbyrgi Bandaríkjamanna voru hreinsuð með eldvörpum.

Tap Filippseyja var algjör auðmýking fyrir BNA 

Daginn eftir árásina á Pearl Harbor árið 1941 réðust Japanar á bandarískar herdeildir á Filippseyjum. Fjórum mánuðum síðar náðu þeir eyjunum á sitt vald og BNA hafði glatað einu mikilvægasta landsvæði sínu í Kyrrahafinu. 


Filipppseyjar voru mikilvægt hernaðarvirki fyrir BNA. Frá árinu 1898 hafði eyríkið í raun verið bandarísk nýlenda og þrátt fyrir að landið hafi fengið sjálfstjórn sem átti að taka gildi árið 1946, voru það Bandaríkjamenn sem stýrðu því þegar Japanar réðust á Pearl Harbor þann 7. desember 1941. 

 

Undir stjórn MacArthurs hershöfðingja voru meira en 100.000 bandarískir hermenn á Filippseyjum og á Clark Field-herstöðinni á aðaleyjunni, Luzon, var voldugur flugher. En einungis níu tímum eftir árásina á Pearl Harbor rústuðu japanskar flugvélar á fimm mínútum heilum 17 sprengjuflugvélum og 53 orrustuflugvélum. 


Með meira en helming flugvéla ónýtar í Austurlöndum fjær gátu Japanar nú gengið á land á Luzon. Þann 3. janúar 1942 náði her keisarans höfuðborginni Manila og þegar voraði voru Bandaríkjamenn nauðstaddir á skaganum Batan, þar sem þeir máttu þola stöðugar árásir úr lofti. 

 

„Japanskar sprengjuflugvélar og lágfleygar flugvélar réðust stöðugt á okkur. Á stundum var himininn nánast svartur af þeim“, skrifaði einn ofursti. 

 

Í apríl 1942 var öllu lokið. MacArthur og hluti hersins hafði flúið meðan um 18.000 bandarískir og 60.000 filippeyskir hermenn voru teknir til fanga. 25.000 aðrir höfðu goldið með lífi sínu. 

 

BNA þurfti þannig að takast á við versta ósigurinn í sögu þjóðarinnar og eina fótfestan nærri Japan var nú ekki lengur á þeirra valdi.

Ímynd MacArthurs beið alvarlegan skaða við þetta. Öxulveldin hæddust að þessum reynda hermanni sem hafði áunnið sér orðspor fyrir að vera sannur karlmaður. Áróðursmálaráðherra Þýskalands, Joseph Göbbels uppnefndi hann „Flýjandi hershöfðingjann“. Mussolini kallaði hann „vesalinginn“, meðan dagblaðið Japan Times and Advertiser lýsti hershöfðingjanum sem „liðhlaupa“ sem hafði „flúið varðstöðu sína“.

 

Þess vegna varðaði áætlun MacArthurs ekki einungis hernaðarlegt mikilvægi Filippseyja, heldur öðru fremur persónulega hefnd og það að endurheimta orðspor sitt. Þess vegna gerði þessi fimm stjörnu hershöfðingi allt sitt til að tryggja endurkomu sína, þegar hann gekk á land á filippeysku eyjuna Leyte í október 1944, þar sem hann fór fyrir bandaríska innrásarhernum. 

,,Filippseyjar, ég er kominn aftur!“ 

MacArthur hershöfðingi eftir sigurinn við Leyte.

MacArthur hafði sent ljósmyndara inn á ströndina svo að þeir væru tilbúnir að taka myndir af því þegar hann sjálfur steig upp á land eins og kærkominn frelsari. Þangað kominn greip hershöfðinginn hljóðnemann:

 

„Þetta er rödd frelsisins. MacArthur hershöfðingi talar. Filippseyjar, ég er kominn aftur!“ 

 

Landnám Leyte gaf BNA færi á að geta flogið til suðurodda Japans. MacArthur hefði getað stöðvað innrásina þarna en hann var alls ekki sáttur. Höfuðeyjuna Luzon og einkum Manila skyldi hann leggja undir sig sem skjótast. Innrásarlið MacArthurs taldi um 280.000 hermenn þann 9. janúar 1945 en það var stærri herafli heldur en þegar ráðist var inn í Normandí átta mánuðum áður. 

 

Herinn gekk á land án mótstöðu

Hundruðir af bandarískum landgönguprömmum dönsuðu á bylgjunum í Lingayen flóa snemma dags þann 9. janúar 1945. Klukkan 9.30 lentu fyrstu bátarnir á ströndinni og þegar stálrampar féllu niður, geystust hermenn upp á land og skutu í allar áttir. En þeim mættu engar kúlur né sprengjur. 

 

„Drengirnir eru á ströndinni. Engin mótstaða“, heyrði MacArthur í fjarskiptatækinu um borð í flaggskipi sínu. 

 

Á næstu klukkustundum sigldu fleiri farartæki inn að ströndu með hermenn og birgðir. Fimm tímum eftir að fyrstu hermennirnir komust í land birtist MacArthur á ströndinni með sólgleraugu í khaki-búningi og með einkennandi maíspípuna standandi framúr munninum. 

 

„Japanar hafa greinilega verið teknir með buxurnar niður um sig. Öll aðgerðin hefur til þessa heppnast fullkomlega“, hljómaði það með hefðbundnu sjálfsöryggi þegar hershöfðinginn stillti sér upp frammi fyrir blaðamönnum. 

Þrír menn stóðu í vegi MacArthurs

Þegar MacArthur hershöfðingi réðist inn í eyjuna Luzon mætti hann þremur japönskum herforingjum sem allir höfðu lagt líf sitt að veði til að gera innrás Bandaríkjamanna að blóðugri martröð. 

Tomoyuki Yamashita

Hershöfðinginn Yamashita stýrði vörnum Luzon og var þekktur sem „Tígurinn frá Malaya“, því hann hafði gjörsigrað Breta í Malaya árið 1941 með þrisvar sinnum minni herafla. Hann var því þrautreyndur stríðsmaður. 

Sanji Iwabushi

Iwabushi leiddi varnir Manila. Hann hafði árið 1942 glatað orrustuskipinu Kirishima og vildi bæta fyrir þá skömm – þvert á tilskipun Yamashitas – með því að berjast til síðasta manns. 

Akira Mutō 

Mutō hershöfðingi var herráðsforringi Yamashita. Mutō hafði staðið í fararbroddi fyrir einhverri óhugnanlegustu framgöngu Japana í stríðinu þegar þeir náðu borginni Nanking árið 1937. Hann beitti sömu blóðugu aðferðum gegn borgurum Luzon. 

Þrátt fyrir að Bandaríkjamenn hafi á innrásardegi lagt undir sig 34 km breiða strandlengju í Lingayenflóa voru Japanar hreint ekki af baki dottnir. Vörn Luzon var í höndum Tomoyuki Yamashita og 275.000 japanskra hermanna og þessi 59 ára gamli hershöfðingi hafði með ráðum ekki varið Lingayenflóa. 

„Örlög keisararíkisins hvíla á þínum herðum“. 

Keisari Japans til Yamashita hershöfðingja. 

Flóinn var umlukinn flötum hrísgrjónaökrum sem gerði varnir nær ómögulegar. Þess í stað valdi Yamashita að verjast frá skógi klæddum fjöllum í norðri með meginhluta herafla síns sem hann sjálfur stjórnaði. 

 

Önnur herdeild 30.000 manna varðist á hinum mikilvæga flugvelli Clark Field sem var á leiðinni milli Lingayen flóa og Manila, meðan Sanji Iwabuchi stýrði vörnum í sjálfri höfuðborginni Manila með sínum 20.000 sjóliðum. 

 

„Örlög keisaraveldisins hvíla á þínum herðum“, hafði keisarinn sagt við Yamashita sem vissi að mikilvægasta hlutverk hans fælist í að gera Luzon og Filippseyjar eins torsóttar fyrir Bandaríkjamenn og kostur var, til þess að Japan hefði tíma til að undirbúa varnir heimafyrir. 

 

 MacArthur var þó ekki í vafa um að það væri hans eigin snilligáfa sem hafði tryggt þennan góða árangur. Þegar um eftirmiðdaginn þann 9. janúar heimsótti hann Walter Krueger hershöfðingja sem átti að leiða 6. herinn suður á bóginn til Clark Field og Manila. 

 

„Ég þekki landslagið þarna eins og lófann á mér og þú getur auðveldlega gert þetta“, lofaði MacArthur. 

 

Stórskotalið varði flugvöllinn

Íbúar á Filippseyjum tóku fagnandi á móti bandaríska frelsishernum. Í hvert sinn sem 6. her Kruegers náði undir sig nýjum bæ á leiðinni í suðurátt flykktust íbúar út á göturnar og hylltu hermennina. Í byrjun mættu Bandaríkjamenn takmarkaðri mótstöðu nærri bæjunum, þar sem Japanar höfðu grafið sig niður í skotgrafir og dreift jarðsprengjum. Bardagar drógu þó úr framrás Kruegers niður í um sex kílómetra á dag – nokkuð sem MacArthur leist alls ekki á. 

 

Eftir 14 daga komust Bandaríkjamenn að því að Japanar höfðu mestan herafla sinn í kringum Clark Field-flugvöllinn sem með tólf brautir sínar var stærsti flugvöllur í suðurhluta Kyrrahafs. Þegar Sherman-skriðdrekarnir rúlluðu fram nokkrum kílómetrum frá þessari mikilvægu herstöð dundi sprengjuregn yfir þá. 

 

Sprengjurnar komu frá huldu kerfi gangna sem Japanar höfðu grafið inn í fjöllin skammt frá Clark Field. Með allt að 485 stórskotaliðsvopn öftruðu Japanar dögum saman Bandaríkjamönnum að ná flugvellinum. 

 

Að lokum tókst þó fótgönguliðum undir stjórn Oscar Griswold hershöfðingja að komast inn á flugvöllinn. Með lífið í lúkunum hlupu Bandaríkjamenn frá flugvél til flugvélar sem stóðu í flugskýlum. Þeir þurftu þá að borga fyrir hvern metra með blóði sínu en mótspyrnan fjaraði smám saman út. 

Japanar bitu frá sér 

Hernaðurinn á Filippseyjum gekk ekki eins auðveldlega fyrir sig og MacArthur hafði vonast til. Japanar börðust allt til síðasta manns og reyndar voru enn baráttuglaðir hermenn sem lögðu ekki niður vopnin fyrr en Tókýó hafði skrifað undir uppgjöf í september 1945. 

Kamikaze-árásir 

Áður en Bandaríkjamenn komu til Lingayenflóa ráðast kamikaze-flugvélar á bandaríska flotann og drepa 738 sjóliða fyrir landgönguna þann 9. janúar 1945. 

Flugvöllur varinn

Japanar styrkja varnir sínar á Clark Field, mikilvægasta flugvelli Luzon. Gangnakerfi með stórskotaliði í umlykjandi fjöllum veldur miklum usla meðal Bandaríkjamanna. 

Íkveikjur í Manila 

Í Manila kveiktu um 18.000 Japanar sem vörðu norðurhluta borgarinnar í byggingum og héldu til suður yfir Pasigfljótið, þar sem þeir bjuggu rækilega um varnir sínar. 

Árás úr suðri stöðvuð 

Þann 31. janúar héldu bandarískar herdeildir á land í suðvesturhluta Manila en eru stöðvaðar af 12.000 Japönum í skotgröfum og stórskotaliði í suðurhluta Manila. 

Síðustu varnirnar

Síðustu japönsku herdeildirnar verjast á bak við gömlu borgarmúrana en þann 23. febrúar verða þeir að gefast upp þegar stórskotalið Bandaríkjamanna rústar múrunum. 

Stíflur varðar 

Austan við Manila verja 50.000 Japanar svæði í kringum stíflurnar Wawa og Ipo. Í tvo mánuði geisa harðir bardagar áður en varnir Japana brotna niður. 

Yamashita gefst upp 

Flestir Japanar eru við borgina Baguio sem BNA nær á sitt vald í apríl 1945. Japanar hörfa lengra inn í frumskóginn og gefast fyrst upp í september. 

Japanar bitu frá sér 

Hernaðurinn á Filippseyjum gekk ekki eins auðveldlega fyrir sig og MacArthur hafði vonast til. Japanar börðust allt til síðasta manns og reyndar voru enn baráttuglaðir hermenn sem lögðu ekki niður vopnin fyrr en Tókýó hafði skrifað undir uppgjöf í september 1945. 

Kamikaze-árásir 

Áður en Bandaríkjamenn komu til Lingayenflóa ráðast kamikaze-flugvélar á bandaríska flotann og drepa 738 sjóliða fyrir landgönguna þann 9. janúar 1945. 

Flugvöllur varinn

Japanar styrkja varnir sínar á Clark Field, mikilvægasta flugvelli Luzon. Gangnakerfi með stórskotaliði í umlykjandi fjöllum veldur miklum usla meðal Bandaríkjamanna. 

Íkveikjur í Manila 

Í Manila kveiktu um 18.000 Japanar sem vörðu norðurhluta borgarinnar í byggingum og héldu til suður yfir Pasigfljótið, þar sem þeir bjuggu rækilega um varnir sínar. 

Árás úr suðri stöðvuð 

Þann 31. janúar héldu bandarískar herdeildir á land í suðvesturhluta Manila en eru stöðvaðar af 12.000 Japönum í skotgröfum og stórskotaliði í suðurhluta Manila. 

Síðustu varnirnar

Síðustu japönsku herdeildirnar verjast á bak við gömlu borgarmúrana en þann 23. febrúar verða þeir að gefast upp þegar stórskotalið Bandaríkjamanna rústar múrunum. 

Stíflur varðar 

Austan við Manila verja 50.000 Japanar svæði í kringum stíflurnar Wawa og Ipo. Í tvo mánuði geisa harðir bardagar áður en varnir Japana brotna niður. 

Yamashita gefst upp 

Flestir Japanar eru við borgina Baguio sem BNA nær á sitt vald í apríl 1945. Japanar hörfa lengra inn í frumskóginn og gefast fyrst upp í september. 

Það tók Bandaríkjamenn viku tíma að ná Clark Field. Síðan gátu Krueger og Griswold loksins haldið til Manila, MacArthur til mikils léttis. Hann vissi að andspyrnuhreyfingin þar beið óþreyjufull eftir aðstoð. 

 

„Það er mikil neyð vegna matarskorts. Fólk dragnast sársoltið um göturnar á degi hverjum“, voru skilaboðin frá skæruliðum í höfuðborginni þar sem næstum 500 íbúar dóu daglega úr hungri, því Japanar höfðu lagt hald á öll matvæli. 

 

Í öðrum skilaboðum varaði andspyrnuhreyfingin hermenn MacArthurs við:
„Fjölmargir Japanar verja Manila – verið á varðbergi!“. 

 

Ameríkanar frelsa borgara

Eftirmiðdaginn þann 3. febrúar nálguðust forystusveitirnar í 6. her Kruegers Manila. Sherman-skriðdrekarnir fóru fremstir en lentu strax í sprengjuregni stórskotaliðs þar til þeir náðu brú sem lá yfir djúpt gljúfur skammt norðan við Manila við Tuliahan-fljótið. Japanar höfðu komið þar fyrir sprengjum og voru tilbúnir að sprengja upp brúna, þannig að hermennirnir þurftu að bregðast skjótt við. 

 

Sem betur fer var einn hugrakkur sprengjusérfræðingur að nafni James Sutton tilbúinn í verkið. Hann hljóp á fullri ferð út á brúna meðan vélbyssur óvinanna reyndu að fella hann. Fyrir kraftaverk náði Sutton að óvirkja sprengjuna og bjarga þannig brúnni. 

 

Brátt drógu aðrir Japanar sig til baka frá suðurhluta brúarinnar og Bandaríkjamenn streymdu yfir hana. Þegar skyggja tók um kvöldið héldu þeir áfram til úthverfa Manila. Einn skriðdreki þeirra molaði hliðið að háskólanum Santo Tomas, þar sem hermennirnir frelsuðu næstum 4.000 borgara. 

 

„Guð blessi Ameríku!“ hrópaði einn fanganna. 

MacArthur fannst hann hafa brugðist u.þ.b. 18.000 bandarískum og 60.000 filippeyskum hermönnum sem höfðu verið teknir höndum í innrás Japana á Filippseyjar 1942. Þess vegna var það mikið keppikefli í að ná Luzon til að frelsa stríðsfangana.

Í millitíðinni voru Japanar önnum kafnir við að kveikja elda í stórum hluta Manila og ryðja öllum úr vegi sem þeir töldu tilheyra skæruliðahreyfingunni. Hinir óheppnu voru miskunnarlaust dregnir úr íbúðum sínum og teknir af lífi á götunni. Oft mátti öll fjölskyldan – jafnvel hinir allra minnstu – gjalda fyrir, þó að aðeins einn fjölskyldumeðlimur væri grunaður um aðild. 

 

„Sum barnanna voru rifin úr fangi mæðra sinna og haldið á lofti af einhverjum japönskum hermanni. Og svo drápu böðlarnir börnin“, sagði eitt vitni.


Meðan reykjarstrókarnir risu upp yfir norðurhluta Manila héldu hermenn keisaraveldisins til baka til suðurhluta Pasigfljótsins sem skiptir Manila í tvo bæjarhluta. Gríðarlegar sprengingar glumdu við í borginni þegar Japanar sprengdu brýrnar yfir Pasigfljót eina af annarri en síðan grófu þeir niður ótal jarðsprengjur á öllum helstu vegunum. Allar háar byggingar voru mannaðar með leyniskyttum, vélbyssuhreiðrum og stórskotaliði svo þeir gætu ennþá skotið á Bandaríkjamenn hinum megin við fljótið. Norðan við fljótið fylgdist Griswold hershöfðingi uggandi með framvindu mála. 

 

„MacArthur er með hugmyndir um að bjarga þessari fallegu borg, óskertri. Hann veit ekki, eins og ég, að himininn brennur í rauðu ljósi á hverri einustu nótt. Mín persónulega skoðun er að Japanar muni halda eins fast í suðurhluta Manila, jafnvel þar til allir eru dauðir“, skrifaði Griswold í dagbók sína þann 7. febrúar. 

 

Hann hafði rétt fyrir sér. 

 

Harðir götubardagar 

Meðan reykurinn frá brennandi byggingum lá yfir Manila réru bandarísk herfylki yfir Pasigfljótið síðla eftirmiðdags þann 7. febrúar. Hermennirnir sluppu við mikið mannfall á leiðinni yfir tæplega 100 metra breitt fljótið en strax og hermennirnir voru komnir í land á suðurhliðinni og héldu inn í göturnar mætti þeim japanskur múr. 

Í orrustunni um Manila hörfuðu Japanir að sunnanverðu Pasig-fljóti sem skipti borginni í tvennt. Á næstu vikum eyðilögðu þeir stór svæði í suðurhluta Manila.

Vörubílar, bílar og hvers konar vélar lágu á malbikinu og huldu vélbyssuhreiður sem sölluðu Bandaríkjamenn niður. Á sama tíma voru leyniskyttur uppi á háum hótelbyggingum og skutu á alla sem reyndu að komast eftir götunum. Það var ekki fyrr en Bandaríkjamenn höfðu sett saman flotbryggju, svo að þeir gætu næsta dag flutt ökutæki yfir á suðurbakkann sem þeir komust eitthvað áleiðis. 

 

En jafnvel skriðdrekar voru viðkvæmir fyrir vel skipulögðum vörnum Iwabuchis hershöfðingja. Á hverjum einustu vegamótum í borginni var búið að koma fyrir 40 – 50 jarðsprengjum sem skriðdrekarnir gátu ekki forðast. Hermaðurinn Dean Marks horfði í hryllingi á þegar einn skriðdreki keyrði á jarðsprengju:

 

„Á örskotsstundu sá ég skriðdrekann hendast hátt í loft upp. Brak, jarðvegur og malbik féll síðan niður á jörðina í miklum reykjarmekki. Þegar rykið hafði sest lá 30 tonna skriðdrekinn á hvolfi“. 

 

Þess í stað urðu Bandaríkjamenn að halda árásinni áfram í gegnum byggingarnar og þegar fótgönguliðar héldu inn um dyrnar á jarðhæð húss beið þeirra völundarhús fullt af gildrum. Sprengjur lágu huldar undir gólffjölum og niðursuðudósir með matvælum voru í raun sprengjur sem sprungu við minnstu hreyfingu. 

 

„Hitinn hafði límt Japanana fasta við vegginn. Þeir líktust veggfóðri“.

Bandarískur hermaður um virkni eldvarpa.

Frá efstu hæðunum rigndi molotov-kokteilum á þá niður stigaganginn og tröppurnar sjálfar voru þaktar gaddavír og glerbrotum. Bandaríkjamenn sáu því skjótt að þeir þurftu að ná byggingunum á sitt vald ofan frá. 

 

Þegar þeir höfðu loksins náð einhverri byggingu, jafnan með miklu mannfalli, héldu þeir áfram á næsta þak og börðust ofan frá og niður. Hermennirnir voru meðal annars vopnaðir eldvörpum sem reyndust ómetanlegar í slíkum götubardaga. Logarnir gátu á augabragði drepið marga andstæðinga – með hryllilegum hætti. 

 

„Hitinn hafði límt Japanana fasta við vegginn. Þeir líktust viðbjóðslegu veggfóðri“, minntist einn bandarískur hermaður. 

 

Það tók þá nokkrar vikur að brjóta herafla Iwabuchis á bak aftur og mannfallið jókst hjá báðum liðum. Eftir tvær vikur sáu Japanar að ósigur var óhjákvæmilegur og létu þá staðreynd bitna á íbúum borgarinnar. 

 

„Ósigur er það sem getur gert þá að algjörum skepnum“, staðhæfði Filippseyingur sem með eigin augum sá hvernig löndum hans var slátrað. 

 

Sum fórnarlömb hengu í ljósastaurum og önnur lágu í hrúgum á jörðinni dögum saman þannig að líkin urðu að rotinni klessu. Þann 22. febrúar hafði herlið MacArthurs tekist að knésetja Japana og koma sér fyrir í gamla borgarhluta Manila, Intramuros. 

 

Hefnd MacArthurs var yfirvofandi. 

 

Japanar neita að gefast upp

Síðasta árásin í Manila féll í hlut hermanna Griswolds. Þessi 58 ára gamli hershöfðingi gaf Japönum í Intramuros úrslitakosti: „Staða ykkar er vonlaus – ósigur er óhjákvæmilegur. Ég býð ykkur að gefast upp með sóma“, hljómaði í talstöðinni. 

 

En þögnin var eina svarið sem Griswold fékk og ritaði hann í dagbók sína að þar með yrði nú „barist til dauða“. Í dagrenningu þann 23. febrúar horfði Griswold yfir borgarhlutann frá þakinu á brunnu hóteli meðan hann gaf stórskotaliði skipun um að skjóta á varnarvirki Japana. Í 20 mínútur féllu 185 tonn af sprengiefni á 6 til 12 metra þykkan múrinn. Svartur reykur og múrsteinar hentust í loft upp og að lokum var múrinn rústir einar. 

 

„Þessir gömlu mjúku steinar þoldu ekki mátt stórskotaliðs nútímans“, skrifaði bandarískur majór hjá sér. 

„Þegar allt hafði kólnað niður og menn okkar gengu niður í göngin fundum við Japana í hrúgum“.

Bandarísk herskýrsla.

Í skjóli reyksins héldu herdeildir yfir vatnið klukkan 8.30 og börðust áfram inn í gamla bæjarhlutann. Á bak við fallna múra mátti enn heyra í japönskum vélbyssum en Bandaríkjamenn brutu þá mótstöðu skjótt á bak aftur. Seinni part dags flúðu síðan síðustu lifandi Japanar niður í neðanjarðargöng undir múrunum. 

 

Af ótta við að þola mikið mannfall í neðanjarðargöngunum gripu Bandaríkjamenn til harkalegra aðgerða. Bensíni og olíu var hellt niður í göngin og kveikt í því:

 

„Þegar allt hafði kólnað niður og menn okkar gengu niður í göngin fundum við Japana í hrúgum. Þeir höfðu mátt þola alveg jafn hræðilegan dauðadag eins og sá sem hafði fyrirskipað morð á þúsundum borgara“, mátti lesa í einni skýrslu hersins. 

Bandaríkjamenn frelsuðu fjölmarga stríðsfanga þegar þeir geystust fram. Hér er verið að bjarga filippeyskum konum sem voru lokaðar inni í kirkju. 

MacArthur hafði heldur enga samúð með Japönum þegar hann gekk um rústirnar í Manila. Hann hafði vissulega frelsað borgina en gjaldið hafði verið hátt. Næstum 100.000 borgarar höfðu misst lífið þennan síðasta mánuð. Því var það einnig hrærður MacArthur sem þann 27. febrúar 1945 eftirlét stjórn Filippseyja forsetanum Sergio Osmena við hátíðlega athöfn í Manila. 

 

„Höfuðborg ykkar – sem hefur fengið að kenna á illsku Japana! – hefur endurunnið sína réttmætu stöðu sem lýðræðisleg háborg Austurlanda“, sagði MacArthur í ræðupúltinu meðan tárin runnu niður vanga hans. 

 

Barist í fjöllunum 

Óvinurinn réð hins vegar ennþá yfir fjalllendinu í Luzon – bæði austan við Manila og í norðurhluta Luzon, þar sem Yamashita réð yfir meira en 150.000 hermönnum. Fyrsta skref MacArthur til að frelsa allar Filippseyjar var að senda allar herdeildir frá 11. og 14. herjum inn í Marikina dalinn austan við höfuðstaðinn. 

 

Þar voru stíflurnar Wawa og Ipo. Vikum saman reyndu Bandaríkjamenn að ráðast á Japana en oft urðu hermennirnir bara auðveld bráð fyrir skothríð Japana þar sem þeir leyndust í bröttum fjallaskorningum á svæðinu. 

 

„Það eina sem á hverjum degi gekk áfram var tíminn. Tíminn sem það tók að djöflast upp vegina í gegnum hlíðarnar, fá birgðir og flytja særða á brott“, mátti lesa í skýrslum 11. hersins. 

 

Það var fyrst eftir tvo mánuði, þegar flokkur filippeyskra skæruliða bættist við sem að hermönnum MacArthurs tókst að brjótast í gegn. Saman tryggðu þeir á endanum stíflurnar í lok maí og síðan tókst þeim að útrýma þeirri ógn sem stafaði frá japanska hernum austan við Manila en hann hafði upprunalega talið 50.000 manns. 

 

Eftirlifandi japanskir hermenn héldu djúpt inn í Sierra Madre fjöllin lengra í norðri, þar sem þeir þurftu að berjast við hungur, sjúkdóma og skæruliðaárásir allt til stríðsloka. Einungis 8.300 af 50.000 mönnum voru ennþá á lífi á þeim tíma. 

Japanskir hermenn börðust til síðasta manns og gáfust sjaldan upp. Hér hefur þó hópur japanskra hermanna gefist upp eftir bardaga í Manila. 

Á norðurhluta Luzon átti MacArthur ennþá í mesta basli með Yamashita hershöfðingja. Herlið MacArthurs var nánast pikkfast því það var afar erfitt að flytja þungan búnað á mjóum og bröttum fjallastígum. 

 

Þrátt fyrir að innrásarlið reyndi stöðugt að sækja fram í gegnum þykkan gróðurinn þurftu þeir sífellt að vera á varðbergi gagnvart Japönum sem leyndust í hellum hér og þar en einungis var hægt að ráða niðurlögum þeirra með eldvörpum. 

 

Með stuðningi filippeysku skæruliðanna tókst þeim þó loksins þann 27. apríl að ná á sitt vald höfuðstöðvum Yamashita hershöfðingja, Baguio. En ennþá var að finna gríðarlegt flæði frumskóga á norðurhluta Luzon þar sem hinn snjalli hershöfðingi og her hans leyndust. 

Innar í göngunum höfðu Japanar byggt skotfærageymslur, svefnskála og stundum jafnvel sjúkrahús.  
Frá gangnamunnunum gátu Japanar skotið á Bandaríkjamenn með vélbyssum, sprengjuvörpum og stórskotaliði.  
Göngin voru með marga leynda gangnamunna þannig að Japanar gátu ráðist að baki óvininum ef hann reyndi að komast inn í þau. 

Japanar umbreyttu fjöllunum í varnarvirki 

Japanar höfðu búið sig undir innrás Bandaríkjamanna með því að grafa göng inn í fjöllin á Manila og öðrum stöðum á Luzon. Frá leyndum stöðum réðust þeir á Bandaríkjamenn með vélbyssum, sprengjuvörpum og stórskotaliði. 


Meðal ægilegustu varnarvirkja Japana var umfangsmikið gangnakerfi í hlíðum Luzon og fjöllum. Úr fjarlægð gátu Bandaríkjamenn einungis séð fjall en í huldum opum stóðu dulbúnar fallbyssur og vélbyssuhreiður. 

 

Þaðan gátu Japanar látið sprengjum rigna yfir Bandaríkjamenn sem voru niðri á flatlendinu. Einungis var hægt að eyðileggja varnarvirki Japana úr návígi með handsprengjum og eldvörpum. 

 

Sum virkin voru svo stór að þar var pláss fyrir mörg hundruð hermenn. Göngin hýstu birgðageymslur fyrir matvæli og skotvopn og þar mátti einnig finna sjúkraskýli og fangaklefa. 

 

Göngin voru bæði við flugvöllinn Clark Field, í fjöllunum í norðri, ásamt eyjunni Corregidor sem lá við Batanskaga á Luzon. Japanar þurftu þó að gefast upp þegar Bandaríkjamenn hindruðu alla birgðaflutninga. 

 

Svo seint sem árið 2011 fannst óþekkt japanskt varnarvirki með 18 göngum á Luzon. 

MacArthur tókst þó að eyðileggja birgðalínur Yamashita þannig að óvinurinn fékk nú engin matvæli. Mánuð eftir mánuð herjuðu sultur og sjúkdómar á Japana sem tókst þó að verjast allt þar til keisarinn gafst upp þann 2. september 1945. 

 

Á þeim tíma var hinn 59 ára gamli japanski hershöfðingi svo örmagna eftir marga mánuði í frumskóginum að hann þurfti að styðja sig við golfkylfu. Hann líktist nánast draugi þegar hann gafst upp fyrir Bandaríkjamönnum. Einungis 55.000 menn hans voru þá á lífi en þeir höfðu upprunalega talið 152.000 manns. 

 

Hefndin reyndist dýrkeypt 

Þrátt fyrir að MacArthur gæti státað sig af því að hafa frelsað Luzon og Manila voru ekki allir á einu máli um árangur leiðangursins. Margir háttsettir bandarískir hershöfðingjar gagnrýndu ákvörðunina um að ráðast á höfuðborgina þegar flotinn hafði þegar náð Leyte á sitt vald. 

 

8.310 bandarískir hermenn misstu lífið og 30.000 særðust í illskeyttum hernaði sem hafði eiginlega ekkert hernaðarlegt mikilvægi. Um 8.000 skæruliðar misstu einnig lífið. Auk þess er talið að minnst 100.000 borgarar hafi þurft að gjalda með lífi sínu fyrir þessa innrás MacArthurs. 

Fort Drum sem ennþá er til, liggur á toppi lítillar eyjar og er 110 metrar á lengd og 44 á breidd og getur hýst meira en 200 hermenn. 

Steypuherskip neitaði að gefast upp

Árið 1909 höfðu Bandaríkjamenn byggt upp virkiseyjuna Fort Drum við innsiglinguna í Manila flóa. Virkið sem einnig var nefnt „steypuherskipið“ vegna þess að það líktist orrustuskipi, var með sínum stóru fallbyssum og miklu járnabindingum sem óvinnandi vígi.

 

Vorið 1945 var það hins vegar komið í hendur óvina. 68 japanskir hermenn héldu þar til og gátu skotið úr 152 mm fallbyssum sem enn voru nothæfar. Þetta þýddi að Bandaríkjamenn gátu ekki siglt inn og út úr höfninni í Manila.


Herlið MacArthurs hafði ekki tíma til að svelta Japana út og því var valin miskunnarlaus lausn. Þann 13. apríl 1945 náði hópur hermanna inn á virkiseyjuna og dældu þeir dísilolíu niður í göngin í gegnum lofttúður. Þessu næst kveiktu hermennirnir í olíunni með TNT-sprengjuhleðslu. 

 

Á fáeinum sekúndum umbreyttist Fort Drum í eitt heljarinnar eldhaf, þar sem allt brann til ösku. Hitinn var svo mikill að Bandaríkjamenn gátu fyrst athafnað sig fimm dögum síðar. 

Brennandi helvíti

Reykssúlan frá Fort Drum sást í nokkurra kílómetra fjarlægð þegar Bandaríkjamenn kveiktu í mörgum þúsundum lítra af dísilolíu sem þeir höfðu dælt inn í virkið, þar sem japönsku hermennirnir þrjóskuðust við að gefast upp.

MacArthur gat þó sjálfur staðhæft að hefði hann ekki getað náð stórum hluta Luzon á sitt vald á fyrstu mánuðum ársins 1945 hefðu langtum fleiri fangar bandamanna dáið úr hungri og sjúkdómum. Í Manila sjálfri hefðu einnig tugþúsundir dáið hungurdauða ef MacArthur hefði ekki náð til lands í janúar. 

 

En slátrun Japana á íbúum höfuðborgarinnar varð til þess að mannfallið rauk í hæstu hæðir og mögulega hefði verið hægt að bjarga mörgum lífum ef Bandaríkjamenn hefðu ekki ráðist á Luzon. Innrásin í Luzon skaðaði þó japanska hermenn lang mest. Meira en 200.000 dóu í bardaga eða úr sulti og sjúkdómum. Samanlagt kostaði hefndarför MacArthurs þannig minnst 316.000 líf hermanna og borgara.

Lestu meira um baráttuna um Filippseyjar

James Scott: Rampage – MacArthur, Yamashita, and the Battle of Manila, W. W. Norton & Company, 2018


Robert Young: Pacific Hurtgen: The American Army in Northern Luzon, 1945, Westphalia Press, 2017

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Troels Ussing

© Interim Archives/Getty Images,© The Asahi Shimbun/Getty Images,© National Museum of the U.S. Navy,© The Occupation administration,© PhotoQuest/Getty Images,© Hulton Deutsch/Getty Images,© U.S. Army/Getty Images,© AP/Ritzau Scanpix,© Patrick Aventurier/Getty Images,

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Maðurinn

3 tilgátur: Þess vegna grátum við

Alheimurinn

Af hverju er geimurinn svartur?

Náttúran

Líf við ómögulegar aðstæður undir ís

Lifandi Saga

Hvers vegna brann Hindenburg? 

Náttúran

Gætu hvítabirnir lifað af á Suðurskautslandinu?

Lifandi Saga

Hvað voru fyrsta og annað ríkið?

Lifandi Saga

El-Alamein: Montgomery sigrar Rommel í sandbylnum

Lifandi Saga

Hvers vegna geta kosningar verið svona ótrúlega jafnar?

Náttúran

Hvers vegna hafa dýr svona mismunandi augu?

Lifandi Saga

5 ástæður þess að BNA er einungis með tvo flokka 

Náttúran

Geta hvalir gleypt fólk?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is